Mánudagur 29.10.2012 - 11:48 - Rita ummæli

Þegar Davíð hittir naglann á höfuðið

Í þræði einum á Eyjunni náði Egill nokkur Helgason flugi. Egill Helgason hefur verið ríkisrekinn þáttastjórnandi um árabil eftir að hafa byrjað þátt sinn Silfur Egils á frjálsum fjölmiðli sem nefnist Skjár 1.

Eftir að hafa notið frelsisins um hríð og flogið hátt flaug hann beint í hreiðrið, stóra hreiðrið sem flestir, er nenna ekki lengur að keppa á frjálsum markaði fjölmiðla, fljúga í þegar aldurinn segir til sín. Hann var keyptur yfir á RÚV með skattfé almennings. Frjálsi fjölmiðillinn sem ,,bjó“ Egil Helgason til og fjárfesti í honum með tilsvarandi áhættu eitt sinn gat ekki keppt við þetta ofurefli, ríkisrekna fjölmiðlinn RÚV sem fær alltaf fjármuni frá skattgreiðendum til að fylla uppí rekstrarhalla ársins í ár og svo ár eftir ár, eftir ár eftir það.

Í upphafi þráðarins, sem Egill Helgason setur undir frétt Eyjunnar varðandi Reykjavíkurbréf Davíðs Oddssonar, gefur að líta eftirfarandi yfirlýsingu:

Davíð Oddsson var og er fyrst og fremst áróðursmaður. Hann hefur alltaf hrærst í heimi þar sem áróður er númer eitt, tvö og þrjú. Hann er ekki hugsuður eða maður hugmynda. Fyrir honum er lífið samfellt áróðursstríð þar sem menn eru sífellt að reyna að hafa andstæðinga, meinta eða raunverulega, undir. Hann skilur einfaldlega ekki þá sem reyna að nálgast mál með gagnrýnu hugarfari og eru ekki alltaf í áróðursstríði. Þess vegna hefur hann til dæmis ekki hugmynd um hvernig fjölmiðlar starfa í rauninni – fyrir honum eru þeir áróðurstæki sem eru notuð til að hamast á andstæðingum eða til að búa til vígstöðu.

Þessi andans maður, Egill Helgason, hefur hér augljóslega löngu gleymt því að barátta Davíðs Oddsonar, sem og félaga hans og kynslóðar innan Sjálfstæðisflokksins, gerði það að verkum að frjálst útvarp varð að veruleika á Íslandi.

Shit ! Gleymdi því alveg…

Egill átti sinn frama í fjölmiðlum algjörlega undir því að frjáls fjölmiðlun yrði að veruleika á Íslandi undir stöðugum árásum frá vinstri öflum þessa lands sem nú emja eins og stungnir grísir undan orðum fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins.

Þetta er því öll hugsjón Egils Helgasonar en hún virðist nú ná eins langt og nef hans og nafli enda löngu búinn að gleyma uppruna sínum í fjölmiðlum þar sem frjáls fjölmiðlun gerði honum kleift að koma fram á Íslandi.

Nú er hið ,,guðlega“ vald fjölmiðlamanna fólgið í því að fá gamla vinstrimenn í þætti sína, jafnvel alla leið frá Frakklandi, til að segja okkur sauðsvörtum almúganum á Íslandi frá því að það sé mjög sniðugt að ganga til liðs við ESB.

Það að vera hugsjónamáður í dag, að mati Egils Helgasonar, virðist vera er að vera viljugur til að losa okkur við gjaldmiðilinn, tala illa um Sjálfstæðisflokkinn, skattleggja heimili og fyrirtæki og ganga í ESB samhliða framsali á fullveldi landsins.

Svo má ekki gleyma því að segja já, já, já…þegar maður skilur ekki neitt og getur því ómögulega gagnrýnt eða lagt orð í belg í beinni.

Það gleymist reyndar oft að það er frelsið sem gaf öllu þessu vinstra fólki, þ.e. hugsjónafólkinu hans Egils Helgasonar, tækifæri á því að tjá sig og tala illa um þá sem þeir ekki elska. Hinir sömu svo kunna lítt með að bera ábyrgð á því þegar annað kemur í ljós en þegar hugsjónaeldurinn brann og úttala sig engu að síður frjálslega um að ríkið sé betra og RÚV enn betra með tilsvarandi nefskatti og tilberarekstri.

Pistlahöfundur ritaði eitt sinn grein gegn fjölmiðlafrumvarpi því sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar lagði fram á sínum tíma og forseti Íslands neitaði að staðfesta sem lög frá Alþingi. Megin ástæðan var sú að Sjálfstæðisflokkurinn, vegna framgöngu Framsóknarflokksins í því efni innan ríkisstjórnar, neitaði að losa um einokun RÚV á auglýsingamarkaði og selja úr þeirri stöðnuðu stofnun einingar sem eru óarðbærar með öllu.

Telja má að Rás 1 sé alveg fullnægjandi til að öryggissjónarmiðum sé fullnægt m.a. vegna almannavarna og ætti því að nægja hvað það varðar enda afskaplega góð rás þar á ferðinni, bæði fræðandi og nærandi.

Öll einokun og skelfilegir tilburðir ríkismiðils í umræðunni nú um stundir, fyrir og eftir hrun, hafa skekkt umræðuna og ekki hleypt eðlilegri samkeppni að í fjölmiðlum á Íslandi.

Páll Magnússon og Egill Helgason. Þeir eru nú báðir flognir undir pilsið hjá ríkisvaldinu og geta þar við gælur sínar uppfyllt alla sínu villtustu drauma, ráðið til sín ættingja og vini eða fengið hina sömu til að tjá sig í ríkisreknum fjölmiðli að djúpri hugsjón um framtíð Íslands og velferð þjóðar undir vinstri stjórn.

Þvílík og önnur eins hræsni!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur