Sunnudagur 16.02.2014 - 15:25 - Lokað fyrir ummæli

Forsætisráðherra fastur fyrir

Fjölmargir hafa gagnrýnt forsætisráðherra Íslands að undanförnu. Eftir að hann hafi mótast við að benda á fjölmörg þjóðþrifamál á nýlega afstöðnu Viðskiptaþingi pikka andstæðingar hans aðeins upp eitt mál, þ.e. afstöðu hans til inngöngu í ESB og samningaviðræðna. Sjálfur er pistlahöfundur á því að ljúka eigi viðræðum og leggja samning þann er fæst úr þeim fyrir þjóðina.

Í morgunsárið var ráðherrann í viðtali á RÚV. Þar spurði Gísli Marteinn ráðherra m.a. út í ostakvóta og málefni er snerti aðild Íslands að Evrópusambandinu ofl. Vissulega reyndi Gísli að koma ráðherranum í snöru spurninga sem voru mjög svo leiðandi. Það var rétt hjá ráðherranum að þar var leitast við að gera honum upp skoðanir og sem reyndur fréttamaður gerði hann það sem rétt var að leiðrétta misskilning sem lá í spurningum Gísla. Vitnað var í löngu fluttar ræður og yfirlýsingar ráðherra án þess m.a. að taka allan textan sem heyrði til umræðuefnisins sem vitnað var til. Bjóst reyndar pistlahöfundur við að viðtalið yrði í léttum dúr eftir spjallið við dömurnar þar á undan en Gísli byrjaði strax að boxa við ráðherrann sem vissulega svaraði hressilega á móti eðli máls samkvæmt.

Allt eru þetta þekkt trix fjölmiðlamanna og verður spyrjandi á svo virtri stöð sem RÚV er að gæta sín að undirbúa spurningar sínar með þeim hætti að í þeim felist ekki ígildi skoðunar þess sem spurður er. Við Íslendingar erum ekki svo galnir að greina ekki þarna á milli en vissulega vorkenndi ég Gísla Marteini því það kom greinilega mikið á hann þegar ráðherrann ítrekað þurfti að kalla eftir tíma til að svara, leiðrétta að þær skoðanir sem voru í hinum leiðandi spurningum væru ekki hans og beinlínis kalla eftir því í blálokinn að starfsmenn RÚV taki málefnalegar á þeim þáttum er snúa t.a.m. að rekstri ríkissjóðs og hlutverki Seðlabanka Íslands sem bundið er lög.

Gæti verið að það hafi einmitt verið ástæðan fyrir bestu lausn þegar á reyndi að í miðju hruni hagkerfisins voru þrír seðlabankastjórar?

Vill pistlahöfundur fullyrða að það hafi skipti íslensku þjóðina mestu þegar afar reyndur stjórnmálamaður og tveir valinkunnir sérfræðingar á sviði hagfræði og viðskipta hafi tekið ákvarðanir, sem margar hverjar eru vissulega umdeilanlegar, er leiddu m.a. til þess að neyðarlögin voru sett sem hafa reynst þjóðinni heillavæn þegar á reyndi.

Getur þjóðin, a.m.k. sá hluti hennar sem málið varðaði, seint gleymt að þegar fólk leitaði eftir leiðréttingum ólögmætra lána var það aðeins einn seðlabankastjóri sem beinlínis lagðist á sveif með yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins og fyrrum efnahagsráðherra þjóðarinnar í fyrri ríkisstjórn m.a. vegna þess klúðurs sem fólst í hvernig um lánasöfnin var búið eftir að tveir bankar hafi verið nánast gefnir kröfuhöfum á silfurfati? Ásamt þessu var ríkisábyrgð gefins á skuldbindingarnar. Ekki var að sjá að Seðlabanki Íslands hafi verið mjög sjálfstæður í störfum sínum á því tímabili.

Það er augljóst að þegar pistlahöfundur ritaði skýrslu um sjálfstæði Seðlabanka Íslands hér á árum áður að það skipti máli að það yrðu skipaðir þrír bankastjórar við bankann en ekki aðeins einn. Það fyrirkomulag þarf alls ekki að vera til annars en þess að öryggis sé gætt og að pólitísk sátt ríki um störf og stefnu sjálfstæðs seðlabanka.

Það að forsætisráðherra ,,skammi“, eins og sumir vilja taka óskemmtilega til orða, Seðlabanka Íslands er bara hið besta mál. Sérstaklega skiptir það máli þegar bankinn lætur undir höfuð leggjast að forgangsraða í störfum sínum svo hið opinbera geti fengið þau bráðnauðsynlegu gögn sem kallað er eftir varðandi greiðslujöfnuð ofl.

Í 3. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands segir:

Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi. Með samþykki ráðherra er Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu. Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn meginmarkmiði sínu skv. 1. mgr.

Seðlabankanum ber að sinna störfum sínum þannig að beiðnir um ákveðna vinnu gangi fyrir komi þær úr Stjórnarráði Íslands sbr. ákvæði 14. gr. sömu laga:

Seðlabanki Íslands annast hvers konar bankaþjónustu fyrir ríkissjóð aðra en lánafyrirgreiðslu, sbr. 16. gr. Innstæður ríkissjóðs skulu varðveittar á reikningum í Seðlabankanum nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars. Seðlabankinn skal vera ríkisstjórn til ráðuneytis um allt sem varðar gjaldeyrismál, þar á meðal erlendar lántökur, og taka að sér framkvæmd í þeim efnum eftir því sem um verður samið.

Það sem brugðið hefur við að fréttamenn, er gefa sig út við að vera rannsóknarblaðamenn, fagmenn á sínu sviði, geti vart fjallað um annað en fagurfræði, listir og fremur augljósa glæpi, sem vissulega er afar mikilvægur þáttur í fjölmiðlun og upplýsingagjöf til almennings. Dýpt viðskipta og hagfræði, stjórnun seðlabanka og sjálfstæði þeirra er meira en svo að hægt sé að draga það upp með þeim hætti sem reynt var að gera í morgun á RÚV. Það að setja í Seðlabanka Íslands 2 bankastjóra við hlið núverandi bankastjóra, sem reyndar óvíst er að verði, þarf alls ekki að vera e.k. pólitísk hótun heldur fremur áhættustýring stjórnvalda komi til flókinna ákvarðanna sem samstaða þarf að ríkja um t.a.m. varðandi peningamál þjóðarinnar.

Það veit hver sá sem vill það vita að innan úr háskólasamfélaginu koma oftast nær pólitískar skoðanir og þeir sem þora þar að tjá sig eru yfirleitt að gera það of seint eða ganga erinda uppfullir af umboðsvanda. Jafnvel byggir þetta á pólitískri eða persónulegri óvild í garð ríkjandi stjórnvalda. Fagmennskan er af skornum skammti því miður og þekkir maður það frá því fyrir hrun. Það voru alltof fáir úr þeirri átt sem þorðu að tjá sig enda störfuðu og starfa enn fjölmargir háskólamenn fyrir stórfyrirtæki, sitja í stjórnum og nefndum bæði þeirra og opinberra aðila. Hafa þeir margir því hagmuni af því að þegja í stað þess að koma ,,naktir fram“ sé vísað í vel þekkt Stuðmannalag.

Sem dæmi um þetta sjást sjaldan eða aldrei átök í betri stofum RÚV þar sem í beinni útsendingu takast á skoðanir tveggja prófessora sem eru á öndverðum meiði. Maður man helst eftir Merði og Hannesi og þóttu þeir þættir afar áhugaverðir. Er það kanski ekki nógu sexy og fremur dregin þar upp undirfögur ímynd borgar í stað landsbyggðar sbr. góða ábendingu ráðherra varðandi þátttakendur hjá Gísla Marteini í morgun. Þar standa N4 og ÍNN sig vel en RÚV illa.

Það er möguleiki fyrir spyrjendur RÚV að umorða spurningar sínar vel og undirbúa sig betur. Gísli Marteinn er frábær þáttastjórnandi en yfirbragð þessa þáttar hefur verið það mjúkt hingað til að ekki er að undra að margar viðkæmar sálir hafi brugðið þegar ráðherra svarar hressilega fyrir sig í morgunsárið. Til þess er hann kjörinn og mega Íslendingar vera stolltir af því að eiga þann mannkost sem í þessum manni býr óháð pólitískum skoðunum sem deila má um.

Forsætisráðherra lætur greinilega engar skuldir sitja eftir í viðtölum við sig.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur