Föstudagur 25.5.2018 - 09:24 - FB ummæli ()

Mistök Eyþórs og sirkús Vigdísar

Mér sýnist að Dagur og félagar muni halda völdum í borginni.

Núverandi meirihluti er einfaldlega einn um að hafa einhverja vitræna framtíðarsýn fyrir þróun borgarinnar. Borgarlínan er kjarninn í þeirri sýn.

Sjálfstæðismenn hafa ekki náð vopnum sínum. Þar ráða miklu þau mistök sem Eyþór hefur gert. Hér má nefna þrjú (en þau eru fleiri):

  • Hann hafnaði borgarlínunni, sem öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins voru búin að samþykkja og gera að sinni framtíðarsýn. Líka Sjálfstæðismenn í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, á Seltjarnarnesi og víðar – og einnig konan í öðru sæti á lista Eyþórs!
  • Eyþór og konan í öðru sæti, Hildur Björnsdóttir, bjóða leikskólavist fyrir öll börn 18 mánaða og eldri. En lið Dags er að nálgast það markmið nú þegar og stefna á vistun fyrir öll börn 12 mánaða og eldri.
  • Eyþór bauð upp á friðun Elliðaárdals. En þá kom í ljós að Dagur hafði fengið það í gegn fyrir 4 árum síðan! Búið spil!

Eyþór og hans fólk í Sjálfstæðisflokknum virðast hafa lítið sem ekkert fram að færa.

Vigdís Hauks og Miðflokkurinn yrðu helstu samstarfsmenn Sjálfstæðisflokks ef til kæmi.

En þau hafa heldur ekkert fram að færa. Þess vegna hefur Vigdís lagt áherslu á glaðlegan fíflaskap í kosningabaráttunni.

Ef menn vilja meiri fíflaskap inn í borgarstjórnina þá kjósa þeir Vigdísi.

Og ef menn vilja afturför í samgöngumálum, leikskólamálum og umhverfisvernd og einkarekna grunnskóla þá kjósa þeir Eyþór og uppstillingu hans.

Sjálfstæðismenn bjóða líka upp á markaðslausnir í húsnæðismálum, með fjárfesta í lykilhlutverkum. Pælið í því!

En það er einmitt markaðurinn sem hefur brugðist hrikalega í húsnæðismálunum, með því að fjárfestarnir hafa keyrt leigu og íbúðaverð upp í allra hæstu hæðir.

Á sama tíma hefur Sjálfgræðismaðurinn í fjármálaráðuneytinu lækkað vaxtabæturnar niður úr öllu valdi, svo ungt fólk á enga kosti í húsnæðismálum. Stóraukinn húsnæðiskostnaður étur upp kaupmátt yngra fólksins.

Dagur og Co hefðu að vísu getað gert betur á síðasta kjörtímabili – en þau eru einfaldlega skársti kosturinn sem nú er í boði.

 

Síðasti pistill:  Hattarnir og hástéttin í Bretlandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 21.5.2018 - 11:14 - FB ummæli ()

Hattarnir og hástéttin í Bretlandi

Konunglegt brúðkaup í Bretlandi er mikil veisla – fyrir háa sem lága.

Á laugardag voru það Harry og Meghan sem gefin voru saman í Windsor kastala. Ung og ástfangin og allt í fína með það.

Ég fylgdist með útsendingum í sjónvarpinu og hafði gaman að, þó ég sé enginn aðdáandi bresku konungsfjölskyldunnar né annars kóngafólks.

Það er bara gaman að upplifa fjölbreytileika mannlífsins – og í Bretlandi er það stéttaskiptingin sem er hvað athyglisverðust.

Konungleg brúðkaup eru eins og leikhúsverk um stéttaskiptinguna í Bretlandi. Allir ættu að sjá þessa sýningu í Windsor – frá byrjun til enda (hér).

Það er nefnilega mjög mikil stéttaskipting í Bretlandi, að minnsta kosti í samanburði við Ísland. Ég kynntist því allvel á námsárunum.

Breska stéttaskiptingin er ekki bara um muninn á ríkum og fátækum – sem þó er mjög mikill – heldur snýst hún líka um skiptingu þjóðarinnar í æðra og óæðra fólk. Þá sem hafa “status” og hina sem eru ekkert eða því sem næst.

Það er arfleifð frá konunga- og aðalsveldi miðaldanna.

Í Bretlandi er fátt mikilvægara en einmitt að sýna stétt og stöðu sína í samfélaginu – hvort maður tilheyri háum eða lágum.

Þeir ríku sýna ríkidæmi sitt með óðalssetrum í sveitum, glæsivögnum (Rolls Royce bílum, Bentley, Jagúar, Range Roverum o.s.frv.), hestum og refaveiðum, svo dæmi séu tekin.

En það er þó ekki nóg. Nánari stöðutákn eru líka kölluð til. “Status symbol” svokölluð.

Eitt mikilvægt stöðutákn er tungumálið. Allir þekkja muninn á yfirstéttar-ensku og alþýðu-ensku. En fleira kemur til.

Hattar eru til dæmis mikilvægt stöðutákn í bresku samfélagi.

Bowler hattar og pípuhattar hafa lengst af verið tákn yfirstéttarkarla.

Allir alvöru fjármálamenn í City í London gengu til langs tíma með Bowler hatta á virkum dögum og pípuhatta um helgar (á kappreiðum og héraðsmótum). Annars voru þeir núll og nix!

En konurnar í yfirstéttinni slá hins vegar öll met í skrautleika hattanna – ekki síst þegar kemur að konunglegum brúðkaupum. Þar ná hattasýningar þeirra hámarki.

Veislan í Windsor var með þeim bestu fyrr og síðar.

Og allir í hátíðarskapi – nema Victoría Beckham!

 

Páfuglar og smáfuglar

Að horfa á brúðkaupið í Windsor var svolítið eins og að horfa á skrautlega dýralífsmynd eftir David Attenborough.

Myndir af mökunar-hegðun páfugla kom upp í hugann.

Konurnar í hópi boðsgesta, sem voru auðvitað fyrst og fremst úr yfirstéttinni, kepptust við að skarta sem ævintýralegustum höfuðbúnaði. Með sperrtar fjaðrir og annað glingur. Hér eru smá dæmi…

Höfuðbúnaðurinn verður að vonum skrautlegur í meira lagi þegar mikið stendur til, rétt eins og í dýraríkinu hjá David Attenborough.

Sumt er smart og smekklegt en annað getur orðið svona og svona…

En allt er það skrautlegt og yfirleitt til marks um merkilegheit.

Hjá sumum þeim sem standa næst drottningunni og eldra aðalsfólki er hins vegar mjög sérstakur leikur í gangi, sem snýst um að vera með afkáranlegasta hattinn.

Elísabet drottning leggur gjarnan línuna í þeirri keppni. Oft með því að tjalda litríkum lampaskermum með álímdu ávaxtaskrauti – hún hefur sinn stíl segja menn.

Camilla Parker Bowles (verðandi drottning) reynir iðulega að slá drottningunni við í furðulegheitum. Hún skorar oft glæsilega.

Svo er hún líka hugmyndarík og ráðagóð, eins og þegar hún tók gamla bláa skúringamoppu og setti öfuga á kollinn – og sló í gegn!

Hún er mitt uppáhald í þessari fjölskyldu…

 

Svart og hvítt í eina sæng

Það sætir líka tíðindum í þessu skemmtilega brúðkaupi að kvonfang Harrys er af svörtum rótum runnin. Þess sá líka merki í kapellunni.

Þar var menningu svartra Bandaríkjamanna gerð góð skil, með frábæru tónlistarfólki úr þeirra átt og svo kom hinn stórkostlegi svarti eldklerkur sem talaði af jafnvel enn meiri innlifun og ástríðu en Marteinn Lúter King.

Ég hygg að það hafi farið um margan aðalsmanninn í kapellunni þegar klerkurinn talaði um að við ættum öll að hafa ástina að leiðarljósi í lífinu – svo mannkynið yrði þar með eins og ein fjölskylda.

Það er nú ekki beint í samræmi við hugmynd bresku yfirstéttarkarlanna um samfélag. Í huga þeirra er fátt mikilvægara en stór og breið gjá milli fjölskyldna yfir- og undirstétta;  milli æðri og óæðri;  milli páfugla og smáfugla; milli svartra og hvítra.

Hvað um það! Harry og Vilhjálmur eru meira synir Díönu prinsessu en Karls prins. Strákarnir hennar eru föðurbetrungar. En eins og menn muna þá var Díana full nútímaleg fyrir gömlu stemminguna í höllinni.

Þess vegna var Camilla aftur kölluð til verka.

En áfram þokast tíminn og þá heldur meira í rétta átt. Meghan kemur sennilega með góða blöndun inn í konungsfjölskylduna og er það vel.

En gamli tímann verður þó áfram við völd í höllinni. Camilla sér um það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 15.5.2018 - 11:01 - FB ummæli ()

Hverjir ættu að eiga Ísland?

Í fjölmiðlum  hefur undanfarið verið sagt frá því að ríkasti maður Bretlands sé stór landeigandi á Íslandi.

Hann á Grímsstaði á fjöllum og ýmsar jarðir við laxveiðiár. Fleiri dæmi eru um slíkt.

Þetta er eitt af því sem hnattvæddur kapítalismi án landamæra bíður uppá.

Fyrir erlenda sem innlenda auðjöfra er lítið mál að eignast flestar verðmætustu landspildur og auðlindir á Íslandi.

Sjálfsagt eru talsverðar líkur á að það gerist – að öðru óbreyttu.

Peningaöflin reyna iðulega að leggja allt undir sig.

Mér finnst hins vegar æskilegast að landið sé sem mest í dreifðri eign, en ekki í eigu örfárra auðmanna og greifa.

Og ég vil hafa hálendið, orkulindir og helstu náttúruperlur í sameiginlegri eign þjóðarinnar.

Hver er hinn kosturinn? Jú, hann er sá að auðmenn eigi allt og ráði öllu í landinu. Sumir tala fyrir slíkri skipan – einkum nýfrjálshyggjufólk og hægri róttæklingar.

En það er alls ekki spennandi fyrir íslenska þjóð að stórir hutar landsins og þeirra náttúruverðmæta sem hér eru séu í eigu og ráðstöfun fárra yfirstéttarmanna – hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir.

Hvað finnst ykkur?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.5.2018 - 21:20 - FB ummæli ()

Kröftugur Ragnar Þór

Ég hlustaði á Ragnar Þór Ingólfsson formann VR á 1. maí og svo aftur á Sprengisandi í morgun.

Ragnar Þór mætti talsverðri andstöðu í fyrstu og átti svolítið á brattann að sækja innan launþegahreyfingarinnar.

Hann hefur hins vegar eflst mjög í leiðtogahlutverki sínu og kemur nú fram af öryggi og krafti.

Hann og aðrir framsæknir leiðtogar sem standa saman (Sólveig Anna Jónsdóttir, Vilhjálmur Birgisson og Aðalsteinn Baldursson, og ef til vill fleiri) eru með góðan almennan málflutning og afar athyglisverða hugmynd um þriggja til fjögurra ára samfélagssáttmála sem mér sýnist geta hitt í mark.

Þau eru t.d. að tala um krónutöluhækkun sem skiptir þá lægra launuðu mestu máli og sem aftrar verðbólgusprengju því hækkunin í efri hópum verður ekki svo mikil (hlutfallslega).

Þá eru þau með mjög tímabærar hugmyndir um breytta skattbyrði og velferðarumbætur, t.d. varðandi barna- og vaxtabætur – og auðvitað heildstæðar tillögur í húsnæðismálum.

Talsmenn atvinnurekenda hafa sagst hissa á þessum velferðaráherslum launþegahreyfingarinnar, eins og það sé einhver nýlunda í kjarabaráttunni! En þær eru alvanalegar.

Talsmenn ASÍ eru raunar á sömu línu með þau atriði, enda hefur ASÍ iðulega samið við stjórnvöld um umbætur á sviði velferðar- og skattamála – þó lengra hefði stundum mátt ganga á þeim sviðum.

Í seinni tíð hefur ASÍ lagt mikla áherslu á hófsemd í kjarabaráttu og launaaðhald. Á meðan hafa talsmenn atvinnurekenda og fjáraflanna (SA, Viðskiptaráð, Mogginn, Viðskiptablaðið o.fl.) verið í harðdrægri stéttabaráttu í þágu eigin hagsmuna – leynt og ljóst.

Í hverr i einustu viku segja þau stjórnvöldum hvað þau eigi að gera og allt snýst það um fleiri krónur í vasa atvinnurekenda og fjármagnseigenda. Og svo bæta þau auðvitað við að ekki megi hækka laun meira en orðið er – þrátt fyrir mikinn og áframhaldandi hagvöxt!

Það er greinilega komið það vor í verkó, sem um var rætt í vetur. Nú gæti stéttabaráttan jafnast á ný – launafólki til hagsbóta.

Þessi nýbylgja á vinnumarkaði gæti markað mikil tímamót í kjaraþróun þjóðarinnar ef vel tekst til.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.4.2018 - 09:19 - FB ummæli ()

Ætti verkafólk ekki frekar að fá bónusa?

Ofurlaun og bónusar til forstjóra og bankastjóra hafa verið áberandi á Vesturlöndum í seinni tíð.

Á árunum fram að hruni tíðkuðust gríðarlegir bónusar í bönkunum og hjá hæstu stjórnendum í atvinnulífinu á Íslandi (og víðar). Þessir bónusar áttu sinn þátt í óhóflegri áhættutöku stjórnenda sem leiddu til ófarnaðar og hruns.

Bónusar í bönkum hvetja stjórnendur banka til að lána of mikið og án nægjanlegra trygginga. Þeir fara offari vegna græðgi sinnar (sem bónusarnir næra og magna). Slíkir bónusar eru hvatar til ófarnaðar.

Minna fór fyrir bónusum hjá almennu starfsfólki og verkafólki á bóluárunum – og reyndar enn í dag.

Ný skýrsla sýnir að um 70% fyrirtækja í íslensku kauphöllinni eru með (ofur)bónusa fyrir stjórana en einungis hjá 15%  eru einhverjir bónusar til almenns starfsfólks (sjá hér).

Þetta er öfugsnúið, því lengst af hafa bónusar einkum verið notaðir í þágu verka- og iðnaðarfólks, en síður til stjórnenda. Þeim dugði lengst af að hafa hæstu launin.

Þetta ástand er ein af afleiðingum nýfrjálshyggjunnar í nútímanum. Hún boðar að mikilvægast sé að fjárfestar, stjórar og hátekjufólk almennt græði sem allra mest. Aðrir skipta engu máli.

Því fara bónusar til toppanna nú á dögum en ekki lengur að ráði til annarra.

 

Lærdómurinn úr stjórnunarfræðunum

Í byrjun 20. aldarinnar varð svokölluð “vísindaleg stjórnun” ríkjandi aðferð við að auka framleiðslu og hagkvæmni í fyrirtækjum, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.

Frederick Winslow Taylor var höfundur þessa nýja skóla og gaf út merka bók um efnið árið 1911 (Principles of Scientific Management), sem byggði á reynslu hans af stjórnunarstörfum í iðnaði.

Þar var hugsunin sú, að verðlauna mætti það almenna starfsfólk sem legði sig vel fram eða næði góðum árangri í hversdagslegum verkefnum vinnustaðarins. Adam Smith talaði líka um að verkafólk sem fengi greitt eftir afköstum skilaði meiri árangri – öllum til hagsbóta (sjá hér).

Nýfrjálshyggjan hefur aldrei tekið mark á þessu þó hún þykist fylgja Adam Smith að málum! Hún hugsar bara um þá ríkustu.

Svona bónuskerfi verka- og iðnaðarfólks geta verið með margvíslegum hætti: einstaklingsbónusar (eftir frammistöðu viðkomandi) eða vinnustaðabónusar (eftir árangri vinnustaðarins þar sem allir njóti) – og allt þar á milli.

Þetta var stundum hugsað sem góð leið til að gefa láglaunafólki kost á að fá extra umbun fyrir dugnað eða útsjónarsemi. Slíkt má þó ekki verða til þess að halda grunnlaunum of lágum né leggja of mikið álag á fólk. Útfærslan skiptir öllu máli.

Einhver notkun bónusa tíðkast enn í sumum fyrirtækjum og greinum hér á landi. Hlutaskiptakerfið á veiðiflotanum er eitt dæmi, uppmælingar í iðnaði annað, o.s.frv.

Í sjávarútvegi hefur þó verið þrengt að hlut sjómanna af skiptakerfinu í seinni tíð, með því að taka olíukostnað og fleira af sameiginlegu áður en til hlutaskipta kemur.

 

Stjórarnir taka bónusana í eigin vasa!

Það er sem sagt orðið eitt af einkennum atvinnulífs nútímans að hæstu laun stjóranna hafa víða hækkað gríðarlega á síðustu áratugum. Því til viðbótar hafa þeir gjarnan fengið ofurbónusa í ýmsu formi.

Topparnir fá aldrei nóg.

Á meðan hefur launþegahreyfingin tekið að sér að vera “ábyrg” og sætta sig við hóflegar launahækkanir í nafni “stöðugleika”.

Þjóðarsáttin 1990 og SALEK samkomulagið gengu út á það.

Er ekki ranglega skipt þegar svona er í pottinn búið?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 21.4.2018 - 09:50 - FB ummæli ()

Fegrið flugvallarsvæðið

Flugvallarsvæði getur verið huggulegt og áhugavert í nálægð við borg. En það gildir ekki um Reykjavíkurflugvöll.

Í merkri skýrslu um framtíð flugvallarsvæðisins frá árinu 2001 segir eftirfarandi:

“Mörg mannvirki þar eru frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Svæðið er illa skipulagt, illa frágengið og fjöldi bygginga, bragga og kofa innan þess er til mikillar óprýði í miðborginni” (sjá hér).

Skoðið bara svæðið í rótum Öskjuhlíðar við Flugvallarveg, eða kofagalleríin í Nauthólsvík og við Skerjafjörð. Víða má sjá ókræsileg og aum hreysi sem hanga uppi á málningunni einni – nema er vera skyldi af gömlum vana!

Þarna fara margir ferðamenn um og sjá þessar hallærislegar minjar eymdar sem á að vera löngu liðin í Reykjavík.

Svæði sem er fallegt frá náttúrunnar hendi fær ekki að njóta sín.

Hvort sem fluvgöllurinn í Vatnsmýri verður þar áratugnum lengur eða skemur er brýnt að hreinsa burt verstu kofaskríflin og braggana af flugvallarsvæðinu.

Sumt af því nýrra mætti raunar fara líka, því það er bæði illa skipulagt og fellur illa að umhverfinu.

Framtíð svæðisins sem flugvallar mun ráðast á vettvangi flugþjónustunnar og mér sýnist að flugfélögin séu þegar komin á þá leið að færa völlinn á rýmra svæði utan borgarinnar, meðal annars til að fá betri varaflugvöll fyrir stærri vélar.

Hvernig væri nú að frambjóðendur til borgarstjórnar bjóði okkur kjósendum upp á fegrunarprógram fyrir flugvallarsvæðið – í stað þess að karpa um framtíð flugvallarins sem Rögnu-nefndin er þegar búin að leysa?

Deilurnar um framtíð Reykjavíkurflugvallar hafa staðið allt of lengi og í reynd haldið svæðinu öllu í gíslingu.

Er ekki tímabært að fegra svæðið – óháð framtíð flugvallarstarfseminnar?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 16.4.2018 - 11:24 - FB ummæli ()

Dóninn Trump trompar allt!

Það verður að segjast eins og er, að dóninn Trump hefur haft afar mikið skemmtigildi eftir að Bandaríkjamenn kusu hann sem forseta.

Það var sterkur leikur! Ég vissi satt að segja ekki að bandarískir kjósendur hefðu svona mergjaða kímnigáfu. Maðurinn var jú vel þekktur í landinu svo kjósendur vissu vel hvað þeir voru að kjósa.

Einstaka úrtölumenn hafa reyndar hrokkið upp með andfælum þegar Trump grínast með kjarnorkuhnappinn og lætur kasta sprengjum á einhver lönd. Fáir hlusta þó á úrtölumenn svo kliðurinn frá þeim skiptir engu máli. Hann er bara eins og hvert annað “fake”.

Grínið heldur sem sagt áfram, eða “the show must go on”, eins og Bandaríkjamenn segja.

Það nýjasta er að lögregluforinginn James Comey hefur gefið í skyn í alvörugefinni bók að Trump ljúgi mikið, sé siðlaus og hafi látið vændiskonur í Rússalandi míga á sig. Hann hegði sér eins og mafíuforingi.

Comey hefur einnig líkt ríkisstjórn Trumps við “skógareld sem veður stjórnlaust yfir landið”, brenni upp siðferði og menningu og svo segir hann forsetann sjálfan umgangast konur eins og þær séu ekkert annað en “kjötstykki”.

Í staðinn tvístar Trump að Comey þessi sé lélegur skemmtikraftur, líkir honum við “showboat” og “slímbolta” og segir hann lygara sem helst ætti heima bak við lás og slá (sjá hér).

Trump vildi reyndar líka að glæpakvendið Hillary Clinton („Crooked Clinton“), mótframbjóðandi hans til forsetaembættisins, yrði fangelsuð fyrir að nota netþjón úr einkageiranum frekar en ríkisrekinn netþjón.

Á meðan Comey var enn lögreglustjóri fann hann sig knúinn til að rannsaka þessa notkun glæðakvendisins á einkareknum netþjóni, vegna ítrekaðra ábendinga frá Trump. En nú telur Trump að einmitt það sýni að Comey hafi verið óhæfur lögreglustjóri – að láta sér detta í hug að rannsaka glæpakvendið rétt fyrir kosninguna, sem leiddi svo til sigurs Trumps!

Þannig kemur Trump úr mörgum áttum í senn og slær alla út af laginu. Sjálfan sig líka…

En sjóið heldur áfram og söguleg met í dónaskap og öðrum djörfum forsetatilburðum eru slegin í hverri viku.

Dóri DNA verður að hafa sig allan við ef hann ætlar að halda sjó með klúru brandarana sína, því uppistandið í Hvíta húsinu slær öll met í dónaskap.

Raunar falla flestir grínarar nútímans í skuggann af Dónaldinum Trump. Hann trumpar allt…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 23.3.2018 - 11:34 - FB ummæli ()

Skynsamlegt að ríkið eigi banka

Ríkið er nú aðaleigandi bæði Landsbanka og Íslandsbanka.

Á síðustu 5 árum hafa eigendur þessara banka fengið um 207 milljarða í arðgreiðslur af þessum tveimur bönkum (sjá hér).

Pælið í því!  Tvö hundruð og sjö þúsund milljónir.

Þetta er andvirði þriggja nýrra Landsspítala.

Arðgreiðslur bankanna til ríkisins eiga stóran þátt í því hversu vel ríkið stendur nú, þrátt fyrir hið mikla áfall sem hrunið var fyrir þjóðarbúið.

 

Hættuleg síbylja nýfrjálshyggjumanna

Tíðarandinn er hins vegar sá, að ríkið eigi ekki að eiga banka. Markaðshyggjupostular og nýfrjálshyggjumenn prédika þetta í sífellu.

Ríkið má helst ekki eiga neitt né gera neitt. Svokallaðir fjárfestar og atvinnurekendur eiga að gera allt, því þeir hafa svo miklu meira vit á fjármálum, segja hugmyndafræðingar nýfrjálshyggjunnar.

“Gammar” og gróðapungar eigi að ráða ferðinni og maka krókinn – eins og það sé gott fyrir almenning!

Reynslan af eignarhaldi auðmanna á bönkum er þar að auki einstaklega afleit hér á landi.

Ríkið átti og rak Landsbankann í 117 ár, með ágætum árangri, áður en hann var endanlega seldur einkafjárfestum árið 2003. Kaupendurnir voru stórtækir braskarar sem hegðuðu sér eins og verstu gammar og hákarlar.

Það tók einkaaðilana ekki nema um 5 ár að reka bankana í þrot, sem var svo gríðarlegt að stærð að það nærri dró þjóðarbúið allt með sér í fallinu. Lagði ofurbyrðar á saklausan almenning, með kaupmáttarrýrnun og skuldaklöfum.

Hvernig getur nokkrum heilvita manni dottið í hug eftir slíka reynslu að það sé betra að auðmenn eigi stærstu bankana en að þeir séu í sameign þjóðarinnar?

Hefði okkur liðið betur ef þessir 207 milljarðar hefðu alfarið runnið í vasa örfárra auðmanna, sem hefðu að auki flutt stóran hluta fjárins úr landi í erlend skattaskjól?

Ó Nei!

Það hefði verið það vitlausasta sem hægt hefði verið að gera þjóðinni.

 

Lærum af Norðmönnum

Norðmenn eru sennilega eina þjóðin í heimi sem ákvað að láta olíuauðlindir sínar og vinnslu þeirra vera í meirihlutaeigu þjóðarinnar, frekar en í eigu fámennrar yfirstéttar.

Fyrir vikið eru Norðmenn sem þjóð í einstakri stöðu hagsældar í heiminum og verða það til langrar framtíðar.

Að afhenda einkareknum gróðapungum gullgæsir þjóðarinnar til eignar, hvort sem er í formi náttúruauðlinda eða banka, er ótrúleg heimska ef ekki glæpsamlegt athæfi.

Við skulum því eiga Landsbankann og Íslandsbanka áfram og láta hagsmunadrifna síbylju einkageirans sem vind um eyru þjóta.

Fáum arðinn af starfsemi þessara banka áfram í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar og veitum honum þaðan til góðra þjóðþrifamála.

Hagur þjóðarinnar á að vera framar hag fámennra hópa einkaaðila.

 

Síðasti pistill: Góðærið á fullu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 10.3.2018 - 10:24 - FB ummæli ()

Góðærið á fullu

Ég hef fjallað um það áður, að Íslendingum hefur gengið vel að komast út úr hruninu (sjá t.d. hér).

Hrunið var eitt það stærsta í alþjóðlegu fjármálakreppunni sem hófst á árinu 2008 en afleiðingarnar urðu ekki þær verstu.

Ég vinn nú að alþjóðlegu rannsóknarverkefni um það hvernig fjármálakreppan hafði áhrif á lífskjör 30 Evrópuþjóða, hvernig velferðarkerfin milduðu áhrif kreppunnar og hvernig viðbrögð stjórnvalda skiptu máli – til góðs eða ills.

Með mér eru 10 þekktir rannsóknarmenn á sviðinu, 2 innlendir og 8 erlendir. Við munum gefa út bók um verkefnið síðar á árinu, hjá Oxford University Press.

Þetta verður allt kynnt síðar. En í íslenska umhverfinu virðist ríkja heilmikið góðæri um þessar mundir.

Ár kreppu og doða eru að baki. Byggingakranar teygja sig til himins í öllum hverfum höfuðborgarsvæðisins, laun hafa hækkað og atvinnuleysi er orðið með minnsta móti á ný.

Innflutningur erlends vinnuafls hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári. Meiri en árið 2007 – pælið í því!

Þessu fylgir einnig hækkun húsnæðisverðs og húsaleigu (sjá hér) og það er á því sviði sem helst skyggir á, einkum eins og það snýr að yngra fólki og þeim sem hafa lægri tekjur.

Vonandi tekst að haga málum þannig á uppsveiflunni næstu misserin að allir njóti kjarabata á svipaðan hátt. Það tryggir félagslegan stöðugleika til framtíðar og gott samfélag í landinu.

Góðærið fyrir hrun var fyrst og fremst góðæri þeirra sem best voru staddir fyrir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 23.2.2018 - 15:43 - FB ummæli ()

Eyþór vildi ekki Áslaugu

Uppstilling á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík veitir ágæta innsýn í það sem er að gerast á bak við tjöldin í flokknum.

Liðsmenn Guðlaugs Þórs virðast hafa náð lykilstöðu og hafið hreinsanir.

Þeir vildu skipta öllum fyrri frambjóðendum út og handvelja nýja úr eigin röðum. Til að ná því fram hönnuðu þeir „leiðtogaprófkjör“ og sniðgengu hefðbundið prófkjör.

Áslaug Friðriksdóttir (Sophussonar) var ekki í náðinni, þó hún hafi fengið næstbestu útkomu í “leiðtogaprófkjörinu” og hefði lýst vilja til að starfa áfram fyrir flokkinn.

Hún hefur þó talsverðan stuðning og hefði án efa fengið mun betri kosningu ef um hefðbundið prófkjör hefði verið að ræða.

Henni var einfaldlega kastað á dyr.

Þetta má glöggglega sjá í skrifum hennar á Facebook og svörum Eyþórs Arnalds við þeim.

Áslaug segir (feitletrun er mín):

“Kæru vinir, enginn getur gengið að neinu vísu í pólitík. Góður stuðningur í hefðbundnum prófkjörum hefur litla þýðingu, þegar leikreglum er breytt og uppstillingarvaldið sett í fárra hendur.

Mér eru það vissulega vonbrigði að eiga ekki sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ég óskaði eftir að skipa 2. sæti listans, þrátt fyrir að vita að ég hefði ekki stuðning meirihluta kjörnefndar nema nýr leiðtogi styddi þá tillögu. Svo reyndist ekki vera og því fór sem fór.

Og Eyþór bregst við þessu og segir:

“Vel orðað og rétt”, sagði Eyþór.

Sem sagt, Áslaug var rekin og kvödd með kinnhesti á leiðinni út…

Niðurstaðan var ekki úr lýðræðislegu kjöri heldur ákveðin af fámennri klíku.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 16.2.2018 - 13:32 - FB ummæli ()

Smálán: Frelsi til að fjötra ungt fólk

Einkavæddu bankarnir lánuðu of mikið fram að hruni. Mest til fyrirtækja og braskara, en einnig nokkuð til heimila.

Ofurskuldsetning banka og atvinnulífs leiddi svo til hrunsins árið 2008.

Frelsi fjármálageirans var heilagt og þjóðin greiddi kostnaðinn af því, með hruninu.

Eftir hrun komu svo smálánafyrirtæki til sögunnar og urðu sífellt umsvifameiri.

Sérgrein smálánafyrirtækja er sú, að veita þeim skammtímalán sem alls ekki ættu að taka of miki lán – og allra síst okurlán.

Fyrir þessa þjónustu taka þessi fyrirtæki öfgafulla orkuvexti – og græða vel.

Ungt fólk eru sérstaklega viðkvæmur hópur í þessu samhengi.

Ofurskuldir og sligandi vaxtakostnaður eru enda orðin að stóru vandamáli hjá ungu fólki – og sjálfsagt líka hjá eldra óreiðufólki (sjá hér og hér).

Það er rétt eins og Íslendingar séu harðákveðnir í því að læra ekkert af mistökum bóluáranna og hættunni af of miklu frelsi í fjármálageiranum.

 

Þarf þetta að vera svona?

Flest fólk sem orðið er fjárráða er í bankaviðskiptum.

Ef menn lenda í tímabundnum vanda eða fara framúr greiðslugetu sinni geta þeir venjulega fengið yfirdrátt hjá banka sínum, ef þeir eru traustsins verðir.

Ef það dugar ekki ættu menn að draga úr neyslu og koma málum sínum í lag, t.d. með ráðdeild og vinnusemi, en ekki safna enn meiri skuldum.

Engin þörf er því fyrir smálánafyrirtæki með sín skammtíma okurlán til að koma inn í myndina, nema markmiðið sé að steypa lántakanum í fjötra ofurskulda. Hámarka ófrelsi hans.

Nú er upplýst að þessi smálánafyrirtæki brjóta lög og blekkja fólk til að taka þessi okurlán – þau fela það hver kostnaðurinn er fyrir lántakandann.

Það eykur hættuna af þessari vafasömu starfsemi. Samt er ekkert sem truflar umsvif þessara okrara. Neytendavernd er veikburða og virðist ekki hafa nein áhrif. Stjórnvöldum er sama.

Af hverju er þessi starfsemi yfir höfuð leyfð?

Sennilega er frelsi braskara og okrara mikilvægara en ófrelsi ungs fólks.

Hér áður var sagt að frelsi eins mætti ekki verða til þess að skerða frelsi annars.

Sú góða regla er þverbrotin í heimi smálánaviðskiptanna.

 

Síðasti pistill:  Salka Valka stígur fram

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.1.2018 - 10:00 - FB ummæli ()

Salka Valka stígur fram

Það var skemmtilegt að sjá viðtal Egils Helgasonar í Silfrinu við hina ungu verkakonu sem býður sig fram til forystu í verkalýðsfélaginu Eflingu (sjá hér).

Hún heitir Sólveig Anna Jónsdóttir og minnti mig á Sölku Völku í skáldsögu Halldórs Laxness.

Þarna birtist allt í einu nýr aðili á leiksviði launþegahreyfingarinnar og virðist til alls vís.

Henni mæltist vel og augljóst var að hún meinti það sem hún sagði.

Hún talaði um stéttabaráttu og þörf fyrir aukna róttækni í kjarabaráttunni. Vill hífa lægstu launin upp á það stig að hægt verði að hafa þak yfir höfuðið og ná endum saman með stritinu.

Svona tal hefur ekki heyrst lengi, en er alveg tímabært.

Það er helst að atvinnurekendur (Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð) hafi verið í róttækri hagsmunadrifinni stéttabaráttu fyrir yfirstéttina á síðustu árum! Það hefur verið alvöru stéttabarátta – en með öfugum formerkjum miðað við sögu stéttabaráttunnar frá 19. öld.

Framboð Sólveigar Önnu og félaga er afspengi þeirra aðstæðna sem nú ríkja.

Þrátt fyrir þokkalegar launahækkanir á síðustu árum, eftir mikla kjaraskerðingu hrunsins, þá er búið að skekkja lífskjaraumhverfi launafólks stórlega með þeirri þróun sem orðið hefur í húsnæðismálum.

Það var afleiðing hrunsins að of lítið var byggt í nokkur ár og svo bættist við verulega aukin eftirspurn túrista eftir húsnæði. Ofan á það allt leggst einnig stóraukinn fjöldi innflytjenda á síðustu árum – þeir þurfa líka húsnæði (þó sumir þeirra sætti sig við að búa í gámum og kústaskápum til að byrja með). Þeim fjölgaði alls um 12-13.000 í fyrra.

En einnig vegur þungt víðtæk innkoma gróðasækinna fjáraflamanna og braskara á húsnæðismarkaðinn (t.d. Gamma). Afleiðing þessa er veruleg hækkun á kaupverði íbúðarhúsnæðis og leigu sömuleiðis – langt umfram framleiðslukostnað.

Stjórnvöld hafa svo gert þetta enn verra með því að lækka vaxtabætur niður í það lægsta sem sést hefur síðan 1988 (sjá hér).

Þó laun fari aftur upp á það stig sem var árið 2007 þá dugir það ekki í þessu nýja umhverfi húsnæðismálanna. Okurverðin á húsnæðismarkaði útiloka að góðærið rati til venjulegs launafólks, ekki síst yngri kynslóðarinnar.

Boðskapur hinnar ungu baráttukonu er því skiljanlegur. Hún lýsir veruleika félaga sinna ágætlega. Og það eru margir í hennar stöðu.

Ekkert er launafólki mikilvægara en launþegahreyfingin.

Það að nú skuli koma til kosninga milli ólíkra framboða ætti að vera fagnaðarefni. Það er einum of sterílt og einræðislegt að einungis sé hægt að velja framboð sitjandi stjórnar, eins og í einveldisríki eða frímúraraklúbbi sé.

Menn eiga að fagna því að ungt og kröftugt fólk vilji bjóða sig fram til starfa í launþegafélögunum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Sólveigu Önnu og félögum hennar vegnar í kosningunum í Eflingu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 28.1.2018 - 08:33 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn gegn þjóðinni!

Sjálfstæðismenn fara offari gegn RÚV þessa dagana, eins og oft áður.

Nú tala þingmenn þeirra opinskátt um að þrengja þurfi að RÚV og taka það af auglýsingamarkaði. Þeir vilja skilgreina hlutverk þess upp á nýtt og draga úr starfsemi þess – skerða tekjurnar (sjá hér og hér).

Svo vilja þeir drekkja fjölmiðlum í auglýsingum á tóbaki og áfengi! Telja að það muni bæta menninguna og hollustuna.

Hér áður fyrr voru Sjálfstæðismenn hallir undir íhaldssemi, þjóðrækni og heilbrigða lífshætti. En ekki lengur. Nú er það sjálfgræðisstefna fámennrar yfirstéttar og peningaplokk sem öllu ræður.

Almenningur gefur þó lítið fyrir þetta „garg“ Valhallarvíkinga og vill halda í öflugt RÚV.

Í nýlegri könnun á viðhorfum þjóðarinnar til RÚV kom þetta fram með afgerandi hætti (sjá hér).

Tæp 73% voru jákvæð gagnvart RÚV en aðeins um 10% neikvæð – hinir voru hlutlausir. Ef aðeins er tekið tillit til þeirra sem afstöðu tóku teljast um 88% almennings (18 ára og eldri) vera jákvæð gagnvart RÚV.

Tæplega 70% telja RÚV mikilvægasta fjölmiðil þjóðarinnar. Um 74% vilja ekki taka RÚV af auglýsingamarkaði. Um 86% segjast ekki vilja lækka tekjur RÚV.

Pælið í þessu! Sjálfstæðismenn eru í algerri andstöðu við þjóðina.

RÚV skiptir þjóðina greinilega miklu máli.

Á þá að láta Sjálfstæðismenn komast upp með aðför að RÚV, þegar þeir eru fulltrúar viðhorfa sem mjög lítill minnihluti þjóðarinnar styður?

Það væri ansi mótsagnarkennt! Og getur auðvitað ekki orðið ef hér er virkt lýðræði.

Hins vegar má vel létta undir með einkareknum fjölmiðlum, til að efla starfsemi þeirra. Margir þeirra eiga erfitt uppdráttar.

Raunar ætti að efla alla íslenska fjölmiðla – í þágu íslenskrar menningar og þróttmeira lýðræðis. Þeir eru í harðnandi samkeppninni við erlenda miðla og efnisveitur hvers konar.

Þetta mætti gera með því að hafa alla fjölmiðla í lægra vsk-þrepi, með matvælum. Eða með beinum stuðningi við innlenda framleiðslu fréttaefnis, fróðleiks og leikins efnis.

Það eru ekki markaður og áfengisauglýsingar sem verja og efla íslenska menningu, heldur lýðkjörið ríkisvald og þjóðin sjálf.

Markaður, áfengis- og tóbaksauglýsingar gera okkur bara að léttvægri hjáleigu við ameríska (ó)menningu.

Kanski við ættum að skera úr um þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Það er í öllu falli ófært að láta minnihlutann kúga meirihlutann!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 11.1.2018 - 11:34 - FB ummæli ()

Lök eignastaða millistéttarinnar á Íslandi

Í bók okkar Arnaldar Sölva Kristjánssonar, Ójöfnuður á Íslandi, er mikil umfjöllun um tekju- og eignaþróun íslensku millistéttarinnar og annarra tekjuhópa, bæði til lengri og skemmri tíma.

Þar kemur meðal annars fram að heldur hefur fjarað undan millistéttinni í seinni tíð, bæði í tekjum og eignum.

Hrunið og kreppan sem fylgdi í kjölfarið fór verr með þá tekju- og eignaminni en þá eignamestu í íslenska samfélaginu.

Margir halda að þær miklu eignir sem til urðu á bóluárunum í aðdraganda hrunsins hafi allar verið froða sem einfaldlega hvarf.

Það er mjög rangt.

Mikið af eignum þeirra eignamestu varðveittist og þær eignir eru nú farnar að skila vaxandi fjármagnstekjum til eigenda sinna á ný. Það fleytir hátekjuhópunum framúr venjulegu vinnandi fólki – eins og mikil brögð voru að á áratugnum að hruni.

Forskot stóreignamanna, sem Thomas Piketty útskýrði í frægri bók sinni frá 2014, gildir líka á Íslandi. Mestu eignirnar vaxa alla jafna örast í venjulegu árferði.

Við megum búast við að sjá enn aukna samþjöppun eignarhalds á næstu árum og áratugum, að öðru óbreyttu.

 

Athyglisverðar upplýsingar í Morgunblaðinu í dag

Í Morgunblaðinu er í dag greint frá athugun sem Creditinfo gerði fyrir blaðið. Þar er vísbending um að 1000 manns eigi 98% allra hreinna eigna í íslensku atvinnulífi. Pælið í því!

Tíu eignamestu einstaklingarnir eiga nærri þriðjung alls eiginfjár sem einstaklingar eru skráðir fyrir í atvinnulífinu. Aðeins tíu einstaklingar.

Það er sem sagt þegar orðin mjög mikil samþjöppun eigna á Íslandi – eins og við skýrum á ýmsa vegu í bókinni. Eignaskiptingin hér á landi er mjög ójöfn – líka í samanburði við önnur vestræn lönd.

Eignir þessara eignamestu einstaklinga í landinu munu vaxa hraðar en atvinnutekjur og húsnæðiseignir venjulegs vinnandi fólks – ef fram fer sem horfir.

 

Mikil samúð með stóreignafólki

Staða millistéttarinnar er sem sagt ekki nógu góð. Eignamyndun í íbúðarhúsnæði er of hæg, m.a. vegna of hárra vaxta og verðtryggingarinnar til lengri tíma. Staða lægri stéttarinnar er svo auðvitað enn verri.

Og afar lök staða ungs fólks sem er að stofna fjölskyldur boðar ekki gott til framtíðar. Það fólk – og lágtekjufólk almennt –  þarf að geta komist áfram og orðið að alvöru millistétt.

Kanski við ættum að skoða þessi mál nánar.

Manni finnst stundum að það sé meiri meðaumkun með auðmönnum á Íslandi en með fátæku fólki og tekjulágum almennt – og það sama gildir um millistéttina.

Eftir fjölmörg ár með gríðarlegri eignamyndun og miklum arðgreiðslum til eigenda útgerðanna er nú efst á baugi að lækka veiðileyfagjaldið. Það stendur í stjórnarsáttmálanum og málafylgjumenn eru komnir á fullt að réttlæta það.

En það er ekki hægt að auka við í barnabótum til ungra foreldra sem einnig mæta ógnarháum húsnæðiskostnaði á markaði. Það má heldur ekki auka vaxtabætur sem hjálpa ungu fólki að eignast húsnæði – jafnvel þó húsnæðisverð sé í hæstu hæðum.

Á húsnæðismarkaði eru eignamennirnir (fjárfestar svokallaðir) í óða önn að hækka bæði kaupverð íbúða og húsaleigu enn frekar. Það eykur arðsemi eiginfjár þeirra.

Eignamönnum gengur allt í haginn á húsnæðismarkaðinum – en flest er þar öndvert hagsmunum ungs fjölskyldufólks.

Í Bandaríkjunum gengur ríkustu 10 prósentunum allt í haginn (og sérstaklega ríkasta eina prósentinu), en hin 90 prósentin standa í stað eða dragast afturúr. Þannig hefur það verið í meira en 30 ár.

Viljum við festast í sama farvegi með okkar samfélag?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 10.12.2017 - 14:33 - FB ummæli ()

Samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ég ræddi við Egil Helgason í Silfrinu í dag um bókina Ójöfnuður á Íslandi, sem kom út nýlega og er eftir mig og Arnald Sölva Kristjánsson. Egill var með góðar spurningar þannig að samræðurnar veita ágæta innsýn í efni bókarinnar. Hér má sjá og heyra samræður okkar:

http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/vidtal-1-stefan-olafsson

Á heimasíðu bókarinnar má svo finna meira kynningarefni um bókina, meðal annars glærur með myndum og efnispunktum. Sjá hér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar