Sunnudagur 21.2.2016 - 21:02 - FB ummæli ()

Þöggunar- og kunningjasamfélag

Það sem íslenskt stjórnsýsla og stjórnmál þurfa mest á að halda um þessar mundir er meiri opnun og gegnsæi.

Hér á landi er því miður mikil tilhneiging til þöggunar, menn þora ekki að segja meiningu sína af ótta við að verða refsað, þ.e. fái ekki þann framgang sem þeir eiga skilið og hreinskilni verði jafnvel látin bitna á afkomendum og vinum í þeirra störfum. Hér á landi ræður einnig ríkjum svokallað kunningjasamfélag þar sem sú tilhneigin er mjög rík að kunningjar standa saman hvað sem tautar og raular sem auðvitað þýðir hættu á því að mál sem ekki eru í lagi í stjórnsýslunni komist aldrei upp á yfirborðið.

Við Íslendingar verður að ráðast gegn þessu meini.  Nýjasta dæmið sem kemur upp í hugann er barkaígræðslan þar sem sjúklingur frá LSH var sendur í tímamótaaðgerð til Svíþjóðar þar sem græddur var í hann plastbarki og í ljós hefur komið að um var að ræða eitthvert mesta læknahneyksli síðari tíma, eins og heyra má í nýjum útvarpsþætti frá BBC.

http://www.bbc.co.uk/programmes/p03jdr3y.

Ég skora á yfirvöld heilbrigðismála hér á landi að koma hreint til dyranna í þessu máli.  Það þýðir ekkert fyrir okkur að segja að þetta sé ekki okkar mál, því það er það svo sannarlega.  Leiða þarf fram í dagsljósið hver var þáttur íslensku læknanna í þessu mál og hvort þar var einhver pottur brotinn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.2.2016 - 19:00 - FB ummæli ()

75 þúsund undirskriftir

Kári og forgangsmálin

 

SKOÐUN

07:00 09. FEBRÚAR 2016, Fréttablaðið

Það er afar mikilvægt að stjórnmálamenn hafi góða tilfinningu fyrir því hvernig þjóðarhjartað slær hverju sinni og leggi við hlustir. Forystumenn þjóðarinnar verða því að vera í góðu sambandi við almenning í landinu og aldrei hefur það verið eins auðvelt og nú eftir að samfélagsmiðlarnir urðu eins sterkir og raun ber vitni. Ríkisstjórninni hefur tekist að leysa mörg erfið verkefni eins og skuldaleiðréttinguna, afnám fjármagnshafta og að koma á stöðugleika í efnahagslífinu þar sem nú er mikill vöxtur og ríkissjóður er rekinn réttum megin við núllið.En ríkissjóður er ekki botnlaus. Ekki viljum við skuldsetja okkur meir en nú er, þar sem 80 milljarðar fara í vexti á ári. Þetta eru algerir blóðpeningar. Mikilvægt er því að einbeita sér að því að lækka vaxtakostnaðinn með niðurgreiðslu skulda eins og fjármálaráðherra er að gera. Þá skapast augljóslega svigrúm. En einhvers staðar verður að taka þá peninga sem við viljum leggja af mörkum til heilbrigðis- og velferðarmála. Enn fremur verðum við velja. Á til að mynda að fresta jarðgangagerð, fresta kaupum á nýjum Herjólfi svo dæmi sé tekið og gera öflugra átak í að skera niður ríkisútgjöld? Það verður að vera breið sátt um það hvaðan þeir peningar eiga að koma sem þarf í endurreisn heilbrigðiskerfisins. Svo ríkan vilja stórs hluta þjóðarinnar sem hefur lagt undirskriftasöfnun Kára lið verður að virða. Vinnum saman að því að finna lausnina, en vilji er allt sem þarf.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.2.2016 - 12:18 - FB ummæli ()

Niðurlægjandi fyrir eldri borgara

,,Þegar eldri borgari fer á hjúkrunarheimili gerir Tryggingastofnun ríkisins lífeyri hans „upptækan“ til greiðslu kostnaðar við dvölina á hjúkrunarheimilinu. Þetta er líkast eignaupptöku. Þeir, sem hafa meira en rúmar 74 þúsund í tekjur, mega sæta því, að það sem umfram er sé af þeim tekið fyrir dvalarkostnaði þar til náð er markinu tæpar 355 þúsund krónur. Þar stöðvast „eignaupptakan“. Síðan er eldri borgurunum skammtaðir vasapeningar, 53 þúsund krónur að hámarki en þessi greiðsla er tekjutengd.Eldri borgararnir, sem fara á hjúkrunarheimili, eru ekki spurðir að því hvort þeir samþykki að lífeyrir þeirra sé tekinn af þeim í framangreindum tilgangi. Nei, þeim er einfaldlega tilkynnt þetta. Á hinum Norðurlöndunum er annar háttur hafður á. Þar fá eldri borgararnir lífeyrinn í sínar hendur en síðan greiða þeir sjálfir eða aðstandendur kostnaðinn við dvölina á hjúkrunarheimilinu.Það er mat lögfræðinga, að það sé mannréttindabrot að rífa lífeyrinn af eldri borgurum á þennan hátt.
Við ættum að hafa sama hátt á þessu og á hinum Norðurlöndunum. Við þurfum að breyta þessu strax það er niðurlægjandi fyrir eldri borgara að þurfa að sæta því fyrirkomulagi, sem nú er viðhaft.“  Bein tilvitnun í tölvupóstur frá Félagi eldri borgara.  

Þetta þykir mér afar vont að lesa.  Af hverju tekur ríkið sjálfsforræðið af eldra fólki og niðurlægir það með þessum hætti?  Hef einnig beint þeirri spurningu til velferðarráðherra. 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.2.2016 - 18:31 - FB ummæli ()

Skaðlegt börnum

Gott hjá Degi borgarstjóra að fokreiðast þegar að hann heyrði af barni sem fékk ekki að taka þátt í pizzuveislui í Fellaskóla vegna þess að það var ekki í mataráskrift. En málinu er ekki þar með lokið. Nú kemur þessi frétt úr Árbæjarskóla sem er engu betri. Þetta er greinilega vont kerfi og skaðlegt fyrir barnssálina. Borgaryfirvöld verða að gera eitthvað í málinu strax.

Dæmi að börn sitji ein í matmálstímum.
VISIR.IS

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.2.2016 - 13:15 - FB ummæli ()

Ríkisstjórn fólksins ekki elítunnar

Afar áhugavert að sjá niðurstöður í forkosningum Demókrata í New Hampshire í Bandaríkjunum í gær, sem grundvallast á skilaboðum Bernie Sanders til þess sem hann kallar,, elítunnar“ í landinu. Sanders sigraði með yfirburðum, hlaut 60 prósent atkvæða en Hillary Clinton um 39 prósent. Sanders sagði eftir að úrslitin voru kunn að hann stæði fyrir pólitískri byltingu hins almenna Bandaríkjamanns;  að ríkisstjórnin tilheyri fólkinu en ekki  auðmönnum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.2.2016 - 12:27 - FB ummæli ()

Borgunarpeningarnir

Ræða sem ég flutti á Alþingi í gær 3. febrúar 2016.

Virðulegi forseti,

Þegar ég var ung stúlka átti ég sparisjóðsbók í Landsbankanum í  Austurstræti.  Eitt sinn brá ég mér í bæinn og tók út dágóða upphæð, sem ég man ekki lengur til hvers ég ætlaði að nota.  Þegar ég kom heim með peningaumslagið þá var hringt frá bankanum og mér tjáð þeir hefðu gert mistök,  ég hefði fengið of mikið af peningum í minn hlut og ég var beðin um að koma strax og skila þeim.  Það fannst mér alveg sjálfsagt mál og fór undir eins og í bankann og skilaði peningunum.

 

Mér datt í hug þessi saga þegar svokallað Borgunarmál kom upp á dögunum, sem er alveg ótrúlegt klúður og með ólíkindum að bankinn skuli hafa staðið að málum eins og raun ber vitni.  Í fyrsta lagi hlýtur krafan að vera galopið og gegnsætt söluferli þegar eignir ríkisins eða ríkisbanka eru annars vegar, og hins vegar er það óskiljanlegt að bankinn skyldi ekki setja inn fyrirvara í kaupsamninginn vegna hugsanlegrar yfirtöku Visa Inc á Visa Europe sem færði hluthafahópnum milljarða í sinn hlut, að því að talið er. Fram hefur komið að þegar bankinn seldi hlut sinn í Valitor til Arion banka þremur vikum síðar var settur inn slíkur fyrirvari.

Landsbankinn er nánast að fullu í eigu ríkisins og því eru stjórnendur Landsbankans að höndla með eigur almennings þegar þeir ráðstafa eignum bankans. Hvers vegna fer bankinn ekki fram á að peningunum verði skilað vegna þessara mistaka eins og forðum.

Væri það ekki hið rétta og sanngjarna niðurstaða í þessu máli að hluthafahópurinn myndi einfaldlega endurgreiða bankanum þá peninga  sem með réttu hefðu átt að koma í hans hlut, og bæta þannig almenningi þennan skaða.

Og að lokum.

Ég tel rétt að Bankasýslan láti fara fram óháða rannsókn á þessu máli sem fyrst.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.1.2016 - 20:00 - FB ummæli ()

Gott hjá RÚV

Gott hjá RÚV að hafa beðist afsökunar á pólitískum boðskap og áróðri í barnaþættinum, Stundarskaupinu. Öllum geta orðið á mistök og mikilvægt að viðurkenna þau, eins og í þessu tilfelli.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.12.2015 - 20:23 - FB ummæli ()

Glæfraferðamenn

Skylda verður erlenda ferðamenn sem hingað koma til að kaupa sér tryggingu sem ber kostað af svona löguðu. Alþingi þarf að skerast í leikinn ekki síst til verndar björgunarsveitum landsins sem þurfa að bera kostað af slíkum glæfraskap, ef ekki eru önnur úrræði. Íslensku sveitirnar byggja á fórnfúsu sjálfboðaliðastarfi sem er líklega einstakt í heiminum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.8.2015 - 11:16 - FB ummæli ()

Rýrt framlag Íslands

Þær ógnvænlegu fréttir hafa borist að um 70 flóttamenn þar af nokkur börn hafi fundist látin flutningabíl í Austurríki. Á sama tíma birtast myndir á netinu daglega af líkum barna sem drukkna hafa í Miðjarðarhafinu á flótta undan ógnarástandinu sem ríkir í Norður-Afríku. Stjórnvöld í Evrópu leita nú allra leiða til takast á við hinn gríðarlega flóttamannastraum, þann mesta fra síðari heimstyrjöld, þar sem fólk leggur sig og börn sín í mikla lífshættu til að freista þess að komast til betra lífs. Hundruð ef ekki þúsundir láta lífið- börn drukkna daglega eða kafna aftan í lotlausum vöruflutingabíl á hraðbraut í Austurríki. Mér finnst framlag íslenskra stjórnvalda sem hafa tilkynnt að við munum taka við 50 flóttamönnum alltof rýrt og eiginlega til skammar fyrir okkur sem þjóð.  Kannki væri tíföld sú tala nær lagi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.8.2015 - 19:04 - FB ummæli ()

Sýnum ábyrgð

Það söfnuðust 4 tonn af rusli á 3000 metra strandlengju á Íslandi á tæpri viku og ofbauð þeim sem sáu magnið.

Um er að ræða sameiginlegt hreinsunarverkefni á vegum Bandaríska sendiráðsins, Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Bláa hersins sem hófst að morgni 13. ágúst. Frábært starf og með ólíkindum hvað mikið af rusli má finna við strandlengju landsins. Þetta eru samkvæmt frétt Stöðvar 2 mest netaleifar, olíubrúsar, baujur og fleira tengt sjávarútvegi.

Bið menn sem stunda útgerð hér við land að gera eitthvað í málinu, sem og aðra sem eiga þetta rusl og bera að sjálfsögðu ábyrgð á að farga því á réttan hátt!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur