Miðvikudagur 10.7.2013 - 14:02 - FB ummæli ()

Og enginn spyr hvort þeim finnist það í lagi

Fjöltengið Jón Hákon Magnússon tjáði sig um mál Edwards Snowden á Bylgjunni í gærmorgun (viðtalið byrjar á 5. mínútu.) Ekki finnst Jóni Hákoni ástæða til þess að Íslendingar skipti sér af mannréttindum manns sem afhjúpaði stórfelldar persónunjósnir. Allt snýst þetta auðvitað um okkar viðskiptahagsmuni. Ekkert er minnst á þá hagsmuni okkar og annarra jarðarbúa að njóta einkalífs.

Þáttastjórnendur taka fullan þátt í svívirðunni. Annar þeirra talar t.d. um að Snowden hafi brotið samning með uppljóstrunum sínum. Heldur maðurinn í alvöru að einhver sé siðferðilega bundinn af samkomulagi um að leyna stórfelldum mannréttindabrotum? Flestir íslenskir fjölmiðlamenn eru tilþrifalitlir en þessi tvö eru beinlínis fyrirlitileg.

„Glæpur“ Edwards Snowden var ekki sá að kjafta hernaðarleyndarmálum í hryðjuverkamenn.  „Glæpur“ hans var sá að segja þér og mér og öllum hinum frá því að stjórnvöld í Bandaríkjunum stundi persónunjósnir, ekki bara gagnvart hryðjuverkamönnum og glæpaklíkum heldur gagnvart öllum almennum borgurum. Öllum.

  

Í þessu viðtali segir Snowden frá því að hvaða greinandi sem er (líka hann sjálfur á meðan hann var í þessu starfi) hafi vald til þess að hljóðrita síma- og netsamskipti hvers sem er. Almennra borgara, dómara, forsetans… ALLRA.  Það er sú hegðun sem Snowden kom upp um. Jóni Hákoni Magnússyni finnst engin ástæða til að við sýnum honum samstöðu.

Bandarísk yfirvöld taka upp nánast öll símtöl og netsamskipti almennra borgara. Og ekki bara bandarískra. Ef þú notar google, facebook, skype, twitter eða aðra samskiptamiðla þá getur verið að þú sért undir eftirliti bandarískra stjórnvalda. Það er stjórnarskrárbrot. Það er mannréttindabrot. Þáttastjórnendur spurðu Jón Hákon ekkert hvort honum þætti það í lagi.

Ég hef heldur ekki séð neinn blaðamann spyrja nokkurn þeirra þrjátíu og þriggja þingmanna sem neituðu að skjóta máli Snowdens til þingnefndar hvað þeim finnist um þetta háttalag bandarískra stjórnvalda. Ef slík umfjöllun hefur farið fram hjá mér þá þigg ég ábendingar.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Lög og réttur · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: ,

Mánudagur 8.7.2013 - 21:58 - FB ummæli ()

Skiljanleg viðbrögð löggunnar

[fb_video id=“10200167735496150″ height=“336″ width=“600″ ]

Fyrstu viðbrögð lögreglunnar við þessu umtalaða myndbandi voru ummæli á ímyndarrunkssíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.  Þar er bent á að fólki sé frjálst að leita réttar síns og staðfest að ríkissaksóknaraembættið muni skoða málið. Einnig segir:

Af þessu myndskeiði er ekki hægt að segja til um hvaða samskipti áttu sér stað milli lögreglumannanna og þessa einstaklings sem varð til þess að hún var handtekin.

Ég hef nokkrar athugasemdir í tengslum við þetta svar.

  • Að sjálfsögðu er fólki frjálst að leita réttar síns ef lögreglan fer offari en það ber sjaldan árangur. Í þessu tilviki er til gott sönnunargagn en venjulega er ekki hægt að sanna að harðræði hafi verið beitt eða að áverkar séu tilkomnir vegna óþarfa valdbeitingar.
  • Ríkissaksóknari getur aldrei talist hlutlaus en því miður hafa ábendingar til innanríkisráðherra, um nauðsyn þess að koma á ytra eftirliti með lögreglunni, engan árangur borið.
  • Það er rétt að ekki er hægt að segja til um það hvað hafði gengið á áður en konan var handtekin en málið snýst ekki um það heldur um það hvort handtakan var a) lögleg og b) rétt að henni staðið.

Fór lögreglan offari?

Það er tilgangslítið að ræða lögmæti handtökunnar. Lögreglan virðist hafa nær ótakmarkað vald til að segja almennum borgurum fyrir verkum og það að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu telst brot gegn valdstjórninni (sem reyndar er ekki skilgreind í lögum.) Strangt tiltekið mætti lögreglan handtaka mann sem óhlýðnaðist fyrirmælum hennar um að hoppa upp í rassgatið á sér. Við skulum samt gefa okkur að lögreglan hafi haft betri ástæður fyrir þessari handtöku. Sumir telja víst að konan hafi hrækt á lögregluþjóninn og að það hafi verið ástæða handtökunnar. Ég sé það reyndar ekki en vel má vera að það sjáist á stórum skjá.

Það sem ég sé hinsvegar mjög greinilega á myndabandinu er þetta:

  • Lögreglubíl er ekið af stað þótt manneskja sem er nýstaðin upp úr götunni og lítur út fyrir að vera ölvuð gangi alveg upp að bílnum (0:21)
  • Bíllinn ekur svo nálægt konunni að hliðarspegillinn fer utan í hana (0:24).
  • Lögregluþjónn notar bílhurðina til að stjaka við konunni (0:28).
  • Konan slagar að bílnum (0:33). Hurðinni er svipt upp og skellt utan í konuna. Um leið heyrist einhver sem fylgist með atvikinu segja „hún hrækti á hana-hann hræki á hana“ rétt eins og hann sé ekki alveg viss um hvort þeirra hrækti (0:35). Í báðum tilvikum segir hann „hrækti á hana“ sem gæti átt annað hvort við konuna eða bílhurðina.
  • Lögregluþjónn snarast út úr bílnum en ekki til að athuga hvort hann hafi meitt konuna, heldur grípur hann óþyrmilega um handlegg hennar (0:36).
  • Hann hendir konunni aftur á bak, svo mjóbakið á henni skellur harkalega niður á stálhandrið á garðbekk (0:37).
  • Lögregluþjónninn rífur konuna upp og skellir henni á grúfu í götuna (0:38).
  • Hann dregur hana eftir götunni (0:39).
  • Hann þrífur í handleggi hennar og þvingar þá aftur fyrir bak og um leið kemur annar lögregluþjónn að (0:41).
  • Lögregluþjónninn setur annað hnéð í bakið á konunni og hitt hnéð ofan á hnakka hennar  (0:43)
  • Þeir félagar hjálpast að við að handjárna konuna (0:46) og sá sem réðist á hana hvílir þunga sinn á hnjánum ofan á henni.
  • Konan er rifin á fætur um leið og járnin eru komin á hana (0:52) ekkert er hugað að því hvort hún sé meidd.
  • Hún er leidd að lögreglubílnum (0:55).
  • Henni er ekki gefið neitt færi á að stíga upp í bílinn heldur er henni ýtt inn í hann með andlitið á undan (0:57).

Þetta atvik vekur nokkrar spurningar, m.a. þær hvort það séu venjuleg vinnubrögð lögreglu;

  • að aka af stað á meðan manneskja sem er völt á fótum og sennilega með skerta dómgreind er í snertifæri við bílinn?
  • að nota bíl sem valdbeitingartæki?
  • að henda manneskju sem hefur fengið högg á hrygginn í götuna og handjárna hana án þess að huga að ástandi hennar?
  • að draga manneskju eftir götunni?
  • líka manneskju sem hugsanlega er meidd?
  • Eru það venjuleg vinnubrögð að beita líkamsþunga á hrygg og hnakka til að halda niðri manneskju sem e.t.v. er með bakmeiðsli?
  • og að flytja burt í járnum manneskju sem  hefur litla líkamsburði og hefur fengið á sig þungt högg sem e.t.v. hefur valdið skaða?

Ég get ekki svarað því hvort þessi vinnubrögð eru venjuleg en ég fullyrði að lögregluofbeldi er ekkert einsdæmi. Ég þekki mörg dæmi þess að fólk beri áverka eftir handtökur. Ég hef orðið vitni að algjörlega tilefnislausri handtöku, ég hef séð lögregluna draga mann á hárinu og ég hef sjálf orðið fyrir gjörsamlega óþarfri valdbeitingu af hálfu lögreglu. Lögregluofbeldi á sér ekki bara stað í undantekningatilvikum einmitt þegar myndatökuvél er nálægt, heldur oft og iðulega og þegar það fer fram í lögreglubíl eða fangaklefa eru engin vitni að því.

Eðlileg viðbrögð

Hver sem forsagan að þessu atviki kann að vera, er augljóst að hér missir lögregluþjónn stjórn á skapi sínu. Ég hef séð því fleygt að það sé eðlilegt að maður missi stjórn á sér þegar einhver hrækir á hann. Ég tek undir það sjónarmið, það er ákaflega mannlegt að bregðast við vanvirðingu með reiði (og hugsanlega var konan einnig að bregðast við slæmri framkomu). Það eru jafnvel eðlileg en engu að síður óviðunandi viðbrögð að grípa til ofbeldis.

Hversvegna hegða menn sér svona? Er það að einhverju leyti af því að þeir vita að það er ólíklegt að þeir þurfi að svara fyrir það? Getur verið að fólk sem fær mikið kikk út úr því að sýna vald sitt sé öðru líklegra til að vilja vinna við löggæslu? Elur löggan hrottaskap upp í starfsfólki sínu? Kannski eitthvað af þessu, en ég held líka að það sé bara frekar eðlilegt að menn sem alla daga standa í erfiðum samskiptum við fólk í misannarlegu ástandi, oft fólk sem ber enga virðingu fyrir þeim og því valdi sem þeim er gefið, missi stjórn á sér.

Og nei, ég er ekki að segja að það sé í lagi, síður en svo. Lögreglan hefur einkaleyfi á ofbeldi og það einkaleyfi setur henni mjög þunga ábyrgð á herðar. Lögreglan hefur skýr fyrirmæli um að beita aldrei meira valdi en nauðsynlegt er og flestir eru sammála um að misbeiting lögregluvalds sé með öllu ólíðandi. Engu að síður er lögregluofbeldi nokkuð sem búast má við, vegna þess að hvað sem öllum reglum líður þá eru lögregluþjónar ekkert siðferðilega yfir annað fólk hafnir. Lögregluþjónar sýna af sér hroka, missa stjórn á skapi sínu, misbeita valdi sínu og reyna að ljúga sig út úr vandræðum rétt eins og annað fólk. Og einmitt vegna þess að löggur eru mannlegar eru valdbeitingarheimildir lögreglu vafasamar og útheimta stöðugt eftirlit og stöðuga gagnrýni. Og einmitt vegna þess að það er manninum eðlilegt að bregðast við reiði og ótta með óskynsamlegum aðferðum, ætti aldrei, aldrei. aldrei að koma til álita að leyfa lögreglunni að bera rafbyssur eða önnur hættulegri vopn.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Lögregla og dómsmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Mánudagur 8.7.2013 - 10:34 - FB ummæli ()

Skemmtiþjófar á Facebook – fréttaveitan

 

Er fréttaveitan þín full af kisumyndum og vondum húmor svo þú þarft að leita í kraðakinu til að sjá áhugaverðar umræður? Eða sérðu ekki íþróttastatusa fyrir reiðilegri pólitískri gagnrýni frá grautfúlum álitshöfum?

Eins og í raunheimum þarftu að leiða hjá þér ýmisskonar röfl ef þú ætlar að vera í stöðugum samskiptum við einhvern facebook vina þinna. Þú getur ekki valið að sjá bara það sem Jóna vinkona segir um fjölskylduna en sleppt því að sjá það sem hún póstar frá hun.is (eða ef það er hægt þá vil ég gjarnan fá upplýsingar.) Það eru þó takmörk fyrir því hversu mikið kjaftæði frá sömu manneskjunni maður er til í að leiða hjá sér en sjá, ég boða yður mikinn fögnuð; það er hægt að stjórna heilmiklu um það hvað birtist á fréttaveitunni án þess að dömpa vininum.

 

3twjck

 

Þú getur ekki stjórnað því hvað vinir þínir birta

Fb er bara stórt samfélag. Ef þú ætlar að hlusta á allt sem allir segja muntu veslast upp af leiðindum og ef þú ætlar að henda öllum út sem segja eitthvað sem þú fílar ekki situr þú uppi með saumaklúbb i staðinn fyrir samfélag (sem er bara fínt fyrir þá sem vilja það.) Við getum litið á Facebook sem kaffihús. Það er útilokað að stjórna því hvað aðrir ræða og hvernig en maður getur sjálfur stjórnað því við hvaða borð maður sest. Þú getur valið þér sessunauta og svo geturðu af og til staðið upp og sagt hæ við þá sem þú vilt alveg þekkja þótt þú nennir ekki að hlusta á allt sem þeim liggur á hjarta.

 

image
Virkar ekki fyrr en allir verða sammála um það hvað skuli flokkast sem ruslpóstur

 

 

Þú getur losnað við áreiti án þess að losa þig við vininn

Þegar þú sérð innlegg frá fólki sem póstar iðulega einhverju sem þú hefur ekki áhuga á, þá geturðu takmarkað hvað þú sérð frá þeirri manneskju (eða þemasíðu). Ímyndum okkur t.d. að einn af vinum þínum fylli fréttaveituna dag eftir dag af einhverju sem þér finnst ekkert áhugavert eða að þú sért að drukkna í sætum kisumyndum en viljir samt ekki taka „lækið“ af krúttsíðunni af því að þá heldur systir þín að þú sért handgenginn Satni sjálfum og hatir litla kettlinga.  Næst þegar þú sérð innlegg frá kisusíðunni, prófaðu þá þetta ráð:

 

Screenshot from 2013-07-07 14:22:41

 

Smelltu á píluna sem birtist hægra megin fyrir ofan innleggið.

Ef þú vilt losna við innlegg skaltu velja I don’t want to see this. Þú getur valið að fela aðeins tiltekið innlegg eða þú getur valið þann að sía síðuna  frá fréttaveitunni. Þú ert samt ennþá með „lækið“ á henni. Með þessu kemstu hjá því að særa þenna fræga í fjölskyldunni þótt þú nennir ekki að hafa opinberupersónusíðuna hans á fréttaveitunni. Þú notar sömu aðferð ef vinir birta innlegg sem þú vilt ekki sjá. Vinurinn er samt ennþá á vinalistanum og veit ekkert að þú hefur takmarkað innlegg frá honum.

Ef þú hinsvegar vilt fylgjast með umræðunni án þess að blanda þér í hana, velur þú Follow Post (Vakta innlegg)  og þá færðu tilkynningu þegar ný ummæli koma inn

 

Þú getur skipt um skoðun

Ef þú hefur afþakkað innlegg en skiptir um skoðun ferðu inn á síðuna:

Screenshot from 2013-07-07 14:37:16

 

Þú velur Show in News Feed (Sýna í fréttaveitu) undir Liked (Ánægjuefni) og þá sérðu aftur færslur á fréttaveitunni.

 

Þú getur séð meira frá sumum, minna frá öðrum

Screenshot from 2013-07-07 15:16:02

Ef þú ferð inn á prófílsíðu vinar og ferð með bendilinn á Friends (Vinir) færðu upp svona mynd.

Ef þú vilt ekki missa af færslum frá vininum geturðu valdið Close Friends. (Nánir vinir) Viðkomandi mun ekki halda að þú sért eltihrellir því hann fær ekki að vita að þú hafir flokkað hann sem náinn vin. Þegar þú velur þennan möguleika stjörnumerkirðu innlegg frá vininum og færð tilkynningu um hvert innlegg frá honum.

Ef þig langar ekki að fylgjast með honum en vilt samt hafa hann á vinalistanum (af því að hann er nú frændi þinn þótt hann pósti endalausum fótboltafréttum á facebook.) Þá geturðu valið Acquaintances (Kunningjar) og þú verður ekkert var við hann framar nema fara sérstaklega inn á síðuna hans. Hann veit ekki þú hefur sett hann á kuningjalistann og þú getur alltaf farið aftur inn á síðuna hans og breytt stillingunum.

 

Screenshot from 2013-07-07 16:27:27

 

Ef þú velur Settings (Stillingar) færðu upp þessa möguleika.

Þú getur notað þá til að stjórna því hversu mikið þú sérð frá vininum. Ef hann póstar t.d. í sífellu tónlistarmyndböndum geturðu afþakkað þau.

Ef þú velur Only Important færðu aðeins upp það sem hinn aðilinn stjörnumerkir. Flestir hafa sjaldan hugsun á að nota stjörnumerkingar svo ég myndi ekki ráðleggja þér að nota þann möguleika ef um er að ræða náinn vin sem þú vilt raunverulega sjá mikilvægar uppfærslur frá.

 

 Sumum er hægt að fylgjast með án þess að senda vinarboð

Ef til vill langar þig að fylgjast með einhverjum sem þú vilt ekki senda vinarboð. Sumir bjóða upp á þann möguleika að gerast áskrifandi að uppfærslum (Follower). Ef þig langar t.d. að fylgjast með fb síðu Bjarkar Guðmundsdóttur þá geturðu gerst áskrifandi.

 

Screenshot from 2013-07-08 10:44:44

 

Þú ferð inn á prófílsíðuna. Smellir á Follow hægra megin á opnumyndinni. Þá færðu upp sömu möguleika og áður og getur séð hverskonar uppfærslur þú færð frá henni og auðvitað geturðu hvenær sem er sagt áskriftinni upp.

Ef þú gerist áskrifandi færðu tilkynningu um uppfærslur sem eigandi síðunnar birtir fyrir almenning en ekki það sem hann birtir aðeins fyrir vini. Þetta merkir því ekki að þú sjáir neitt til viðbótar við það sem þú getur séð nú þegar heldur að þú færð tilkynningar þegar viðkomandi uppfærir síðuna. Því miður er margt áhrifa- og listafólk sem býður ekki upp á áskrift. Sennilega eru margir sem vita ekki af þessum möguleika en áskrift er þægileg bæði fyrir þá sem vilja fylgjast með og fyrir þá sem vilja hafa áhrif án þess að stofna sérstaka síðu sem opinber persóna.

 

Skemmtiþjófar á facebook – leikjaboð

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Sunnudagur 7.7.2013 - 12:17 - FB ummæli ()

Skemmtiþjófar á Facebook – leikjaboð

 
Ég tek oft eftir því að fésbókarnotendur ergja sig á því að fréttaveitan þeirra sé full af kattamyndum, pólitískum áróðri eða lélegum húmor. Einnig sér maður oft furðulostinn netverja velta því fyrir sér hvernig hann lenti í tilteknum hóp. Í hverri einustu viku sé ég gremjuleg skilaboð á borð við „hættið að senda mér leikjaboð!“.

Facebook getur sannarlega verið óþolandi fyrir þá sem kunna ekki á hana en sem betur fer er hægt að hafa einhverja stjórn á flestum þessara vandamála án þess að henda fólki út af vinalistanum. Mun ég nú ausa úr viskubrunni mínum. Leikjaboð fyrst. Eitthvað meira seinna ef ég nenni því.
 

Hversvegna þýðir ekkert að biðja fólk að hætta að senda leikjaboð?

Ég veit ekki til þess að hægt sé að koma alfarið í veg fyrir leikjaboð (ef það er hægt þigg ég upplýsingar með þökkum) en það er hægt að fækka þeim verulega. Það sem mun ekki virka til þess að losna við leikjaboð er að setja „hættið að senda mér leikjaboð“ eða „ég ætla að blokkera alla sem senda mér leikjaboð“ í stöðulínuna.

Í fyrsta lagi munu margir vinir þinna ekki sjá þessi skilaboð. Sumir þeirra eru ekki skráðir inn á sama tíma og þú. Sumir eru með svo marga á vinalistanum að þeir ná ekki að fylgjast með öllu sem kemur inn á fréttaveituna. Sumum þeirra finnst þú sjálf(ur) hinn mesti skemmtiþjófur (þótt þeir elski þig nú samt) og hafa því sett þig á kunningjalistann eða valið að sjá ekki öll innlegg frá þér (ég skal kannski segja þér hvernig það er gert síðar.)
 

index

Virkar ekki

 

Í öðru lagi er alls ekki víst að vinir þínir séu að leggja þig í einelti þótt þú fáir mörg leikjaboð. Sumir leikir eru nefnilega svo hjálpsamir að þeir senda leikjaboð í þínu nafni ef þú notar þá, hvort sem þú kærir þig um það eða ekki. Það eina sem aðrir geta gert til að tryggja að þú fáir ekki leikjaboð frá þeim (fyrir utan að fjarlægja þig af vinalistanum) er að hætta sjálfir að spila leiki sem þeir hafa ánægju af. Og það er ekki að fara að gerast.

Í þriðja lagi er líklegt að margir á vinalistanum þínum hafi sent þér vinarboð eða samþykkt þitt af einhverjum öðrum ástæðum en einskærri ást og ævarandi hollustu og taki það nákvæmlega ekkert nærri sér þótt þú hendir þeim út af vinalistanum eða blokkerir þá. Þeim gæti jafnvel dottið í hug að þín fýla sé þitt vandamál.
 

Rottenecards_9816663_qfvp6x7pmh

Virkar ekki heldur

 

Að losna við leikjaboð

Það sem virkar er hinsvegar þetta:

Screenshot from 2013-07-07 10:07:20Vinstra megin við fréttaveituna þína er hliðarslá og þar fyrir neðan miðju ættirðu að sjá svona mynd.

Smelltu á App Center.

 

Screenshot from 2013-07-07 10:14:41

Nú ættirðu að sjá þessa mynd (nema kannski með miklu hærri tölu í rauða reitnum) neðarlega á síðunni lengst til vinstri.

Smelltu á Requests.

 

 

Screenshot from 2013-07-07 10:25:26

Hér sérðu leikjaboð. Í þessu tilviki boð um að spila Friends With Benefits. Smelltu á krossinn ef þú vilt ekki prófa leikinn. Ef þú hefur aldrei blokkerað leiki sérðu sennilega langan lista af einhverju Farm Ville og Candy Crush dóti.

 

Screenshot from 2013-07-07 10:33:26

Nú kemur upp svona mynd. Ef þú velur báða möguleikana; Block… og Ignore all requests from... muntu hvorki fá leikjaboð frá þessum leik né frá þessum vini framar. Svo ferðu eins að með næsta leik í röðinni. Þú ert ekki að blokkera vin þinn með þessu og hann fær ekki tilkynningu um að þú viljir ekki leikjaboð frá honum svo þú ert ekki að særa neinn eða skemma nein sambönd með þessu, heldur bara að losna við bögg. Ef þú gerir þetta daglega í smá tíma dregur verulega úr leikjaboðum. Ég fæ t.d. ekki nema 1-2 leikjaboð á viku þótt ég eigi lögheimili á Facebook.

 

En ef þú sérð eftir því?

Ef þú vilt fá leikjaboð frá þessum leik eða þessum vini einhverntíma seinna, getur þú auðveldlega fjarlægt síuna.

 

Þú smellir fyrst á tannhjólið í horninu hægra megin. Screenshot from 2013-07-07 10:59:16Þá færðu upp mynd sem líkist þessari.

Smelltu á Privacy Settings.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Screenshot from 2013-07-07 11:19:34

 

Vinstra megin kemur upp svona mynd. Veldu Blocking.

Nú færðu upp nokkra lista. Fyrst með þeim sem þú hefur blokkerað, ef þú notar þann möguleika. Þar fyrir neðan er Block app invites og þar birtist listi nem nöfnum þeirra sm þú hefur stöðvað leikaboð frá og unblock fyrir aftan hvert nafn. Fyrir neðan þann lista er annar listi með nöfnum þeirra leikja sem þú hefur blokkerað.

Þú velur unblock fyrir þá leiki og/eða vini sem eru í náðinni og sjá; leikjaboðin munu streyma inn að nýju.

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Laugardagur 6.7.2013 - 19:41 - FB ummæli ()

Úrskurðarnefnd sendir borgurum fingurinn

 
cartoonstockÉg er búin að fá þessi gögn sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi óhætt að sýna almenningi og ég hef sjaldan orðið fyrir meiri vonbrigðum. Eftir rúmlega 37 vikna bið frá því að ég lagði fyrst fram kæru (en þá var liðinn mánuður frá því að ég óskaði fyrst eftir gögnum) er niðurstaðan sú að það sem almenningur má sjá af þessari skýrslu eru eingöngu beinar tilvitnanir í fjölmiðla. Við erum að tala um meðgöngulengd.

Vonandi gengur þetta venjulega hraðar fyrir sig en að hluta skýrist þessi langi biðtími af því að fyrstu kærunni var vísað aftur til lögreglu. Rök lögreglustjóra héldu ekki vatni svo honum var gefinn kostur á að svara mér aftur og vísa í aðrar lagagreinar. Frábært fyrir yfirvaldið, það eina sem það þarf að gera til að þreyta þá almennu borgara sem leita réttar síns er að bulla. Það hefur engar afleiðingar, yfirvaldið fær bara annan séns.
 

Af hverju vil ég fá að sjá þessa skýrslu?

Ástæðurnar fyrir því að ég bað fyrst um afrit af skýrslunni voru annarsvegar almenn forvitni um það hvernig stofnanir samfélagsins vinna með gögn og hinsvegar grunur um að skýrslan væri lituð af pólitískri afstöðu til Búsáhaldabyltingarinnar.

Ég ákvað að leggja fram kæru af því að þessar grunsemdir voru rækilega staðfestar þegar höfundur skýrslunnar kynnti efni hennar hjá stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins undir heitinu „Aðförin að Alþingi.“ Í fyrirlestrinum komu bæði fram rangfærslur og augljós pólitísk afstaða  til þessara mestu uppþota Íslandssögunnar. Hér er um að ræða skýrslu sem lögreglan talar um sem vinnuplagg og sem vænta má að verði notuð til þess að kynna nýjum lögregluþjónum mótmælamenningu og viðbrögð við uppþotum. Ef sú kynning er lituð af pólitískum viðhorfum þá kemur almenningi það við.
 

Hvað sagði úrskurðarnefndin?

Í úrskurðinum er staðfest að skýrslan geti ekki talist vinnuplagg og nefndin bendir raunar á ein rök til viðbótar þeim sem ég hafði nefnt í kærunni.

Nefndin tekur undir það sjónarmið lögreglustjóra að persónuverndarsjónarmið beri að virða. Um það hefur aldrei verið neinn ágreiningur og tók ég sérstaklega fram í kærunni að ég færi ekki fram á upplýsingar sem varða einkahagi enda væri einfalt að afmá þær eða fjarlægja þá hluta sem innihéldu slíkar upplýsingar. Í úrskurðinum kemur einnig fram að vandasamt geti verið að meta hvort upplýsingar teljist viðkvæmar persónuupplýsingar eða ekki. Það er væntanlega á þeirri forsendu sem mér er eingöngu skammtað það sem hefur birst orðrétt í fjölmiðlum auk stuttrar umfjöllunar sem varðar mig sjálfa.
 

Hversvegna er svona erfitt að meta hvað telst viðkvæmt?

Ótrúlegt verður að teljast að í 270 síðna skýrslu séu engir kaflar fyrir utan fjölmiðlaumfjöllun sem ekki innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar en auk þess er yfirleitt hægt að afmá slík einkenni. Sá kafli sem snýr að mér sjálfri er ágætt dæmi. Þar koma fram upplýsingar sem ekki hafa verið í opinberri umræðu en þær er auðveldlega hægt að fjarlægja líkt og gert er í opinberum dómskjölum. Hinsvegar er umfjöllunin að mestu leyti lýsing á opinberum gjörningi. Engum heilvita manni dettur í hug að það rjúfi friðhelgi mína eða stofni öryggi mínu í hættu þótt sú atburðarlýsing sé birt.  Ætla má að svipað gildi um aðra hluta skýrslunnar.
 

Fyrir hvern vinnur úrskurðarnefndin?

Hugmyndin með úrskurðarnefndum er sú að almenningur  eigi að geta leitað réttar síns gagnvart yfirvöldum án þess að fara með öll mál fyrir dómstóla með tilheyrandi kostnaði.

Í þessu tilviki leitaði ég réttar íslenskra ríkisborgara gagnvart yfirvöldum sem sýnilega taka pólitíska afstöðu í málum sem þeim ber að nálgast af hlutleysi. Úrskurðarnefnd tekur þá hápólitísku afstöðu að túlka lögin eins vítt og mögulegt er, í þágu yfirvalda sem vilja fá að matreiða sinn pólitíska boðskap ofan í lögregluþjóna framtíðarinnar. Finnst ykkur það í lagi?

 

Hverjir geta farið fram á aðgang?

Lögreglustjóri, Stefán Eiríksson, lætur að því liggja að þeir sem nefndir eru í skýrslunni muni ekki fá aðgang að þeim hlutum hennar sem snúa að þeim sjálfum nema fara fyrst í gegnum úrskurðarnefndina (sem merkir að hlutaðeigandi þurfa að bíða mánuðum saman eftir svari.) Stefán er með þessu að reyna að slá ryki í augu almennings. Það væri gersamlega fráleitt af úrskurðarnefnd að dæma mér aðgang að þeim hluta sem snýr að mér en neita öðrum borgurum um það sem snýr að þeim persónulega. Ég bendi á 8. grein reglugerðar um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu:

Upplýsingaréttur hins skráða.
Hinn skráði á rétt á að fá frá lögreglu vitneskju um:

1. hvaða upplýsingar um hann er eða hefur verið unnið með;
2. tilgang vinnslunnar;
3. hver fær, hefur fengið eða mun fá upplýsingar um hann.

Lögregla skal veita vitneskju skriflega ef þess er óskað. Afgreiða skal erindi skv. 1. mgr. svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku þess.

Það væri þó ekkert ólíkt lögreglunni að þráast við að afhenda gögnin.
 

x6gckz

 

Einnig vek ég athygli á 10. grein. Þar segir að lögreglu beri að tilkynna einstaklingi um söfnun persónuupplýsinga, en ég veit ekki um eitt einasta tilvik þar sem sú regla hefur verið virt. Það eru því góðar líkur á að fólk sé nafngreint í þessari skýrslu án þess að hafa minnsta grun um það. Því ættu allir sem áttu erindi í miðbæinn á þeim tíma sem mótmæli stóðu yfir frá okt. 2008 og þar til ný ríkisstjórn tók við völdum, að óska eftir aðgangi að hluta skýrslunnar ellegar skriflegri staðfestingu á því að þeirra sé hvergi getið.
 

Kristinn Magnússon tók myndina

Allt þetta fólk ætti að fara fram á aðgang að skýrslunni

 

En geta þeir ekki bara sent það sem þeim hentar?

Í gær var ég spurð hversvegna ég héldi að þau gögn sem ég þó hefði fengið væru marktæk. Tæknin býður upp á að gögnum sé breytt eftir hentugleikum og því ekkert fráleitt að skýrslan hafi tekið breytingum á þessum 37 vikum sem liðnar eru frá því að ég sendi inn kæru. Þessi möguleiki er einmitt ein af mörgum ástæðum fyrir nauðsyn þess að setja lög sem tryggja tafarlaust aðgengi almennings að öllum upplýsingum sem ekki teljast til einka- eða öryggismála (og lögreglan ætti ekki að vera einráð um mat á því hvað skuli teljast öryggismál en það er efni í annan pistil.) Slík lög eru nauðsynleg til þess að veita yfirvöldum aðhald. Það er í það minnsta augljóst að pólitískt skipaðar nefndir sinna ekki því hlutverki.

Á meðan við sitjum uppi með núgildandi lög er ekki annað í boði, fyrir þá sem hafa áhyggjur af pólitískri afstöðu lögreglunnar til mótmæla, en að þrýsta á um að skýrslan verði gerð opinber að svo miklu leyti sem það stríðir ekki gegn hagsmunum einstaklinga. Því hvet ég þá sem eru mér sammála til að óska eftir upplýsingum um það hvort þeirra sé getið í skýrslunni og ef svo er að fara frá á að fá aðgang að þeim hluta. Komi eitthvað fram í þeirri umfjöllun sem viðkomandi telja óviðeigandi geta þeir valið að birta það en leyna nöfnum, eða öðrum persónugreinanlegum einkennum. Þannig er hægt að safna upplýsingum sem eiga erindi við almenning án þess að vega að friðhelgi einkalífsins.
 

 protest

 
Geir Jón kynnir búsóskýrsluna fyrir sjálfstæðisflokknum
Nokkrar athugasemdir við ræðu Geirs Jóns
Búin að kæra Stefán
Má löggi leyna Búsóskýrslunni?
Endanleg útgáfa af kæru minni til úrskurðarnefndar (hún er í meginatriðum eins og sú fyrsta en einnig er rökum lögreglustjóra svarað og þar sem lögum var lítillega breytt þurfti að breyta númerum lagagreina o.fl. smáatriðum)
Úrskurður nefndarinnar
Sá hluti skýrslunnar sem úrskurðarnefndin telur að eigi erindi við almenning

 

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Lög og réttur · Lögregla og dómsmál
Efnisorð: , , ,

Fimmtudagur 4.7.2013 - 17:33 - FB ummæli ()

Ég fæ aðgang að Búsóskýrslunni

imagesÚrskurðarnefnd um upplýsingamál er loksins komin að niðurstöðu um það hvort lögga sé stætt á að synja mér um aðgang að Búsóskýrslunni.

Í kærum mínum (þá fyrstu sendi ég inn 17. október) er skýrt tekið fram að ég sé ekki að biðja um aðgang að persónuupplýsingum enda eiga þær að fara leynt. Nefndin fellst á þau rök mín að skýrslan sé ekki vinnuskjal eins og lögreglustjóri heldur fram. Þar sem stór hluti skýrslunnar varðar samskipti við einstaklinga þarf hann ekki að gefa mér aðgang að öllu skjalinu. Honum ber þó að veita mér aðgang að þeim hlutum þess sem varða opinbera umfjöllun sem og þann hluta skýrslunnar sem varðar mig sjálfa. Ég aldrei von á að fá aðgang að allri skýrslunni þar sem ætla má að í henni sé töluvert af persónuupplýsingum, svo þessi niðurstaða er í nokkuð góðu samræmi við mínar væntingar.

Það er óþolandi að yfirvöld komist upp með að leyna gögnum sem varða almenning og nú skora ég á ykkur öll sem áttuð persónuleg samskipti við lögreglu eða hafið aðrar ástæður til þess að gruna að ykkar sé getið sérstaklega í skýrslunni, að senda lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu tölvupóst og fara fram á aðgang að þeim hluta skýrslunnar sem varðar ykkur persónulega. Netfangið er stefan.eiriksson@lrh.is og ef einhver þarf aðstoð við að stíla bréfið er ég tilbúin til að aðstoða.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Lög og réttur
Efnisorð: , ,

Laugardagur 29.6.2013 - 16:36 - FB ummæli ()

Endurskilgreiningar

Tungumálið kemur upp um viðhorf okkar.

Stundum afhjúpar það viðhorf sem við erum horfin frá en lituðu samfélag okkar um langa hríð. Þetta eru orð sem hafa verið tekin í sátt svo fremi sem þau eru ekki notuð um það sem þau upphaflega merktu.  Það má t.d. nota orðið fáviti um fólk sem hegðar sér heimskulega – svo fremi sem viðkomandi er ekki þroskaheftur. Orðið fáviti má alls ekki nota um þroskahefta því það lýsir viðhorfi sem er ekki lengur viðurkennt en eimir þó eftir af.

Stundum afhjúpar tungumálið líka viðhorf sem við erum lítt meðvituð um þótt við sjáum alveg hversu íhaldssöm þau eru þegar við hugsum út í merkingu orðanna. Orða sem enginn gerir athugasemdir við og fjölmiðlar og opinberar stofnanir nota hiklaust.  Við köllum t.d. atvinnurekendur vinnuveitendur og starfsmenn þeirra launþega. Bókstafleg merking er ekki sérlega nútímaleg. Atvinnurekandinn færir vesalingum atvinnutækifæri að gjöf og starfsmaðurinn þiggur launin, væntanlega með hjartans þökkum, hræður yfir þessu einskæra örlæti. Við hugsum kannski ekki beinlínis á þennan hátt en mörgum okkar líður eins og þetta sé veruleikinn.

Ný viðhorf bundin í málið – eða ekki

imagesTungumálið endurspeglar líka viljann til að breyta viðhorfum. Orð sem eru tengd neikvæðu viðhorfi þykja ekki lengur tæk og ný orð sem eiga að vera hlutlausari eru tekin upp í staðinn. Stundum fyllumst við jafnvel heilagri vandlætingu og túlkum húmor og hugsunarleysi sem fjandsamleg ummæli. Fínt að vera vakandi en höfum í huga að lítið eða ekkert umburðarlyndi gagnvart fordómafullu tungutaki getur haft þau áhrif að fólki finnist það varla geta tjáð sig um viðkvæm mál nema vera stöðugt á nálum.

Og svo kemur það fyrir að nýja orðið er sannarlega gildishlaðið þótt hugmyndin með því að skipta út orðum sé einmitt fordómaleysi og fagmennska. Hið ágæta orð gleðikona vék þegar velviljandi fjandmenn kynfrelsis tóku upp orðið vændiskona, sem merkir vond kona. Það þótti niðrandi að nota orð eins og hóra eða skækja en umburðarlyndið var í raun ekki meira en svo að vanþóknunin var bara klædd í snyrtilegri búning. Það mátti kannski ekki beinlínis grýta hóruna en vond var hún nú samt. Þeir sem berjast fyrir réttindum gleðikvenna eru svo aftur að reyna breyta viðhorfinu í gegnum tungumálið með því að nota orðið kynlífsþjónn (sem eflaust mun síðar þykja frekar vont líka.)  Þannig beitum við tungumálinu til að endurskilgreina stöðu þessarar stéttar og eðli starfsins; sumir til að viðhalda neikvæðum viðhorfum (en án þess þó að láta vanþóknun sína of berlega í ljós) aðir til að aflétta þeim.

Endurskilgreining Tryggingastofnunar

Vinkona mín benti mér á aðra endurskilgreiningu sem varðar annan og stærri þjóðfélagshóp, þ.e.a.s. alla skjólstæðinga Tryggingarstofnunar; gamalmenni og fátæka, öryrkja og sjúka. Stofnunin sjálf – ekki skjólstæðingar hennar, ekki skattgreiðendur, heldur stofnunin sjálf, – hefur tekið upp á því að endurskilgreina hlutverk sitt, án samráðs við það samfélag sem hún á að þjóna. Ekki með opinberri yfirlýsingu, heldur ósköp laumulega, með því að taka orðið skjólstæðingur út úr orðræðu sinni og setja inn orðið viðskiptavinur í staðinn. Í upplýsingbæklingum Tryggingastofnunar er þannig talað um viðskiptavini en ekki skjólstæðinga.

Orðið viðskipti merkir bókstaflega að fólk skiptist á verðmætum. Oftast skiptir maður við fyrirtæki á peningum og vöru eða þjónustu. Sá sem á í viðskiptum væntir þess að fá til baka jafnvirði þess sem hann lætur af hendi. Hann á siðferðilegan, jafnvel lagalegan rétt á endurgjaldi, annars hétu það ekki viðskipti.

Þeir sem leita til Tryggingastofnunar eru ekki í viðskiptum. Þeir þurfa ekki að láta ekki neitt í skiptum fyrir það sem þeir fá. Til þess er ekki ætlast og til þess má ekki ætlast. Þeir eiga einfaldlega rétt á fjárhagsaðstoð og þjónustu án þess að leggja neitt af mörkum í staðinn. Hlutverk Tryggingastofnunar er samkvæmt skilgreiningu laganna það að annast framkvæmd lífeyris og sjúkratrygginga ásamt þeirri þjónustu, upplýsingagjöf og eftirliti sem því tilheyrir. Ekki að standa í viðskiptum.

Samkvæmt sínu eigin orðfari virðist Tryggingastofnun þó ekki líta svo á að hlutverk hennar sé að vera því fólki vörn og skjól sem lögum samkvæmt á rétt á aðstoð ríkisins við að framfleyta sér, heldur telja forsvarsmenn hennar sig vera að selja þjónustu.  Og þessu viðhorfi er laumað inn í menninguna í gegnum tungumálið, áreiðanlega í góðri trú.

Hreppsómagi, bótaþegi, skjólstæðingur eða viðskiptavinur?

Í lögum um almannatryggingar er hvorki talað um skjólstæðinga né viðskiptamenn heldur bótaþega. Texti laganna endurspeglar það rótgróna viðhorf að þeir sem ekki hafa tök á að framfleyta sér hjálparlaust séu þiggjendur gjafar fremur en fólk sem á rétt á stuðningi. Orðið bótaþegi hefur samt áreiðanlega verið merki um ný og betri viðhorf þegar það leysti af hólmi orð eins og þurfalingur og hreppsómagi. Markmiðið hefur vafalítið verið það að létta skömminni af þeim sem ekki voru einfærir um að framfleyta sér með því að nota orð sem ekki lýsir því viðhorfi að fátækir séu afætur með ósanngjarnar þarfir.

Sjálfsagt hefur það líka verið af góðum hug sem ákveðið var að Tryggingastofnun tæki upp orðið viðskiptavinur í stað skjólstæðings. Það á áreiðanlega að vera nútímalegra, gefa til kynna að þeir sem eiga rétt á framfærslueyri frá hinu opinbera séu fullgildir þjóðfélagsþegnar en ekki þurfalingar sem standi í skjóli stofnunar. En tungumálið kemur upp um okkur. Skækja þótti niðrandi orð og menn efuðust um réttmæti þess að gleðjast yfir kynlífi gegn greiðslu, lendingin var sú að velja gleðikonunni snyrtilegt orð með ömurlega merkingu. Það tiltæki Tryggingastofnunar að velja skjólstæðingum sínum heiti sem við tengjum sanngjarnri kröfu um endurgjald er álíka misheppnuð. Það felur reyndar ekki í sér dóm yfir skjólstæðingnum en það endurskilgreinir hlutverk stofnunar; gefur félagsþjónustu kapítalískt yfirbragð og vekur hugrenningartengsl við hinar eilífu kröfur kapítalismans um arðsemi og hagvöxt.

 

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál · Menning og listir
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 27.6.2013 - 10:13 - FB ummæli ()

Borgaraleg óhlýðni Alþingis?

Samkvæmt fréttum gera reglur Evrópuráðsins ráð fyrir kynjakvótum. Hér segir  að kynjahlutföll eigi að endurspegla kynjahlutföll á þingi og að minnst einn fulltrúi af því kyni sem á hallar skuli sitja í hverri nefnd.

Þessu er ekki hægt að framfylgja ef kosið er í nefndir. Samt er íslenska sendinefndin kosin.

Þjóðþingið gefur þannig skít í reglur Evrópuráðsins. Það verður ekki túlkað sem annað en yfirlýsing um að reglurnar eigi ekki rétt á sér. Kannski yfirlýsing um að kosningar séu lýðræðislegri en kynjakvótar.

Þegar almennir borgarar brjóta reglur meðvitað í pólitískum tilgangi, heitir það borgaraleg óhlýðni. Hvað heitir það þegar þjóðþing notar sömu taktík í fjölþjóðlegu samstarfi?

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin

Mánudagur 24.6.2013 - 13:47 - FB ummæli ()

Din dansk er da skidegod

Haltu á ketti; din dansk er da skidegod!

sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands við Helle Thorning, forsætisráðherra Danmerkur í opinberri heimsókn sinni til Danmerkur í dag.

Þetta er óvenjulegt. Við lærum dönsku í íslenskum skólum en svo þegar við komum til Danmerkur skiljum við ekki nokkurn mann svo þú getur rétt ímyndað þér hversu mikið það gleður mig að heyra að enn eru til Danir sem tala dönsku.

Thorning sagðist að mestu leyti ánægð með heimsókn íslenska forsætisráðherrans svona að því undanskildu að hann væri „lidt tvær-poset“ í afstöðu sinni til Evrópusambandins. Einkum þótti henni mikill fengur að gjöf sem ráðherrann færði henni, vænan slatta af gömlum Andrésblöðum sem voru helsta hjálpartæki Sigmundar Davíðs í dönskunáminu.

Ég þyki nokkuð sleip í dönsku en maður getur alltaf á sig blómum bætt. Ég er búin að læra bæði „suk“ og „gisp“ í morgun, svo þetta er allt á réttri leið

sagði danski forsætisráðherrann.

Sigmundur Davíð er einnig ánægður með fundinn en segir þó drekkutímann í Marienborg hátind heimsóknarinnar. Hann fékk nefnilega danskt vínarbrauð með kaffinu.

Ja maður er svona að verða búinn að fá nóg af vöfflum í bili svo þetta er góð tilbreyting frá íslenska kúrnum en aldrei hefði það hvarflað að mér að Danir kynnu að baka danskt sætabauð.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Sunnudagur 23.6.2013 - 09:33 - FB ummæli ()

23. Feminismi er fasísk hugmyndafræði

Feminismi er fasísk hugmyndafræði. Við sjáum samskonar tilhneigingar til að finna blóraböggul fyrir allri heimsins ógæfu í feminisma og fasisma. Rétt eins og fasisminn boðar feminisminn eftirlitssamfélag og heftingu tjáningar- og upplýsingafrelsis. Skýrt dæmi um þetta er klámstofufrumvarpið og rökin fyrir þeirri brjálæðislegu hugmynd að ætla að stjórna því hvaða efni er almenningi aðgengilegt á netinu. Og það er ekki aðeins í kynferðismálum sem fasysturnar vilja fá að ákveða hvað má segja og hvað ekki, þær hafa t.d. barist af hörku gegn málfrelsi þeirra sem beina sjónum sínum að kynjamisrétti sem bitnar á körlum.

Fasystur sækja táknmál sitt og orðræðu í fasisma. Glöggt dæmi frá Íslandi er fyrirbærið „stóra systir“ sem er bein skírskotun til stóra bróður  George Orwell.

Eitt af mörgum einkennum sem feministar og fasistar eiga sameiginlegt er áberandi tilhneiging til að gera þungvæg orð merkingarlaus. Þjóðernisssinar kalla fjölmenningarstefnu „kynþátttahatur gegn hvítum“. Ísraelskir aðskilnaðarsinnar kalla andóf gegn Zíonisma, og reyndar alla samúð með málstað Palestínumanna, gyðingahatur. Feministar kalla andóf gegn skerðingu tjáningarfrelsis kvenhatur.

Það væri hægt að skrifa heila bók um fasísk einkenni feminismans en það síðasta sem mig langar að nefna að sinni er hjarðhegðun hreyfingarinnar og ótrúlegur skortur á sjálfsgagnrýni. Þetta birtist t.d. í samstöðu um að raðlæka pistla og ummæli feminista, alveg sama hversu ömurleg þau eru í öllum skilningi. Engar kröfur eru gerðar til rökfærslu eða ritfærni, hvað þá sannsögli. Svo fremi sem það er einhver í rétta liðinu sem á í hlut, jarmar hjörðin til samþykkis.

femugla23

33 ástæður til að uppræta feminisma
1. Við þurfum ekki feminisma til að tryggja jafnrétti
2. Grundvöllur feminismans er lygi
3. Feminismi notar lygar í áróðursskyni
4. Feminisminn lítur á karlmenn sem illmenni
5. Feminisminn lítur á konur sem fórnarlömb
6.  Feminismi firrir konur ábyrgð
7.  Feminisminn er í stöðugri mótsögn við sjálfan sig
8. Feminismi skaðar konur í kynlífsiðnaði
9.  Feministar takmarka sjálfsákvörðunarrétt kvenna
10.  Feminisk áhrif veikja réttaröryggi sakborninga
11. Feministar nota háskóla til að breiða út gervivísindi
12. Feminismi er ríkisstyrkt valdanet
13.  Feministar vilja fá að stunda trúboð í skólum
14.  Feminismi leggur kynhlutverk að jöfnu við kvennakúgun
15. Feminismi er kvennamenningu fjandsamlegur
16. Feminismi er nýhreintrúarstefna
17. Feministar vilja ákveða normin í kynferðismálum
18. Feminismi er að festa sig í sessi sem kennivald
19. Feminismi vinnur gegn kvenréttindum
20. Feminismi er dólgapólitík
21. Feminismi er hugsjónastríð
22. Feministar sinna þjónustu sem ætti að vera í höndum fagfólks
23. Feminismi er fasísk hugmyndafræði
24. Feministar hafa ranghugmyndir um norm samfélagsins
25. Feminismi einkennist af pólitískum rétttrúnaði
26. Feministar rangtúlka listaverk í áróðursskyni
27. Feministar eru með klám á heilanum
28. Feministar vilja ráða því hvað skuli teljast valdeflandi
29. Feministar ýkja tölur um kynbundinn launamun
30 Feministar styðja kynbundna mismunun
31 Feminismi vinnur gegn lýðheilsumarkmiðum
32 Feminismi nærir sorpblaðamennsku
33 Feministar hafa eyðilagt hugtakið feminismi

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics