Sunnudagur 16.6.2019 - 16:43 - FB ummæli ()

Heimsendaspámaðurinn James Hays

James Heyes, sem stendur fyrir framan borkjarnana, útskýrir fyrir áhorfendum hvers vegna við stefnum hraðbyri inn í nýja ísöld.

Spámaður er nefndur James Hayes. Hann er prófessor í jarðvísindum við háskóla í Colorado. James stjórnaði verkefni sem gekk út á að safna sýnishornum úr setlögum á djúpsjávarbotni með því að bora stálhólki niður í lögin.

James var ekki bjartsýnn á framtíðarhorfur mannkyns í þættinum Í leit að… yfirvofandi ísöld sem sýndur var í sjónvarpi 1977:

„Upplýsingarnar sem þessir borkjarnar gefa okkur um loftslag á jörðinni sýna að á síðastliðnum 700 þúsund árum hafa orðið átta ísaldir. Kjarnarnir segja okkur ennfremur hvenær þær gengu yfir. Með þessu móti getum við metið mismunandi kenningar um ísaldirnar. Núna erum við komnir með kenningu sem sýnir að breytingar á sporbaug jarðarinnar eru fyrirboði ísalda. Þar sem þessi kenning getur sagt nákvæmlega fyrir um hvenær ísaldir urðu í fortíðinni út frá borkjörnunum, getur hún líka spáð fyrir um hvenær ísaldir verða í framtíðinni. Út frá kenningunni er ég sannfærður um að við siglum hraðbyri inn í nýja ísöld.“

Spurningaleikur spekinganna (merkið x á viðeigandi línu).

___ James hafði rétt fyrir sér.

___ James hafði rangt fyrir sér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Miðvikudagur 12.6.2019 - 20:43 - FB ummæli ()

Heimsendaspámaðurinn Jimmy Carter

Jimmy Carter hafði ekki ástæðu til að brosa þegar olía og gas var annars vegar.

Spámaður er nefndur Jimmy Carter. Hann var forseti Bandaríkjanna 1977 – 1981.

Í sjónvarpsávarpi til þjóðar sinnar 1977 ræddi hann dökkar horfur í orkumálum:

„Í kvöld langar mig að ræða óþægilegt mál við ykkur; um vandamál sem á sér engin fordæmi í sögunni. […] Þetta er lang alvarlegasta úrlausnarefni sem okkar kynslóð stendur frammi fyrir. Orkuskorturinn hefur enn ekki náð að keyra okkur í kaf, en mun gera það ef við bregðumst ekki tafarlaust við. […] Olían og gasið sem telur 75% af orkunotkun okkar gengur hratt til þurrðar. Ef við bregðumst ekki skjótt við og minnkum olíubrennslu gerum við [í ríkisstjórninni] ráð fyrir að snemma á níunda áratugnum mun eftirspurn eftir olíu í heiminum verða meiri en framleiðslugetan.“

Spurningaleikur spekinganna (merkið x á viðeigandi línu).

___ Jimmy hafði rétt fyrir sér.

___ Jimmy hafði rangt fyrir sér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , ,

Miðvikudagur 5.6.2019 - 21:27 - FB ummæli ()

Heimsendaspámaðurinn Norman Myers

Norman Mayer var svartsýnn á framtíðarhorfur dýra jarðarinnar 1979.

Spámaður er nefndur Norman Myers. Hann er líffræðingur, rithöfundur, umhverfisverndarsinni og fleira.

Í bókinni Sökkvandi örk sem kom út 1979 fullyrti Norman að 40 þúsund dýrategundir myndu deyja út á hverju ári þaðan í frá og að milljón dýrategundir yrðu öllum líkindum útdauðar árið 2000, jafnvel fjórðungur allra dýrategunda á jörðinni.

Spurningaleikur spekinganna (merkið x á viðeigandi línu).

___ Norman hafði rétt fyrir sér.

___ Norman hafði rangt fyrir sér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Laugardagur 1.6.2019 - 17:27 - FB ummæli ()

Heimsendaspámaðurinn James Bonner

James rýnir með sínum skörpu skynfærum til framtíðar.

Spámaður er nefndur James Bonner. Hann var prófessor í líffræði við California Institute of Tecnology, Caltech.

James var ómyrkur í máli þegar hann skrifaði ritdóm um bókina Sultur 1975! sem kom út 1967:

„Allir málsmetandi rannsóknaraðilar sem hafa kynnt sér vanda vanþróaðra ríkja eru sammála um að hungursneyð þar er óumflýjanleg. […] Sem dæmi má nefna að Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna gerir ráð fyrir að 1985 verði árið sem sulturinn hefst. Sjálfur hef ég sagt opinberlega að á árabilinu 1977-1985 verði vatnaskil, að þá muni mannkynið skiptast í tvo hópa: ríka og fátæka, metta og svanga — tvo menningarheima; þá sem hafa það gott og þá sem hafa það skítt. Annar þessara menningarheima mun óhjákvæmilega útrýma hinum. […] Ég legg enn og aftur áherslu á að allir málsmetandi rannsóknaraðilar eru sammála um að þessi harmleikur muni eiga sér stað.“

Spurningaleikur spekinganna (merkið x á viðeigandi línu).

___ James hafði rétt fyrir sér.

___ James hafði rangt fyrir sér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , ,

Mánudagur 27.5.2019 - 17:28 - FB ummæli ()

Heimsendaspámaðurinn Peter Gunter

Peter Gunter um það leyti sem hann rýndi með sinni skörpu greind og mikla innsæi inn í framtíðina.

Spámaður er nefndur Peter Gunter. Hann var prófessor við háskóla í Texas.

Peter var ómyrkur í máli þegar hann rýndi í framtíðina 1970:

„Lýðfræðingar eru nánast allir sammála um að framtíðin muni bera þetta í skauti sér: Um 1975 mun hungursneyð [vegna offjölgunar mannkyns] hefjast á Indlandi og mun neyðin aukast jafnt og þétt uns allt landið er undirlagt. 1990 hefst hungursneyð í Pakistan, Kína og í austurhluta Afríku. Í kringum árið 2000 eða jafnvel fyrr verður sultur í Suður- og Mið-Ameríku […] Eftir þrjátíu ár mun allur heimurinn að Vestur Evrópu, Norður Ameríku og Ástralíu undanskilinni svelta.“

Spurningaleikur spekinganna (merkið x á viðeigandi línu).

___ Peter hafði rétt fyrir sér.

___ Peter hafði rangt fyrir sér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , ,

Fimmtudagur 23.5.2019 - 20:40 - FB ummæli ()

Heimsendaspámaðurinn Paul Ehrlich

Paul um það leyti sem hann rýndi með sínum skörpu skynfærum inn í framtíðina.

Nú þegar heimsendaspám bókstaflega rignir yfir okkur er ekki úr vegi að skoða heimsendaspár fortíðar. Því eins og máltækið segir: Endirinn skyldi í upphafi skoða.

Spámaður er nefndur Paul Ehrlich. Hann er prófessor við Stanford-háskóla.

Paul var ómyrkur í máli þegar hann rýndi í framtíðina í kringum 1970:

„Fólksfjölgun mun óhjákvæmilega éta upp alla aukningu í matvælaframleiðslu á næstu árum. 100 til 200 milljónir manna að lágmarki munu svelta í hel á hverju ári næstu tíu árin,“ sagði hann. Ennfremur taldi hann að frá 1980 til 1989 myndu fjórir milljarðar manna deyja úr hungri, þar á meðal 65 milljónir landa hans í Bandaríkjunum.

Spurningaleikur spekinganna (merkið x á viðeigandi línu).

___ Paul hafði rétt fyrir sér.

___ Paul hafði rangt fyrir sér.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , ,

Þriðjudagur 23.10.2018 - 17:40 - FB ummæli ()

Leigubílstjórar og rithöfundar

Eins og alþjóð veit, eða amk. ætti að vita, sömdu leigubílstjórar sjálfir frumvarp til laga sem færði félagsmönnum stéttarfélags þeirra, Hreyfli, einokunaraðstöðu á markaðnum. Með þessari stuttu og úthugsuðu ritsmíð skutu leigubílstjórar rithöfundum ref fyrir rass. Rithöfundum þessa lands sem maður fyrirfram hefði haldið að myndu beita stílfærni sinni og útsjónarsemi við að tryggja afkomu sína og velferð í harðri og óvæginni samkeppni. En nei. Þarna voru rithöfundar aldeilis teknir í bólinu.

En það er ekki of seint um rassinn gripið þótt yfir sex áratugir séu liðnir frá þessu snjalla útspili leigubílstjóranna. Það er ekkert því til fyrirstöðu að semja lög sem gefa rithöfundum sem fyrir eru í RSÍ einokunaraðstöðu í bókaskrifum. Eina sem þarf að gæta að er að orða frumvarpið þannig að þingmenn trúi því að verið sé að koma skikki á atvinnugreinina, auka öryggi almennings og spara ríkissjóði fé. Þingmenn munu að sjálfsögðu fagna því ef sérhagsmunaaðilar taka af þeim ómakið við að semja frumvörp. Nóg hafa þeir á sinni könnu.

Texti frumvarpsins gæti hljómað eitthvað á þessa leið:

Frumvarp til laga um rithöfunda á Íslandi.

[Mögul.] Flm.: Guðmundur Andri Thorsson, Katrín Jakobsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Óli Björn Kárason.

1. gr.

Rithöfundar á Íslandi, hvort sem þeir þýða bækur, skrifa ævisögur, skrifa spennu-,barna,- fræði-, ljóða- eða smá­sögubækur, skulu aðeins gefa út rit, sem hafa fengið viðurkenningu ríkisstjórnar.

Ríkisstjórnir skulu, að fengnu samþykki dómsmálaráðuneytisins, hafa heimild til að takmarka fjölda aðila þeirra er greinir í 1. málsgr.

Bloggarar og „virkir í athugasemdum“ falla ekki undir ákvæði þessara laga.

2. gr.

Dómsmálaráðuneytið skal kveða nánar á um takmörkun skv. 1. gr. með reglu­gerð.

3. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

„Frv. þetta er flutt að tilmælum stjórnar Rithöfundasambands Íslands, RSÍ. Fylgir því svohljóðandi greinargerð:

Við undirrituð höfum athugað, hvort nauðsyn bæri til þess að skipuleggja ritstörf hér á landi hjá rithöfundum, aðallega með það fyrir augum, hvort nauðsynlegt væri að setja löggjöf um takmörkun þeirra.

Við athugun höfum við sannfærst um það að atvinnumöguleikar fyrir rithöfunda eru mjög takmarkaðir eins og nú er, miðað við þann fjölda bóka sem gefnar eru út nú.

Aðilar sem telja sig vera rithöfunda hér á landi eru nú um 330 þúsund, og virðist það vera mun fleiri rithöfundar en nokkur þörf er fyrir. Er því fyrirsjáanlegt, að brýn nauðsyn beri til þess að takmarka fjölda rithöfunda við þá sem fyrir eru í RSÍ, eigi að vera nokkur möguleiki til þess að menn sem stunda ritstörf sem aðal­atvinnu, geti haft það sér og sínum til lífsframfæris, enda tíðkast í mörgum menningarlöndum að útgáfa bóka er takmörkuð með löggjöf eða öðrum hætti.

Í þessu sambandi má einnig benda á það, að með því að binda við þessi störf fleiri menn en nauðsyn krefur á hverjum tíma fer geysilega mikið vinnuafl til ónýtis, auk þess sem við þessi ritstörf eru bundnar miklu fleiri tölvur en þörf er á, en það leiðir að sjálfsögðu af sér sóun á rafmagni og aukinn innflutning á alls konar rekstrarvörum tölvubúnaðar.

Loks má benda á það, að fjöldi manna hefur lagt mikið fé í að kaupa sér dýrar tölvur í þeirri von að rithöfundarferill þeirra verði glæstur og arðvænlegur, en margir þessara manna hafa síðan komist í miklar fjárkröggur vegna þessa en af því hefur oft og einatt leitt allskonar spillingu, sem hægt væri að komast hjá með því að takmarka tölu rithöfunda við lesþörfina og tryggja þannig að fullu hagnýtingu vinnuafls og tækja í þessari starfsgrein.

Með tilvísun til framanritaðs erum við undirrituð því sammála um, að nauðsyn beri til þess, að sett verði löggjöf um heimild til takmörkunar á fjölda rithöfunda á Íslandi og að það gæti orðið á Alþingi því, sem nú situr.

Karl Úlfur Ágústsson
formaður RSÍ

Marveig Örnólfsdóttir
ritari RSÍ“

Svona gæti frumvarpið litið út uppsett og tilbúið til samþykktar á Alþingi: Frumvarp til laga um rithöfunda.

 

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , ,

Sunnudagur 12.8.2018 - 15:06 - FB ummæli ()

Kannabis eða Vicodin?

Æ fleiri deyja vegna misnotkunar á lyfseðilskyldum lyfjum í Bandaríkjunum. Áætlað er að 1999 hafi um 5 þúsund manns dáið vegna ofnotkunar. 2010 var fjöldi þeirra sem dó 16 þúsund og á sl. ári um 36 þúsund. Ástandið er ef til vill skárra á Íslandi, en misnotkun róandi-, svefn- og kvíðastillandi lyfja er mikil og fer vaxandi.

Bandarískir stjórnmálamenn hafa gripið til aðgerða til að stemma stigu við „faraldrinum“. Þingið hækkaði stórlega fjárframlag til málaflokksins, meðferðarheimili fá meira fé og refsingar fyrir ólöglega sölu hafa verið hertar. Donald Trump forseti hefur beint þeim tilmælum til lyfjafyrirtækja að minnka framboð slíkra lyfja. Læknar hafa ennfremur verið hvattir til að gæta hófs í að vísa á þau.

Kannabis fækkar stórlega dauðsföllum af völdum verkjalyfja.

En ef til vill er til betri lausn á vandanum en fjáraustur, harðari refsingar og tilmæli.

Lausnin er mögulega að færa kannabis af bannlistanum. 

Í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem eru hætt að amast við notkun kannabisefna, hvort sem það er í lækningaskyni eða alveg, er misnotkun á lyfseðilskyldum verkjalyfjum mun minni. Könnun sýndi að í ríki þar sem kannabis er leyft í lækningaskyni fækkaði dauðsföllum af völdum of stórra skammta um fjórðung.

Önnur könnun sem gerð var sýndi að margir einstaklingar sem þurfa á verkjalyfjum að halda velja heldur kannabis en hefðbundin verkjalyf — ef kannabis er í boði. Þeir telja kannabis betra við langvinnum stoðkerfisverkjum. Þar sem kannabis var fáanlegt minnkaði notkun lyfseðilskyldra verkjalyfja um 64%. Lífsgæði þessa hóps jukust ennfremur verulega. 

Í löndum og ríkjum þar sem ekki er amast við kannabis er notkun þess síst meiri en í löndum sem leggja blátt bann við sölu þess. Sérstaklega meðal ungmenna. Nýleg könnun sýnir svo dæmi sé tekið að kannabisneysla ungmenna í Kólóradó hefur ekkert aukist þrátt fyrir að efnið sé nú löglegt þar.

Kannabisbannið sem átti að vera föðurleg hjálp ríkisvaldsins við að halda efninu frá þegnunum virðist þegar upp er staðið lagt fjölda fólks óbeint í valinn. Og ekki nóg með það heldur hefur bannið komið í veg fyrir rannsóknir og þróun á efnunum í plöntunni.

Ísland ætti að slást í hóp með Hollandi, Portúgal, Kólóradó og Kaliforníu og víkja af þessari óheillabraut.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Mánudagur 6.8.2018 - 16:52 - FB ummæli ()

Leyfileg stærð á samlokum

Saga innanlandsflugsins í Bandaríkjunum er ljómandi góð dæmisaga um muninn á höftum og frelsi.

Loftflutningastofa Bandaríkjanna var lögð niður 1985.

Loftflutningastofa Bandaríkjanna (CAB) var sett á laggirnar með lögum 1938. Í kjölfarið hóf stofan að setja reglur um farmiðaverð, flugrútur og annað. Frá 1939 til 1978 þurftu flugfélög í Bandaríkjunum að sitja og standa eftir dyntum stjórnenda stofnunarinnar. Á tímabilinu var engum nýjum flugfélögum veitt starfsleyfi í innanlandsflugi í ríkjasambandinu. Afleiðingin var ríkisframleiddur einokunarhringur sem kom þeim sem fyrir voru á markaðnum ágætlega en ferðalöngum afar illa.

Í því litla svigrúmi sem var til samkeppni reyndu flugfélögin að lokka til sín viðskiptavini með öðrum ráðum. Til dæmis með því að bjóða „ókeypis“ mat og drykk. Loftflutningastofa brást við með því að setja reglugerð um stærð á samlokum um borð.

Þetta ríkisafskipta fyrirkomulag leiddi af sér að flugferðir voru mjög dýrar. 1974 kostaði flugmiðinn milli New York og Los Angeles 1442 dali. Eftir að höftunum hafði verið aflétt 1978, kostaði þessi sami flugmiði 268 dali. Með öðrum orðum: Farmiðaverð lækkaði gríðarlega.

Hinn megin ábatinn af frelsi til að keppa í innanlandsfluginu var að framleiðni flugfélaganna stórjókst. Með öðrum orðum: Fleiri höfðu efni á að ferðast með flugvélum. Frá 1979 til 1988 fjölgaði áfangastöðum American Airlines úr 50 í 173 og United Airlines úr 80 í 169. Þessi fjölgun áfangastaða átti sér stað án kaupa á öðrum flugfélögum og flugrútum þeirra.

Það varð heimsbyggðinni til mikilla hagsbóta að haftastefnunni í innanlandsfluginu í Bandaríkjunum var fleygt þangað sem allur sósíalismi er best geymdur; á ruslahauga sögunnar.

Heimildir má m.a. finna hér.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 13.3.2018 - 16:57 - FB ummæli ()

Leigubílar í höftum

Fljótlega eftir að bíllinn nam land á Íslandi fyrir alvöru 1913 voru sett „Lög um notkun bifreiða“. Í fyrstu var eitt almennt ökupróf. Um 1920 bættist meirapróf við. Þeir sem stóðust meirapróf gátu hafið útgerð leigubíla. (Alfreð Elíasson stofnandi og forstjóri Loftleiða var einn þeirra manna sem það gerði svo dæmi sé tekið). Þannig var það fram á sjötta áratuginn. Þá fóru leigubílstjórar og samvinnufélag þeirra Hreyfill með Bergstein Guðjónsson í forystu að ókyrrast verulega. Þeim fannst ómögulegt að það þyrfti aðeins meirapróf til að geta gerst leigubílstjóri. Þeir vildu reisa hindranir. Þeir vildu byggja kastala með síki undir þá sem fyrir voru í atvinnugreininni og vinda upp brúna.

Gunnar Thoroddsen, Jóhann Hafstein, Jónas Rafnar, Emil Jónsson og Gylfi Þ. Gíslason voru flutningsmenn frumvarps um að reisa múra um fólksflutninga með leigubílum. Frumvarp þeirra hafði slæmar afleiðingar í för með sér sem þjóðin er enn að bíta úr nálinni með.

Nokkrir þingmenn voru talaðir til um nauðsyn hindrana. Það var samið frumvarp og voru sjálfstæðismennirnir Gunnar Thoroddsen, Jóhann Hafstein og Jónas Rafnar, og kratarnir Gylfi Þ. Gíslason og Emil Jónsson flutningsmenn.

Bergsteinn Guðjónsson formaður samvinnufélagsins Hreyfils skrifaði greinargerðina með frumvarpinu. Hreyfill var stéttarfélag leigubílstjóra. Nafni félagsins var síðar breytt í Frami.

En það var ekki nóg að leggja fram frumvarp. Það þurfti að semja réttlætingar í formi greinargerðar. Hver var betur til þess fallinn en Bergsteinn Guðjónsson formaður Hreyfils? Það þótti greinilega ekkert tiltökumál á þeim tíma að sérhagsmunaaðilar semdu slík plögg með frumvörpum. Hugmyndin að frumvarpinu var jú frá honum og hans mönnum komin. Ásamt Bergsteini reit formaður vörubílstjórafélagsins Þróttar, Friðleifur I. Friðleifsson greinargerðina (vörubílstjórar vildu líka reisa kastala um sína atvinugrein).

Rökin sem Bergsteinn og Friðleifur tíndu til fyrir nauðsyn lagasetningar voru þessi:

1. Of margir leigubílar takmarka atvinnumöguleika þeirra sem vilja aka fólki í fullri vinnu.
2. Önnur menningarlönd hafa skert frelsi til að keppa í fólksflutningum.
3. Of margir stunda þessa atvinnugrein.
4. Of margir bílar notaðir til fólksflutninga.
5. Of mikill innflutningur á rekstarvörum bifreiða.
6. Margir hafa fjárfest í bílum og lent í kröggum þegar afraksturinn var ekki í samræmi við væntingar.
7. Svört atvinnustarfsemi vegna fjárkragga þeirra sem offfjárfestu í bílum.
8. Svo nýta megi bílana sem fyrir eru betur.
9. Að allir bílar séu á stöð til að einfalda opinbert eftirlit.
10. Mikið vinnuafl til ónýtis þegar margir eru um hituna.

Eins og sést eru þetta ákaflega veigalítil rök. Það má jafnvel fullyrða að þetta séu engin rök. „Rökin“ eru öll eðlileg einkenni á samkeppnismarkaði. Sumir hagnast, aðrir tapa, menn hætta akstri, menn byrja akstur, það er offjárfest og það er fjárfest skynsamlega, sumir vinna svart, aðrir vinna síður svart osfrv.

Það virðist ekki hafa staðið í sjálfstæðismönnum þótt frumvarpið sem þeir lögðu fram gengi þvert gegn grundvallarstefnu flokksins um atvinnufrelsi og mannréttindi.

Lögin voru samþykkt.

Síðan eru liðin yfir 60 ár.

Með auknu framboði á bílum upp úr 1950 og lækkandi verði breyttist eðli leigubílaaksturs frá því að vera settleg full atvinna í íhlaupavinnu sem margir nýttu sér. Með ólögunum um leigubifreiðar í kaupstöðum var þessi eðlilega þróun stöðvuð. Tjónið sem lögin unnu samfélaginu er gríðarlegt. Tækifæri manna til að afla sér aukatekna voru skert. Ungt og kraftmikið fólk gat ekki stofnað fyrirtæki á þessu sviði eins og verið hafði meðan frelsi var til að keppa. Viðskiptavinir leigubíla þurftu að greiða miklu hærra verð fyrir þjónustuna. Eins og dæmin sýna með tilkomu Lyft og sambærilegra aðila þá aka færri undir áhrifum áfengis þegar það kostar minna að taka leigubíl og framboðið er meira. Eflaust freistuðust margir til að aka drukknir vegna sjálfskaparvítisins sem þessi lög ollu.

Það blasir við að ef hægt er að samþykkja lög án raka, er líka hægt að afnema þau án raka. Það þarf engar nefndir eða fundi með sérhagsmunaaðilum um hvort frelsi eigi að ríkja á þessum markaði. Það á einfaldlega að afnema þessi gömlu ólög.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , ,

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur