Einn heitur stuðningsmaður Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu, Pawel Bartoszek, birti, sem fastur penni á visir.is, pistil undir heitinu 300 borgarlínur frá aldamótum. Þar telur hann upp borgarlínur sem aðrir en íslenskir skattgreiðendur hafa greitt fyrir, línur sem má finna um víða veröld.
14 kílómetra löng borgarlína þeirra í Edinborg
Pistlahöfundur ákvað að grípa niður í lista þessara 300 borgarlínuverkefna sem Pawel taldi upp sem n.k. fyrirmyndarverkefni á heimsvísu. Eitt af því var borgarlínan í Edinborg í Skotlandi sem tekin var í notkun 2014 eftir umtalsverðar tafir og margvíslegan ágreining og flækjustig
Pawel taldi bara upp borgarlínur. Margir deildu þessum pistli blindandi og töldu að þarna værið svarið komið.
Hann Pawel okkar segir alla vera að gera’sona og því eigum við líka bara að gera’sona.
Þessir sömu aðilar verða fyrstir til að fara upp á afturfærturna þegar þetta fer í vaskinn.
Fólk veit ekkert hvað þetta muni kosta
Pawel, eins ágætur og hann er, fór ekki í að kanna hvort hugsanlega eitthvað af þessum 300 verkefnum eða þorri þeirra hafi farið út um þúfur eða orðið byrði á skattgreiðendum. Það virtist algjört aukaatriði hjá honum rétt eins og virðist hjá flestum þeim sem mæra Borgarlínuna um þessar mundir. Margir hafa jafnvel ekki einu sinni hvolpavit á fjármálum og get ég minnst á ófáa stjórnmálamenn þar sem svo virðist háttað til.
Hér er enginn að mótmæla samgöngubótum og almenningsvögnum til að greiða götur fólks. Hér er aðeins verið að benda á hvort þetta sé tímabært fyrir lítið samfélag, litla borg. Það væri hugsanlegt að eitthvað annað ætti að ganga fyrir í samgöngumálum áður en það kemur að Borgarlínunni blessaðri.
Tölurnar tala sínu máli og reynslan
Í þessu efni borgar sig að láta tölurnar tala sínu máli en þessi borgarlína í Edinborg átti alls ekki að vera flókin en varð að verkefni sem kostaði um 8 milljarða fyrir hverja 1000 metra. Það er þekkt matsaðferð að nota önnur verkefni til samanburðar á því sem væntanlega á að fara í.
Borgarlínan í Edinborg er 14 kílómetra löng og lauk eftir gífurlegar tafir og kostnað sem fór úr böndunum.
Varðandi Borgarlínuna hinnar íslensku hér að framan er aðeins getið þess sem lagt hefur verið á borð okkar skattgreiðenda, þ.e. að Borgarlínan muni kosta um 70 milljarða. Þetta fer vissulega eftir því hvaða áfangar verða teknir en við vitum að í upphafi skal endinn skoða. Því er það gert hér og reynt að líta á heildarmyndina.
Hljómar eins en aðeins á skosku
Stjórnmálamenn í Skotlandi hljómuðu ekkert ósvipað og okkar eigin nú í dag. Borgarlínan í Edinborg átti aðeins að kosta um 54 milljarða enda aðeins 14 kílómetra löng og bráðnauðsynleg. Þar eru þó búandi um hálf milljón íbúa og ef litið er á stærra svæði búa þar rúmlega milljón íbúar. Hér á landi eru aðeins um fjórðungur úr milljón og tæplega það sem nýta á okkar Borgarlínu og standa undir henni.
Aðeins krossinn í Borgarínunni hér á höfuðborgarsvæðinu, í austur vestur og norður suður, er um 23 kílómetrar og talið að Borgarlínan fullbyggð verði um tvöfalt ef ekki þrefalt það og er ekki einu sinni búið að koma stoppuðstöðvum fyrir í Mosfellsbæ eða á Seltjarnarnesi. Svo er skattborgurum þessara sveitarfélaga gert að borga beint í gegnum sinn sveitasjóð eða óbeint með loforðum núverandi ríkisstjórnar í stjórnarsáttmála hennar.
Mun landsbyggðin líklega einnig vera látin dekka rest og eitthvað að auki ef þanþol skuldsettra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu brestur. Þið munið örugglega einhver ykkar hvað lögfræðingur Samtaka íslenskra sveitarfélaga sagði þegar Reykjanesbær var til umfjöllunar 2015 og þegar að Álftanes var yfirtekið af Garðabæ eftir að hafa byggt eina sundlaug:
Sveitarfélög verða ekki gjaldþrota
Það er vegna þess að ríkið, við hin um allt land, erum látin borga. Sjáið bara úthlutanir úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um þessar mundir og síðustu misseri.
Hver kom þessu verkefni eiginlega inn í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar?
Nú er Borgarlínan að verða að Strætó
Nýlega hafa stuðningsmenn þessa verkefnis komið fram og sagt Borgarlínuna í raun vera Strætó. Hvers vegna þarf Borgarlínu, sem sögð er vera Strætó, ef við erum með Strætó? Hvers vegna ekki að bæta vegasamgöngur og koma skipulagi þannig fyrir að hið opinbera dreifist aðeins um höfuðborgarsvæðið til að létta af álagi svo Strætó komist víðar? Ætti það ekki að vera hverrar krónu virði að forgangsraða með þessum hætti?
Tölurnar tala sínu máli.