Mánudagur 24.06.2013 - 22:51 - FB ummæli ()

Þakkir til útvarpsstjóra

 

Það er margt sem angrar mann þegar aldurinn færist yfir. Venjur og margs konar ósiðir sem maður hefur tamið sér á liðnu æviskeiði, þvælast nú allt i einu fyrir manni.  Þegar maður finnur að  líkamlegur þróttur dvínar reynir maður að bæta það upp á örum sviðum. Um leið verður maður smámunasamur og óþolinmóður. Á móti kemur að langt líf veitir yfirsýn yfir áratugi. Maður hefur samanburð. Einn var sá ósiður sem ég hafði frá blautu barnsbeini vanið mig á, án þess að gera mér grein fyrir afleiðingunum. Ég hlustaði á Gömlu gufuna í tíma og ótíma. Hvort heldur sem ég var að fara í eða úr vinnu, um helgar eða í frístundum.  Á mínum yngri árum var ekki um neina aðra stöð að ræða, enda dugði  Gufan vel. Hún stóð fyrir metnaðarfullri menningardagskrá. Þar lærðum við að meta vandaða og oftast kröfuharða tónlist; klassíska tónlist, óperu tónlist,þjóðlaga músík o.s.frv. Þessu var laumið inn að eyrum okkar án þess að búa til sérstaka þætti, sem auðvelt var að forðast, ef maður var hræddur við eitthvað sem kynni að vera þvælið undir tönn, eða of menningarlegt, sem aldrei hafa þótt meðmæli með útvarpsþáttum. Þá voru  dægurþættirnir í svokölluðum óskalögum og efni þeirra þannig ekki á ábyrgð dagskrárgerðarfólksins. Nú hefur þessu verið snúið við. Dægurtónlist orðin meginstef, vandaðri tónli úthýst í sérþáttum.

Sá fasti þáttur sem batt mig fastast við Gufuna og gerði  hana ávanabindandi var morgunþátturinn milli  átta og níu. Þessi þáttur færði okkur ótrúlega fjölbreytta tónlist frá flestum heimshornum, tímum og stefnum. Þetta, ásamt öðru vönduðu tónefni Gömlu gufunnar, var hinn sanni Tónlistarháskóli Íslendinga. Í seinni tíð voru fréttaskýringar eða stutt viðtöl fléttuð inn á milli. En tónlistin var fjölbreytt , metnaðarfull og menntandi. Þeir sem stjórnuðu þessum þáttum var úrvalslið ríkisútvarpsins, sem krydduðu þá með eigin fróðleik og skemmtan. Morgunþátturinn var orðin mér eins konar fíkn. Síðan var þessu breytt. Öll viðtöl og fróðleikur morgunútvarpsins  fóru á popp stöðina, rás tvö, en menningarþætti morgunútvarpsins breytt í einhæfan, óskilgreindan músíkþátt með einhæfa sí endurtekna íslenska  og ameríska dægurtónlist. Hvað átti ég nú að gera ? Á hvað átti ég nú að hlusta ? Allar aðrar útvarpsstöðvar spiluðu  eingöngu iðnaðartónlist, sem gerði  mig þunglyndan. Ég greip til þess ráðs, sem mér hafði síst órað fyrir. Ég hætti að hlusta á morgunútvarpið og opnaði aðeins fyrir fréttirnar og einstaka sérþætti síðar um daginn. Sextíu ára vani var aflagður. Í fyrstu glataði ég daglegu viðmiði og varð hálf vankaður. Síðan létti mér. Ég var frelsaður af þeirri  íþyngjandi fíkn sem Gamla gufan hafði verið mér um áratuga skeið. Ég var orðinn frjáls maður.

Ég er því þakklátur útvarpsstjóra fyrir að hafa losað mig af þessum klafa. Það ætti að vera göfugt markmið allra forstöðumanna útvarps- og sjónvarpsstöðva að losa okkur trygga og ánetjaða hlustendur og áhorfendur undan áráttunni að vera alltaf með eyrað eða augun límd við stöðina. Það er líka hárréttur menningarskilningur, að skemmtiefni á ekki að gera neinar kröfur til hlustenda. Útvarpsefni, sem sent er út á tímum þegar allir hlusta, á ekki að reyna að rembast við að stækka skynjunarhæfni eða veita skemmtun, sem býr með manni út daginn. Það á að vera auðvelt til hlustunar og létt að melta. Maður á ekki að endurleika tónlist úr morgunútvarpi í huganum allan daginn, heldur gleyma henni strax og helst til frambúðar.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur