Föstudagur 21.02.2014 - 19:01 - Lokað fyrir ummæli

XD í Mosó í messi

Lágafellskirkja í Mosfellsbæ

Lágafellskirkja í Mosfellsbæ

Óhætt er að segja að Lágafellskirkja í Mosfellsbæ sé ein fallegasta kirkja landsins. Þarna stendur þessi fallega kirkja í hlíðum Lágafells og ber fyrir augu hvers einasta manns sem leggur leið sína norður í land, austur að Þingvöllum eða lengri veg. Það sem þessi kirkja hefur umfram margar aðrar kirkjur er þessi hlýleiki og birtan sem stafar af henni. Hún veitir manni von um frið og manngæsku hérna megin grafar.

Nú er svo búið að foreldrar í Mosfellsbæ, ekki allir en stór hluti þó, hefur barist í sjálfboðavinnu svo mánuðum skiptir fyrir því að á þá verði hlustað varðandi skipulag í hlíðum annars fells í Mosfellsbæ. Enn á ný hafa fjárfestar lagt milljarða tugi í fjárfestingar í bænum, bankar tekið lóðir að veði og gengið til samninga við Mosfellsbæ.

Það er afar mikilvægt skuldugu bæjarfélagi eins og Mosfellbæ að í yfirstjórn bæjarins séu einstaklingar við völd sem hægt er að treysta og því búast bankar, fjárfestar og byggingaraðilar við þegar gengið er til samninga eðli máls samkvæmt. Svo má nú ekki gleyma kjósendunum, t.a.m. foreldrum barna og þá sérstaklega ungbarna.

Í þessu umhverfi er oft viðkvæmt hvernig hagsmunum er háttað. Arkitektinn vinnur hjá arkitektastofu sem hefur hagsmuni af því að fá verk frá bæjaryfirvöldum og er einnig foreldri í bænum. Sama á við um kennarann, almannatengilinn, smiðinn, skúringarkonuna, málarann, rafvirkjan, verkfræðinginn, bæjarstarfsmanninn, bankamanninn og aðra sem eiga börn og búa í Mosfellsbæ.

Á hvað ætlar þetta foreldri að stóla og fyrir hverju ætlar það að berjast? Berst foreldrið fyrir vinnunni sinni, gætir það þess að ógna ekki yfirmönnum sínum og mun innlegg þess í starfi fyrir börn í bænum geta leitt til uppsagnar? Vill fólk virkilega búa í samfélagi sem þarf að hræðast þetta? Pistlahöfundur vill það alls ekki en manni er sagt; ,,svona er nú raunveruleikinn hér í Mosfellsbæ.“.

Skólastjórarnir eru ráðnir af yfirvöldum bæjarins og hræðast við að blanda sér í mál varðandi börnin því þeir eru líka foreldrar og gætu misst vinnuna. Málefni barna eru stjórnmál hafi einhver lesandi gleymt því. Þau eru líka STÓR-MÁL!

Er þetta raunveruleg ógn allt saman eða mun Guðs blessun ríkja yfir störfum sé starfað fyrir börn á öðrum tímum en rétt yfir Jólin þegar þau eru beðin um að syngja í Lágafellskirkju?

Hver er hin raunveruleg staða mála nú í Mosfellsbæ, á þessum yndæla stað?

Nú hefur Mosfellsbær tilkynnt það sérstaklega í gegnum almannatengil bæjarins og fjölmiðla (RÚV) að nú sé ,,skólabyggingu í Helgafellslandi frestað“. Er þetta virkilegt? Hvað með þá samninga sem Mosfellsbær og þá bæjarstjórinn í bænum hefur gengist undir?

7greinin

7. gr. úr samningi milli Mosfellsbæjar og Helgafellshlíða ehf dags. 2. júní 2006

Það var nefnilega svo að árið 2006 skuldbatt Ragnheiður Ríkarðsdóttir, þá bæjarstjóri, nú formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og evrópusinni í minnihluta, Mosfellsbæ til þess að byggja grunn- og leikskóla í Helgafellslandi og tryggja þannig skólahúsnæði á svæðinu þegar 50% íbúða í hverfinu yrðu fullbyggðar.

Snemma á síðasta ári, þ.e. fyrir flest Skólaþingin og fundina sem meirihlutinn í bæjarstjórn hefur vísað í að hafi verið vegna ,,samstarfs“ við foreldra í Mosfellsbæ (skv. almannatengli Mosfellsbæjar), var svo ritað undir annan samning við eignarhaldsfélag Landsbanka Íslands, Hömlur 1.

1gr_16mai2013

1. gr. úr samningi milli Mosfellsbæjar og Hömlur 1 dags. 16. maí 2013

Sé þetta lesið og litið á blaðsíðu 4 í Mosfellingi, fréttablað okkar góða hér í Mosfellsbæ sem kom innum lúguna nú fyrir helgina, er formaður fræðslunefndar greinilega ekki vel upplýstur enda fyrirsögn greinar eftirfarandi: ,,Uppbygging skólamannvirkja komin í farveg.“. Hér má sjá að framan að Mosfellsbær hefur svo sannarlega skuldbundið sig að koma upp skóla í Helgafellslandinu en hvers vegna þessi asi?

5. gr. úr samningnum milli Mosfellsbæjar og Hömlur 1 dags. 16. maí 2013

5. gr. úr samningnum milli Mosfellsbæjar og Hömlur 1 dags. 16. maí 2013

 

Í samningnum, þar sem núverandi bæjarstjóri hefur tekið upp þráðinn frá Ragnheiði fyrrum bæjarstjóra, frá því í maí 2013 kemur fram eftirfarandi:

Mosfellbær skuldbindur sig til að hefja ekki sölu í áföngum 5 og 6 fyrr en a.m.k. 70% lóða í áfanga 4 eru seldar. Ákvæði þetta gildir í 6 ár frá undirskriftardegi.

Hér kemur því rúsínan í pylsuendanum. Þetta er snilldarvel samið af hálfu Landsbankans og spurning með hvort við í Mosfellsbæ eigum svo lélega samningamenn eða hvort að þetta hafi verið eina lausnin. Það liggur því fyrir að ef núverandi meirihluti keyrir ekki þetta mál í gegn, þ.e. með skóla í Helgafellslandi, munu lóðir seljast illa og því mun dragast umtalsvert að selja í 4. áfanga (sem er miðja hverfisins) fyrir þarnæstu sveitarstjórnarkosningar að Hömlur 1 nái ekki að selja 70% lóðum og leitt þannig til þess að bærinn fái ekki að selja sínar eignir. Bænum er því meinað að selja eignir sínar sem Landsbankinn lét bænum í té í tengdum samningum. Bærinn er því ekki lengur sjálfstæður í sölu á eigin lóðum í bæjarfélaginu og hefur bæjarstjórinn og meirihlutinn í Mosfellsbæ því samið svo fyrir skattgreiðendur að það verði að byggja skóla í Helgafellslandinu því annars mun bærinn ekki geta losað um dýrar lóðir og landspildur sínar í hlíðum Helgafells. Talandi um gulrótina og asnann, hver er asninn í þessu tilviki?

4146679-200224-pig-on-a-donkey

 

Það er búið að fífla foreldra bæjarins í meira en ár eða allt frá því að svokallað ,,samráðsferli“ hófst. Mosfellsbæ ber að standa við gerða samninga og það vekur undrun ef meirihlutinn í bæjarstjórn ætlar nú að ganga á bak orða sinna enda í gildi samningar við Hömlur 1 um skólabyggingu í Helgafellslandi ella getur hinn skuldsetti Mosfellsbær ekki grynnkað á skuldum sínum, bær sem er ekki sjálfstæður hvað sem menn og konur tauta og raula. Því miður er svo í pottinn búið.

Hér skal bent á að það er ábyrgðarhluti að hræra mikið í umhverfi barna. Fjöldi barna eru afar viðkvæm og þurfa mikla alúð og festu hvað allt skólaumhverfi varðar. Nú er verið að rugla svo óskaplega með þennan málaflokk að fjölmargir foreldrar hræðast framhaldið, því miður. Þetta á ekki við alla foreldra, alls ekki. Þeim foreldrum sem segja að hjá sér sé allt í stakasta lagi skal bent á að við búum í samfélagi þar sem ætla má að fólk beri hag allra barna fyrir brjósti, einnig þeirra barna sem maður á ekki sjálfur.

Staðan er því sú að líkur eru nú á að maður leiti upp í Lágafellskirkju og biðji Guð að blessa flokkinn sinn í messu næstkomandi sunnudag enda XD í Mosó nú í algjöru messi.

Höfundur: Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisfélags Mosfellinga, fyrrum stjórnarmaður í foreldrafélagi Varmárskóla og áhugamaður um bætt skólaumhverfi, öryggi barna og velferð.

Flokkar: Skólamál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur