Laugardagur 01.12.2012 - 09:38 - Rita ummæli

Lægstu samnefnarar Alþingis Íslendinga

Óhætt er að segja að lægstu samnefnarar Alþingis Íslendinga komi úr röðum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Það hafa nú dæmin rækilega sannað.

Í gærkveldi, 30. nóvember 2012, sýndu tveir þingmenn þessara hreyfinga, sem mynda ríkisstjórn Íslands í dag, af sér mikinn og fáheyrðan dónaskap undir ræðuflutningi hins háttvirta þingmanns Illuga Gunnarssonar. Gengu þessir þingmenn á hinu háa Alþingi, sem við hin fáu leitumst við að sýna virðingu, með mótmælaspjöld fyrir framan þjóðkjörinn þingmann þegar hann flutti mál sitt.

Undir miðri ræðu Illuga um hagvöxt og spár Seðlabanka Íslands í tilefni umræðu um frumvarp til fjárlaga ársins 2013, þ.e. málefni sem afar brýnt er að ræða á þessum síðustu og verstu tímum, gengu tveir þingmenn framfyrir þingmanninn með mótmælaspjöld þar sem skrifað var á ,,málþóf“.

Hér má sjá myndband af þessu ótrúlega atviki:

Um þetta þarf svo sem ekki að fara mörgum orðum en taka má heilshugar undir þau orð Illuga Gunnarssonar að þarna hafi þessir þingmenn orðið sér til minnkunar.

Kjósendur geta nú gert sér í hugarlund hvar ólátabelgi og vandræðagemlinga Alþingis er að finna. Það er framkoma af þessum toga sem undirstrikar vanda Alþingis og eina ástæðu þess að þingið er ekki að njóta þeirrar virðingar sem það á skilið frá þjóðinni.

Þrátt fyrir afsökunarbeiðni þessara þingmanna er ekki víst hvort þjóðin sé sátt, sátt við að Alþingi sé sett niður með þessari hegðun. Þjóðkjörnir þingmenn, í hvaða flokki sem er, eiga að fá notið virðingar á þessum vettvangi sem þjóðin hefur valið til langrar framtíðar sem hin helgu vé.

Rétt væri að þingflokksformenn þeirra þingflokka, sem þessir mistæku þingmenn skipa, stígi nú fram og biðjist einnig afsökunar fyrir hönd sinna fulltrúa og ítreki að ekki verði liðnir slíkir vargar  í véum á hinu háa Alþingi.

Það er reyndar huggun harmi gegn að báðir þessir ólátabelgir virðast vera að hverfa af þingi, annar eftir útreið í prófkjöri VG þar sem rétt yfir 500 tóku þátt og hinn vegna fléttulistaformgalla Samfylkingarinnar í Kraganum.

Svo er að bíða þess hverjir munu reyna að verja þetta framferði.

Gleðilegan fullveldisdag kæru lesendur.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur