Mánudagur 08.10.2012 - 10:05 - Rita ummæli

Áfram formannslaus Samfylking?

Prófessor Stefán Ólafsson, sérfræðingur í velferðarmálum á Íslandi, hefur nú tekið upp hanskan fyrir formannsframbjóðanda sem ekki hefur stigið fram. Stefán virðist í umfjöllun sinni taka orð Styrmis Gunnarssonar, fv. ritstjóra Morgunblaðsins, góð og gild varðandi væntanlegt framboð Katrínar Júlíusdóttur.

Í grein sinni gælir Styrmir við að Katrín muni bjóða sig fram gegn Árna en Styrmir telur Árna Pál ekki taka nægjanlega af skarið í sínum málflutningi eftir að hann bauð sig fram til forystu innan Samfylkingarinnar.

Það er vitað að Árni Páll tekur sjaldan af skarið enda var hægt að snúa honum hring eftir hring í málefnum heimilanna þannig að hann kom út úr þeim hildarleik alveg ringlaður, brunninn í framan og ráðherrastóllaus. Árna var útskúfað úr ríkisstjórn Íslands. Það er vitað að Katrín Júlíusdóttir er mjög hæf og sól hennar stígur mun hærra innan Samfylkingarinnar um þessar mundir.

Er því ekki að undra að gamli ritstjóri Morgunblaðsins hafi áhyggjur af Árna enda Árni drengur góður. Tel ég mat Styrmis rétt varðandi stöðu Árna Páls innan Samfylkingarinnar og að það er einnig líklegt að forysta Samfylkingarinnar hafi þegar valið Katrínu til forystu og skipan hennar í eitt valdamesta ráðuneyti Íslands er vitnisburður um það. Önnur góð kona var t.a.m. látin víkja fyrir þessa ungu framsæknu konu.

Nú munu þessir ágætu einstaklingar takast á í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kraganum og er spurning hvort það prófkjör verði opið eða aðeins ætlað flokksbundnu og skuldlausum félagsmönnum Samfylkingarinnar síðustu ár. Ef prófkjörið er opið er alveg hugsanlegt að Árni Páll geti smalað utanflokksmönnum, jafnvel sjálfstæðismönnum og vinstri grænum, til að knýja fram úrslit sér í hag. Aðeins með sigri í Kraganum getur Árni beitt stöðu sinni sem oddviti í kjördæminu og orðið formaður Samfylkingarinnar. Ef Árni vinnur prófkjörið má hins vegar vænta mótframboðs úr annarri átt þar sem forystan mun tefla fram sínum manni.

En Katrín hefur enn ekki stigið fram og gefið út yfirlýsingu varðandi formannsframboð. Mögulegt er að hún vilji fyrst sigra Árna Pál í prófkjöri áður en hún býður sig fram til formanns Samfylkingarinnar. Hún gæti einnig gefið út yfirlýsingu um formannsframboð rétt fyrir prófkjörið og nýtt þannig sveifluna sem af því hlýst. Það gæti verið klókt.

Það gæti verið Stefáni huggun harmi gegn, hvað sem líður formannsslag í Samfylkingunni, að formaður VG getur, hér eftir sem hingað til, sinnt því forystuhlutverki í Samfylkingunni samhliða því að vera fjöldamálaráðherra enda með eindæmum fjölhæfur maður.

Því virðist litlu máli skipta hver verður formaður Samfylkingarinnar verði vinstri stjórn áfram við völd á Íslandi eftir næstkomandi kosningar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur