Nú má ætla að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins séu farnir að óttast um framgang sinna framboða eftir að flokksmenn Sjálfstæðisflokksins völdu sér fólk á lista í prófkjöri flokksins í Reykjavík í gær. Úrslit urðu ljós síðla kvölds og voru afgerandi.
Í fljótu bragði kemur í ljós að sigurvegarar þessa prófkjörs eru þau Brynjar Níelsson, Illugi Gunnarsson og síðast en ekki síst Hanna Birna Kristjánsdóttir sem mun leiða annan listann í kjördæminu og fékk bindandi kosningu í 1. sætið rétt eins og Bjarni Benediktsson í sínu kjördæmi. Það sem hér er fréttnæmt er að Hanna Birna hlaut 74% atkvæða í 1. sætið en Davíð Oddson hlaut um 56% atkvæða í það sæti í október 1990 eða sama hlutfall og Bjarni Benediktsson hlaut í 1. sæti í sínu kjördæmi nú nýlega.
Munurinn er þó sá að Hanna Birna þurfti raunverulega að kljást aðeins við einn um 1. sætið í þetta skipti, þ.e. Illuga Gunnarsson, á meðan bæði Bjarni nú nýlega og Davíð í október 1990 þurftu að kljást við fleiri en einn en fengu engu að síður glimrandi kosningu. Þetta skiptir máli í samhengi innanhúss hjá Sjálfstæðisflokknum og þegar kemur að Landsfundi. Menn munu líta á styrk manna í hlutfalli við þann ágang sem menn hafa orðið fyrir og þann styrk sem býr að baki þegar á reynir.
Við þetta má bæta að Illugi Gunnarsson er eftir þetta meðal helstu leiðtoga Sjálfstæðisflokksins og er af nýrri kynslóð rétt eins og Bjarni Benediktsson og Hanna Birna. Hins vegar má sjá að Hanna Birna virðist fá mikið fylgi frá óánægðum kjósendum í Reykjavík sem hreint ekki þola Besta flokkinn og stjórnarhætti í borginni. Það óánægjufylgi styður vel við framboð Hönnu Birnu á meðan t.d. Davíð Oddsson hafði verið lengi farsæll leiðtogi í Reykjavíkurborg og var ekki á leiðinni, í október 1990, að hætta sem borgarstjóri skv. yfirlýsingum hans þá.
Raunverulegur sigurvegari gærdagsins er Brynjar Níelsson lögmaður sem fer í fyrsta sinn í pólitík, hefur lítið sem ekkert tekið þátt í stjórnmálum og fer beint í 4. sætið. Slíkur hástökkvari á heiður skilinn og sýnir þetta ótvíræðan styrk og vilja Sjálfstæðisflokksins.
Varðandi Pétur Blöndal er rétt að benda á að hann er hreint einstakur og fólk vill að rödd hans heyrist á hinu háa Alþingi. Því fólki er ég hjartanlega sammála.
Nú mega andstæðingar Sjálfstæðisflokksins fara að vara sig.
Til hamingju Sjálfstæðismenn í Reykjavík með afar frambærilegan lista.
Rita ummæli