Föstudagur 31.01.2014 - 13:00 - FB ummæli ()

Auðlindir og afgjöld

Einhversstaðar las ég að löglærðir hefðu verið kallaðir fyrir nefnd alþingis og spurðir hvort þeir teldu veiðileyfagjaldið vera skatt eða ekki.Miklar deilur hafa lengi verið um þetta gjald. Við lok síðasta kjörtímabils tókst að lögfesta það.Brýnasta forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar var siðan að afnema gjaldið að mestu.En hvað gerir þetta gjald að svo miklu deilumáli,umfram venjulega skattlagningu? Svarið liggur í eðli svona gjalda.Leyfisgjöld  eins og lóðaleiga,húsaleiga,veiðigjöld í ám, olíuvinnsluleyfi, o.s.frv. eru afgjöld fyrir afnot af skilgreindri eign.Þau taka ekkert tillit til efnahags þess sem tekur viðkomandi eign á leigu eða biður um afnota af henni.Upphæð húsaleigu er ekki ákveðin með tilliti til  tekna leigjandans. Ekki fæst afsláttur af laxveiðileigu þótt ekkert veiðist.Þessi leyfisgjöld eru greiðsla fyrir afnot af eign,óháð afkomu eða afrakstri.Ef ekkert veiðist í laxveiðiá er líklegt að erfiðara verði að selja leyfin næsta tímabil.Þau verða þó seint tengd skattaframtölum veiðimanna,enda ekki líklegt að mikið fengist fyrir þau,ef svo yrði gert.Skyldi nokkrum heilvita stjórnmálamanni detta í hug að tengja afgjald fyrir hugsanlega olíuvinnslu,afkomu þeirra fyrirtækja,sem leyfin fá ? Veiðleyfagjald á útgerðir er sama eðlis.Ef gjaldið verður tengt afkomu, eins og ríkisstjórnin réttlætti lækkun gjaldsins,er ekki  verið að greiða fyrir afnot, heldur skattleggja afkomu. Það er líka ljóst að slík tenging mun hygla þeim sem standa sig illa í rekstri eða eru skuldsettir e.t.v. vegna annars konar starfsemi.Þeir þyrftu ekki að borga fyrir afnotin, meðan hinir sem stunda útgerð af útsjónasemi og atorku og telja fram til skatts án undanskota eða bókhaldskúnsta munu greiða fyrir afnotin. Skussar og svindlarar slyppu.

Aflamarkskerfið

Hvað sem segja má um síðustu ríkisstjórnarár Halldórs Ásgrímssonar,þá hafði hann, á níunda áratug síðustu aldar,forystu um að lögbinda aflamarkskerfið sem megin aðferð við stjórn fiskveiða.Þessi lög mörkuðu ekki bara tímamót við stjórn efnahagsmála þjóðarinnar,heldur voru þau lykill að bættri afkomu fiskveiða. Aflamarkskerfið, ásamt fastsettu heildaraflamagni, hafði tvö meginstef: Annarsvegar að aðlaga veiðigetu að heimiluðu aflamagni, hins vegar að auðvelda samrunna aflaheimilda með frjálsu framsali. Án þessara aðgerða hefðu flest allar útgerðir í landinu strandað í því brimróti sem gekk yfir, þegar aflamagn í þorski var skorið niður úr 380 í 165 þús.t. Það var hins vegar fæðingargalli á kerfinu að ekki skyldi hafa verið ákveðið að gjaldtaka fylgdi  úthlutun veiðileyfa, því úthlutunin var verðmæti í sjálfu sér.Enda nýttu margir útgerðaraðilar sér þetta gat og seldu veiðiréttindin. Margir vestfirskir útgerðamenn fetuðu þessa leið í trausti þess að kerfinu yrði breytt.Með tímanum leiddi kerfið til samþjöppunar í útgerð og stórbætti afkomu atvinnugreinarinnar.Með kvótakerfinu varð auðlindin sjálfbær og útgerðirnar aflögufærar. Það var almannavaldið – ekki útgerðarmenn –sem gerðu sjósókn svona arðbæra og tryggði handhöfum veiðileyfa einkarétt til veiða ákveðins aflamagns.

Auðlindir og almenningur

Það hefur oft reynst þjóðum erfitt að nýta auðlindir sínar í almannaþágu.Þær eru uppspretta mikils auðs og handhafar þeirra leggja allt í sölurnar til að halda þessum auði fyrir sig.Herferð útgerðarmanna gegn veiðileyfagjaldinu á síðasta kjörtímabili var einstök á heimsvísu,svo notuð sé hófstillt viðmiðun. Fiskiauðlindin, þökk sé aflamarkskerfinu,skapar mikil auðæfi og mun,að óbreyttu afgjaldskerfi,færa handhöfum veiðleyfa ofsagróða.  Útgerðarmenn sjálfir hafa til langs tíma tekið veiðleyfagjald af þeim útgerðum,sem þeir leigja veiðiheimildir til,óháð afkomu þeirra. Þeim finnst það eðlilegt. Það fyrirkomulag sem var á auðlindagjaldinu var umdeilt og vissulega má hugsa sér það á annan veg.Kannski er réttlætanlegt að skipta botnfiskveiðum í tvo gjaldflokka. Annars vegar gjald á þá sem sótt geta innan allrar landhelginnar.Hins vegar lægra gjald á þá sem,vegna skipakosts, eru  bundnir grunnsævi,og hafa því takmarkaðri afnot af auðlindinni.Þetta kynni að jafna aðstöðumun útgerðanna. Auðlindarík lönd eins og sum arabalönd,eru kennslubókardæmi um samfélög, þar sem afrakstur af auðlindunum er settur í hendur handvalinna auðmanna,en almenningur háður mylsnugjöfum ríkra valdhafa. Erum við að nálgast þess konar fyrirkomulag hérlendis ? Viljum við hafa það þannig á Íslandi ?

 

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur