Fit hostel stendur fyrir heiti á mjög áhugaverðri heimildarmynd sem sýnd var á RÚV í gærkveldi. Umfjöllunarefnið var aðbúnaður og líf hælisleitenda á Íslandi. Þar kom m.a. fram að af 600 hælisumsóknum á Íslandi á árabilinu 1991-2008 hafi aðeins 1 dvalarleyfi verið veitt þar sem einstaklingur flokkaðist sem flóttamaður og 53 dvalarleyfi sem veitt voru af mannúðarástæðum.
Hælisstefna Evrópusambandsins hefur verið í mótun frá árinu 1999. Við Íslendingar erum aðilar að Schengen sem átti að færa hælisleitendum meira réttlæti og meiri vernd enda á hver hælisleitandi rétt á að sækja um hæli. Þrátt fyrir þetta virðist sem samvinna í þessum málaflokki innan Evrópu sé í lamasessi. Vinstri elítan á Íslandi lokar augum sínum fyrir þessu sem og Björt framtíð, Píratar og páfuglar Samfylkingarinnar.
Í Grikklandi og á Ítalíu eru skelfilegar flóttamannabúðir sem minna á gettó síðari heimstyrjaldarinnar og virðist Evrópusambandið halda þessu á óreiðustigi eins og öðru innan þeirra fjölmörgu málaflokka sem sambandið reynir að spanna innan vébanda sinna í Brussel. Framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Raymond Hall, hefur meðal annars bent á að hælisstefna Evrópusambandsins hafi ekki staðist væntingar og sé í raun í molum.
Á Íslandi er fylgst vel með hvernig hælisstefnan þróast innan Evrópusambandsins enda tengist landið þessari samvinnu í gegnum Schengen og Dyflinarsamstarfið (sbr. Dyflingarsamninginn er tók gildi 1997). Klúður Evrópusambandsins í þessum málum hefur því mikil áhrif á málaflokkinn hér á landi ekki síður en önnur lönd innan Schengen.
Leiðtogaráð Evrópusambandins, ráðið sem pistlahöfundur hefur bent á að Bretar komi engu í gegn af sínum málum, gaf út svokallaða skilyrðatilskipun árið 2004. Gekk sú tilskipun út á hvaða skilyrði lægju til grundvallar fyrir því að flóttamaður gæti talist vera flóttamaður. Akkúrat ! Rétt hjá þér lesandi góður. Leiðtogaráðið tók sér þarna guðlegt vald eins og Vatíkanið enda löngu búið að klippa á vald bresku krúnunnar sem hún hafði fengið frá Guði.
Í flóttamannabúðunum í Grikklandi og á Ítalíu eru fjöldi flóttamanna sem fá ekki afgreiðslu frekar en bresk stjórnvöld innan leiðtogaráðs Evrópusambandsins og þá þarf ekki að óttast að þessi tilskipun (þ.e. skilyrðatilskipun leiðtogaráðs ESB) verði notuð á meðan skrifstofur eru lokaðar. Þrátt fyrir að mörg lönd hafi fengið frest til 2006 hefur þetta gegnið afar illa og hafa mörg Evrópusambandsríki ekki náð að skilgreina flóttamenn sem flóttamenn sökum anna við að taka við umsóknum eða að halda hurðum lokuðum. Þessu umsóknarferli og biðinni fylgir mikið sálarstríð, vonleysi og vanmáttur. Skiptir litlu hvort fólk sé statt í því ferli á Íslandi eða innan Evrópusambandsins þó telja megi að aðbúnaður flóttamanna hér sé mun skárri en t.d. í Grikklandi eða á Ítalíu.
Það sem Evrópusambandið gerir er að hækka tollamúra og herða skattagjarðir heimavið þegar flóttafólkið (bæði innan og utan ESB) hefur ekki til hnífs og skeiðar. Þetta á einnig við um Ísland. Það er því einnig til flóttafólk sem er af evrópskum uppruna og flýr út og suður um Evrópusambandið í leit að vinnu enda þar umtalsvert atvinnuleysi. Þetta fólk keppir um vinnu við aðra flóttamenn frá ríkjum Asíu og Afríku svo dæmi séu tekin. Dæmi eru um að fólk af asískum uppruna sem og afrískum sé farið að flýja Evrópusambandið heim til sín vegna aukinnar velsældar í heimalandinu.
Fátækasta flóttafólk veraldar hefur alist upp við hungursneið og gífurlega erfiðleika. Það hefur náð að lifa af mikið harðræði og ofbeldi heimafyrir. Það er oft duglega fólkið sem flýr þangað sem velsældar er að finna en fjölmargir deyja á flóttanum til fyrirheitnalandsins eins sorglegt og það nú er. Velsældin er ekki auðsótt, hún er girt af og einangruð rétt eins og eyja norður í höfum er nýtur frjálsra fjármagnsflutninga til sín en helst ekki frá sér.
Margt kemur til þegar kemur að því að loka á flóttamenn en ekki fjármagn sem flotið getur óhindrað inn í Evrópusambandið frá Afríku og Asíu. Flóttamannasamningurinn (frá 1951) svokallaði er svo opin og ber í báða enda að ríki geta túlkað hann út og suður og eftir hentugleikum. Það hentar jaðarsvæðum innan Evrópusambandsins sem eru að fyllast af flóttafólki og þá sérstaklega illa stödd ríki fjárhagslega sem liggja við Miðjaðarhafið á mótum Asíu og Afríku. Á sama tíma loka Vesturlönd á margar vörur frá löndum Asíu og Afríku með tollabandalögum, gjöldum og sköttum ásamt gífurlegum niðurgreiðslum Evrópusambandsins m.a. til að halda sínum eigin bændum gangandi innan þeirra landamæra. Það er vel þekkt fyrirbæri og snýr m.a. að ,,fæðuöryggi“ og ,,sjúkdómavörnum“. Það eru gild rök svo langt sem þau ná og á meðan ekki er um misnotkun að ræða eða fyrirslátt.
Kallað hefur verið eftir því að fjallað sé málefnalega um Evrópusambandið. Leitast því pistlahöfundu eftir því að uppfylla þær óskir vinstri manna og kvenna á þessum vettvangi sem Eyjan er. Hins vegar forðast Evrópusinnar að benda á þær staðreyndir og þá hræsni sem á sér stað innan vébanda sambandins þegar kemur að stöðu flóttamanna og frjálsa för fólks, fjármagns, þjónustu og framleiðsluvara. Eru vinstri menn aðeins til vinstri heima hjá sér en forðast hugsjónina þegar standa á að baki fátækasta fólki veraldar? Hví gagnrýna þeir ekki stöðu flóttamanna innan ESB og ráðaleysi sambandsins í þeim málum?
Gleymum heldur ekki því góða sem gerist í þessum málaflokki á Íslandi. Við verðum að geta tekið á móti fólki og sinnt því, boðið því vinnu og aðbúnað þannig að fólk geti haldið virðingu sinni og stolti. Það höfum við oftar en ekki gert en betur má ef duga skal. Einnig verður að vera agi og fylgja aðhaldi varðandi flóttamenn. Þá skiptir samstaða ríkja innan Schengen máli en þar þarf að bæta úr og fjölga úrræðum fyrir flóttafólk og líta á það fólk sem auðlind fremur en vandamál.
Það er afar slæmt þegar vinstri menn brjótast fram í fjölmiðlum, telja sig málsvara þessa fólks og nýta þannig þennan viðkvæma málaflokk sér til framdráttar gegn betri vitund. Í sama mund geta vinstri menn ekki gagnrýnt Evrópusambandið í aðgerðaleysi þess í málefnum flóttamanna sökum trúboðastarfsins sem unnið er hér innanlands á vegum vinstri manna sjálfra og þessa ágæta sambands.
Mikið finn ég til með þessu blessaða flóttafólki, bæði innan og utan ESB.
Það á flest allt gott skilið og við getum margt af því lært.