Mánudagur 7.10.2013 - 14:44 - FB ummæli ()

Sorplögguvesen hjá Reykjavíkurborg?

Ég er stödd í blokkarhverfi í Glasgow. Í kjallaranum eru þrír gámar fyrir hvern stigagang. Einn fyrir sorp, einn fyrir gler og einn fyrir pappa, plast og málma.

Ég bjó í pínulitlu smáþorpi í Danmörku í tvö ár. Við hvert einasta hús voru flokkunartunnur.

Ég dvaldi nokkra mánuði í smábæ í Noregi. Í hverri götu voru flokkunartunnur með þriggja-fjögurra húsa millibili.

Ég heimsótti í Hrísey í sumar, þar eru flokkunargámar í hverri götu. Ég veit ekki hversu langt Akureyringar þurfa að rölta með ruslið sitt og væri til í að heyra álit Akureyringa á því hvort þjónustan hafi batnað eða versnað með tilkomu flokkunargáma.

Hversvegna þarf þetta að vera vandamál í Reykjavík? Af hverju eru borgaryfirvöld að reyna að ala fólk upp í umhverfismeðvitund með því að neyða það til að taka sérstaka afstöðu til þess hvernig það losar sig við rusl,  og hrella það með hótunum um að tunnur verði ekki tæmdar, í stað þess að gera umhverfisvænar aðferðir einfaldari og þægilegri? Dettur virkilega engum í hug að þeir sem eiga ekki 6500 kr reyni frekar að fela pappa í gráu tunnunni en að koma pappanum á endurvinnslustöð?  Eða jafnvel að fátæklingar, sem hafa ekki efni á aukatunnu eða aukalosun, safni sorpi upp fyrir utan heimili sín með tilheyrandi hættu á að meindýr laðist að. Hvernig á að fylgja eftir kröfum um engan pappa í sorpið? Er ætlast til þess að sorphirðufólk fari í gegnum ruslið og hvernig á það þá að meta hvort er of mikill pappi í tunnunni? Er nóg að eitt eldhússrúlluhylki og einn eggjabakki sé í tunnunni til þess að hún verði ekki losuð? Hvert er viðmiðið? Er viðmiðið það sama fyrir bróður sorphirðumannsins og óvin hans?

Hversvegna eru flokkunartunnur ekki bara inni í opinberum gjöldum? Hefur borgarstjórn vitneskju um að það fyrirkomulag hafi valdið vandræðum annarsstaðar eða er þetta bara einhver óútskýrður vandræðagangur?

 

—-
Uppfært:

Ég bendi lesendum á að skoða umræðurnar hér. Af hverju er bæklingi um sorphirðu í Reykjavík dreift í öðrum sveitarfélögum? Þetta er þó ekki útskýrður vandræðagangur?

 

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald
Efnisorð:

Fimmtudagur 3.10.2013 - 19:15 - FB ummæli ()

Ert þú einn af þessum 86?

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga er hlynntur þróunarsamvinnu en fáir þekkja þúsaldarmarkmiðin. Hefur fólk þá nokkra hugmynd um hvað það er eiginlega að styðja?

Allir vita að þróunarstarf snýst um að uppræta fátækt og sjúkdóma og það er í sjálfu sér nóg til þess að vera hlynntur því. Það er samt dálítið hallærislegt að 86,4% Íslendinga geti ekki tjáð sig um hluti sem flest okkar styðja þó eindregið svo hér eru nokkrir molar í neytendaumbúðum.  Smellið hér til að sjá skjalið gagnvirkt.

ICEDA

 

 

Upplýsingaherferð SÞ

Þróunarsamvinnustofnun

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál
Efnisorð: , ,

Miðvikudagur 2.10.2013 - 14:54 - FB ummæli ()

Nauðgunarlyf – þjóðsaga eða staðreynd?

Þau lyf sem oftast er talað um sem „nauðgunarlyf“ eru flunitrazepamlyf (þeirra þekktast er rohypnol) og GHB; ólöglegt deyfilyf sem hefur notið nokkurra vinsælda meðal vöðvaræktarfólks, sem brennsluhvati. Miklum sögum fer af umfangi lyfjabyrlunar og lyfjanauðgana í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu. Rannsóknir staðfesta alls ekki þá hugmynd að þetta vandamál sé útbreitt.

Hér er samantekt um það sem virðast vera staðreyndir málsins.

 

1. Lyfjabyrlun virðist vera mjög sjaldgæf

roof1Það er ekki umdeilt að glæpamenn hafa laumað nauðgunarlyfjum í drykki kvenna og komið þannig fram vilja sínum. Ekkert bendir þó til þess að lyfjanauðganir eða tilraunir til lyfjanauðgana séu algengar nokkursstaðar í veröldinni.


Rannsóknir gefa vísbendingu um að byrlun nauðgunarlyfja sé mjög sjaldgæf. Rohypnol og GHB greinast aðeins í 0-2% þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir lyfjabyrlun. Róandi lyf, svosem valíum og librium hafa fundist í um 8% tilvika en inni í þeirri tölu eru lyf sem meintir brotaþolar tóku sjálfir, ýmist að læknisráði eða eigin frumkvæði. Mikið áfengi greinist hinsvegar oft í þvagi og blóði þeirra sem telja að sér hafi verið byrlað nauðgunarlyf. Ég hef, þrátt fyrir mikla leit, ekki fundið neina rannsókn sem staðfestir að lyf, sem meintur brotaþoli kannast ekki við að hafa tekið, finnist í meira en 10% þeirra sem telja að sér hafi verið byrlað nauðgunarlyf.

roof2Bæði í Wales og Ástralíu hafa rannsóknir leitt í ljós að í yfirgnæfandi meirihluta þeirra fáu tilvika þar sem nauðgunarlyf greinast, kemur síðar í ljós að gerandinn hafði engin áform um að nauðga fórnarlambinu, heldur var um að ræða ósmekklegan hrekk ungra manna með vondan húmor. Þetta kemur m.a. fram í bæklingum sem ég vísa á hér að neðan. Í Ástralíubæklingnum kemur fram að þessháttar „grín“ skýri 2/3 hluta tilvika. Þessi yfirvöld gera enganveginn lítið úr hættunni, þau hvetja fólk til að fara varlega og tilkynna grun um notkun þessara lyfja en benda um leið á að lyfjabyrlun sé sjaldan skýringin á annarlegu ástandi.


 

2.  Vanlíðan og minnisglöp eftir djamm er oftar merki um ölvun en lyfjabyrlun

Konur sem telja að sér hafi verið byrlað nauðgunarlyf lýsa oft einkennum sem stemma við áhrif óhóflegrar áfengisneyslu. Flunitrazepamlyf geta haft svipuð áhrif og ofneysla áfengis ef þeirra er neytt í miklu magni og/eða blandað saman við áfengi. Því er erfitt að fullyrða aðeins út frá einkennunum hvort áhrifin stafa af nauðgunarlyfi eða áfengi.

Sömu einkenni geta einnig átt við ýmsa sjúkdóma, t.d. væga matareitrun, ælupest og mígreni.

Margir þættir geta valdið óvenjumiklum ölvunaráhrifum. Þreyta, svengd, streita, lasleiki og lyf geta t.d. magnað áhrifin og komið fólki sem hefur drukkið lítið verulega á óvart. Rétt er að hafa í huga að ungar konur sem hafa áhyggjur af því að fitna eiga það til að borða lítið áður en þær fara út að skemmta sér  þar sem þær reikna með að drekka orkuríka drykki um kvöldið.

roof4Algengt er að fólk sem verður ölvaðra en það taldi líklegt, miðað við það áfengismagn sem það innbyrti, vanmeti drykkju sína, gleymi jafnvel nokkrum drykkjum eða taki ekki eftir því að gestgjafinn fyllir glös gesta um leið og fer að lækka í þeim. Það er t.d. algengt í ölvunarakstursmálum að áfengismælingar sýni meira áfengismagn en ökumaður taldi sig hafa innbyrt. Langoftast greinist mikið áfengi í blóði þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir lyfjabyrlun. Stundum mun meira en ætla má út frá þeim fjölda drykkja sem meintur brotaþoli telur sig hafa drukkið.

 

3  Það er vitleysa að nauðgunarlyf hverfi strax úr líkamanum


Það er mýta að nauðgunarlyf hverfi hratt úr líkamanum. Auðveldast er að greina þau skömmu eftir að þeirra er neytt en flunitrazepamlyf mælast í þvagi í 72 klukkustundir og allt að 5 dögum eftir neyslu. GHB mælist aðeins í þvagi 8-12 tíma eftir neyslu en það greinist í hári mörgum mánuðum eftir að lyfsins er neytt.

roofies5

4  Lyfjabyrlun er ekki einföld og auðveld nauðgunaraðferð


Lyfjabyrlun er að mörgu leyti „óhentug“ aðferð til að fremja kynferðisbrot. Þótt rohypnol og önnur flunitrazepamlyf séu litlaus og bragðlaus eru þau venjulega í töfluformi eða hylkjum. Það tekur bæði duft og töflur nokkra stund að leysast svo vel upp í vökva að engar leifar sjáist í glasi.

Fáar stúlkur fara einar á djammið og áhrifin af nauðgunarlyfjum eru m.a. þau að þolandinn verður ósjálfbjarga. Nauðgarinn þarf því fyrst að einangra fórnarlambið og síðan styðja það eða bera út. Gera má ráð fyrir að það veki óþægilegar spurningar nærstaddra. Mun auðveldara er að velja fórnarlamb sem er í ástandi til að ganga út á leigubílastöð.

 

5  Það er rangt að nauðgunarlyf hafi víðast hvar verið tekin úr sölu vegna mikillar misnotkunar

roof3Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun er það misskilningur að flunitrazepamlyf séu bönnuð í flestum löndum. Þau eru víða á markaði m.a. á Norðurlöndum.

Ekkert þeirra flunitrazepamlyfja sem eru á norrænum markaði er með litarefni enda virðist hættan á lyfjanauðgunum hvergi vera stórt áhyggjuefni hjá stjórnvöldum.

 

6  Áfengi er algengasta nauðgunarlyfið

roofie5Vodka er sennilega handhægasta nauðgunarlyf á markaðnum enda mjög erfitt að greina það ef því er bætt út í annan áfengan drykk. Auk þess eru minni líkur á að gerandinn verði sakaður um glæpsamlegt athæfi þar sem líklegt er að margir taki trúanlega þá skýringu að hann hafi aðeins ætlað að sýna herramennsku með því að fylla glas dömunnar.

Flestir ef ekki allir læknar, eiturefnafræðingar og lögreglufulltrúar sem tjá sig um nauðgunarlyf telja að áfengi sé algengasta nauðgunarlyfið og allar rannsóknir sem ég hef séð staðfesta að áfengi er eina efnið sem algengt er að finnist í þvagi eða blóði þolenda.

 

7  Sögur af lyfjabyrlun sanna ekki neitt

Viðhorfsrannsóknir leiða í ljós að hugmyndir um umfang lyfjabyrlunar eru úr öllum takti við raunveruleikann og heimilidir fólks fyrir því að lyfjabyrlun hafi átt sér stað eru nánast eingöngu skýringar meintra fórnarlamba á annarlegu ástandi sínu. Ástand manneskju er ekki sönnun fyrir neinu öðru en ástandi hennar. Manneskja sem ekki er vön að taka rohypnol eða önnur nauðgunarlyf getur ekki gefið sér að ástand hennar skýrist af því að einhver hafi sett lyf í drykkinn hennar. Þótt margir telji sig þekka tilvik um lyfjanauðgun eða byrlun nauðgunarlyfja segir það ekkert um tíðni slíkra glæpa, ekki frekar en fjöldi þeirra sem telja sig þekkja dæmi um góðan árangur andalækninga segir neitt um raunverulega tíðni árangursríkra andalækninga.

roofie7Í langflestum þeirra tilvika sem lögreglu er tilkynnt um grun um lyfjabyrlun er ekkert annað brot inni í myndinni. Ef við gefum okkur að neikvæð niðurstaða úr lyfjaprófi sé oft röng (en ekkert bendir til þess) virðist byrlarinn þó afar sjaldan gefa sig að konunni eða elta hana, hvað þá að nauðga henni.

Ef lyfjanauðganir væru algengar er líklegt að sömu lyf væru oft notuð til að fremja rán. Þrátt fyrir sögur af mikilli notkun nauðgunarlyfja í Reykjavík fer engum sögum því að gestir skemmtistaða séu rændir eftir lyfjabyrlun.

 

8   Þótt lyfjanauðganir séu sjaldgæfar er samt rétt að tilkynna grun

Konur sem telja sig hafa orðið fyrir lyfjabyrlun og vinirnir sem koma þeim heim, ættu að tilkynna bæði starfsfólki staðarins og lögreglu það tafarlaust að grunur leiki á að inni á tilteknum skemmtistað sé einhver að dunda sér við að setja lyf í drykki gesta.

Það er ekki við því að búast að kona, sem hefur þó ekki orðið fyrir nauðgun og hefur engan tiltekinn mann grunaðan um að hafa átt við drykkinn sinn og er auk þess sárlasin, vilji eyða nóttinn á neyðarmóttöku. Það er þó auðvelt að taka þvagsýni heima og hafa samband við neyðarmóttöku daginn eftir. Jafnvel þótt gleymist að taka sýni strax um nóttina ætti kona sem telur sig að hafa orðið fyrir lyfjabyrlun að skila inn prufu til rannsóknar því rohypnol mælist í 3 sólarhringa og allt að 5 sólarhringa. Hér gildir samt auðvitað reglan því fyrr því betra.

 

9  Ábyrgð fjölmiðla

Þegar stúlka telur sig hafa orðið fyrir eiturbyrlun henda fjölmiðlar söguna á lofti og hafa hana eftir, oftast án þess að greina frá því hversu mörg staðfest tilvik eru um slíkt og án þess að spyrja lyfjafræðing, lækni eða lögreglu hversu algengt þetta sé. Þessi vinnubrögð vekja spurningu um hvort meginmarkmiðið sé frekar að upplýsa almenning um glæpi eða að fá sem flesta „smelli“ á fréttina.

Fyrir einu ári kom fram í fréttum að byrlun nauðgunarlyfs hafði aldrei verið staðfest á Íslandi. Það hefði verið ábyrgt af fjölmiðlum að taka það fram þegar þeir dreifðu sögu ungrar konu sem taldi víst að einhver hefði átt við drykkinn hennar. Þegar svo mikilvægur sannleikur fylgir ekki sögunni er hætt við að hún ýti undir mikinn en ástæðulausan ótta. En vonandi bæta þessir fjölmiðar úr því þegar konan birtir niðurstöðurnar úr lyfjaprófinu.

 

roofie8

 

Nokkrar heimilir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Date_rape_drug
http://news.ulster.ac.uk/releases/2007/3426.html
http://www.alcoholpolicy.net/2007/02/new_research_on.html
http://www.telegraph.co.uk/news/uknews/crime/6440589/Date-rape-drink-spiking-an-urban-legend.html
http://www.nhs.uk/news/2009/10October/Pages/date-rape-drugs-and-alcohol-myth.aspx
http://www.dailymail.co.uk/news/article-436592/Drug-rape-myth-exposed-study-reveals-binge-drinking-blame.html
http://bjc.oxfordjournals.org/content/49/6/848.full.pdf+html
http://www.returnofkings.com/12072/the-myth-of-date-rape-drink-spiking
Drink Spiking – Myths and Facts – NSW Police Force
Drink Spiking (PDF)
National project on drink spiking – Australian Institute of Criminology
http://research.mentorfoundation.org/research/date-rape-drink-spiking-urban-legend

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Kynjapólitík · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , , ,

Mánudagur 30.9.2013 - 21:31 - FB ummæli ()

Hverju er verið að „hagræða“?

hagraeding

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál
Efnisorð:

Sunnudagur 29.9.2013 - 15:33 - FB ummæli ()

Skemmtileg skilti

Á netinu er að finna urmul mynda af óvenjulegum götuskiltum. Því miður fylgir ekki alltaf sögunni hvar myndirnar eru teknar og oft rennir mann í grun að hann Fótósjoppmundur hafi komið við sögu.

 

sign31

Mér skilst að þetta skilti sé í Danmörk en nánari staðsetningu veit ég ekki

 
traffic-signs-02

Ég efast um að þetta sé ekta

 

strange-road-signs-1

Þetta skilti finnst mér sérlega fallegt

 

strangesign23

Ég veit hvorki hvar þetta skilti er né hvað það merkir en mig langar að vita það

 

original

Á vefsíðunni þar sem ég fann þessa mynd segir að skilitið sé í Treviso á Ítalíu.
Ætli þetta sé hugsað sem upplýsingaskilti eða er markmiðið að draga úr slysahættu á næturvaktinni?

 

dsc03581 (1)

Þetta er víst einhversstaðar í Kanada.
Ætli bílar í Kanada séu með viðvörunarflautur af þessari gerð
eða eru lúðrasveitarmeðlimir illa séðir í umferðinni?

 

14365669-a-halloween-road-sign-with-a-flying-witch-silhouette-isolated-on-white-with-clipping-pathÉg veit ekki hvort flugumferð norna er nokkursstaðar svo stórt vandamál
að ástæða hafi þótt til að koma upp svona skiltum
en það er hægt að panta þau á netinu ef þurfa þykir.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Föstudagur 27.9.2013 - 10:30 - FB ummæli ()

Klósettfeminismi

6925314593_e863e34df8Þegar ég sagði frá mannréttindabaráttu My Vingren varð kunningja mínum að orði að nú hlyti ruglið að hafa náð hámarki. Ég var ekki eins viss og svei mér þá ef klósettfeminismi sænskra vinstri manna toppar ekki My Vingren.

Síðasta sumar fékk Viggo Hansen, landshlutaþingmaður* í Sörmland, þá frábæru hugmynd að leggja niður kynjaskipt klósett í húsakynnum landshlutaþingsins. Gott og vel, mér hefur lengi þótt frekar hallærislegt að hafa almennings-salerni kynjaskipt. Sé bara engin rök sem mæla með því.

En feministum er lagið að taka hugmyndir sem flestir geta fallist á og súrra þær upp úr öllu valdi. Viggo vill ekki bara afnema kynjaskipt klósett heldur bætir hann um betur og vill setja þá reglu að allir pissi sitjandi, bæði konur og karlar. Rökin eru annarsvegar þau að það sé snyrtilegra, þar sem síður sé hætta á að menn pissi út fyrir. Hinsvegar teflir hann fram lýðheilsurökum, blaðran á víst að tæmast betur ef menn pissa sitjandi. Og væntanlega í verkahring yfirvaldsins að sjá til þess að menn sprangi ekki um með hálffullar þvagblöðrur daginn út og inn. Hér skýrir Viggo þetta betur:

 

 
män_sitt_kissaÉg hef ekki fundið heimildir um það hvort krafan náði fram að ganga en hafi meðlimum landsþingsins verið gert að pissa sitjandi, leikur mér forvitni á að vita hvernig þvaglátareglum er fylgt eftir í háborg femnismans og hvaða viðurlög liggja við því að brjóta þær. Ég er nefnilega ekki viss um að þeir sem pissa út fyrir séu líklegastir til að láta yfirvaldið segja sér hvernig þeir eigi að bera sig að á klósettinu.

 

 

 

*Ég kann ekki íslenska þýðingu á „landsting“. Um er að ræða ráð sem stjórna heilbrigðismálum og fáeinum málaflokkum til viðbótar í hverri sýslu í Svíþjóð.

—-

Uppfært: Ég fann að lokum heimild um það hvernig þetta mál fór.  Landstingsstyrelsen bar tillöguna fram við Landstinget. Niðurstaðan var sú að þar sem í öllum húsakynnum stjórnsýslunnar væru klósett sem hægt væri að setjast á væri óþarft að koma upp sérstökum kynlausum klósettum. Landstinget féllst ekki á að það væri réttmætt að skylda karla til þess að pissa sitjandi. Ef það væri mikilvægt frá heilbrigðissjónarmiði bæri heilbrigðisyfirvöldum að upplýsa almenning en ekki stýra honum með valdboði.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Miðvikudagur 25.9.2013 - 12:30 - FB ummæli ()

Ein lítil saga úr heilbrigðiskerfinu

Vinkona mín hefur átt við mikil veikindi að stríða síðustu ár. Hún fékk m.a. banvænan sjúkdóm og hefur þurft að undirgangast ýmsar rannsóknir og lyfjameðferð vegna þess, auk þess að þarfnast endurhæfingar og dvalar á sjúkrahóteli. Ég vissi að Íslendingar greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu úr eigin vasa en nágrannaþjóðirnar en þegar ég sá upphæðirnar sem þessi vinkona mín hefur þurft að greiða, gekk gjörsamlega fram af mér.

Konan reiknaði í fyrstu með að fá stærstan hluta kostnaðar endurgreiddan frá Tryggingastofnun og varð því mjög undrandi þegar hún fékk yfirlit frá stofnuninni sem bar alls ekki saman við reikninga. Sem dæmi hafði Tyggingastofnun skrifað 760 kr á þjónustu sem hún hafði greitt 1920 kr fyrir. Skýringin var sú að endurgreiðslur Tryggingastofnunar miðast við eldgamla taxta, auk þess sem fáir sérfræðingar eru bundnir samningi við stofnunina.

 

Hér er yfirlit yfir sjúkrakostnað konunnar árið 2012

Screenshot from 2013-09-23 14:20:26

 

Vinkona mín var svo forsjál að geyma kvittanir. Það var töluverð vinna fyrir hana að bera saman allar tölur en með því að leggja þá vinnu á sig gat hún lagt fram umsókn um skattaívilnun sem varð að lokum til þess að hún fékk endurgreiðslu frá Tryggingastofnun upp á 101 þúsund krónur,  til viðbótar við þær 10 þúsund krónur sem hún hafði áður fengið frá.

Þessi endurgreiðlsa skipti töluverðu máli fyrir hana því samanlagður kostnaður hennar vegna veikinda var yfir 326 þúsund krónur á einu ári. Það gefur þó auga leið að fyrir manneskju sem er með öllu óvinnufær eru 225 þúsund samt of mikið. Þar að auki er ekki víst að allir sjúklingar hafi hugsun á því að halda öllum pappírum til haga og það er heldur ekki hægt að ganga útfrá því að fársjúkt fólk átti sig á mismuninum á útreikningum Tryggingastofnunar og því sem það er raunverulega búið að borga. Því síður er hægt að ætlast til þess að fólk sem er sárkvalið og óttast um líf sitt, hafi burði til þess að standa í þeirri vinnu sem þarf til að fá endurgreiðslur.

Er virkilega enginn áhugi fyrir því hjá stjórnvöldum að tryggja almenningi endurgjaldslausa heilbrigðisþjónustu? Hvað verður um fólk sem á hreinlega ekki tugi eða hundruð þúsunda til þess að greiða fyrir rannsóknir, lyf og aðra nauðsynlega heilbrigðisþjónustu?

—-

Mér var bent á reglugerð frá því í maí um endurgreiðslur vegna mikils sjúkrakostnðar, sem gæti nýst einhverjum í svipaðri stöðu. Upplýsingar um endurgreiðsluna og umsóknareyðublað  má nálgast  hér http://www.tr.is/almenn-rettindi/endurgreidsla-vegna-mikils-kostnadar/ Einnig má hafa beint samband við Tryggingastofnun með tölvupósti tr@tr.is,  í síma 560 4400, 560 4460 eða að koma í þjónustumiðstöð Laugavegi  114 eða til umboða Tryggingastofnunar um land allt ef viðkomnadi er ekki búsettur í Reykjavík.

 

 

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál

Þriðjudagur 24.9.2013 - 18:22 - FB ummæli ()

Þessvegna er kynjafræðikennsla nauðsynleg

Í mínu ungdæmi var engin klámvæðing. Auðvitað var til klám en ekki „klámvæðing“ því hún hófst ekki fyrr en með almennri internetnotkun.

Hvernig stendur þá á því að þegar ég var í 7. bekk þótti fátt fyndnara en að teikna tittling á töfluna í skólastofunni? Hversvegna tíðkuðust allskonar kossa- og keliríisleikir á mínum unglingsárum? Hversvegna þótti brjálæðislega fyndið að lesa upp úr klámblöðum með leikrænum tilþrifum og tilheyrandi hljóðum? Hversvegna urðu hálsklútar mikil uppspretta getgátna um það hvort sogblettur leyndist á bak við klútinn? Hversvegna þótti mínum vinahópi á fyrsta ári í menntó, fyndið tiltæki að fara í hópferð í bíó þegar klámmynd var í boði?  Klámvæðingin var ekki hafin svo hvernig datt æskulýðnum annað eins í hug?

Jú, það er vegna þess að við fengum enga kynjafræðikennslu.

Því segi ég það; kynjafræði er svarið.  Með aukinni kynjafræðikennslu má bæði uppræta ósmekklegan húmor og venja ungu kynslóðina af öllum kynusla og klámsýki. Mun þá upp vaxa kynslóð göfugri og betri þjóðfélagsþegna sem eigi taka sér klúryði í munn né brjóta skátalögin og aðrar þær reglur sem sómakærum ungmennum ber að hlíta.

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Laugardagur 21.9.2013 - 09:30 - FB ummæli ()

Kynlegt vandamál

Skýrslan sem vísað er til

Sund

 

 

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð:

Þriðjudagur 17.9.2013 - 19:51 - FB ummæli ()

Af nauðgaravinum og helgum meyjum

Þann 19. desember 2008 féll dómur við bæjardómstólinn í Herning í Danmörku. Sakborningur var 44 ára karlmaður að nafni Ejnar Nielsen.  Hann hafði ráðist á þáverandi kærustuna sína, lagt hníf að hálsi hennar og nauðgað henni.  Eða svo sagði hún og fyrir það var hann sakfelldur.

Uns sekt er afsönnuð

Áþreifanleg sönnunargögn voru engin. Konan hafði að eigin sögn misst þvag af skelfingu en nauðgarinn farið með hana inn á bað og látið hana þvo sér. Ekkert þvag fannst í rúmfötunum. Geðshræringin og skömmin ollu því (að sögn) að hún setti fötin sín í þvottavélina áður en hún leitaði til lögreglu. Hún hafði líka, í þessu undarlega hugarástandi, sett hnífinn í uppþvottavélina, en hann fannst nú samt og á honum voru fingraför gerandans. Engir óeðlilegir áverkar fundust en konan hafði kvartað um verki við lækni. Hún hafði tekið leigubíl þegar hún fór í skoðun og bílstjórinn staðfesti að hún hefði tekið með sér kodda til að sitja á.

Ekkert af þessu voru í sjálfu sér tæk sönnunargögn. Þótt fingraför finnist á eldhúshnífi í uppþvottavél sannar það ekki að honum hafi verið beitt sem vopni. Þótt kona sitji á kodda og segist finna til sannar það ekki að hún hafi orðið fyrir nauðgun. Það sem réði úrslitum var trúverðug frásögn og andlegt ástand fórnarlambsins. Konan grét. Hún grét og skalf og sýndi þess öll merki að hafa orðið fyrir áfalli.

Ejnar var dæmdur til tveggja ára fangavistar. Síðar staðfesti landsdómur sektarúrskurð en mildaði dóminn í 19 mánuði. Forsendan fyrir milduninni var samband þeirra. Að mati danskra dómstóla telst víst illskárra enn í dag að nauðga sínum eigin konum en annarra. Konan hafði reyndar neitað því að þau hefðu átt í ástarsambandi en þar sem hún hafði sent Ejnari kort, undirritað af „kærustunni“, taldi dómurinn rétt að láta Ejnar njóta vafans að því leyti. Ekki virðist hafa vaknað spurning um hvort konan hafi borið rangt um fleiri atriði.

„Þetta var bara svo fjári góð saga“

Ejnar Nielsen sat inni í fjórtán mánuði en fékk þá reynslulausn.  Hann var ákveðinn í að hreinsa mannorð sitt, náði tali af „brotaþola“ og tók upp samtöl án hennar vitundar.  Í máli konunnar kemur fram að hún hafi logið. Hún byrjaði að segja sögu og þegar hún einu sinni var byrjuð á því gat hún ekki dregið söguna til baka.

Í samtalinu lýsir konan því hversu auðvelt henni reyndist að sannfæra alla um að hún væri fórnarlamb grófrar nauðgunar og skálda upp sönnunargögn. Hún vissi að fingraför Ejnars hlytu að finnast á hnífi sem hann hafði notað til að skera ávexti fyrr um kvöldið. Það var ekkert einkennilegt þótt meint árásarvopn fyndist í uppþvottavélinni því brotaþolar í losti gera allskonar undarlega hluti, útskýrir hún:

Det var jo fordi, at jeg skulle lade som om, jeg var i chok, og så går man jo rundt og gør alt muligt mærkeligt.

Um það hversvegna hún sagðist hafa þvegið fötin sín eftir að hafa pissað á sig, segist hún hafa þurft að gefa skýringu á því hversvegna ekkert þvag fyndist.

Nej, men det var jo for at beslutte den der med at tisse i bukserne, den holdt i retten.

Hún útskýrir einnig fyrir „gerandanum“ hversvegna hún tók með sér púða þegar hún fór í læknisskoðun. Það var til þess að fá fram hagstæðan vitnisburð:

Og jeg ved endda også, at taxachaufføren skal jeg tænke ind (…) Jeg er nødt til at sørge for, at jeg har en pude med ud, sådan at det ser ud som om, jeg har ondt.

Konan talar um nauðsyn þess að sannfæra réttinn um að hún hafi verið algerlega á valdi karlsins. Hún þurfti bæði að koma fram sem  skynsöm og trúverðug en einnig að sýna geðshræringu, gráta og sýna önnur mannleg viðbrögð.

Eller fordi så tilnærmer jeg mig i hvert fald, at jeg også er menneske. Jeg skulle jo være menneske. Jeg skulle jo græde. Der er mange ting, jeg skulle.

Við réttarhöldin baðst hún undan því að þurfa að hitta „gerandann“, ekki vegna þess að hún skammaðist sín of mikið til að horfast í augu við hann, heldur hafði hún áhyggjur af því að hún myndi missa andlitið og fara að hlæja ef hún sæi hann. Þetta var nefnilega svo helvíti góð saga.

Grunden til at jeg ikke vil se dig, var at jeg vidste, jeg ville begynde at grine eller smile eller et eller andet helt vildt.

Hún segist vera leið yfir þessu öllu saman en ekki nógu leið til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ein lygi leiddi af annarri en lygavefurinn varð nú samt aldrei svo íþyngjandi að hún íhugaði að segja sannleikann:

Men det gjorde det jo ikke. Jo, det gjorde det på sin vis, men det var jo bare en god historie, og den skulle jeg bare huske.

Mærin grét

Björgu Sveinbjörnsdóttur finnst það siðlaust og ljótt af manni sem segist vera saklaus af nauðgun að reyna að hreinsa mannorð sitt með því að benda á hnökra á framburði kæranda. (Ég velti því fyrir mér hvort henni finnist ekki siðlaust af Ejnari Nielssen að taka upp samtal án vitundar konunnar sem kom honum í steininn.) Björgu finnst líka voðalega ljótt og hallærislegt að láta sakborning njóta vafans. Ung kona sakar karl (og reyndar konu líka) um nauðgun og þótt lýsing hennar á aðdragandanum sé í mótsögn við frásögn vitna, ljósmyndir og símagögn, þá skiptir það engu máli. Mærin grét og þar með hlýtur henni að hafa verið nauðgað. Ef dómskerfið er ekki til í að sakfella ódáminn þá er lágmark að samfélagið geri það.  „Réttarkerfisspilið“ sem Björg nefnir  (þ.e. sú regla að telja mann saklausan uns sekt hans er sönnuð) er ekki sjálfsögð virðing við mannréttindi, heldur „þöggunartilburðir“.  Framburður og ástand meints brotaþola er fullgild sönnun og sá sem brýtur siðareglu til þess að reyna að hreinsa sig er ofbeldismaður og óþverri.

Ejnar Nielssen fékk málið sitt endurupptekið og hlaut uppreisn æru gagnvart hinu opinbera. Í viðtali við Jyllandsposten í nóvember 2012 segist hann þrátt fyrir það ennþá vera stimplaður nauðgari í sínu samfélagi. Kannski hefði sektardómur yfir konunni hjálpað honum að endurreisa mannorð sitt en kæru hans um rangar sakargiftir var vísað frá.

Hversvegna var kærunni vísað frá þegar fyrir lá viðurkenning konunnar á því að hún hefði komið saklausum manni í fangelsi? Líklega að einhverju leyti vegna þess að viðhorf Bjargar Sveinbjörnsdóttur er ekki róttækt heldur „meinstrím“. Sú hugmynd að meintur brotaþoli sé heilagur  gengur svo langt að þótt viðkomandi verði uppvís að því að segja ósatt um allskonar hluti sem tengjast málinu þá skiptir það ekki máli. Mærin grét. Mærin „upplifði“ eitthvað hræðilegt, svo eitthvað hræðilegt hlýtur að hafa gerst. Og hvað er mannorðsmissir,  jafnvel fangelsisdómur,  í samanburði við tár ungrar konu?

 

Hvað eru þessir  nauðgaravinir að hugsa?

Góð saga er ekki verri þótt hún sé login. Sú hugmynd á auðvitað við um skáldskap. Ekki lygasögu sem sett er fram sem sannleikur og til þess ætluð að valda annarri manneskju skaða. Konan sem kærði Ejnar Nielssen fyrir nauðgun, (sú sem í dómsskjölum er kölluð „K“ af því að brotaþolar eiga að njóta sérstakrar nærgætni) telur hinsvegar að góð saga sé alltaf góð, líka ósönn saga sem kemur saklausum manni í fangelsi.

Ég veit ekki hvort Björg Sveinbjörnsdóttir er konunni „K“ beinlínis sammála eða hvort hún telur í alvöru að þegar kona grætur og skelfur þá sé það sönnun þess að hún hafi orðið fyrir nauðgun. Ég veit hinsvegar hvað við hin erum að hugsa, við sem erum svo full kvenfyrirlitningar að „spila út réttarkerfisspilinu“.  Við þessi afturhaldssömu sem  hikum við að stimpla mann nauðgara, vegna þess að mærin grét og ódámurinn sagði einu sinni ógeðslegan brandara.

Við erum að hugsa um menn eins og Ejnar Nielssen. Við  höfum smávegis samúð með slíkum mönnum, jafnvel þótt þeir hinir sömu kunni að hafa sýnt dónaskap og tillitsleysi. Á feminísku kallast það að vera nauðgaravinur.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics