Laugardagur 23.3.2013 - 16:53 - FB ummæli ()

Litla, gráa kisa

 

finger grey cat Ég hef haldið því fram að þótt vinstri græn hafi brugðist á mörgum sviðum hafi þau þó amk staðið sig í umhverfismálum. Ég verð víst að éta það ofan í mig.

Ég hef enga reynslu af fjallaferðum og veit ekki hvort slæm umgengni ferðamanna um landið er svo stórt vandamál að réttlætanlegt sé að setja því miklar hömlur hvar og hvernig fólk ferðast um landið en mig grunar að þetta lagafrumvarp sé fyrst og fremst lýðskrum. Það kostar flokkinn ósköp lítið að hafa nokkra vélsleðamenn og jeppakalla óánægða, en fyrir okkur sem höfum áhyggjur af náttúruspjöllum en lítinn áhuga á jeppaferðum og vélsleðum, virðist frumvarpið róttækt.

Hvað með sjónarmið ferðafólks?

Mér finnst betra að ganga of langt en of skammt í verndun náttúrunnar en í lýðræðisríki er nú samt sjálfsagt og eðlilegt að sjónarmið ferðafólks séu rædd. Það kemur mér því á óvart að ferðafélögum sé gefinn naumur tími til að skila inn umsögnum. Það sem stingur mig þó mest í ábendingum Ferðafrelsis er þetta:

Vissir þú að áheyrnarfulltrúi útivistarfólks í Vatnajökulsþjóðgarði er bundinn þagnareiði af því sem fram fer á fundum þjóðgarðsins? Eru þetta eðlilegar og venjulegar siðareglur? Gegnsæ stjórnsýsla?
Ekki get ég ímyndað mér hverskonar hernaðarleyndarmál fara fram á þessum fundum svo hversvegna er áheyrnarfulltrúi bundinn þagnareiði? Er þessi leyndarhyggja ekki bara gamall kækur klíkusamfélagsins og væri þá ekki best að aflétta þessu leynimakki? Hvernig á ferðafólk að koma sjónarmiðum sínum á framfæri ef það fær engar upplýsingar um það hvað er í deiglunni? Finnst ykkur þetta í lagi?

 

Undarlegar áherslur umhverfisflokks

Ef náttúru Íslands stendur raunveruleg ógn af ferðafólki þá er auðvitað hið besta mál að takmarka ferðir vélknúinna farartækja um hálendið. Það er þó frekar ótrúverðug róttækni að leggja fram náttúruverndarfrumvarp sem að sumir telja að muni skerða óhóflega frelsi fólks til að ferðast um landið  þegar sami flokkur greiðir svo fyrir stóriðju.
Þeistareykir
Frá Þeistareykjum

 

Það hefði verið róttækt af hálfu vinstri grænna að leggja fram frumvarp um bann við frekari stóriðju. En líklega telja forsvarsmenn flokksins að eftir fleiri atkvæðum sé að slægjast hjá stóriðjusinnum en þeim sem aðhyllast náttúruvernd svo það er þá allt í lagi að sýna umhverfissinnum fingurinn. Eflaust hefur náttúruverndarfrumvarpið orðið einhverjum umhverfissinnum hvatning til þess að gefa flokknum atkvæði sitt. En það fólk veit auðvitað að álver á Bakka er margfalt stærra umhverfisslys en allar hálendisferðir samanlagt svo líklega er Steingrímur búinn að koma flestum þeirra sem ætluðu að kjósa vinstri græn út á umhverfisstefnuna í skilning um að VG er hvorki sérlega vinstri sinnaður flokkur né sérlega grænn. Í skársta falli grár og vesældarlegur miðjuflokkur sem lítur umhverfisstefnuna sömu augum og kötturinn heitan graut. Tiplar í kringum málaflokkinn, rekur í hann trýnið en hrökklast svo undan.

Þá er nú árennilegra fyrir gráan kött að snúa sér að einhverju sem hann ræður við. Ferðir jeppakalla um hálendið eru bara hlandvolgur grautur sem auðvelt er að kyngja en fyrir litlu, gráu kisu er stóriðjan alltof heit.

dettifoss_team
Ekki ætla ég að fullyrða að ferðafólk gangi vel um landið
en að banna þetta á sama tíma og menn greiða fyrir stóriðju – síríusslí?

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Föstudagur 22.3.2013 - 12:50 - FB ummæli ()

Að vera gjaldþrota

_____________________________________________________________________________

jakki 15Mamma, af hverju er þetta fólk svona fátækt?

Vegna þess hjartað mitt að það er vanþróað.
Það kann ekkert nema að rækta korn.
Það kann ekki einu sinni að lesa.
Við aftur á móti erum háþróuð.
Við höfum skóla og heilbrigðiskerfi, úrvalsvísitölur og allskonar fínerí.

En getum við ekki kennt þeim að þróast mamma?
Getum við ekki gefið þeim gefið þeim peninga til að stofna skóla og sjúkrahús
og hjálpað þeim að skapa hagvöxt og greiningardeildir
og allt þetta sem gerir okkur háþróuð?

Nei yndið mitt.
Gjaldþrota maður getur ekki borgað skuldir annarra.
Gjaldþrota maður getur ekki fætt hungraða eða gefið skólabarni blýant.
Við erum gjaldþrota þjóð.
Við rétt merjum það að borga skuldir bankaræningja,
hvernig ættum við að hafa efni á því að kaupa einhverja villimenn undan fátækt?
Við erum fátæk þjóð.
Það er varla að við höfum efni á að gera myndarlega starfslokasamninga
við fólk sem býr yfir óþægilegum upplýsingum.
Hvernig ættum við að hafa efni á því að gera óviðkomandi barbara sjálfbjarga?

En ef við erum fátæk mamma, hver mun þá gefa okkur í gogginn?

Alcoa, yndið mitt. Alcoa gefur í gogginn.

Já en Alcoa er fátækt fyrirtæki. Alcoa hefur ekki efni á að greiða skatta á Íslandi.

Hafðu ekki áhyggjur elskan.
Alcoa borgar ekki skatta en Alcoa býr til ál og ál skapar hagvöxt.
Það eina sem við þurfum að gera fyrir Alcoa
er að gefa þeim fleiri fossa og meira landrými.
Og þá mun Alcoa fara til Indlands og sækja báxít í jörð og vinna ál sem við getum selt Bandaríkjunum.
Bandaríkin nota svo álið til að smíða herbúnað og drepa hryðjuverkamenn.
Og þá fáum við hagvöxt.
Við fáum hagvöxt með sýrópi á. Og rjóma.

En þetta fólk býr á Indlandi. Þetta fólk býr þar sem báxítið er.

Já ástin mín. Það býr þar sem báxítið er og þessvegna þarf Alcoa að reka það á brott.

img_5408

Ábúendur við ána Narmada á Norður-Indlandi á flótta
eftir að jörðin þeirra var gerð upptæk í þágu áliðnaðarins

 

Hvert fara þau þá?

Nú það fer bara eitthvert annað.  Sest að á óræktuðu landi. Á harðbýlla svæði.

Þróast þau þá?

Nei elskan. Þetta eru villimenn.
Þeir geta ekkert þróast nema með hjálp frá ríku löndunum.

Hver eru ríku löndin mamma?

Það eru þróuðu löndin gullið mitt. Lönd sem hafa rænu á að nýta auðlindir sínar.

Og auðlindir annarra líka?

Já barnið mitt. Og auðlindir annarra líka. Ekki nýtir það þær sjálft, þetta vanþróaða fólk sem ekkert kann.

En gætum við ekki kennt þeim að nýta auðlindir sínar – og þróast?

Nei hjartað mitt.
Gjaldþrota þjóð hefur ekki efni á þróunarsamvinnu.
Gjaldþrota þjóð hefur bara efni á að ræna öreiga.
Við erum fátæk þjóð elskan mín.
Við erum kristin þjóð krúttið mitt.
Við erum hvít þjóð.

_____________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni
Efnisorð:

Miðvikudagur 20.3.2013 - 15:43 - FB ummæli ()

Feministar enn í ruglinu

 

Á Facebook hafa feminstar undanfarið dreift skjáskotum af leitarniðurstöðum á google.com sem þeir álíta að afhjúpi kvenhatur og sanni brýna þörf samfélagsins fyrir feminsma. Hér er eitt dæmi:

womenshould

Af þessu má ráða að það sé útbreitt viðhorf að konur eigi að vera undirokaðar. Önnur skjáskot sýna það sem við teljum að konur eigi að gera og hvað þær þurfi, vilji, geti o.s.frv.

 

Annað áhugavert dæmi

Herskairpalestinumaenn

Herskairgydingar

Herskairisraelsmenn

Hvað segja þessar leitarniðurstöður okkur um afstöðu Íslendinga til málefna Palestínu? Til Ísraelsríkis? Til hernaðar? Segja þær okkur að Íslendingar álíti Palestínumenn herskáa en Ísraelsmenn ekki? Segja þær að Íslendingar styðji hernámið? Eða eitthvað allt annað? Eða ekki neitt? Tillögur óskast.

 

Túlkun en ekki staðreynd

Leitarniðurstöður á google.com gefa einhverjar vísbendingar um eitthvað. Vísbendingar um það hverju við sýnum áhuga, hvaða orðfar er okkur tamt og áreiðanlega líka eitthvað um ríkjandi viðhorf. En hvað það nákvæmlega er sem niðustöðurnar sýna er ekkert óumdeilanlegt. Gúggull er Biblía nútímans. Þær ályktanir sem við drögum af leitarniðurstöðum segja meira um hugarheim okkar en veruleikann. Það er hægt að „sanna“ hvaða þvælu sem er með því að birta leitarniðurstöður og túlka þær að eigin geðþótta.

Auk þess býður þessi aðferð upp á það að velja forsendurnar eftir á. Ég gerði t.d. smá tilraun í morgun. Ég ætlaði að slá inn „karlar ættu“ en áður en ég náði að slá inn seinna orðið fékk ég upp bráðskemmtilega mynd. Prófið að slá inn „karlar“ og svo orðabil og sjáið hvað gerist.

karlarisl

Ójá, síða eftir síðu með umfjöllun um svarta listann hennar Hildar. Þegar ég sló inn allan strenginn „karlar sem hata konur“ fékk ég 291.000 niðurstöður. Tvöhundruð-níutíu-og-eittþúsund.

Hata karlar konur svona óskaplega mikið? Eða er íslenskt samfélag með kvenhatur á heilanum?

 

Karlar ættu ekki að…

Konur ættu ekki að kjósa, aka bíl eða njóta mannréttinda. Okkur finnst það í alvöru, gúggull segir það. Feministahreyfingin segir það líka og ég er viss um að það er hægt að sanna það með Biblíunni. Og karlar, hvað ættu þeir að láta ógert?

menshould

Já, þannig hljómar hið heilaga orð. Að vísu þykir sjálfsagt mál að karlar nauðgi konum. Feminstar segja að okkur finnst það svo það hlýtur að vera satt. Gúggull gefur líka á bilinu 250.000-350.000 niðurstöður (eftir því hvernig tungumálaleitin er stillt) ef maður slær inn „karlar hafa rétt til að nauðga.“ Við viljum hinsvegar ekki hafa það að karlar kvænist, gráti, drekki soyamjólk eða berji konur. Við viljum bara leyfa körlum að nauðga konum, ekki berja þær eða kvænast þeim. Að vísu þarf maður að fletta ansi langt aftur til að finna tengil þar sem það viðhorf kemur fram að nauðganir séu réttmætar en skiptir það nokkru máli?

 

Og um hvað snúast svo allar þessar kvenfjandsamlegu niðurstöður?

Það er áhugaverð dægradvöl að skoða leitarniðurstöður á google því það hvernig við tölum segir eitthvað um það sem við hugsum. Hinsvegar hefur þeim sem dreifa skjáskotum af því sem gúggull segir um viðhorf til kvenna láðst að geta þess að stór hluti þeirra tengla sem niðurstöðurnar vísa á eru feminiskar greinar um það hvað þessi viðhorf séu mikið vandamál, greinar um sögu kvennabaráttu og ýmislegt annað sem bendir síður en svo til kvenfyrirlitningar. Hér eru tenglar á efstu greinarnar sem ég fékk upp fyrir hverja niðurstöðu sem birtist í skjáskotinu efst í þessari færslu:

Women shouldn’t have rights  – Stúlka sem er að æfa sig í ræðumennsku leitar að rökum með litlum árangri
Women shouldn’t vote  – Söguleg umfjöllun um baráttu kvenna fyrir kosningarétti
Women shouldn’t work  -Biblíutúlkun sem á að afsanna þá hugmynd að biblían boði kvennakúgun
Women shouldn’t box – Greinarhöfundur telur hnefaleika hvetja til árásargirni og finnst óþarfi að sterkar og sjálfstæðar konur sanni sig með því að taka upp ósiði karla.

 

Ekki nóg að gúggla

Þótt gúggull gefi aðeins upp tvær leitarmiðurstöður ef maður slær inn „herskáir Ísraelsmenn“ merkir það ekki að Íslendingar líti almennt á framgöngu Ísraelsmanna á Vesturbakkanum og Gaza sem friðsamlega og lögmæta. Þvert á móti hefur umræða síðustu ára einkennst af samúð með málstað Palestínumanna. Hvort við gerum eitthvað meira en að tala er svo annað mál en það er efni í annan pistil.

Segja leitarniðurstöður á google eitthvað um ríkjandi kvenhatur eða þurfum við að skoða þá tengla sem við fáum upp til þess að geta sagt eitthvað af viti? Eða skiptir kannski meira máli að dreifa þeirri hugmynd að konur séu kúgaðar en að segja eitthvað af viti um valdatengsl kynjanna?

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð:

Þriðjudagur 19.3.2013 - 13:57 - FB ummæli ()

Persónukjör í þágu kynjajafnvægis

 

kynKosningin til stjórnlagaþings afhjúpaði það sem mig hefur lengi grunað; aðalástæðan fyrir því að það hallar á konur, þegar völd og áhrif er er annars vegar, er sú að þær sýna minni áhuga á þeim.

Í framboði til stjórnlagaþings voru 523 manns, 159 konur og 364 karlar. Konur voru því um 30% frambjóðenda. Samt var hlutfall kvenna þegar upp var staðið um 40% eða nógu hátt til þess að kynjakvóti var ekki notaður.

Annað dæmi þar sem enga kynjakvóta þarf til að tryggja jafnræði er framboð Píratanna. Þar eru kynjahlutföll í efstu sætum jöfn þrátt fyrir að engum  fléttulistum, kynjakvótum né öðrum stjórntækjum hafi verið beitt.

Mér finnst reyndar ekkert vandamál þótt konur hafi minni tilhneigingu en karlar til að sækjast eftir völdum; þvert á móti vildi ég sjá pólitík sem einkennist ekki af  valdafíkn og framapoti. Ég held að leiðirnar að kynjajöfnuði felist ekki í stýringu að ofan heldur annarsvegar því að konur og karlar gefi skít í staðalmyndir og sækist eftir því sem þeim finnst eftirsóknarvert og hinsvegar í beinu lýðræði þar sem möguleikar til að safna völdum á fáar hendur eru takmarkaðir.

Hvað ef tilgátan reynist rétt? Hvað myndi gerast ef flokkarnir hættu að stjórna okkur, kæmu bara með tillögur að listum en kjósendur fengju að ráða því  sjálfir hvað þeir gerðu með þær tillögur?  Það yrði áhugavert að sjá hversu hátt hlutfall frambjóðenda yrðu konur. Hver sem niðurstaðan yrði ætti hún allavega að gleðja feminista. Kannski yrði niðurstaðan sú að það þurfi enga fléttulista eða kynjakvóta til að jafna kynjahallann á Alþingi og þá er það sultufínt. Jafnvel tussufínt. Nú ef lágt hlutfall kvenna í framboði kæmist á þing, þá væru feministar komnir með fína sönnun fyrir nauðsyn þess að hlúa betur að jafnréttismálum.

Af hverju ekki að láta reyna á einstaklingskjör? Ég get ekki séð að það komi neinum illa nema þá helst valdaklíkum fjórflokksins. En það er kannski einmitt þessvegna sem þessi möguleiki er ekki skoðaður?

 

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Mánudagur 18.3.2013 - 10:55 - FB ummæli ()

Ekki persónukjör en samt persónuleg þingmennska

 

profpistÞegar Borgarahreyfingin ákvað að fara í framboð var ég mjög svekkt. Mér fannst gjörsamlega fráleit hugmynd að ætla að breyta kerfinu innan frá og leysa svo flokkinn upp og það var mér beinlínis áfall að missa jafn öflugan aðgerðasinna og Birgittu Jónsdóttur inn á þing.

Raunin er hinsvegar sú að þingmenn Hreyfingarinnar hafa nýtt tíma sinn á þingi vel og Birgitta hefur sannarlega stundað aktívisma; ekki bara þrátt fyrir að vera þingmaður heldur hefur hún notað þá stöðu sína til þess að vekja athygli á málum sem hafa að mestu verið í höndum aðgerðasinna. Nú stígur hún, ásamt öðru góðu fólki, mikilvægt skref í þá átt að gera ferlið við ákvarðanatöku mun lýðræðislegra en gerist hjá hefðbundnum stjórnmálaflokkum.

Ḿig langar að hafa Birgittu á þingi áfram og mig langar óskaplega að láta reyna á hugmyndir Pírata um stefnumörkun. Vandamálið er bara að mig langar líka að hafa Margréti Tryggvadóttur áfram á þingi (og líst reyndar afskaplega vel á fleira fólk í Dögun) en vegna þessa ömurlega listafyrirkomulags get ég ekki nýtt atkvæðisrétt minn til þess að styðja þær báðar. Þetta væri auðvitað ekkert vandamál ef persónukjör væri í boði.

Borgarahreyfingin afhjúpaði alveg óvart fáránleikann við listafyrirkomulagið. Hugmyndin með Borgarahreyfingunni var sú að leysa sjálfa sig upp þegar hún hefði náð markmiðum sínum en hún raknaði nú bara upp áður en stroffið var fullprjónað. Samt sátu fulltrúar hennar á þingi allt kjörtímabilið.

Það er eitthvað fáránlegt við það að þrátt fyrir að fólk geti gengið úr stjórnmálaflokki daginn eftir að það er kosið á þing sem fulltrúi hans og setið á þingi í eigin nafni í allt að fjögur ár, þá sé samt ekki hægt að kjósa það á þing sem fulltrúa sinna eigin skoðana. Persónukjör er ekki í boði enda þótt þingmennska sé augljóslega persónuleg. Hversvegna er þessi vitleysa ekki aflögð?

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin

Föstudagur 15.3.2013 - 22:12 - FB ummæli ()

Margaríta og bjánakeppir mánaðarins

__________________________________________________________________________________________

Stjórnarskrártillagan er ekki fullkomin. En það er gamla stjórnarskráin ekki heldur.

Ef út í það er farið eru í gildi margar stórgallaðar lagagreinar á Íslandi, sumar stríða jafnvel beinlínis gegn stjórnarskránni, sumar stríða gegn mannréttindasáttmálum. Engum dettur þó í hug að við eigum bara að hætta að setja lög fyrr en fullkomnar lagagreinar hafa verið samdar. Við fáum seint fullkomna stjórnarskrá en tillagan sem liggur fyrir nýtur stuðnings meiri hluta þjóðarinnar, hún var unnin í ágætri sátt þjóðkjörinna fulltrúa stjórnlagaráðs og það er engin þörf fyrir sérstaka velþóknun liðsmanna Bjartrar framtíðar á henni, hvað þá velþóknun Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokks.

 

Þessari mynd er nú dreift á fb, ég veit ekki hver á heiðurinn af henni

 Þessari mynd er nú dreift á fb, ég veit ekki hver á heiðurinn af henni

Breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur er frábært svar við tilraunum fjórflokksins til að hundsa þjóðaratkvæðagreiðslu. Verðskuldaður löðrungur bæði í andlit svikullar ríkisstjórnar og auðvaldsflokkanna tveggja sem hafa lagt allt kapp á að eyðileggja umbótaferlið sem sett var í gang með stjórnlagaþingi og þjóðaratkvæðagreiðslu um tillöguna.

Magnúsi Orra Schram tókst næstum því að gera sig að fífli mánaðarins með ummælum sínum um að Margrét væri að innleiða „klækjastjórnmál“ á Íslandi. Það mætti bara halda að fjórflokkurinn hefði hingað til ástundað heiðarleika og gagnsæi. Nei, við viljum ekki klækjastjórnmál. Við viljum bara gömlu góðu valdaklíku-, spillingar- og baktjaldamakks-stjórnmálin. Ekki einhverja róttæklinga sem sjá í gegnum skrumið og bregðast við. Það gæti orðið til þess að auka beint lýðræði í landinu. Hvílík skömm!

margaritaEn Magnús Orri hreppir þó ekki titilinn í þetta sinn. Bjánakeppur mánaðarins er tvímælalaust Grétar Mar Jónsson. Auk þess að halda því fram að 17 ára gamall sonur Álfheiðar Ingadóttur, hafi stjórnað þúsundum manna á Austurvelli, eftir hennar fyrirmælum, daginn sem varla heyrðist í klukkum Dómkirkjunnar fyrir hávaða, ruglar Grétar Mar saman atburðum sem áttu sér stað þennan dag og öðrum sem urðu mörgum vikum fyrr þegar hinir svonefndu „nímenningar“ voru handteknir í Alþingishúsinu. Til hamingju Grétar Mar, það þarf sjaldgæfa tegund af asnaskap til að slá Magnúsi Orra við, en þú vinnur.

Ég hef hlegið mikið í dag, svo er Magnúsi Orra og Grétari Mar fyrir að þakka. Dýpra ristir þó kæti mín yfir klækjum Margrétar Tryggvadóttur. Daginn sem stjórnarskrárfrumvarpið verður samþykkt ætla ég að drekka Margarítu. Jafnvel þótt ég þurfi að blanda hana sjálf.

 

__________________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 14.3.2013 - 15:13 - FB ummæli ()

Hvernig kemst ég inn í kerfið? – Gestapistill eftir Guðrúnu Ágústu Þórdísardóttur

_______________________________________________________________________________

581825_10152644222880247_1406507016_nGuðrún Ágústa Þórdísardóttir skrifar um Íslendinga í útlöndum og útlendinga á Íslandi.

 

Ég hef verið að velta fyrir mér málefnum flóttamanna á Íslandi undanfarið, sérstaklega í ljósi nýjustu frétta um ungt par sem á að vísa úr landi og það í sitthvort landið.

Það er alveg ljóst í mínum huga að við erum ekki að standa okkur í þessum málum á nokkurn hátt. Það er ekki boðlegt hvað biðtíminn er langur og hvernig komið er fram við þetta fólk yfir höfuð. Við erum jú öll manneskjur og viljum láta koma almennilega fram við okkur, en af einhverri ástæðu þá virðast margir Íslendingar líta svo á að flóttamenn séu bara pakk sem má koma fram við af vanvirðingu og skeytingarleysi.

Útfrá þessu fór ég að hugsa um hvernig Íslendingar sjá sjálfa sig, almennt finnst okkur það vera hverju landi til sóma að hafa amk nokkra Íslendinga búsetta þar, við erum jú svo klár og dugleg og sérstök, hreinlega alveg einstaklega vel gert fólk. En er þetta svona einfalt? Mér finnst margir Íslendingar sem flytja erlendis, vera á kafi í að finna út, ekki hvað þeir geti lagt til viðkomandi samfélags heldur hvaða bætur og sporslur þeir geti fengið í viðkomandi landi. Það eru heilu umræðurnar tengdar þessum málum, barnabætur, húsaleigubætur, leikskólapláss og fleira og fleira. Er þetta ekki tvískinnungur, við viljum að allt sé gert fyrir okkur í öðrum löndum, sífrum yfir hvað kerfi þar gangi seint og illa fyrir sig og hrósum okkar af því að fá þessar og hinar bæturnar og hvað það sé nú gott að lifa á þessum og hinum staðnum fjárhagslega.

Mig myndi langa að sjá eina svona týpíska „ég er að flytja til Noregs og hvernig kemst ég inni í kerfið“ umræðu og snúa henni upp á flóttaflólk, ég er viss um að flestum Íslendingum myndi blöskra og jafnvel jesúsa sig í bak og fyrir, yfir þessu pakki sem heldur að það geti bara komið og fengið allskonar og það ætti bara að halda sig heima hjá sér. Það er stundum þreytandi að tilheyra þessari örþjóð sem heldur að hún sé mest og best og klárust af öllum og getur ekki einu sinni sýnt samúð með fólki sem hefur þurft að yfirgefa allt sitt vegna ótta um líf sitt eða eftir langvarandi pyntingar.

Þessar skoðanir eru alfarið mínar og byggja ekki á neinum gögnum heldur bara minni tilfinningu eftir að lesa óteljandi umræður um þessi mál og já, ég þekki EES samninginn. Hér er gömul frétt sem staðfestir að fleiri hafa þá tilfinningu að Íslendingar séu alveg til í að nýta sér velferðarkerfi annarra þjóða, ekkert síður en flóttamenn og innflytjendur á Íslandi.

Guðrún Ágústa Þórdísardóttir

Flokkar: Allt efni · Flóttamenn og innflytjendur · Gestapistlar · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

Miðvikudagur 13.3.2013 - 13:55 - FB ummæli ()

Klámlaus kynjamismunun

Þegar ég var lítil fyrirvarð ég mig fyrir klámmynd sem hékk uppi á vegg heima hjá mér. Þetta var blýantsteikning af nöktu pari í faðmlögum. Mér fannst nógu dónalegt að hafa berrassað fólk uppi á vegg en þegar drengur sem kom í heimsókn fullyrti að þau væru „að ríða“ var mér allri lokið. Móðir mín harðneitaði að fjarlægja klámmyndina sem hún sagði að væri hreint ekkert klám. Hvor okkar hafði rétt fyrir sér?

Það er ekki hægt að framfylgja klámbanni nema skilgreina klám

barmmerkiÉg veit ekki hvor mér finnst hlægilegri fyrirsögnin á þessari frétt eða ályktunin sem sagt er frá. Fyrirsögnin er Kynjamismunun án kláms. Það má semsagt mismuna kynjunum en skilyrði að það sé gert án þess að klæmast – eða hvað?

Hvaða tilgangi á svo þessi ályktun að þjóna? Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir klám í „fjölmiðlum“? Enn hefur engum tekist að finna skilgreiningu á klámi sem sæmileg sátt ríkir um og þar sem internetið er fjölmiðill hlýtur ályktunin að fela í sér ritskoðun á netinu. Ég hélt að klámskjöldur þjóðarinnar hefði komist nálægt því að sprengja ruglskalann með ummælum sínum um að fyrst sé hægt að senda menn til tunglsins megi alveg eins ritskoða internetið en það er víst satt sem Carlo M. Cippola segir; fjöldi heimskingja í umferð verður seint ofmetinn.

Það er hægt að stjórna því að nokkru leyti hvað maður sér á netinu

Það er margt óvelkomið áreiti annað en klám sem blasir við okkur bæði í fjölmiðlum og á öðrum opinberum vettvangi. Við getum ekki bannað fjölmiðlum að birta það sem við viljum ekki sjá en það er kannski hægt að ná samkomulagi um það hvað má vera í barnaherberginu og hvað ekki. Mér fannst stórkostlegt framfaraskref þegar DV fór að merkja efnisflokka sína með mismunandi litum því nú ramba ég ekki lengur óvart á fréttir af fræga fólkinu og megrunarkúrum.

Það er líka margt sem við getum haft stjórn á ef við vitum hvernig á að fara að því. Auglýsingar fara í taugarnar á mér og ég væri alveg til í auglýsingalausa fréttamiðla. Það er ekki raunhæft en hinsvegar jók það lífsgæði mín til muna að fá ad-block forrit. Af og til sé ég facebook vini mína beina gremjulegum tilmælum til fólks á vinalistnum um að hætta að senda sér leikjaboð. Þetta fólk veit ekki að það er hægt að blokkera leikjaboð á facebook og stjórna því að nokkru marki hvaða innlegg maður sér á fréttaveitunni. Það er m.a.s. miklu raunhæfara að ritstýra sinni eigin fréttaveitu en því hvað annað fólk gerir á facebook.

Engin lausn er fullkomin svo tökum frekar þær raunhæfu

Mér finnst fara best á því að klám og annað efni sem fer fyrir brjóstið á mörgum sé aðallega geymt á sérstökum svæðum sem blasa ekki við manni hvar sem er. Bara svona eins og maður geymir klámið sitt í skúffum og skápum en ekki uppi á vegg í stofunni. En ég sé samt ekki fyrir mér að menn verði nokkurntíma sammála um það djarfleikastig sem er viðeigandi í stofunni. Hver á að ákveða það? Átta ára púrítaninn á heimilinu eða frjálslynda kvenfrelsiskonan? Því verður seint svarað en það er raunhæfara að það sem nokkuð góð sátt ríkir um að fari illa á stofuveggnum sé geymt í skúffum og skápum en að það sé bannað.

Það er líka raunhæfara að hver og einn komi sér upp vörnum gegn því efni sem hann vill ekki sjá á sínum eigin tölvuskjá en að yfirvaldið sjái um að velja það fyrir okkur. Það mun ekki duga til þess að við sjáum aldrei rassa eða neitt annað ósmekklegt en það er allavega raunhæfara en að ætla að ritstýra internetinu.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Kynjapólitík · Mannréttinda- og friðarmál · Menning og listir
Efnisorð: , , ,

Þriðjudagur 12.3.2013 - 21:12 - FB ummæli ()

Er löggan undirmönnuð?

 

Löggan er með mann í fullu starfi við að hanga á facebook. Í fullu starfi, auk þess sem 12 til viðbótar sinna síðunni í hjáverkum. Eruði ekki að djóka? Hvernig getur það verið fullt starf að uppfæra snjáldursíðu 3-5 sinnum á dag og svara 1-2 fyrirspurnum? Og hvernig getur stofnun sem segist vera undirmönnuð réttlætt slíka notkun á starfskrafti?

 

„Almannavarnir“ facebook-löggunnar ná ekki til almennings

Allir geta skoðað logreglan.is, hringt í lögguna eða sent tölvupóst. Facebook síðan hvetur e.t.v. til þess að almenningur hafi samband en hún breytir engu um aðgengi almennings að löggunni, sem hefur lengi verið mjög gott. Því síður gegnir síðan almannavarnahlutverki, því til þess að netnotandi sjái innlegg lögreglunnar án þess að bera sig sérstaklega eftir því þarf að uppfylla þrjú skilyrði.

  1. Notandinn þarf að „læka“ síðuna.
  2. Hann þarf að leyfa uppfærslur frá henni á fréttaveitunni.
  3. Hann þarf að skoða fréttaveituna.

Titill Kastljóssfréttarinnar sem ég tengdi á hér að ofan, „37.000 góðvinir lögreglunnar“ er mjög villandi. Titillinn á að staðfesta gífurlegar vinsældir fb-síðunnar en 37.000 aðdáendur merkja bara alls ekki að 37.000 manns fylgist með því sem fer fram á síðunni. Jón Gnarr á 66.000 aðdáendur á fb og Hugleikur Dagsson 31.000. Dettur einhverjum í hug að allir sem læka síðu einu sinni fylgist almennilega með henni?

Ef fjöldi „læka“ segir eitthvað um aðsókn er eðlilegra að skoða hversu mörg læk innleggin fá. Flestar færslur löggunnar fá minna en 200 læk. Ef við skoðum til samanburðar vinsælar netsíður á borð við Baggalút, sjáum við að lækin þar hlaupa oftast á mörgum hundruðum, jafnvel þúsundum. Ef samræmi er milli læka og lesturs nær Baggalútur til miklu fleira fólks en lögreglan.  Auk þess deilir fólk fréttatenglum á facebook svo ef ætlunin er að koma skilaboðum til almennings eru fréttamiðlar miklu skilvikari leið en fb-síða lögreglunnar.

loggabagga

Að vísu fær löggan rosalega mörg læk þegar hún deilir Baggalútsfréttum

 

Hvaða almannavarnir er svo að finna á síðunni?

Ennþá hlægilegri  verða hugmyndir um að facebookhangs löggunnar sé hluti af almannavörnum þegar maður skoðar það sem fram fer á meintri almannavarnasíðu.

logga3       logga1

 

Lítum á upphaf umræðuþráða á venjulegum degi í lífi facebooklöggunnar:

19. feb

  • Borgari lýsir ánægju sinni með að löggan rúnti um hverfið hans.
  • Löggan auglýsir eftir fólki til að vinna að „umferðarsáttmála“ sem á að stuðla að betri umferðarmenningu.
  • Borgari skorar á lögguna að taka “Harlem shake”.
  • Lögreglan óskar eftir vitnum að umferðarslysi.
  • Borgari spyr hversvegna hann megi ekki kasta af sér vatni á almannafæri líkt og hundarnir. Löggan ræðir muninn á manni og dýri og bendir borgararnum á að beina spurningunni til vísindavefjar Háskólans.
  • Borgari þakkar löggunni fyrir að vera sýnileg við umferðargötu nálægt barnaskóla.
  • Borgari spyr um margra ára gamalt sakamál sem komst í umræðuna aftur.
  • Borgari deilir tónlistarmyndbandi.

Þetta er ósköp dæmigerður dagur. Ég tók saman yfirlit yfir innlegg sem spanna 14 daga frá miðjum febrúar. Auðvitað þyrfti miklu lengri tíma til að fá áreiðanlegar niðurstöður um það hvernig þessi síða er notuð en tvær vikur gefa þó einhverja vísbendingu.

Lögreglan deilir einstaka glæpafrétt (sem fjölmiðlar birta hvort sem er) en megnið af færslum eru almennar ábendingar um að gæta að öryggi og sýna tillitssemi. Já og tónlistarmyndbönd og annað léttmeti frá almenningi. Í mars er hátt hlutfall ófærðarfrétta. Almannavarnatengt efni hverfur í kraðakið.

Screenshot from 2013-03-12 17:30:56     logga2

Er þá ekkert gagn að þessu fyrir almenning?

Facebooksíða löggunnar skiptir sennilega fáa máli nema persónulega vini lögreglumanna. Og þó; við sjáum spurningar frá notendum varðandi lög, reglur og verklag. Löggan getur ekki svarað öllum þessum spurningum en hefur staðið sig vel í því að benda fólki á hvert það eigi að snúa sér. Almenningi gætu þótt þessar spurningar áhugaverðar en gallinn er sá að það er mjög erfitt að leita að svörum á facebook. Ef maður sér ekki þráðinn samdægurs eru allar líkur á að maður missi af honum. Það er mun gagnlegra fyrir almenning að spurningum sé svarað á þessum ágæta vef.

 

Ímyndarsköpun löggunnar

544454_497020367028183_851729530_nHelst er að sjá sem megintilgangur síðunnar sé ímyndarsköpun. Löggan sem mætir okkur á facebook er örugg og brosandi. Við fáum ekki myndir af hrottalegum handtökum, heimildalausum húsleitum eða frjálslegri notkun piparúða. Helst er að sjá sem starf lögreglunnar felist aðallega í því stuðla að umferðaröryggi og njóta tónlistar og ljósmynda með almennum borgurum.

Þessi krúttlega mynd hér til hægri er meðal þeirra sem löggan hefur birt á fb. Löggan í heimsókn hjá Barnaspítala Hringsins. Mikið hlýtur Ísland að vera huggulegur Kardimommubær. En vitiði hvað, þetta er sama trix og mótorhjólaklíkur nota til að bæta ímynd sína. Nei ég er ekki að segja að löggan sé ótínt glæpagengi heldur að benda á að ímyndarsköpun segir ekkert um eðli stofnunarinnar.

 

20493_458626980867522_1501928902_n           santa_motorcycle

      Af facebooksíðu Lögreglunnar                                          Frá góðgerðasamkomu Outlaws

 

Hver er hinn raunverulegi tilgangur?

Enginn sér lögguna á facebook nema óska sérstaklega eftir því. Þeir sem taka þátt í umræðum virðast aðallega vera persónulegir vinir löggunnar. Svo hver er tilgangurinn? Ímyndarsköpun – augljóslega. Eitthvað meira?

Það skal enginn segja mér að stofnun sem grætur hástöfum yfir fjársvelti og manneklu, setji mann í fullt starf við að taka þátt í tónlistarupplifun kunningja sinna og minna einmitt það fólk sem mestan áhuga hefur á störfum lögreglunnar á að nota endurskinsmerki.

Og hvað er undirmönnuð lögregla að gera á facebook allan daginn? Fylgjast með þessum 200.000 sem eru skráðir í gagnagrunninn? Varla eru þeir að spila „slotomania“ í vinnutímanum en það er ekki fullt starf að uppfæra fb síðu nokkrum sinnum á dag og nei, þið skuluð ekki segja mér að löggan sé marga klukkutíma á dag að svara einkaskilaboðum.

Einhverjum tilgangi hlýtur þetta nethangs þeirra að þjóna. Hvernig væri að blaðamenn leituðu skýringa á því, í stað þess að gapa upp í forsvarsmenn lögreglunnar eins og ástfangnir unglingar og gleypa gagnrýnislaust við gaspri þeirra um að lögregla annarra ríkja taki þá til fyrirmyndar? Í alvöru talað, þetta er ekki boðlegur fréttaflutningur.

Þessu tengt: Þessvegna þarf lögreglan i-pad

 

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

Mánudagur 11.3.2013 - 10:14 - FB ummæli ()

Valinkunnur

Eitt þeirra skilyrða sem útlendingur þarf að uppfylla til þess að fá ríkisborgararétt er að vera

starfhæfur og vel kynntur og leggi m.a. því til staðfestingar fram álit tveggja valinkunnra íslenskra ríkisborgara.

Þetta er náttúrulega ekkert annað en mismunun gagnvart örykjum en slík mismunun stríðir bæði gegn almennum mannréttindasáttmálum og 65. grein núgildandi stjórnarskrár. Starfsfærni umsækjanda dugar reyndar ekki til, hann þarf líka að vera hafinn yfir það að þrengingar á atvinnumarkaði bitni á honum því samkvæmt lögunum má hann ekki hafa þegið framfærslustyrk í þrjú ár. Þetta er sérlega kaldhæðnislegt fyrir flóttamenn sem er synjað um atvinnuleyfi nema það henti yfirvaldinu sérstaklega að hleypa ódýru vinnuafli inn á markaðinn. Ég veit ekki hvernig farið er með slík mál en samkvæmt lagabókstafnum er ekki annað að sjá en að hægt sé að synja flóttamanni um ríkisborgararétt á þeirri forsendu að honum hafi verið synjað um atvinnuleyfi. Lögin geta því orðið stórkostlegt kúgunartæki í höndum yfirvalda með fasistaóra.

Hvað ætli það merki svo að vera „vel kynntur“? Þarf maður að eiga íslenska vini? Er nóg að vera vel kynntur meðal annarra innflytjenda eða teljast þeir ekki með? Á maður meiri séns ef maður á 5000 fb vini eða þarf maður að vera vel kynntur í raunheimum? Er maður „illa kynntur“ ef maður hefur lent í útistöðum við yfirmann sinn? Nægir að vera einrænn, fáskiptinn og perralegur í útliti til að teljast illa kynntur eða telst maður vel kynntur svo fremi sem hann er ekki ofbeldismaður eða þjófur? Er sá vel kynntur sem er hvers manns hugljúfi, manna skemmtilegastur með áfengi og draumur hverrar konu, þótt hann, þrátt fyrir að vera „starfhæfur“, kjósi frekar að nota mánudagsmorgna til að jafna sig eftir góða viðkynningu helgarinnar en að mæta til vinnu? Myndi Jón Ásgeir Jóhannesson teljast vel kynntur ef hann væri útlendingur? Allir vita hver maðurinn er svo ekki vantar neitt upp á kynninguna en er það góð kynning?

Það er sko ekkert hvaða slordóni sem er sem getur kvittað upp á að útlendingur sé vel kynntur því „valinkunnur“ merkir samkvæmt orðabók: þekktur að góðu einu, réttlátur, góður, heiðarlegur, ráðvandur, æruverðugur, nafnkenndur, þekktur, sómamaður. Orðabókin sker þó ekki úr um það hvort fortíð manna hafi áhrif á valinkunnugleika þeirra. Árni Johnsen er nafnkenndur og ætli hann telist ekki „ráðvandur“ eftir betrunarvistina á Kvíabryggju. Samt sem áður er hann ekki þekktur að góðu einu. Er hann þá valinkunnur?

Ég nota orðið „valinkunnur“ lítið og heyri það sjaldan. Satt að segja er það fyrsta sem kemur upp í huga minn þegar ég heyri þetta orð, brot úr gömlu Stuðmannakvæði:

 

studmennÍ veislunni er voða lið
valinkunnur skríllinn

 

Ætli hinn valinkunni skríll sem sækir partýin hjá henni Stínu stuð sé hæfur til að meta það hvort útlendingur teljist vel kynntur? Ef Kalli og Bimbó gefa innflytendastúlku einkunnina „þrumuskuð“ telst hún þá vel kynnt? Er skríllinn á Alþingi valinkunnur skríll eða bara skríll? Eða bara valinkunnur og enginn skríll?

Flokkar: Allt efni · Flóttamenn og innflytjendur · Lög og réttur
Efnisorð:

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics