Föstudagur 08.04.2016 - 18:44 - Lokað fyrir ummæli

Vantrauststillaga felld !

Nú er svo komið að vantrauststillaga óhæfrar stjórnarandstöðu var felld á Alþingi rétt í þessu. Því ber að fagna en reyndar var það nú fyrirséð. Það tókst því ekki að sannfæra þingheim að fella ætti þessa ríkisstjórn sem nú hefur tekið við stjórnartaumunum. Mikið óskaplega er maður nú ánægður með þessa framvindu.

Stjórnarskráin – Stiklur

Í 45. gr. stjórnarskrárinnar segir:

Reglulegar alþingiskosningar skulu fara fram eigi síðar en við lok kjörtímabils. Upphaf og lok kjörtímabils miðast við sama vikudag í mánuði, talið frá mánaðamótum.

Í 47. gr. segir:

Sérhver nýr þingmaður skal vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar er kosning hans hefur verið tekin gild.

Í 48. gr. segir:

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.

Vonlaus stjórnarandstaða

Pistlahöfundur hafði ekki tölu á hve margir stjórnarandstöðuþingmenn sögðust, í umræðum um þessa vita vonlausu tillögu, vera að ræða málin á þinginu fyrir hönd ,,þjóðarinnar“. Það er nú aldeilis.

Einhverjir þessara borubröttu þingmanna voru frá Samfylkingunni sem er með rétt rúm 7% fylgi í skoðanakönnunum. Aðrir með pilsnerfylgi eins og Björt framtíð og tæknilega fallnir af þingi skv. könnunum.

Hins vegar finnst mörgum að Helgi Hrafn Gunnarsson hafi komi heill fram og er líklega orðinn leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Hann er a.m.k. málefnalegur og tekur sig ekki svo hátíðlega að segjast vera þar einn og óstuddur að tala ,,fyrir hönd þjóðarinnar“ allrar. Aðrir stjórnarandstöðuþingmenn fóru út og suður og sögðust vera að ræða við okkur hin sem talsmenn ,,þjóðarinnar“ í heild sinni, hvorki meira né minna.

Lög um Panamagögnin

Svo virðist sem þetta annars sómakærasta fólk sé orðið mjög svo meðvirkt með fjölmiðlaumfjöllun sem byggir á gögnum sem ekki liggur fyrir að hafi verið ritrýnd af skattayfirvöldum á Íslandi. Hvernig væri að setja lög þess efnis að öll þessi Panamagögn skuli liggja fyrir hjá Ríkisskattsstjóra og/eða Skattrannsóknarstjóra eigi síðar en undir lok næstu viku? Ella yrðu þeir sem hylma yfir skattsvik, með því að halda þessum gögnum leyndum, sóttir til saka eftir því hvort efni stæðu til þess og gögnin endurspegluðu svik.

Þetta þarf hugsanlega ekkert að vera. Hvers vegna? Jú, ef fólk hefur gefið þetta upp til skatts og þá með lögmætum hætti þá er ekkert brotið. Ef brot er augljóst eru ákvæði um að geta samið og/eða refsa viðkomandi lögum samkvæmt.

Eru Panamagögnin kúgunartæki?

Ef þetta er ekki gert má reikna með að menn gerðu þetta sér að féþúfu, gætu hótað mönnum sbr. þegar tvær dömur reyndu (ath. hér á Íslandi!) að kúga fé út úr fyrrverandi forsætisráðherra. Er hugsanlegt að slíkt framferði sé nú í gangi út í þjóðfélaginu?

Hvernig getur RÚV staðreynt að þessi gögn innihaldi glæp? Hvernig getur RÚV staðreynt að gögnin hafi verið fengin með lögmætum hætti?

Útkall eða kúgunarárás?

Það er búið að kalla út á Austurvöll mikinn skara af fullfrísku fólki og jafnvel gengið svo langt að siga börnum á Alþingi með fokkmerki eins og um e.k. Talibanahreyfingu sé að ræða.

Þjóðin tekur sinn tíma og fær að kjósa

Nú reynir á. Væri ekki ráð að ,,þjóðin“ fari að taka aðeins í lurginn á þessu liði í næstu kosningum? Rétt er að þjóðin bendi þingmönnum á að í gildi er stjórnarskrá og hana beri að virða eins og stjórnarandstaðan sjálf hefur lofað sbr. framangreint ákvæði stjórnarskrárinnar þess efnis og unnið ,,drengskaparheit“ að henni.

Glæpur og refsing

Hér er ekki séð að nokkur maður hafi framið glæp og enginn hefur lagt á milljarðahundruði á þjóðina með vangá. Hins vegar brutu ráðherrar síðustu ríkisstjórnar og núverandi þingmenn lög, þeir fóru á skjön við skipulagsmál, hertu á sultaról barnafjölskyldna, lögðu gengistryggð lán á herðar heimilum í landinu og vildu svo verða endurkjörin eftir það. Það gekk ekki en þá er ætlunin að ríða inn í vé Alþingis og rjúfa þar friðinn hvað sem það kostar.

Refsingin felst í útkomu kosninga.

Það stafar ógn af tilburðum stjórnarandstöðunnar. Hún er ekki trúverðug.

Þjóðin á að reka slíkt lið heim og eftir atvikum aðra sem henni mislíkar. Það kemur að skuldadögum í því efni.

Um að gera að fresta kosningum þar til kjörtímabiliðið hefur runnið sitt skeið á enda og ljúka þeim verkum sem skipta máli tefji stjórnarandstaðan framgang mála á þinginu.

 

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur