Sunnudagur 30.10.2016 - 01:08 - Lokað fyrir ummæli

Sjálfstæðisflokkurinn sigurvegarinn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins

Það var ánægjulegt að vakna upp hér í höfuðborg Kambódíu í morgun. Eftir langa rigninganótt gekk maður út í sólina og naut þess þegar hitinn læsti sér í þykkt holdið. Eftir að hafa fengið ótal hitaeiningar í skrokkinn gekk maður aftur inn, hitaði sér kaffibolla, kveikti á kælingunni og las afar ánægjulegar fréttir að heiman hér í morgunsárið. Þá er klukkan um 1 eftir miðnætti heima á Íslandi enda 7 tíma munur.

Nú hefur konan haldið af stað í búddahofið ásamt dætrunum, afa og ömmu (langafa og langömmu dætranna). Þar munu þau öll fylgja búddamunkum í lofsöng enda Kathina hátíðin gengin í garð hjá Theravada búddistum með tilsvarandi bænum. Kathina athöfnin var upphaflega haldin af Buddha sjálfum til handa ófaglærðum í búddafræðum í lok 3. mánaðar Vassa. Búddismi er hófsöm trú þar sem djúpvitur heimspeki er reifuð og beðið um fátt annað en að gerast betri, mun betri í dag en í gær.

Hátíðarhöldin heima snúast nú um stórsigur frjálslyndra og hægriafla á Íslandi. Þegar tölur eru skoðaðar sé ég í fyrstu á Bjarni Benediktsson vinnur stórsigur í eigin kjördæmi, þ.e. Suðvesturkjördæmi. Þar hlýtur listi Sjálfstæðisflokksins tæplega 35% atkvæða og 5 menn inn. Vilhjálmur Bjarnason er því inni ásamt fríðu liði undir forystu Bjarna. Hitt sem stendur eftir er afhroð Samfylkingarinnar sem er með undir 7% fylgi og nær engum manni inn í Suðvesturkjördæmi. Nú er svo komið að þegar þetta er ritað, rétt eftir miðnætti heima á Íslandi en snemma morguns hér í Kambódíu, hafa verið talin rétt rúm 26 þúsund atkvæði í þessu kjördæmi einu og tæp 64 þúsund á landsvísu.

Árni Páll Árnason er dottinn út af þingi. Það er stórfrétt ef það verður niðurstaðan (64 þús atkv. talin). Nýjar tölur voru að berast. Árni Páll er inni en þess í stað datt Össur út. Þetta fer að minna mann á þegar Samúel Örn Erlingsson, Framsóknarflokki, var inni og úti alla nóttina hér um árið. Nú hafa verið talin 79 þúsund atkvæði fyrir landið allt þegar þessu var bætt við. Svo virðist sem Samfylkingin sé, nú þegar þetta er ritað, að halda í uppbótarþingmann sem rokkar á milli kjördæma. Því eru líkur að annaðhvort fari Árni Páll út eða Össur inn, þ.e. ekki báðir. Nýjar tölur voru að berast. Talin hafa verið tæplega 87 þúsund atkvæði og er þá Árni Páll dottinn út af þingi en þess í stað er Sigríður Ingibjörg Ingadóttir inni sem uppbótarþingmaður. Össur er því enn úti.

Guðlaugur Þór, Áslaug og Birgir eru inni í Reykjavík norður og Ólöf Nordal tekur Brynjar og Sigríði Á. Andersen með sér á þing. Þetta eru því 6 menn úr Reykjavíkurkjödæmunum. Samfylkingin nær engum inn í Reykjavík suður en einum í Reykjavík norður. Sjá má að Píratar eru heillum horfnir í Reykjavík frá því sem skoðanakannanir höfðu gefið í skyn.

Formaður Samfylkingarinnar kemst á þing. Í Suðurkjördæmi fær Samfylkingin einn mann. Oddný er því ekki dottin út af þingi skv. þessum tölum. Páll Magnússon tekur með sér 3 þingmenn og vinnur góðan varnasigur í Suðurkjördæmi fyrir Sjálfstæðisflokkinn með samtals 4 menn á þing. Hann er að standa sig mjög vel þar.

Unnur Brá Konráðsdóttir hefur greinilega hvatt konurnar á kjörstað sem og aðra öfluga stuðningsmenn sína. Unnur heldur sæti sínu á þingi skv. þessum tölum og það er vel. Píratar fá þar aðeins einn mann kjörinn og í þessu sterka Framsóknarflokkskjördæmi nær formaður Framsóknarflokksins 2 inn. Það er vissulega varnarsigur, ekki meira en það þó.

Smári McCarthy Pírati og forsætisráðherraefni þeirra er komin á þing gangi þetta eftir og hefur þá fengið lýðræðislegt umboð skv. stjórnarskránni sem í gildi er til að láta ljós sitt skýna á næsta kjörtímabili. Má ætla að þar geti hann lagt fram tillögur um borgaralaun og frumvarp til laga um a.m.k. 40% atvinnuleysi.

Sé litið á Norðvesturkjördæmi má sjá þar Teit Björn Einarsson komast á þing en hann er sonur Einar Odds Kristjánssonar heitins. Mjög öflugur maður þarna á ferð sem vissulega mun láta að sér kveða. Þaðan koma 3 þingmenn inn fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Í Norðausturkjördæmi nær Valgerður Gunnarsdóttir inn og Sjálfstæðisflokkurinn þar því með 3 þingmenn. Þetta er afar ánægjulegt enda Valgerður vönduð kona og öflugur þingmaður. Þar kemur að auki inn á þing nýr og skeleggur sjálfstæðismaður að nafni Njáll Trausti Friðbertsson. Framsókn heldur þar tveimur og nær því Sigmundur, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, inn tveimur mönnum þar eins og Sigurður Ingi fyrir sunnan. Þessi tvö sterkustu kjördæmi Framsóknarflokksins eru ekki að skila fleiri þingmönnum en 4. Þar er mikið verk að vinna fyrir þann flokk að ná til baka því fylgi þó síðar verði.

Því er ljóst að Bjarni Benediktsson, fylgismenn hans og Sjálfstæðiflokkurinn eru sigurvegarar þessarar kosninga. Þetta er síðast en ekki síst sigur sjálfstæðisfólks um land allt og sjálfstæðisstefnunar sem byggist á traustum grunni frelsis og ríkrar lýðræðisvitundar flokksmanna.

Til hamingju kæru flokksfélagar.

Með kveðju,

Sveinn Óskar Sigurðsson, Phnom Penh borg, Kambódía

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur