Laugardagur 17.03.2018 - 18:50 - FB ummæli ()

Reiðin kraumar undir

Megin ástæða þeirrar gerjunar, sem nú á sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar er nánast algjört áhrifaleysi hennar á alþingi. Þar er enginn  alþm. sem getur talað fyrir hönd hreyfingarinnar og hefur ekki getað síðan Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið liðu undir lok. Við tilurð Samfylkingarinnar, hvarf verkalýðshreyfingin af vettvangi íslenskra stjórnmála. Karl Steinar og Guðmundur Joð voru síðustu fulltrúar skipulagðar íslenskrar verkalýðhreyfingar á alþingi. Nú þykir það gæðastimpill hjá verkalýðsforingjum að vera flokksleysingar með óljósa skoðun á stöðu verkalýðsins í samfélaginu. Þeir virðast enga pólitíska bakhjarl eiga eða vilja til að knýja á um sterkari félagslega  innviðu og lagasetningar samfélagsins. Bændur hafa ætíð passað vel uppá það að hafa mikla áhrifamenn úr eigin röðum á alþingi. Þar hafa þeir ekki ráfað um eins og höfuðsótta gemlingar, heldur sem gildir meðlimir sterkra flokka, hvort heldur sem er hjá B og D listum. Þeir uppskera eftir því.

Samfylkingin

Eftir stofnun Samfylkingarinnar varð mikil áherslubreyting á pólitískri sýn flokksins frá því sem var hjá forverum. Heildarhyggjan, sem var runnin úr erindisbréfi jafnaðarmanna og af baráttu verkalýðshreyfingarinnar, mótaði verkalýðsflokkana gömlu. Þessi heildarsýn jafnaðarmanna hvarf að miklu leyti. Innan heildarænnar stefnu vildu jafnaðarmenn styðja alla þá sem áttu undir högg að sækja eða áttu ósótt réttindi inni hjá samfélaginu.Þeir vildu breytt skiptshlutföll. Þess í stað fékk ákafur feminismi forgang, svo mikinn að heildin gleymdist. Slagurinn fyrir réttindum kvenna,samkynhneigða, einstakra hópa fatlaðra, o.s.frv varð mun meira áberandi en baráttan fyrir fátækum en þó fullvinnandi fjölskyldum. Flokkarnir tveir sem tóku við af gömlu verkalýðsflokkunum virtust líta svo á, að það væri alfarið hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að tryggja  afkomu okkar minnsta bróður. Samfylkingin  varð flokkur sérmála. Verkalýðsmál þótti heldur hallærisleg. Í stað þess að umlykja baráttu einstakra samfélagshópa heildarhyggju jafnaðarmanna, var barist fyrir einstaka aðskildum hópum. Þetta verður að breytast. VG var aldrei hugsaður sem verkalýðsflokkur, heldur sem grænn flokkur með mikla dreifbýlishneigð og andúð á alþjóðlegum skuldbindingum. Þetta var endurreistur Framsóknarflokkur eins og hann hafði verið á fimmta og sjötta áratugnum með grænum kveftrefli. Hann verður því trauðla ásakaður um að hafa brugðist verkalýðnum.

Veikburða félagslegir innviðir

Verkalýðshreyfing án tengsla við öflugan vinstriflokk, getur aldrei tryggt velferð láglaunafólks. Jú, hún getur knúið fram hærri laun með verkföllum, en hún ræður ekki eftirleiknum nema að litlu leyti. Velferð almennings samanstendur einfaldlega ekki af launaumslaginu einu saman, heldur á samfélagslegri þjónustu og verðlagi. Það er nú einu sinni svo, að hagkerfi okkar, sem dregur nafn sitt af kapitali, auðmagni, gengur eftir lögmálum þess. Vinnuaflið er í þjónustu kapítalsins og lýtur boðum þess. Ef pólitískt afl vinnunnar nær ekki að sveigja fjármagnið af frjálsri leið þess, þá blasa við óviðunnandi kjör þeirra réttinda minnstu og verst settu. Norrænir jafnaðarmenn höfðu samfélagslegan styrk til að sveigja fjármagnið svo af stjórnlausri leið þess að réttindi og staða vinnandi fólks varð öflugri en afl kapítalsins. En þeir vildu ekki leggja fjármagnið að velli. Það átti að þjóna vinnandi fólki. Hérlendis hefur orðið allt önnur gagnstæð þróun, þótt ýmislegt gott hafi verið apað eftir norrænum frændum okkar. Hér ræður kapítalið þó ótvírætt ferð. Þarfir þess móta meira og minna lög og reglur. Félagslegir innviðir samfélagsins eiga í vök að verjast. Heilbrigðisþjónustan vantar bæði húsnæði og starfsfólk. Það er rifist um staðsetningu húss Landspítala endalaust en ekkert gert. Skólakerfið stenst fáa alþjóðlega mælikvarða; brotthvarf er mikið. Skortur er á kennurum á grunnstigum. Of stór hluti aldraðra og öryrkja nær vart endum saman. Í húsnæðismálum unga fólksins ríkir öngþveiti. Fullvinnandi fólk berst í bökkum. Misskipting tekna og auðs hraðeykst. Er nema von að undir kraumi ?

Breyta þarf hlutaskiptum

Framangreindir þættir mynda velferð okkar til jafns við launin. Þessi vanrækta  og fjárvana samfélagsþjónusta gerir Ísland að erfiðu landi fyrir láglaunafólk. Kaupmátt lágu launanna verður erfitt að hækka í þær hæðir að góð samfélagsþjónusta skipti litli máli. Nú kunna einhverjir að segja að það séu engir peningar til. Er það svo ? Landið er moldríkt af auðlindum. Fiskimiðin eru stór og auðug. Gnógt er af margs konar dýrmætri orku. Náttúrufegurð laðar að útlendinga. Hver er arður þjóðarinnar af auðlindum hennar ? Þær skila þó þeim sem hafa einkarétt á að nýta þær miklum auði. Það er hér sem vinna þarf verkið. Við vitum að úr ríkissjóði er enga peninga að fá nema til koma tekjuaukning. Þar verður ekkert sparað lengur. Hlutur samneyslu hefur rýrnað um ca. 2% síðast liðin tvö ár. Það þarf nýjan samfélagssáttmála um ný hlutaskipti milli einkaauðæfa og samfélagsauðæfa. Landbúnaðarkerfið verður að einfalda og nútímavæða. Það tekur of stóran hlut úr ríkissjóði. Á meðan ekki er hægt að ráða í lausar stðður í samfélagsþjónustu er án umræðu fleygt 650 m.kr. í sauðfjárbændur vegna offramleiðslu ofaní nýgerðan ríkulegan búvörusamning. Giskað hefur verið á að útgerðin muni eftir s.l. ár stinga um 65 milljörðum í vasa sína eftir að hafa gert ráðstafanir fyrir eðlilegri arðsemi af eigi fé. Síðan koma alþingismenn með kjararáð sem útbúið hefur svikamyllu  þar sem einstakra hálaunahópar stökkva höfrungahlaup í samanburðarmetingi um hæstu launin. Engin ný verkalýðshreyfing mun geta breytt leikreglunum. Það gera aðeins öflugir stjórnmálaflokkar með einbeittum stuðningi verkalýðshreyfingarinnar.

Birtist fyrst í FBL. 15. 03. 2018

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur