Þriðjudagur 23.06.2015 - 10:21 - FB ummæli ()

Offramleiðsla lambakjöts er böl

 

„ Í raun má segja að umgjörðin í kringum sauðfjárræktina sé að mörgu leyti heilbrigð og mun heilbrigðari en t.d. í mjólkurframleiðslu.“ Þannig segir í  skýrslu Háskólans á Akureyri um samfélagslega þýðingu sauðfjárbúskapar sem birtist s.l. vetur. Skýrslan fjallar um atvinnugrein sem  er svo óarðbær að ríkisstyrkir mynda obbann af tekjum hennar og eru sauðfjárbændur þó síst öfundsverðir af tekjum sínum. Skyldu eftirfarandi setningarbrot bera þess vott að höfundum þykir umgjörð greinarinnar heilsugóð, „…bændur fá styrki frá ríkinu til að stunda greinina… „  og síðar „ bændur fá beingreiðslur eftir 63 ára aldur, án þess að framleiða neitt“ þeir sitja jarðirnar „…bara til að hokra áfram“, eins og einn viðmælandi segir í skýrslunni. „Menn eru í búskap af gömlum vana,“ svo vitnað sé enn í skýrsluna. Það vekur athygli að slík „atvinnustarfsemi“ fái sérstakt háskólastimplað heilbrigðisvottorð. Heilstæð úttekt á samfélagslegri stöðu greinarinnar er þetta ekki. Hvorki er sagt frá því hvað þessi atvinnugrein kostar samfélagið í meðgjöf né greint frá þeim umhverfisspjöllum, sem sá fjöldi fjár sem rekinn er árlega á fjall veldur náttúru landsins. Þá er ógetið þeirrar byggðaeyðingar sem stjórnlaus, arðlaus og óþarfa  offramleiðsla leiðir af sér. Það er fræðasamfélagi íslenskra háskóla ekki til framdráttar, ef  hagsmunasamtök geta pantað skýrslur, þar sem niðurstöðurnar eru klæðskerasniðnar hagsmunapoti þeirra.

 Óréttlætanleg offramleiðsla

Af liðlega 10 þús. tonna heildarframleiðslu kindakjöts 2014, voru um 1100 tonn óseld en 2500 tonn sett í  útflutning. Offramleiðslan nemur því um 3600 tonnum. Mér reiknast svo til að heildarverðmæti útflutnings sauðfjárafurða hafi verið 3,7 mrð. kr.. Þá var búið að eyða 1,2 mrð. kr. af ríkisgreiðslum til þess hluta framleiðslunnar sem fluttur var út. Þetta er „niðurgreiðsla“ til velstæðra útlendinga um 32%. Það er mikill rausnarskapur. Af þessum grófa reikningi sést að útflutningur sauðfjárafurða er þjóðhaglega óarðbær og engin hagræn rök fyrir þessari starfsemi. Sauðfé í landinu er því um 40% of margt. Þetta kostar ríkissjóð mikla peninga, sem brýnt væri að nota í heilbrigðisþjónustuna. Það kemur ekki á óvart að í fyrrnefndri skýrslu skuli hvergi minnst á að  taka þurfi tillit til þarfa markaðarins og takmarka framleiðslu. Lambakjöt er ekki lengur megin fæðutegund þjóðarinnar. Áratugum saman hefur ríkisfé verið veitt til markaðssetningar og geymslu kindakjöts, nú 414 m.kr., með þeim eftirtektarverða árangri að neyslan dregst saman. Kerfi sem hvetur til stjórnlausrar framleiðslu, óháð þörfum markaðsins, er andstætt allri heilbrigðri skynsemi. Þá ýtir það undir hugarfar, sem gerir sífellt kröfur til annarra, en minni til sjálfs síns.  Ég vona að ekki verði sagt það sama um þá alþingismenn sem halda þessu fáránlega kerfi gangandi, og sagt var um sovétleiðtogana, þegar leitað var skýringa á hruni Sovétríkjanna, að það hafi ekki verið svo að leiðtogarnir hafi hundsað lögmál efnahagslífsins heldur hitt,sem var verra, þeir skildu þau ekki.

Gróðureyðing  er afleiðingin

Engin  réttlætingarrök eru fyrir því að  veita almannafé til að eyða viðkvæmum  gróðri. Hafi  núverandi landbúnaðarstefna haft einhver markmið þá hafa þau öll mistekist. Sauðfjárbændur maka almennt ekki krókinn. Atvinnugrein þeirra er nokkuð frumstæð og óarðbær og tekjur því lágar.Hvorki íslenska kindin né kýrin eru afurðavænar, því stofnar þeirra eru rýrir af aldalangri einangrun. Þessi framleiðslustefna hefur ekki styrkt dreifðustu byggðir, heldur eru áhrifin öfug. Þar er því miður flest sagt  þar á undanhaldi,ef marka má tölur, skýrslur og frásagnir. Það er eðlilegt, því megin atvinnugreinin, sjálf undirstaðan er afar óarðbær. Ekki þangað, heldur þaðan flyst fólk.Til að laða að fólk í dreifbýlið þarf atvinnugrunnurinn þar að vera heilbrigður. Ferðaiðnaðurinn er tækifæri ef hugvit fylgir máli. Í stað offramleiðslu með gróðureyðingu skulum við þó frekar borga fyrir að hlúa að gróðri. Ítala í Almenningana frá í vor var dapurlegt dæmi. Eindregnar ráðleggingar gróðurvísindamanna voru hundsaðar, því þær rákust á við skammvinna hagsmuni yfirvaldsins. Víðtæk skaðsemi offramleiðslunnar er augljós, og hlýtur að vekja þá spurningu, hvaða æðri hagsmunir  stýri þarna för, því hvorki eru það hagsmunir neytenda né sauðfjárbænda,sem margir hverir „hokra áfram“ „af gömlum vana“. Þá er pólitíkin nærtækust. Í kosningum jafngildir  atkvæði eins sauðfjárbónda allt að þremur atkvæðum í þéttbýli höfuðborgarsvæðisins. Stuðningafólk óréttláts atkvæðavægis hlýtur að telja að ýmislegt megi leggja á land og þjóð til að halda atkvæðunum í sveitunum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur