Miðvikudagur 25.04.2018 - 18:59 - FB ummæli ()

Hnattvæðing, áhrif frjálshyggjunnar og lýðræðið

 

Það dylst fáum sem um fjalla, að vestrænt lýðræði og viðtekin frjálslynd stjórnmálahugsun eiga í vök að verjast.Ógnarjafnvægi kaldastríðsins og niðurmúruð landamæri höfðu fest vestræna, frjálslynda heimsmynd í sessi, hérna megin múrsins. Pólarnir tveir sem allt snerist um hurfu. Ný söguleg hreyfiöfl fóru á stjá. Heimsmyndin ruglaðist, þjóðernishyggja, hryðjuverk og stríð komust á dagskrá. Sterkar popúliskar hreyfingar beggja vegna Atlantshafs heimta nýja múra og varin landamæri. Í stað frjálslynds lýðræðis er hrópað á ófrjálslynda stjórnarhætti. Þessi framvinda hefur ekki farið framhjá okkur Íslendingum, þótt nokkuð  með öðrum hætti en á meginlandi álfunnar, þar sem boðaföll flóttamanna- og búsetuflutninga hafa ekki skollið á hér, og ýtt undir enn róttækara lýðskrum en þó hefur gert vart við sig. Megin drættir eru þó  sambærilegir, enda erum við grein af sama meiði. Því er nauðsynlegt að átta sig á þeim straumum sem móta nokkuð ástandið í álfunni. Hver veit nema þeir eigi eftir að banka uppá hjá okkur síðar. Rekja má upphaf hnignunar frjálslyndrar lýðræðishugsunar allt aftur til áttunda áratugs liðinnar aldar, þegar nýfrjálshyggjan ruddi sér til rúms, sem enn eitt afbrigði  hins kapítalíska hagkerfis. Frjókornið var til staðar í viðskiptalífinu en háskólasamfélagið var fljótt að taka við sér og útbreiða fagnaðarerindið. Með tilkomu nýfrjálshyggjunnar uxu lítt skattlagðar fjármagnstekjur verulega og þar með ójöfnuður bæði auðs, tekna og tækifæra innan vestrænna samfélaga. Þegar við bættist glæfraleg spákaupmennska með óræða fjármagnspakka margfaldaði misvægið enn frekar. Samfélagið heldur fjármagns- og auðlindatekjum í verndandi sóttkví. Auðvitað er það fáránlegt, að skatthlutfall af vinnutekjum sé um helmingi  hærra en af fjármagns- og auðlindatekjum. Þegar nýfrjálshyggjan reið  í garð voru fáar ef nokkrar umferðar- eða eftirlitsreglur til staðar á mörkuðunum. Öflugasti boðskapur nýfrjálshyggjunnar var jú, að hafa allt sem frjálsast og halda hrammi ríkisafskipta sem lengst í burtu. Markaðurinn átti að sjá um að skipuleggja og stjórna hnattrænum hagstraumum, þar með talið fjármagnsflæðinu.  Það reyndist villandi vafurlogi.

Tímar umbreytinga

Í samræmi við eðli nýfrjálshyggjunnar afsöluðu þjóðríki heimsins sér rétti sínum til að hafa eftirlit með og skapa heilbrigða umgerð um alþjóðlega fjármagnsmarkaði. Þetta hnattvæddi fjármálamarkaðina enn frekar. Stjarnfræðilega háar upphæðir fjármuna hringsóluðu um hnöttinn með leifturhraða. Forræði dollarans sem heimsgjaldmiðill gerði bandarískum auðfélögum auðvelt að selja ógrynni skuldaviðurkenninga út um allt. Bretar stofnuðu aflands- og skattaskjól á flest öllum eylendum sínum,  til að koma skjótfengum ofsagróða í var og í framhaldi, til ávöxtunar í London. Íslenskir fjárfestar og bankar nýttu sér þetta samviskusamlega og hulduhrútuðust með fé sitt í pakkaferðum til Tortóla. Eftir fall Berlínarmúrsins og hrun Sovétríkjanna 1989/91 jókst enn hraði  óbeislaðrar hnattvæðingar, því engin ógn stafaði lengur af ríkissósíalisma, og nýfrjáls lönd opnuðu faðm sinn fyrir erlendu fjármagni. Á hliðarspori við þetta brast internet-byltingin á, þar sem hver og einn tölvunotandi gat breyst í fréttastofu, sem leiddi m.a. til þess að hefðbundin fjölmiðlun glataði forræði sínu við að útskýra og túlka tíðarandann og greina samfélagslega atburði. Fylgifiskur valdatöku samfélagsmiðlanna var sá, að mörkin milli raunupplýsinga og falsupplýsinga máðust út. Það síðarnefnda varð að gróðrarstíu herskárs lýðskrums (popúlisma), sem hafði fortíðina að leiðarljósi. Samhliða þessu fór ímyndað sjálfstýrikerfi hnattvæddra fjármagnsmarkaða úr skorðum. Þeir urðu enn viðkvæmari fyrir umliggjandi óvissu og óstöðugleika  sem, vegna skorts á lýðræðislegu aðhaldi, leiddi til óhagkvæmis og stigmagnandi áhættusamrar spákaupmennsku. Hrun hins hnattvædda fjármálakerfisins var skammt undan. Hér heima var áhuga- og/eða getuleysi stjórnvalda til að semja reglur og koma á fót virku eftirliti augljóst. Stjórnvöld gátu  vandræðalítið komið í veg fyrir stofnun Icesave útbúanna  2006 og 2008. Það var ekki gert, þrátt fyrir alvarlegar aðvaranir að utan. Stigmögnun Icesave málsins hafði sterkari pólitískar rætur en fjármálalegar. Ekki endilega glæsilegasta tímabil lýðveldissögunnar. (Framh.)

Hnattvæðing  andspænis þjóðvæðingu

Þjóðir komu misilla undan hruninu. Þrjú eylönd Evrópu, gróflega fullyrt, urðu harðast úti. Ísland, Írland, og Kýpur, en einnig  Grikkland og Portúgal. Verst varð ástandið á Íslandi, þökk sé krónunni og útbólgnu fjármálakerfi, en einnig í Grikklandi, með sitt ónýta skattkerfi, fölsuðu hagtölur, útbreiddu spillingu og ofurskuldir. Þrátt fyrir blessun ferðamannanna eigum við enn nokkuð langt í land með að ná okkur. En hnattvæðingin gerðist ekki bara á fjármálasviðinu, heldur einnig á sviði vöruframleiðslu og þjónustu þar sem móttökulöndin  voru í Austurlöndum fjær og í Afríka. Fyrir mörg þessara landa var hnattvæðingin hvalreki sem efldi þau. Okkar minnsti bróðir bjó að vísu langt í burtu og var okkur framandi en þetta bætti hag hans, þrátt fyrir ómennskar vinnuaðstæður og lág laun. Héðan fluttust bæði Hampiðjan og ullarvinnsla og mikill samdráttur hjá Prentsmiðjunni Odda er angi af þessum meiði. En þar sem framleiðsla og atvinna  hvarf, og frumkvæði að nýrri atvinnustarfsemi var ekki til staðar, misstu margir stóran spón úr aski sínum. Þessu fólki fannst sem það hefði  lent á úthafsskeri þangað sem bylgjur hnattvæðingar höfðu skolað því. Enginn kastaði björgunarhring á skerið. En þar með er ekki allt sagt. Alþjóðlega fjármálakerfið var orðið risavaxið,voldugt og örlagaríkt. Arðurinn af starfsemi þess rann aðeins til fámenns hóps þeirra ríkustu þ.e. eigandanna. Lægri settar stéttir eða millistéttir náðu ekki að bæta hlut sinn. Þegar vextir voru síðan lækkaðir ofan í núll, töpuðu þessir síðasttöldu þjóðfélagshópur ávexti af áralögum sparnaði sínum.  Andóf gegn og óánægja með þessa þróun var skiljanleg. Þarna brugðust flestar ríkisstjórnir Vesturlanda. Alþjóðavæðingin  skilur eftir sig bæði lönd og landshluta sem urðu fyrir skakkaföllum en líka þjóðir sem hagnast og dafna sbr. Kínverja.

Lýðskrum og þjóðleg hagkerfi

Til viðbótar þessu efnahagslega misgengi hefur straumur flóttamanna úr stríðum og efnahagsþrengingum skollið á Evrópuríkin. Þetta hefur magnað upp hræðslu við að framandi menning og trúarbrögð hinna ókunnugu  muni breyta eða yfirtaka heimamenninguna. Fólki fannst sem samsömun (identitet) við eigin sögu og þjóðmenningu væri í hættu. Sennilega hefði verið affarasælla að fara með meiri gát, því lýðskrumarar notfærðu sér  aðstæðurnar  með því að ala á tortryggni og hatri. Þeim hefur víða orðið ágengt þó mest í afskekktum landshlutum, þar sem menntunarstig er lágt, gagnrýnin hugsun litin hornauga og atvinnuvegir orðnir laskaðir eða lítt samkeppnishæfir. Ráð þeirra til að bregðast við og snúa vörn í sókn, er að loka landamærum, hagræða gengi, setja á innflutningshindranir og hafna alþjóðlegum samningum. Það er þó skammgóður vermir. Efnahagsleg þjóðernisstefna dafnar illa í tæknivæddum, hnattrænum kapítalisma. Hún er rangt svar við áskorunum og afleiðingum hnattvæðingarinnar, því markaðshindranir skaða alla og draga að lokum mest úr samkeppnishæfni þess lands sem innleiðir þær. Þessi viðbrögð eru ættuð úr vopnabúri  fortíðar. Sams konar slagorð og „America First“ er þekkt úr hagsögunni sem „beggar my neighbour policy“ og var einn af orsakavöldum heimstyrjaldarinnar. Nýkapítalíska fjármálakerfið er ósjálfbært og óstöðugt. Of seint er að takmarka  það við landamæri þjóðríkja. En trauðla mun það ná að róast að marki á meðan stóru alþjóðlegu bankarnir geta treyst því,ef illa fer, að fá aðstoð frá ríkinu til að forða þeim frá gjaldþroti.

Takmarkað framsal á fullveldi og ESB

Þrátt fyrir vanmátt þjóðríkjanna að glíma við samtvinnaðar flækjur hnattvæddra markaða og strauma flóttamanna, þá má ekki kenna þjóðernishyggjunni um allt það neikvæða sem flæðir yfir hinn vestræna heim um þessar mundir. Þjóðernishyggjan hefur ekki náð pólitískum undirtökum í álfunni. Hún skemmir vissulega út frá sér, en ræður ekki ferð. Evrópusambandið er bólvirkið gegn þjóðernisrembingi og hamlar gegn því að þjóðir álfunnar fari aftur að troða illsakir hver við aðra. Þetta  merkilega ESB-samstarf hefur dregið vígtönnurnar úr stórbokkaskap og hroka þjóðríkjanna. Stórveldi Evrópu , sem áður beittu smærri þjóðir  ofríki, eru nú bundin á bás gagnkvæmra, skuldbindandi samninga.  Meðlimaríki ESB eru svokölluð póstklassísk þjóðríki, sem með  velyfirvegaða eigin hagsmuni að leiðarljósi, hafa ákveðið að deila einum hluta fullveldis síns með öðrum meðlimaríkjum. Annan hluta þess hafa  þau afhent yfir- eða samþjóðlegum stofnunum  s.s. Framkvæmdastjórn ESB og Evrópska Seðlabankanum.  En stærsti hluti fullveldis þeirra er þó áfram  heima í þjóðþingum hvers ríkis. Sá pólitíski vettvangur þessara samtengdu þjóða þar sem lýðræðið er skýrast eru lýðræðislega kosin þjóðþing ,sem ein lögmæta ríkisstjórnir. Aðild að ESB breytir þessu ekki. Þrátt fyrir marga ófullkomleika og misbresti, þá eru þjóðríkin enn þær stofnanir sem raungera og standa vörð um grunnreglur réttarríkisins, lýðræðisins og að mestu leyti því sem við köllum  velferðarríki.  Víða blása þeir vindar sem vilja afbaka og umsnúa þessum grunnreglum hins vestræna þjóðríkis.  Í tveimur ESB löndum Ungverjalendi og Póllandi hefur þeim orðið  nokkuð ágengt. (Framh.)

Þjóðræði og annars konar lýðræði

Umræðan um vestræna  þjóðríkið snýst einkum um tvenns konar sjónarmið. Innan Evrópu er í fyrsta lagi um að ræða viðhorf, sem lengst eru til hægri og vilja færa fullveldi  þjóðríkisins aftur til þess tíma, þegar ekkert framsal var á fullveldisþáttum til yfirþjóðlegra stofnana. Stuðningsfólk þeirra vill ganga úr ESB og endurheimta gamla þjóðveldið án nokkurra samnningsbundinna takmarkana á fullveldi þess. Hér heima heyrast raddir sem harma fullveldisskerðingu, sem þeir segja afleiðingu EES samningsins og hvetja til þess að honum verði sagt upp. Innan Bandaríkjanna eru stjórnmálaöfl sem telja ótæka þá takmörkun fullveldis sem felst í skuldbindandi alþjóðlegum samningum og krefjast uppsagnar þeirra samninga sem takmarka fullt forræði ríkisins til sjálfstæðra athafna á alþjóðavettvangi, óháð þeim afleiðingum sem það kann að hafa. Þarna eru róttækir lýðskrumarar áberandi en þjóðernissinnar  úr öðrum áttum hafa slegist í för með þeim.                                                                                                                  Í öðru lagi eru þeir sem vilja breyta einni af stoðun vestræns þjóðríkis í það horf að koma sterkari pólitískum sjónarmiðum  til áhrifa innan dóms- og fjölmiðlakerfisins. Þeir  vilja  láta ríkisstjórnir  hafa afgerandi áhrif á skipun dómara. Það dregur úr sjálfstæði þeirra og veikir þrískiptingu valdsins. Þessi tilhneiging er vel þekkt hér heima og hefur lengi viðgengist. Svipaðrar ættar er sú stefna sem temja vill fjölmiðla til hlýðni og undirgefni. Þetta leiðir að lokum til þess að lýðræðið verðu einnar víddar.

Hvers konar lýðræði  ?

Einn þeirra pólitísku vinda sem blása nú um vestræn lönd eru breyttar hugmyndir um sjálft lýðræðið. Þar er á ferðinni  stefna sem vill smækka  sjálft lýðræðishugtakið niður í hreina meirihlutareglu. Sporgöngumenn þessarar stefnu vilja taka upp beint (plebizitert) lýðræði. Þeir telja það æðra og ósviknara en þingbundið fulltrúalýðræði. Hér heima hefur Styrmir Gunnarsson m.a. verið sterkur talsmaður þessara sjónarmiða. Fengi þetta byr undir vængi þarf  að gefa því gaum, því hér er á ferðinni varhugaverð einföldum á flóknum veruleika. Til að skýra betur og undirstrika innri kjarna vestræns lýðræðis, verðum við að átta okkur á því, að það  samanstendur ekki bara af frjálsri tjáningu meirihlutaviljans sem jarteikn um  fullveldi þjóðar. Vestrænt frjálslynt lýðræði  er stjórnarfar sem  fléttað er saman úr, og skilyrt er af margsháttar samfélagslegum, trúarlegum, menningarlegum, stofnanalegum og pólitískumleg  breytum og festum.  Þetta er flóknasta og vandasamasta stjórnarfyrirkomulag sem enn hefur verið úthugsað. Það verður aðeins að veruleika í þeim ríkjum, þar sem fjölþætt borgarsamfélag, margbreytni  skoðana og pólitískur þroski haldast í hendur. Svona samfélag á að auka líkur á því, að saman fari opin umræða en ekki síður friðsamleg niðurstaða úr skoðanaskiptum andstæðra hugmynda og hagsmuna. Réttarríkið og frjálsir fjölmiðlar eru einhverir mikilvægustu þættir vestræns lýðræðis, ásamt því að mannréttindi, einnig minnihluta hópa, séu höfð í hávegum. Valddreifing  þarf að vera til staðar og dómstólar að vera  óháðir. Þá verður frjálst og óháð umboð þjóðkjörinna fulltrúa að vera tryggt og virt sem ein af grunnreglum þingbundins lýðræðis. Því miður er of oft brotalöm á því. Hagamunatengsl margra íslenskra þingmanna eru augljós. Þetta sem upp hefur verið talið eru vissulega flóknar og alls ekki sjálfgefnar aðstæður sem  ekki eru víða til staðar. Ef við lítum í eigin barm þá eru enn brotalamir á okkar íslenska þingbundna lýðræði og eflaust langur tími í að við fullklárum það. Má þar m.a. nefna ójafnt vægi atkvæða eftir búsetu og tíð pólitísk inngrip í skipan dómara. Útflutningur vestræns lýðræðis til nýfrjálsra landa, sem eiga langan veg ófarinn að flókinni vestrænni samfélagsgerð, hefur oftast afskræmst og/eða mistekist.

Beint lýðræði

Andstætt fulltrúalýðræðinu og forsendum, sem lýst var hér að framan, fóstra  ýmsir með sér þá sannfæringu að svokallað beint lýðræði sé fulltrúa lýðræðinu fremra. Það fyrrnefnda sýni  réttari þjóðarvilja. Þar eru meirihlutákvarðanir teknar með ill afturkræfu þjóðaratkvæði. Þetta form beinnar ákvarðanatöku má sannlega nota við svæðisbundnar kosningar s.s. á sveitarstjórnarstigi. Það er einnig nothæft sem takmörkuð viðbót við fulltrúalýðræðið, en getur aldrei komi í stað þess. Svo kallað beint lýðræði er heldur ekkert sannari mynd af lýðræðinu en fulltrúalýðræðið. Þingbundnar meirihlutaákvarðanir er hægt að fella úr gildi. Ríkisstjórnir sem eru myndaðar með atkvæðagreiðslu í þinginu má leysa frá störfum, ef meirihluti þingmanna eða kjósenda vill. Það er hins vegar miklu mun örðugara að   breyta niðurstöðum úr þjóðararkvæðagreiðslum. Formælendur tíðs þjóðaratkvæðis ganga einnig  almennt út frá lítilli þátttöku almennings. Þó er það svo, að því lægri sem þátttakan er, þeim mun veikara er lögmæti niðurstöðunnar. Þessa reynslu þekkjum við Íslendingar. Í þjóðaratkvæðagreiðslum koma oftar þeir til leiks, sem eru sammála um það eitt að segja nei. Þeir eru síðar hvorki viljugir né hafa hæfileika til áframhaldandi samstarfs á pólitískum vettvangi. Þjóðaratkvæði bíður í reynd aðeins uppá tvo kosti: Já eða Nei.

 

Pólitískur menningarþroski

Þeir sem þekkja störf þjóðþinga vita að frumvörp taka margs háttar breytingum  í meðförum þings og þingnefnda. Frumvörp bjóða uppá málamiðlanir og endurbætur. Sjónarmið  margra samfélagshópa verða hluti af nýjum lögum. Draga má þetta saman í þeirri niðurstöðu að þjóðaratkvæði sé réttmætt við breytingar á stjórnarskrá eða ákvörðunum sem eru ígildi stjórnarskrárbreytinga. Þýskur lögspekingur hefur sagt , að starfsemi  nútíma veraldlegs vestræns lýðræðisríkis  sé háð skilyrðum sem það sjálft getur ekki tryggt. Það er rétt. Skilyrðin eru þróað hagkerfi, pólitískur menningarþroski  og meðvituð reynsla einnar þjóðar í víðasta skilningi.  Fyrrnefnd kreppa vestræns lýðræðis ber þess því miður einnig merki, að mörgum fulltrúum þess sé ekki fyllilega ljóst hverjar forsendur fulltrúalýðræðis okkar séu. Þeir eru því ekki í aðstöðu til að meta að verðleikum árangur þess, og geta því trauðla verið sverð þess og skjöldur. Vegna þessarar vanþekkingar hneigjast, ekki bara pópúlistar, heldur  einnig reyndir lýðræðissinnar  til að sjá kjarna  lýðræðisins í beinum meirihluta ákvörðunum.  Á  alþingi hefur annars konar meirihlutaátrúnaður löngum verið áberandi. Lög eru keyrð í gegn án alvarlegra tilrauna til að ná breiðari samstöðu. Of sjaldan er leitað eftir friðsamri niðurstöðu andstæðra skoðana. Sérhagsmunir stríðast á við almannahagsmuni.

Áður birt á Kjarnanum

 

 

Flokkar: Óflokkað

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur