Flokkar: Óflokkað
Flokkar: Óflokkað
Ótrúlegt hvað verðmæti og verðmætamat geta verið afstæð. Það fékk ég staðfest á handritaráðstefnu sem nú stendur yfir í Norræna húsinu á vegum Árnastofnunnar í tilefni að 350 ár eru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar. Árni bjargaði meirihluta handrita Íslendinga frá glötun með söfnunaráráttu sinni og framsýni. Hann sá verðmætin í skinnpjötlunum sem fæstir aðrir sáu. Eins og áður segir eru handritin sum hver í mörg í brotum og brotabrotum. Samt sem áður eru þau líklega mestu þjóðargersemar okkar Íslendinga og þótt víðar væri leitað. Þau segja m.a. frá því þegar þjóð varð til og þegar þjóðfélag féll í borgarstyrjöld sem leiddi til afsals fullveldis árið 1262. Og núlifandi Íslendingar get enn lesið það mál sem landnámsfólkið talaði fyrir tæpum 1000 árum. Það er einstakt. Eins og Arnaldur Indriðason, rithöfundur, sagði svo vel í opnunarræðu ráðstefnunnar: ,,Það vantar nokkrar blaðsíður í handritin, eins og þessa þjóð“, og mikið var hlegið í Norræna húsinu. Annað sem Arnaldur sagði og hitti beint í mark að við Íslendingar værum bókaþjóð sem breyttist í einu í bankaþjóð en sem betur fer værum við aftur orðin gamla góða bókaþjóðin.
Flokkar: Óflokkað
Grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag 9. október 2013.
Ég átti samtal við sérfræðilækni á Landspítalanum fyrir nokkrum dögum. Þetta er læknir sem er meðal okkar færustu sérfræðinga og ég hef alltaf tekið fullt mark á orðum hans. Hann sagði mér umbúðalaust hvernig ástandið á Landspítalanum væri.
Orð hans voru eitthvað á þessa leið: „Þið stjórnmálamenn hafið ekki hugmynd um hve slæm staðan er hér, það endurspeglast í drögum að fjárlögum og því að ekkert viðbótarfé verður veitt til tækjakaupa eins og búist hafði verið við. Þetta er mun alvarlegri staða en ykkur órar fyrir. Það er að bresta á verulegur atgervisflótti héðan. Til dæmis kom sérfræðilæknir til starfa í vor en nú aðeins örfáum mánuðum síðar er hann að fara aftur til útlanda. Vinnuaðstaðan og kjörin eru vart boðleg. Við eigum orðið mjög erfitt með að fá ungt fólk sem er að koma úr sérfræðinámi til starfa. Sömuleiðis vilja ungir læknar sem útskrifast úr læknanámi ekki lengur koma hér til starfa. Það er þreyta hjá þeim sem eftir eru, sumir íhuga alvarlega að hætta og margir að minnka við sig starfshlutfall.“
Og læknirinn bætti við: „Ég tel verulega hættu á að starfsemin hér á spítalanum hreinlega hrynji einhvern daginn og það er styttra í það en margur heldur. Hvar verðum við stödd þá? Hvílíkt tjón sem það yrði fyrir þjóðfélagið og það yrði ekki auðvelt að byggja upp aftur við þessar aðstæður. Ég er alveg hissa á ykkur stjórnmálamönnum að fljóta svona sofandi að feigðarósi. Það getur orðið okkur öllum afar dýrkeypt á endanum. Mikilvægar deildir hér á spítalanum eins og krabbameinsdeildin, nýrnadeildin og hjartadeildin eru verulega laskaðar vegna manneklu og úrelts tækjakosts. Það getur ekki verið gott að vera Íslendingur með þessa algengu og alvarlegu sjúkdóma á meðan staðan er þessi. Hér er ekki verið að hrópa úlfur, úlfur og ábyrgð ykkar stjórnmálamanna er mikil en það er eins og þið skiljið ekki alvarleika þessa máls.“
Og læknirinn hélt áfram: „Ég held að ein skýringin á því hversu illa er komið fyrir Landspítalanum sé hversu seinþreytt starfsfólkið hér er til vandræða. Eljusemi þess hefur að mörgu leyti breitt yfir þann vanda sem hefur þróast. En nú er það orðið uppgefið af að hlaupa sífellt hraðar. Það hefur einnig verið hyldýpi á milli yfirstjórnenda spítalans í gömlu Templarahöllinni og okkar sem vinnum hér á gólfinu. Það þarf tvo til þrjá milljarða í neyðaraðstoð við spítalann strax ef það á að byrja að reyna að snúa þessu við.“
Mér sem alþingismanni og stjórnarliða leið ekki vel undir þessum fyrirlestri sérfræðilæknisins og ég finn mig knúna til að koma skilaboðum hans á framfæri opinberlega.
Flokkar: Óflokkað
Grein sem birtist í DV 21. september 2013
Við þurftum því miður að láta aflífa hundinn okkar, Erró, fyrir skömmu. Það var afar sár reynsla, ekki bara fyrir okkur hjónin heldur alla í fjölskyldunni. Þrátt fyrir að börnin séu löngu flutt að heiman þá var Erró einn af fjölskyldunni. Barnabörnin höfðu líka tekið ástfóstri við þessa stóru loðnu skepnu. Erró varð því miður ekki nema tæplega sex ára gamall.
Erró var afar duglegur hundur og mikill göngu- og fjallagarpur. Hann var af þýsku fjárhundakyni og þurfti mikla hreyfingu og krefjandi verkefni til að fást við. Hann var til dæmis meistari í sporaleit og óralangar gönguskíðaferðir í Bláfjöllum og Heiðmörk voru í miklu uppáhaldi hjá honum.
Þýski fjárhundurinn hefur genetískt sterkt varðhundaeðli. En þrátt fyrir að Erró gelti hátt og mikið um leið og einhver nálgaðist húsið okkar, var hann í raun mikið ljúfmenni. En þegar hann brá sér í hlutverk varðhundsins fannst fólki hann hins vegar ekki sérlega árennilegur. Erró hafði þá kolröngu sýn á tilveruna að raðhúsalengjan sem við búum í og næsta nágrenni tilheyrði honum einum og fjölskyldu hans. Þetta svæði fannst honum að hann yrði að vernda. Ég veit að elskulegir nágrannar mínir þurftu stundum að taka á honum stóra sínum þegar þeir komu heim til sín og Erró stóð geltandi og gólandi, eins og þeir væru einhverjir innbrotsþjófar.
Frægur hundur
Þess á milli var Erró mikill öðlingur og mjög hændur af mannfólki. Hann vildi helst helst kúra þétt að eigendum sínum uppi í sófa eða liggja á gólfinu við fætur þeirra. Hann elskaði líka að fá að fara með í bílinn því þá gat verið nálægt húsbændum sínum.
Erró var nokkuð frægur af hundi að vera, en sem betur fer af góðu einu. Myndir af honum hafa birst bæði í dagblöðum og tímaritum og hann kom meira að segja fram í sjónvarpsþættinum Sjálfstætt fólk hjá Jóni Ársæli.
En hvað gerðist? Af hverju þurfti að svæfa þennan góða vin. Erró var stór. Hann slagði hátt í 50 kíló. Fyrir nokkrum mánuðum fórum við að taka eftir því að hann var orðinn haltur. Dýralæknirinn úrskurðaði að hann væri með slitið liðband og hann fór í stóra aðgerð þar sem gert var við meiðslin. Eftir aðgerðina fylgdu sannkallaðir hundadagar fyrir Erró, því þessi mikli höfðingi var draghaltur og kvalinn eftir aðgerðina, og þurfti auk þess að burðast með stóran „lampaskerm“ um höfuðið til þess að koma í veg fyrir að hann sleikti sárið. Hann gat sig lítið hreyft því lampaskermurinn rakst alls staðar utan í og lá að mestu fyrir. Samt fór hann daglega í göngutúra til endurhæfingar en þeir máttu bara vera mjög stuttir. En svo kom annað áfall. Rúmum sex vikum eftir uppskurðinn, þegar vinstri löppin var farin að jafna sig þá brást liðbandið á hægri fæti. Líklega hefur hann ekki þolað álagið af því að þurfa að bera þetta stóra dýr á meðan vinstri löppin var ónothæf. Nú var Erró orðinn afturlappalaus og gat ekki gengið.
Tómlegt í húsinu
Það voru þung spor að fara með Erró upp á Dýraspítalann í Víðidal. Það hjálpar þó við þessar aðstæður að starfsmenn þar eru alveg yndislegt fólk og sannir dýravinir. Erró var brenndur og aska hans hvílir nú í garðinum hér heima. Það er afskaplega tómlegt hér í húsinu. Búið er að pakka saman öllum þeim eigum sem tilheyrðu Erró. Ótal hálsólum, sérstakri jólaól, hundamat og skálum, hundasjampóum og hundamottum, auk búrsins sem hann svaf alltaf í og er risastórt. Þar fann hann til öryggis og svaf vært allar nætur.
Eina litla sögu má ég til með að segja af Erró svona því hann var svo gáfaður. Hann skildi mjög mörg töluð orð. Það orð sem hafði hvað mest áhrif á hann var „bíll“. Þegar hann heyrði það þá spenntist hann upp af gleði og lét ófriðlega þar til að eigendurnir voru tilbúnir. Það gat verið mjög óþægilegt að hafa þetta 50 kílóa, yndislega, loðna flykki flaðrandi upp um mann þegar maður var að hafa sig til, með öllum hárunum og hundaslefinu sem því fylgdi. Því var oft brugðið á það ráð að nota ensku, til að plata hann svolítið, svo að allt myndi ekki um koll keyra. „We are going to car“ sögðum við og Erró var hinn rólegasti, en ef við sögðum „við erum að fara í bílinn“ þá varð hann hamslaus af gleði og tilhlökkun. Blessuð sé minning okkar fallna félaga.
Flokkar: Óflokkað
Grein sem ég skrifaði í Fréttablaðið 20. september 2013
Á fundi Viðskiptaráðs og í viðtali í Viðskiptablaðinu nýlega kom fram lýsing Andra Guðmundssonar, framkvæmdastjóra H.F. Verðbréfa, á íslenska fjármálaheiminum í dag. Sú lýsing vakti sérstaka athygli mína. Það sem eykur á þunga orða Andra er að hann er sjálfur í forsvari fyrir fyrirtæki innan íslenska fjármálageirans.
Andri fullyrðir að starfsmenn fjármálafyrirtækja séu sjálfir enn að „víla og díla“ með sinn persónulega fjárhag í þessum útboðum, eins og Andri orðar það. Andri heldur áfram: „Ekki nóg með að bankarnir eigi þessi fyrirtæki, láni þessum fyrirtækjum og kaupi fyrirtækin að einhverju leyti eða aðilar á þeirra vegum eru starfsmenn bankanna líka að fjárfesta og taka þátt í þessum útboðum. Þetta er eitthvað sem mér finnst að við hefðum átt að læra af reynslunni 2008.“
Þá segir Andri fulltrúa fjármálageirans koma fram með hroka og að hlutafjárútboð sem ráðist hefur verið í eftir hrun séu ekki til þess fallin að auka tiltrú fólks á markaðnum. Auðvitað er þetta bara ein rödd og athyglisvert að heyra frá fleirum innan fjármálaheimsins um þessa þróun.
Í kosningabaráttunni í vor lagði ég áherslu á eftirfarandi í mínum málflutningi:
Það þarf að skera upp herör gegn græðgi, sjálfhygli og óheiðarleika og þeirri áráttu, sem því miður alltof margir eru haldnir í okkar þjóðfélagi, að maka krókinn, hvar og hvenær sem þeir komast í aðstöðu til þess og yfirleitt alltaf á kostnað annarra. Hér er þörf á hugarfarsbreytingu hjá þjóðinni og þar á Sjálfstæðisflokkurinn að vera í fararbroddi. Mér hefur fundist mjög gott að leita í smiðju forystumanna okkar á fyrri tímum, hvernig litu þeir á málin. Jón Þorláksson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði til dæmis: „Sá sem vill leita eftir efnalegri velgengni fyrir sjálfan sig verður að gjöra það með því fyrst og fremst að leitast við að fullnægja sem bezt þörfum annarra.“
Ég hvet bæði Alþingi og ríkisstjórn að setja fjármálastofnunum þær leikreglur í eitt skipti fyrir öll sem duga til þess að við stefnum ekki þjóðarhag í hættu á nýjan leik eins og 2008.
Flokkar: Óflokkað
Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV, 30. ágúst 2013.
Sjaldan hef ég fyllst eins miklum eldmóði eins og í svokölluðu „traktorsmáli“. Þannig var að Bjarni Guðmundsson prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri hringdi í mig. Hann var að skrifa bók um um fyrstu vélarnar sem leystu mannshöndina af hólmi í landbúnaði hér á landi snemma á síðustu öld. Eitt af því sem sögulegast er í því sambandi var þegar fyrsti traktorinn kom til Íslands, en hann var alltaf kallaður Akranestraktorinn. Ég hafði áður minnst á það við Bjarna að í minni ætt væri alltaf talað um það að langafi minn í föðurætt, Stefán B. Jónsson, hefði flutt inn þennan traktor, en í flestum heimildum segir aðeins að Þórður Ásmundsson, hinn stórhuga kaupmaður Akranesi, hafi keypt fyrsta traktorinn, en hvergi er minnst á þátt langafa. Það sárnaði okkur í fjölskyldunni að sjálfsögðu. Bjarni spurði mig nú hvort það væri nokkur leið fyrir mig að finna heimildir sem sönnuðu mál, þannig að sagan væri rétt rituð í bókinni sem hann hafði í smíðum.
Stefán B. Jónsson var mikill framfaramaður í sinni tíð. Hann fór ungur vestur til Kanada en ákvað svo að snúa aftur til Íslands og kenna löndum sínum alla þá nýju tækni sem hann hafði kynnst í Ameríku. Svo heppilega vildi til að þegar ég var að gera heimildamynd mína um Vesturfarana árið 2008 þá fékk ég í hendur mikið magn af gömlum skjölum sem höfðu tilheyrt honum og höfðu varðveist í fjölskyldunni. Skjölunum frá langafa hafði ég komið fyrir í fjórum nokkuð stórum plastkössum niðri í geymslu. Eftir símtalið frá Bjarna, þar sem hann sagði mér að hann væri meðal annars að fjalla um komu Akranestraktorsins, var mér hlaupið mikið kapp í kinn. Ég var staðráðin í að rétta hlut langafa míns ef nokkur kostur væri.
Koma Akranestraktorsins árið 1918 var gríðarlegt framfaraspor í íslenskum landbúnaði. Nú gátu vélar loksins leyst menn frá hinum ýmsu verkum, sem leiddi til framfara á mörgum öðrum sviðum líka.
En aftur að leitinni miklu að heimildum sem sönnuðu frumkvæði og þátt langafa míns í þessu máli. Eftir símtalið við Bjarna dró ég fram plastkassana með skjölum langafa, ákveðin í að fara í gegnum hvert einasta bréf og pappírssnifsi sem þar var að finna, þótt það tæki mig marga dag.
Í kössunum var mikið af einkabréfum og vinnuskjölum frá því að Stefán bjó í Ameríku, sem og ýmis tímarit sem hann gaf út bæði í Kanada og á Íslandi. Svo voru þarna ógrynni af viðskiptapappírum frá Íslandi enda maðurinn umsvifamikill í gegnum tíðina. Mér féllust eiginlega hendur. Kannski hafði ég reist mér hurðarás um öxl í þetta skiptið?
Fyrsti dagur leitar minnar að uppruna traktorsins skilaði engu. Traktorinn kom til landsins haustið 1918 svo líklega hafði hann verið pantaður snemma árs 1918 eða seint á árinu 1917. Á degi tvö rakst ég hins vegar á bréfabók frá 1916 sem geymdi afrit af viðskiptabréfi á ensku sem Stefán hafði skrifað. En því miður fann ég engar slíka bréfabækur frá 1917 eða 1918. En þegar ég var að leggja bréfabókina frá 1916 frá mér sá ég allt í einu að Stefán hafði skrifað eitthvað í bókina á röngunni, líklega til að nýta pappírinn. Og viti menn þar var komið hið mikilvæga bréf dagsett 15. október 1917, sem færði sönnur á Stefán B. Jónsson pantaði fyrst traktorinn hjá Avery Company í Peoria í New York. Traktorinn kom síðan með Gullfossi til Reykjavíkur 12. ágúst 1918, samkvæmt dagbók Stefáns, sjálfan Akranestraktorinn. Ég réð mér ekki fyrir kæti, enda orðin heldur vondauf um að mér tækist ætlunarverk mitt.
Nýlega kom svo út glæsileg bók eftir Bjarna Guðmundsson á Hvanneyri sem heitir Frá hestum til hestafla. Þar fær Stefán B. Jónsson svo sannarlega að njóta þess heiðurs sem honum ber.
Flokkar: Óflokkað
Byggt á grein sem birtist í Fréttablaðinu í mars árið 2013.
Mér brá í brún að heyra ummæli borgarstjóra um Reykjavíkurflugvöll í kvöld. Þess vegna langar mig að birta aftur hluta úr grein sem ég hef skrifað um málið og lýsir minni afstöðu:
Framtíð Reykjavíkurflugvallar er stórmál sem varðar alla þjóðina. Það getur aldrei orðið einkamál borgaryfirvalda. En hvers vegna á Reykjavíkurflugvöllur að vera áfram í Vatnsmýrinni? Í fyrsta lagi er flugvöllurinn lífæð landsbyggðar við höfuðborgina Reykjavík. Og gleymum því ekki að landsbyggðin er ekki síður mikilvæg höfuðborginni en höfuðborgin landsbyggðinni.
Miðstöð allra samgangna
Reykjavík er höfuðborg allra Íslendinga og hefur mikilvægum skyldum að gegna. Hún er miðstöð allra samgangna í landinu, í lofti, á sjó og á landi. Stjórnsýslan, ráðuneyti og stofnanir eru öll staðsett í Reykjavík. Til stendur að byggja nýtt hátæknisjúkrahús á Landspítalalóðinni og það er mikið öryggismál að hafa flugvöllinn svo skammt frá aðalsjúkrahúsi landsins.
Og ástæðurnar eru fleiri. Það er nóg af öðru góðu byggingarlandi í Reykjavík. Þess vegna er afar einkennilegt að það þurfi endilega að nýta þennan einstaklega verðmæta samgöngu- og þjóðarreit undir íbúðabyggð. Þrátt fyrir ítarlegar athuganir sem miklum opinberum fjármunum hefur verið eytt í á undanförnum árum hafa heldur engir valkostir komið fram sem eru fýsilegir og geta komið í stað flugvallar í Vatnsmýrinni fyrir innanlandsflug. Hólmsheiðin kemur ekki vel út, það að flytja innanlandsflugið alla leið til Keflavíkur þykir mér heldur ekki góð lausn. Þar að auki mun flutningur Reykjavíkurflugvallar kosta þjóðina milljarðatugi, eins og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur bent á. Þannig að rauðu ljósin loga alls staðar.
Í raun eru það ótrúleg forréttindi fyrir alla landsmenn að hafa góðan og öruggan innanlandsflugvöll í hjarta höfuðborgarinnar. Ýmsar erlendar borgir eru eins vel í sveit settar og Reykjavík hvað þetta varðar. Má þar nefna Lundúnaborg sem hefur City-flugvöll í miðborg Lundúna, Boston með Manchester-flugvöll og í Washington D.C. Ronald Reagan-flugvöllinn. Það væri óskandi að borgaryfirvöld í Reykjavík áttuðu sig á mikilvægi staðsetningar Reykjavíkurflugvallar fyrir fólk og fyrirtæki á öllu landinu og ábyrgðina sem fylgir því að stjórna höfuðborg landsins.
Flokkar: Óflokkað
Þær ánægjulegu fréttir hafa borist að Manntal Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 hefur verið samþykkt á lista UNESCO Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna yfir minni heimsins. Á lista UNESCO eru nú um 300 merk skjöl en tilgangurinn með listanum er að tryggja betur að slíkur menningararfur sé skráður og varðveittur og aðgengilegur öllum.
Þetta minnir okkur þingmenn á hvað Íslendingar eiga mikil menningarverðmæti og hvað þau eru mikilvæg fyrir okkur sem þjóð meðal þjóða og hve mikil ábyrgð hvílir á okkur að vernda þau og jafnframt að leyfa fólki að njóta þeirra. Manntalið frá 1703 er elsta nákvæmasta manntal sem enn er varðveitt í heiminum og algjör dýrgripur og mikilvægur hluti af þjóðmenningu okkar. Þar er getið nafns, aldurs og þjóðfélagsstöðu allra íbúa landsins.
Gríðarleg fátækt og örbirgð var í landinu á þessum tíma og Danakonungur fékk þá Pál og Árna til að gera manntalið og síðan jarðabók til þess að hægt væri að gera sér grein fyrir ástandinu. Það er gaman að fletta upp í manntalinu og reyna að setja sig í spor þeirra sem voru uppi fyrir 300 árum. Með leyfi forseta:
„Á Efrinúpi í Miðfjarðarhreppi býr Engilráð Jónsdóttir, fátæk ekkja, 65 ára að aldri. Þar hefur hún verið til húsa um liðinn vetrartíma og fyrir sig til fæðis lagt það góðir menn henni í Guðs nafni á fyrirfarandi sumri hafa gefið. Á þessum vetri keypti hún gamlan sauð, þrjá fjórðunga fiskjar og nokkra mjólk fyrir járnpott og merarfolald. Einnig fær hún mjólk úr á einni sem hún á sjálf auk þess sem hún á einn hrossakapal 24ra vetra.“
Það er gott að hafa söguna til viðmiðunar þegar við metum stöðu okkar í dag og minnir okkur á að ef til vill má stundum nota vægari orð þegar við kvörtum undan lífskjörum í landinu.
Flokkar: Óflokkað
Virðulegi forseti. Ég ætla að taka til umræðu í dag, undir liðnum Störf þingsins, svarta atvinnustarfsemi á Íslandi. Tilefnið er skýrsla sem nýlega kom út á vegum Eurofound en það er stofnun á vegum Evrópusambandsins sem við eigum aðild að sem EFTA-ríki. Þar er lagt mat á hversu umfangsmikið vandamál svört atvinnustarfsemi er hér á landi og hvernig best sé að bregðast við.
Í skýrslunni kemur fram að svört atvinnustarfsemi á Íslandi nemi um 15% af vergri þjóðarframleiðslu á ári en það eru hátt í 300 milljarðar kr. á ári. Fyrir þá peninga væri hægt að gera mjög margt, t.d. að byggja nýjan Landspítala en áætlað er að hann kosti á milli 70 og 80 milljarða kr.
Bæði lækkun skatta og einföldun skattkerfisins er á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar. Einhver besta leið til að koma í veg fyrir svartra atvinnustarfsemi er einmitt sú að skattar séu ekki of íþyngjandi og regluverkið ekki of flókið.
Í skýrslunni eru íslensk stjórnvöld gagnrýnd fyrir að bjóða ekki upp á fleiri leiðir fyrir þá aðila sem vilja komast út úr svartri atvinnustarfsemi og bæta þannig ráð sitt. Það er mikilvægt að höfða til samvisku fólks í þessu máli því að flestallir vilja standa heiðarlega að lífi sínu og ekki þannig að fjármunirnir renni ofan í hið svarta hagkerfi í stað þess að samfélagi njóti góðs af í skynsamlegum mæli. Svört atvinnustarfsemi skerðir líka stórlega samkeppnishæf fyrirtæki sem vilja starfa heiðarlega gagnvart svörtu sauðunum.
Velflest okkar hafa einhvern tíma tekið þátt í svartri atvinnustarfsemi með einum eða öðrum hætti. Menn hugsa sem svo: Hvað geta nokkrir þúsundkallar skipt máli til eða frá? En margt smátt gerir eitt stórt og andvirði sem er á við byggingu fjögurra nýrra Landspítala á ári er svo sannarlega engin skiptimynt.
Ræða flutt á Alþingi 25. júní 2013
Flokkar: Óflokkað