Miðvikudagur 28.11.2012 - 17:18 - Rita ummæli

Suðurnesjamenn

 

Óhætt er að segja að fáir á Íslandi hafi þurft að harka meira af sér eftir hrun en Suðurnesjamenn. Verst er þó að allt sem núverandi ríkisstjórn gerir og stuðlar að hefur leitt til þess að þessu duglega fólki á Suðurnesjunum er gert erfiðara fyrir.

 

Sæmd er hverri þjóð að eiga sægarpa’ enn. / Ekki var að spauga með þá Útnesjamenn. / Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn / fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn.

 

 

Suðurnes - Reykjanesbær (Keflavík, Narðvík og Hafnir), Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar

 

Já, það er sæmd að eiga duglegt fólk í gjöfulu landi. Það er einnig sæmd að vera duglegur og tilbúinn að gefa allt í störfin sem bíða á hverjum degi, þ.e. þeirra sem hafa vinnu. Gleymum ekki heldur öllu því sómafólki sem vill vinna en er nú atvinnulaust og enginn störf eru sköpuð fyrir.

Nú spyr enginn lengur hvað ríkisstjórn Íslands er að gera til að skapa vinnu á Suðurnesjunum. Frekar er nú spurt hvað ríkisstjórn Íslands hefur verið að gera til að hamla framþróun á Suðurnesjum og hvar hún hefur staðið í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu þar og reyndar um allt land.

Tökum hér aðeins 3 dæmi:

1. Ríkisstjórn Íslands hefur áform uppi um að framlengja raforkuskatt

Undanfarin ár hefur verið mikið fjárfest á Suðurnesjum með það að leiðarljósi að hleypa að fjárfestingu í orkufrekum iðnaði. Hafa sveitastjórnir á Suðurnesjum unnið vel saman og leitt sama hesta sína, fólk í hvaða stjórnmálaflokki sem er, til að tryggja að uppbygging eigi sér stað. Hins vegar hefur ríkisstjórn Íslands, frá árinu 2009, lagt sig í framkróka til að standa í vegi fyrir virkjunaframkvæmdum á Suðurlandi og reynt að leggja stein í götu framkvæmda á Suðurnesjum. Eitt af því sem erlendir fjárfestar vilja ekki sjá er lagaleg og pólitísk áhætta. Óhætt er að segja að ríkisstjórn Íslands hefur gert allt til að hámarka þessa áhættu og nýlegt dæmi varðandi svokallaðan raforkuskatt er gott dæmi um þetta.  Þessi skattur var lagður á tímabundið árið 2010 og átti að falla út nú í árslok 2012. Þessu var lofað eftir að stórnotendur raforku á Íslandi gerðu samkomulag við ríkisstjórn Íslands sbr. yfirlýsingu fjármála- og iðnaðarráðuneytis auk Samtaka atvinnulífsins og stórnotenda á raforku frá 7. desember, 2009. Í dag bendir ekki til annars hjá ríkisstjórninni en að ætlun hennar sé að brjóta þetta loforð.

Þetta er ekki aðeins brot á fjárfestingasamningi heldur skilaboð ríkisstjórnarinnar til fjármálamarkaða og erlendra fjárfesta, sem hug hafa á að fjármagna eða fjárfesta á Íslandi, að betra sé að bíða nýrrar ríkisstjórnar sem hefur aðrar áherslur og skýrari sem ógna ekki gerðum samningum og brjóta ekki loforð.

Hefur þetta kjörtímabil einkennst af aðgerðaleysi gagnvart Suðurnesjamönnum og aukinni áhættu fyrir fjárfesta vegna aðgerða ríkisstjórnar Íslands.

Suðurnesjamenn, rétt eins og aðrir sem greiða vilja götu erlendrar fjárfestingar á Íslandi, hafa þurft að þola ríkisstjórn sem er fjandsamleg þessum áformum öllum og framtíðarsýn.

2. Sjávarútvegur og skattur á grunnstoð atvinnulífs á Íslandi

Ofurhár og ósanngjarn skattur á sjávarútveg, sem lagður hefur verið á rekstur fyrirtækja í útgerð og þannig óbeint á tekjuflæði sveitarfélaga víða um land, er greinilega innleiddur bæði meðvitað og af vanþekkingu á mikilvægi stöðugleika í atvinnugrein eins og sjávarútvegi. Þannig er ekki aðeins verið að leggja skatt á útgerðir heldur er samhliða lagður óbeinn skattur á sveitarfélög og sjávarbyggðir sem hafa tekjur af þessum fyrirtækjum og tilsvarandi margfeldisáhrif vegna fjárfestingagetu þessara félaga og tekjumyndun sjómanna.

Það þarf svo sem ekki einhvern kjarneðlisfræðing til að átta sig á því að þegar ein grein er skattlögð umfram aðra, eins og sjávarútveg, að það veldur því að fjármunir eru dregnir af landsbyggðinni og því útdeilt á höfuðborgarsvæðinu. En það sem verra er að þarna, rétt eins og í ferðamannaiðnaði á Íslandi, er verið að skerða lífsviðurværi lítilla og meðalstórra fyrirtækja um allt land og ógna sveitarfélögum sem standa og falla með sjávarútvegi. Öll áform rekstraraðila þessara fyrirtækja, jafnvel einnig sveitarfélaga, fara út um þúfur auk þess sem stærri útgerðir og vinnslur, sem margar eru bundnar langtímasamningum um sölu afurða og kaup aðfanga, verða fyrir miklum skakkaföllum enda erfitt að finna fjármuni til að brúa bilið.

Um eða yfir 80% útgerða á Íslandi hafa keypt sinn kvóta og eru því að greiða af þeirri fjárfestingu. Það að bæta sköttum ofan á þetta og innheimta það nú með hörku ofan í væntanlegt 200 þúsund tonna framboð af þorski úr Barentshafi, sem mun væntanlega valda lækkun á þorskverðum á mörkuðum, er hreint og beint glapræði.

Suðurnesjamenn, rétt eins og allir í sjávarútvegi á Íslandi, hafa þurft að þola ríkisstjórn sem er fjandsamleg þessum áformum öllum og framtíðarsýn.

3. Skattur og gjöld á ferðamannaiðnaðinn

Ljóst þykir að áform ríkisstjórnar Íslands varðandi virðisaukaskatt og aðflutningsgjöld á bifreiðar fyrir bílaleigur á Íslandi er ekki aðeins ógn við iðnaðinn heldur einnig skelfileg innleiðing. Ferðamannaiðnaðurinn hefur ekki ráð til að bregaðast við þessu nýja útspili ríkisstjórnarinnar enda búið að ráðstafa gistinóttum, ferðum og rekstri á bifreiðum a.m.k. 20 mánuði fram í tímann. Það er búið að selja þessar nætur og leigja þessa bíla.

Hér er ekki um eðlilega framvindu mála að ræða. Hér er um skilningsleysi á þessum rekstri að ræða og þá sérstaklega á áætlanagerð fyrirtækja í ferðamannaiðnaði. Öll þessi áform munu aðeins geta valdið því að á næstu árum geti ferðamannastraumur til landsins dregist saman vegna kostnaðarauka auk þess sem aðgerðir og áform í dag varðandi 14% virðisaukaskatt (ofan í þegar áformaða og selda sumarvertíð 2013) leiðir til rekstrarlegs forsendubrests í greininni.

Keflavíkurflugvöllur er einn af grunnstoðum atvinnulífs á Suðurnesjum og þar streyma hundruð þúsunda ferðamanna í gegn ár hvert. Það er afar undarlegt af ríkisstjórn að stinga þessum skatti inn í tekjustreymi fyrirtækja sem eru að vaxa og dafna eftir áratuga langa þroskasögu, uppbyggingastarf og elju þeirra sem starfa í greininni. Öllu þessu er því stefnt í voða með þessari skattastefnu ríkisstjórnar Íslands.

Suðurnesjamenn, rétt eins og allir í ferðamannaiðnaði á Íslandi, hafa þurft að þola ríkisstjórn sem er fjandsamleg þessum áformum öllum og framtíðarsýn.

 

Pistlahöfundur stendur með Suðurnesjamönnum, sem og auðvitað öðrum sem starfa í þessu umhverfi, enda ljóst að þeir hafa sjaldan sótt sjóinn í leit að lífsviðurværi sem hefur verið svo úfinn og svo háskalegur. Þar heggur sá er hlífa skyldi.

Ég vil sjá framþróun og framtíðarsýn sem gefur þessu fólki er starfar í þessum greinum byr í seglinn og tækifæri til að þróast, afla og dafna.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur