Bæjarstjórn Mosfellsbæjar, með bæjarstjórann blessaðann í broddi fylkingar, hefur ítrekað fyrir okkur sem búum þar að best sé að búa í Mosfellsbæ. Hefur verið vísað í eitt svar af fjölmörgum í könnun sem var gerð varðandi búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Bæjarstjórinn var svo bergnuminn af þessari könnun rétt eins og ég að hann sá sig tilneyddan til að rita grein í fréttablaðið hér í bæ, Mosfelling. Þar fjallaði hann um hve hátt Mosfellsbær skoraði og var ég afar sáttur við þessa grein bæjarstjórans enda nokkuð vel skrifuð.
Allir þekkja uppgjörið við Landsbankann á sínum tíma vegna víxilmálsins ólögmæta þegar bærinn (þ.e. við skattgreiðendur) var látinn gangast í ábyrgð fyrir einkaaðila. Nú má greina að komið sé að skuldadögum í því uppgjöri enda ekki seinna vænna nú fyrir kosningar.
Er nú komið í ljós enn og aftur að það eru ekki lýðræðiskjörnir bæjarfulltrúar sem stjórna þessum skuldmikla bæ heldur banki og byggingaraðili? Það gæti svo sem verið tóm vitleysa en það er saklaust að spyrja og grenslast fyrir um hvað ,,hidden agenda“ sé nú í gangi varðandi skipulags- og skólamál í Mosfellsbæ.
Þetta þekkja reyndar allir sem vilja vita og bera skynbragð á innansveitarkronikuna hér í Mosfellsbæ. Nú ætla þeir sem bænum ráða að láta til sín taka. Ætlunin er að láta skólamál ganga fyrir. En hvaða skóla?
Jú, ætlunin er að byggja nú nýjan skóla í Helgafellslandinu í Mosfellsbæ þar sem mjög fáir búa. Auðvitað þykir manni vænt um það góða fólk er þar býr og nauðsynlegt er að byggja þar einhverntíma skóla en er það brýnt nú? Jú, það er brýnt fyrir Landsbankann, Hömlur sem er í eigu Landsbankans, byggingaraðilann og svo bæinn sem tók helling af eignum uppí eftir klúður núverandi bæjarstjóra og félaga hans á síðustu árum. Þetta er bráðsniðug hugmynd þessara aðila til að tryggja sölu lóða á svæðinu og koma yfirverðlögðum eignum í raunverulegt virði fyrir bæinn, byggingaraðila og banka. Vel hugsanlegt er að bærinn geti selt eitthvað af uppítökueignum sínum sem liggja þarna verðlausar en það er aldrei að vita hvað fasteignasalinn á efstu hæðinni nær að áorka.
En hvað með fólkið í Mosfellsbæ, foreldrana, börnin og … lýðræðið?
Reikna má með að taka eigi vinsældakannanir skör hærra hér í Mosfellsbæ og leggja til að fyrir næstu skoðanakönnun sé tryggt að spurt sé hvort fólki finnist ekki best að skutla í Mosfellsbæ.
Það vita allir foreldrar Mosfellbæjar að Varmárskóli er sprunginn og að Lágafellsskóli er einnig sprunginn en þar um kring má finna færanlegar kennslustofur sem um væri að ræða flóttamannabúðir er fyllt hafa upp í lóð skólans. Leikskólarnir eru að springa og allt skipulag úr skorðum þar sem fólki óar við að eignast sitt annað barn sökum skutls. Þeir foreldrar sem álpast hafa að kljúfa kínverska múrinn í barneignum hér í bæ eru svo að springa af skutli þar sem barn fer í sinn skólann hvert og eitt, hér og hvar um Mosfellsbæ.
Nú er því kallað eftir því í dag að foreldrar í Mosfellsbæ skutli börnum sínum út og suður í skóla.
Nú er ætlun bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ að bæta við áfangastað í tómu hverfi á næstu misserum, þ.e. í Helgafellslandinu. Undarlegt þykir að hin staurblinda stjórnarandstaða í bæjarstjórn hafi ekki náð nýta sér þetta mál pólitíkst í bænum. Nú spyrja fjölmargir foreldrar hér í bæ hvort virkilega sé ekki hægt að staðsetja næsta skólahús meira miðsvæðis í bænum og taka slíkan skóla framfyrir þar til byggð hefur þróast frekar í Helgafellslandinu og tryggja þannig að létta megi á þeim skólum sem fyrir eru og auka með því öryggi og vellíðan barna? Ég tel þessa spurningu afskaplega áhugaverða og verðuga í þessa viðamiklu skutlumræðu.
Líkur eru því á að í öllu þessu skutli verði tíma foreldra ,,vel varið“ sé vísað í þær tillögur sem uppi eru af hálfu skólanefndar bæjarins. Það vita allir foreldrar í Mosfellsbæ að þessu fylgir ómæld mengun, óþægindi og óhagræði. Þar sem Mosfellsbær er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ má ætla að ærið verkefni er fyrir þá er standa að því verkefni að leiðbeina foreldrum hvar finna megi styðstu leið í skutli uppí Helgafellsland á næstu árum og misserum.
Mörgum þykir vænt um Mosfellsbæ og vilja vel. Öllum þykir þó vænst um börnin sín. Manni þykir einnig vænt um börn annarra og ættu flestir að leggja skilning í að foreldrar vilja ekki gera skutl að menningarlegum viðburðum í lífi sínu hér í bæ. Hins vegar virðist sem meirihlutinn hér í Mosfellsbæ leggi áherslu á að á næsta kjörtímabili verði ,,Best að skutla í Mosfellsbæ“.
Höfundur: Foreldri, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisfélags Mosfellinga og fyrrum stjórnarmaður í foreldrafélagi Varmárskóla sem og formaður gæðahóps í skólamálum.
Ps.
Ég mun kjósa Bryndísi Haraldsdóttur í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ á laugardaginn kemur og skora eindregið á allt gott sjálfstæðisfólk, áhugasama bæjarbúa og foreldra að gera hið sama. Þó svo hún sækist ekki eftir því sæti er þetta mitt besta val ásamt fjölmörgu nýju fólki sem nú býður sig fram. Það er bráðnauðsynlegt að endurnýja á lista X-D á laugardaginn fyrir foreldra í þessum bæ og skattgreiðendur almennt.
Áfram X-D og konu til forystu í Mosfellsbæ !