Brúarland er sögufrægt hús hér í Mosfellsbæ og á sér afar merka sögu. Í háskólaritgerð ungs og upprennandi kennara, Þráins Árna Baldvinssonar, frá árinu 2010 má lesa um Brúarland sem skóla og einskonar samfélagsmiðstöðvar á stríðstímum síðari heimstyrjaldarinnar. Á 50 ára afmælishátíð Varmárskóla vorið 2012 rifjuðu gamlir nemendur þessa merka skóla fortíðina og nám sitt við Brúarland þar sem riðið var á hrossum til náms og oft dvalist þar yfir nætur vegna ófærðar. Voru hrossin hýst í smákofa við hlið hússins. Þá var fremur riðið á hrossum en ekið á bifreiðum á milli staða.
Á þessum tímum en nokkuð síðar komu Bretar hingað til lands og vörðu íslenska þjóð gegn ágangi Nazista nú eða Rússa nema hvortveggja væri að ræða sem ógn stafaði af á þeim vályndu tímum. Brúarland var byggt árið 1922 og var smíðinni lokið árið 1930. Þar bjuggu þau merkis hjón Lárus Björgvin Halldórsson og Kristín Magnúsdóttir ásamt börnum sínum og var Lárus þar skólastjóri frá 1922 allt til þess að nýtt húsnæði við Varmá var opnað árið 1961 og skólinn þá fluttur þangað.
Allt var þetta gert í sátt og samlyndi við foreldra.
Bretar og síðar Bandaríkjamenn voru hingað fengnir til að vernda m.a. tjáningafrelsi fólks á Íslandi og fullveldið sem og gæta að því að Íslendingar gætu fengið búið hér óáreittir án ægivalds sem m.a. hefur verið boðað í Rússlandi á tímum Stalíns. Íslendingar gengu í Nató til að tryggja rit-, mál- og tjáningafrelsi sitt sem og fullveldi þjóðarinnar.
Á sama degi og Japanir skrifuðu undir uppgjafarskilmála undir lok síðari heimstyrjaldarinnar í Missouri í Bandaríkjunum skömmu fyrir miðnætti aðfaranótt mánudagsins 3. september 1945 birtist frétt um að bifreið hafi hvolft við Brúarland og stúlka slasast þar en reyndar fengið rænu á ný og ,,…líður eftir atvikum vel.“.
Þessi frétt er áhugaverð þegar litið er til þess hvar þessi merka bygging er staðsett í Mosfellsbæ, þ.e. nálægt fjölfarnasta veg Íslands í dag. Þarna er mikil umferð og hefur aldrei verið eins þung og um þessar mundir. Þar fara flutningar með milljónatugi lítra af eldsneyti og bráðdrepandi spilliefnum svo einhver dæmi séu nefnd um hættuna sem þarna leynist. Þetta er ekki sá rómantíski hestaslóði eða sveitavegur sem eitt sinn var því nú er öldin önnur.
Brúarland ætti að verða safn en ekki villidýrasafn. Virðist sem villidýrasafninu hafi verið komið fyrir að áeggjan einkaaðila í húsakynnum á lóð Framsóknarmanna og Kaupfélags Kjalnesinga í miðbæ Mosfellbæjar. Glápa nú ljónin þar uppstoppuð yfir að félagsheimili Sjálfstæðisflokksins í bænum. Fréttir herma að einhverjir óknyttis strákar hafi eitt sinn lætt villidýrasafni á stefnuskrá flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar fyrir fáeinum árum. Það endaði svo reyndar sem gjöf til Mosfellbæjar sem aldrei hefur verið afhend af hálfu bæjarstjóra. En það er nú önnur saga um sögu og stjórnmál í Mosfellsbæ.
Í háskólaritgerð Þráins Árna Baldvinssonar, sem að framan greinir, koma m.a. fram góðar tillögur varðandi notkun á Brúarlandi fyrir bæjarbúa og reyndar n.k. loforð sem ekki hefur verið uppfyllt frekar en villidýrasafnið. Þar segir m.a. í riti Þráins:
Félag aldaðra í Mosfellsbæ hefur sýnt mikinn áhuga á því að fá aðstöðu fyrir félagsstarf sitt í húsinu og eins má búast við því að Kvenfélag Lágafellssóknar fái aftur aðstöðu í húsinu. Hugsanlega verður þarna einnig aðsetur fyrir öflugt kórastarf í bæjarfélaginu. En hvað verður er ekki gott að segja en eftir þær endurbætur sem á húsinu hafa verið gerðar má telja líklegt að húsnæðið verði nýtt áfram og starfrækt að einhverju eða öllu leyti í þágu menntunar, fræðslu og félagsmála. Vel má svo ímynda sér einhvers konar fræðasetur í Brúarlandi og þar væri einnig hægt að setja upp einhvers konar safn. Möguleikarnir eru margir en hvað sem verður er nauðsynlegt að hafa í huga að saga hússins er merk og mikilvægi þess í menningar- og menntunarsögu Mosfellsbæjar verður seint metið til fjár. Margs er að minnast og margt ber að hafa í huga þegar ákvörðun verður tekin um framtíð Brúarlands.
Þessi tilhögun virðist hafa verið talin ómöguleg að mati núverandi bæjarmeirihluta í Mosfellsbæ.
Nú hefur verið brugðið á það ráð að koma fyrir í þessu sögufræga húsi við Vesturlandsveg kornabörnum úr Mosfellsbæ. Foreldrar í í bænum skilja vel hve vel hefur verið staðið að endurbyggingu þessa húss og sögulegu gildi þess sem spannar sögu allt frá því er börn komu ríðandi á hrossum úr Mosfellssveit. Nú hefur bæjarstjórnin ákveðið einhliða og án samráðs við foreldra að koma kornabörnum þeirra fyrir í þessu húsi. Þetta eru börn sem ekki einu sinni geta setið hest eða flúið vá sem getur skapast ef t.d. bifreið veltur að steinvegg þessa gamla húss eða þeirra færanlegu timburhúsa sem þar standa á óafgirtri lóðinni. Þessi bifreið getur verið uppfullur tankbíll ásamt tengivagni með flugvélaeldsneyti á leið norður í land. Hér má heldur ekki gleyma þeirri loftmengun sem er á þessu svæði þegar umferð er þarna sem mest og spurning hvort loftræstikerfið að Brúarlandi sé hannað m.t.t. þess arna að verna börn gegn mengun.
Þegar litið er til öryggismála í þessu efni má vænta þess að Almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins fari brátt undirbúa stórslysaæfingu að Brúarlandi svo kornabörn bæjarbúa geti verið viðbúin komi til alvarlegs umferðarslyss eða bruna í einum að þeim fjölmörgum færanlegum kennslustofum sem nýttar eru í Mosfellbæ. Ætla má að undir mjög alvarlegum kringustæðum myndu kennarar getað hlaupið talsvert hraðar en þessi börn og komið sér í skjól. Það var ekki einu sinni þorandi að hafa þarna börn í námi á menntaskólastigi og því brást ríkið við með því að byggja nýjan framhaldsskóla í bænum svo koma mætti þeim fullorðnu börnum undan þessu bráðabirgðahúsnæði þar sem þau dvöldu dagana langa undir umtalsverðri vá af vaxandi umferð.
En Brúarland er engu að síður falleg bygging og afar merkileg sé litið til sögunnar. Hins vegar er þetta ekki skynsöm ráðstofun, þ.e. að koma þarna börnum fyrir í húsnæði sem er að verða aldargamalt og ekki hannað sem nútímalegt skólahúsnæði eða leikskóli. Ekki er vitað til að á svæðinu hafi verið skipulögð lóð fyrir leikskóla þar sem hýsa mætti kornabörn frá morgni til eftirmiðdags.
Foreldar hafa mótmælt þessum áformum og farið í að safna undirskriftum foreldra gegn þessum áformum.
Fréttir herma að vegið hafi verið að þessum áformum foreldra og undirskriftalistar m.a. teknir af foreldum, þeim meinað að safna undirskriftum um málefni sem fellur undir ákvæði í grunnskólalögum varðandi hlutverk foreldrafélaga, þ.e. að gæta að hagsmunum barna og framförum í skólamálum. Því miður er ekki hægt að kalla á Breta eða Bandaríkjamenn í þessum málum svo verja megi tjáningafrelsið heldur verður að leita til kjósenda í Mosfellsbæ um að taka til sinna ráða og refsa þeim sem leyfa ekki foreldrum að leita leiða til að mótmæla friðsamlega þessum yfirgangi bæjaryfirvalda. Búum við á tímum e.k. ógnarstjórnmála hér í Mosfellsbæ?
Þetta er ljótt og illa gert og bæjaryfirvöldum til vansa.
Einnig er leitt að þessi saga skuli þróast í kringum þetta fallega og sögufræga hús, Brúarland í Mosfellsbæ.
Brúarland er ekki lengur fyrir börn að dveljast þar dægrin löng – Gætum að öryggi og velferð barna í Mosfellsbæ.