Þriðjudagur 30.04.2013 - 19:03 - Lokað fyrir ummæli

Kostur Sjálfstæðisflokksins í stöðunni

 

Hvaða leikur er í stöðunni?

 

Þeir sem hafa leikið knattspyrnu, handbolta eða aðrar íþróttir þekkja vel að það sem máli skiptir er tímasetningin þegar markmiðið er að skora. Það sem nú er um að ræða er að líta ekki til baka heldur spila úr stöðunni eins og hún liggur fyrir í dag.

Framsókn hefur ákveðið að leita fyrst til vinstri flokkana um stjórnarsamstarf. Það er niðurstaða dagsins í dag. Á þessu leikur enginn vafi og því ætti forysta Sjálfstæðisflokksins að neita viðræðum við Framsóknarflokkinn þar til hann hefur lokið sér af á vinstri vængnum. Það er ekkert annað í stöðunni enda hefur formaður Framsóknarflokksins ákveðið að spila upp vinstri kantinn í því augnarmiði að skora.

Við það að neita Framsóknarflokknum um ítarlegar viðræður er þessum ,,miðju“ flokki bent réttilega á að ef hann nær ekki að mynda enn einu veiku vinstri stjórnina er einboðið að formaður Framsóknar þurfi að skila inn umboði sínu.

Talandi um kosningaloforð. Í dag kom t.a.m. berlega í ljós í hefti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika að leið Framsóknar varðandi skuldaleiðréttingu heimila gengur ekki upp. Það er frétt dagsins í dag en ekki það að formanni þessa ágæta flokks hafi verið veitt umboð til stjórnarmyndunar. Ekki er að undra að fjölmiðlar hafi ekki náð þessu enda greinilega fáir sem telja það henta í dag að minnast á þessa hlið málsins og þá augljósu staðreynd sem  bankinn hefur nú staðfest.

Hvaða leikur er þá í stöðunni?

Það blasir við að fjölmargir Sjálfstæðismenn vilja ljúka viðræðum við Evrópusambandið og er pistlahöfundur einn þeirra þó svo að hann sé ekki sáttur varðandi það að ganga í Evrópusambandið. Það sem máli skiptir í dag er að nýta þann leik í stöðunni sem fjárfest hefur verið í síðustu ár, þ.e. vinnan sem embættismenn hafa þegar unnið í viðræðum við Evrópusambandið gæti nýst til að ljúka þeim með ódýrum hætti og boða til kosninga, þ.e. fara í  þjóðaratkvæðagreiðslu um samning við ESB. Hvers vegna ekki?

Með því má ætla að brúa megi bil á milli frjálslyndra afla í Sjálfstæðisflokknum, bjóða Bjartri Framtíð og Samfylkingunni til viðræðna um leið og Framsókn hefur skilað umboði sínu og formanni Sjálfstæðisflokksins falið það.

Framsóknarflokkurinn í dag er mun meiri og heftugri andstæðingur Evrópusambandsins en forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Bent skal á að Björt Framtíð varð einmitt til vegna þess að fólk úr Framsóknarflokknum, ungt og vel meinandi fólk, flúði íhaldið í Framsókn. Sjálfstæðisflokkurinn er breiðari flokkur og frjálslyndari en Framsókn og á að vera það.

Er þá þetta ekki einmitt leikurinn í stöðunni hjá Bjartri Framtíð og Samfylkingunni í dag?

Þjóðin færi þá vitræna leið til skuldaleiðréttinga með leið Sjálfstæðisflokksins, frjálslyndir einstaklingar í öllum flokkum fá samning sem borinn verður undir þjóðina varðandi aðild að Evrópusambandinu og þannig geta flestir unað vel við sitt. Samningurinn verður vitanlega felldur en það er þá afgreitt mál.

En er það e.k. VG aðferðarfræði? Það verður hver og einn að meta fyrir sig hvort að það sé ráðleg vegferð og gott veganesti.

Það sem máli skiptir í dag er að það verði Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins, sem leiði nýja ríkisstjórn.

Þannig mætti ná sátt í samfélaginu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur