Föstudagur 23.11.2012 - 12:49 - FB ummæli ()

Stórveldið, Monitor og kennivald kvenhyggjunnar

Þessi grein tilheyrir pistlaröð um kennivald kvenhyggjunnar. Tenglar á fyrri pistla í röðinni eru í lok greinarinnar.

——

Hreyfing sem stefnir að því að koma á kennivaldi, gerir sér far um að yfirtaka alla umræðu sem snertir áhugasvið hennar. Einn mikilvægasti áfanginn á þeirri vegferð er sá að yfirtaka fjölmiðlaumfjöllun og þar hafa íslenskir feministar náð prýðilegum árangri. Fjölmiðlaumfjöllun um kynjamál er svo til eingöngu á feminiskum forsendum, það er helst að önnur sjónarhorn sjáist í viðtölum og sjálfstæðum greinaskrifum þeirra sem hafa gert andspyrnu gegn viðhorfum og vinnubrögðum kvenhyggjunnar að baráttumáli. Það eru feministar sem stjórna því hvaða mál sem snerta kynjapólitík eru tekin til umfjöllunar og það eru feministar sem ráða sjónarhorninu og túlkuninni. Þetta á t.d. við þegar fjallað er um launamál og stöðuveitingar, staðalmyndir og barnauppeldi en hvergi er kennivaldið þó augljósara en í umfjöllun um kynferðismál og allt sem þeim tengist.

Hvað skal ræða og hvernig?

Kvenhyggjusinnar stjórna því að verulegu leyti hvaða kynjamál eru tekin til umfjöllunar. Engu líkara er en að opinber fyrirmæli hafi verið gefin út um að fjallað skuli um nauðganir og klámvæðingu eins oft og því verður við komið. Gúggull vinur minn gaf upp 101.000 leitarniðurstöður þegar ég sló inn „mér var nauðgað“ núna í morgun. „Ég fékk krabbamein“ gefur 10.800 niðurstöður. Orðið „Bílslys“ eitt og sér án nokkurs samhengis gefur 70.400 niðurstöður. Enn heyrir maður talað um að þöggun ríki um kynferðisofbeldi.  Sú upplifun samræmist ekki veruleika okkar flestra og tölurnar tala sínu máli; samkvæmt upplýsingum frá Fjölmiðlavaktinni hafði orðið nauðgun (í öllum beygingarmyndum) komið fyrir 1089 sinnum í íslenskum fréttum það sem af er árinu kl 11:00 í dag. Þá eru erlendar fréttir ótaldar sem og umfjöllun sem ekki tilheyrir fréttum.

Og feministar stjórna því ekki aðeins hvaða kynjamál fjölmiðlar taka fyrir, sjónarhorn, efnistök og túlkun eru einnig samkvæmt feminiskri formúlu. Þetta opinberast sérdeilis vel í fjölmiðlaumfjöllun um mál Egils Einarssonar og viðbrögðum við þeirri umfjöllun, ég mun því nota það mál sem dæmi þótt mörg fleiri mætti nefna.

Gillzmálið er sennilega grófasta dæmi Íslandssögunnar um ófrægingarherferð á hendur einstaklingi og það manni sem hefur engin pólitísk ítök. Fyrir rúmu ári var Egill sakaður um glæp sem samkvæmt refsiramma laganna getur í versta tilviki jafngilt morði. Þó svo að rannsókn væri rétt að hefjast var hann úthrópaður nauðgari í fjölmiðlum og lúkasinn á kommentakerfum netmiðlanna og facebook náði nýjum hæðum. Það þótti bara hið besta mál að draga mannorð hans niður í svaðið og jafnvel fyrirtæki sem hann hafði unnið fyrir sýndi af sér framkomu sem varla verður skoðuð sem neitt annað en þátttaka í einelti.

Hvað má ekki ræða?

Nú hefur Egill verið hreinsaður af þessum sökum að svo miklu leyti sem það er hægt án þess að fram komi óumdeilanlegar sannanir fyrir því að hann hafi verið borinn röngum sökum en það virðist þó engu breyta um stöðu hans. Sjónvarpsþættir sem voru gerðir eftir bók hans verða ekki teknir til sýninga, slík eru ítök feminista hjá 365 veldinu. Til stóð að sýna þættina í kvikmyndahúsum en smákóngarnir hjá Stórveldinu gungnuðu á því.

Ég verð að játa að mér finnst í aðra röndina dálítið skemmtilegt að sjá svona skýrt dæmi um það hvernig kapítalisminn étur börnin sín. Dæmið er eflaust búið að kosta Stórveldið ævintýralegar fjárhæðir og strákakjánar í kapítalistaleik halda líklega að þeir séu að mæta kröfum markaðarins með því að stinga félaga sinn í bakið. Krafan um að taka Gillz af markaðnum  kemur þó ekki frá viðskiptavinum Stórveldisins heldur frá þeim sem fyrirlíta Stórveldið, smákóngana og Gillz. Egill hefur sjálfsagt talið að hann væri í samstarfi við einhverskonar félaga eða jafnvel vini hjá Stórveldinu en nú fær hann skilaboðin eins og blauta gólftusku í andlitið; hann er ekki manneskja heldur söluvara sem Jói getur braskað með, eða kannski tíkin hans Simma; húrra fyrir kapítalismanum. Eins írónískt og það er, í ljósi andúðar minnar á dólgafeminisma, get ég heldur ekki annað en brosað að því að Simminn og Jóinn skuli af eigin frumkvæði skríða ofan í rassvasa baráttukvenna eins og Hildar Lilliendahl og Maríu Lilju Þrastardóttur, kvenna sem ég efast um að hafi nokkurntíma gert Stórveldinu greiða eða hafi minnsta hug á að gera það í framtíðinni. Frábær árangur hjá femmunum verð ég að segja og púkinn á fjósbitanum hlær að tapi Stórveldisins þótt ég finni til með vesalingnum sem hélt að þessir labbakútar væru vinir hans. Slíkur er áhrifamáttur feminista að þeir geta jafnvel stjórnað því hvað er boðið upp á í sjónvarpi og kvikmyndahúsum og þótt ég sé ósammála baráttumálunum get ég ekki annað en vottað feministum virðingu mína fyrir frábæran árangur.

Fá þær að stjórna Monitor líka?

Síðast í gær hófst svo enn ein hrinan þegar Monitor birti viðtal við hið fallna goð. Drottningarviðtal vissulega en ég verð að segja það Monitor til hróss að Agli var ekkert hlíft við óþægilegum spurningum.

Og hér kemur í ljós hversu langt kennivald kvenhyggjunnar nær. Þótt vel hafi mátt birta einhliða frásögn vinkvenna meints þolanda í nauðgunarmáli fyrir rúmu ári, þykir hin mesta óhæfa að gefa manni sem síðan hefur setið undir samfelldu persónuníði og rógburði tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér. Rökin fyrir því að ekki megi hleypa Agli í fjölmiðla eru annarsvegar þau að Egill sé svo slæm fyrirmynd. Þau rök halda auðvitað ekki vatni, Egill var alveg jafn slæm fyrirmynd áður en þessi nauðgunarkæra kom fram og ekki mótmæltu menn þá*; það trúir því enginn heilvita maður að þessi mótmæli standi ekki í beinu sambandi við nauðgunarkæruna. Hin rökin eru þau að það sé svo íþyngjandi fyrir meintan geranda í meinsærismáli að sjá smettið á Agli á blaði sem er dreift í framhaldsskólum. Skilaboðin eru þau að sé maður ásakaður um nauðgun skuli hugsanlegur þolandi njóta vafans en sé kona sökuð um rangar sakargiftir skuli hugsanlegur gerandi njóta vafans. Á umræðukerfum netmiðlanna og á facebook sést svo gjarnan sú skoðun að enginn vafi sé fyrir hendi; maðurinn sé einfaldlega nauðgari hvort svo sem einhver málsgögn gefi tilefni til þess dóms eður ei. Sú skoðun er áberandi að möguleikann á því að honum sé gert rangt til, megi alls ekki ræða í fjölmiðlum.

Það verður nú fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessum mótmælum gegn Monitorviðtalinu. Ætli ritstjórn Monitor fylgi dæmi smákónganna og láti feminista ritstýra sér? Eða mun þetta nauðaómerkilega sorprit sýna meira sjálfstæði gagnvart hinu nýja kennivaldi en aðrir fjölmiðlar landsins samanlagt? Þá yrði nú púkanum á mínum fjósbita skemmt.

———–

*Ég hefði átt að taka fram hér að mótmæli höfðu víst komið fram áður þótt þau beindust ekki sérstaklega að Monitor. Þannig var t.d. hópur sem tók nafn sitt úr símaskránni þegar Gillz var ráðinn sem ritstjóri hennar. Aðalástæðan sem nefnd var fyrir þeirri aðgerð var þá fjögurra ára gömul bloggfærsla sem feministar gerðu fræga með því að halda henni á lofti mánuð eftir mánuð og ár eftir ár.

Fyrri pistlar í þessari röð sá nýjasti efst:

Lokaorð um jafnréttisfræðslu – í bili
Hugtakaskýringar Kynungabókar
Sýn Kynungabókar á kynbundið ofbeldi
Feitabollufeminismi í skólana – um heilsufarskafla Kynungabókar
Fjölmiðlakafli Kynungabókar
Kynungabók og vinnumarkaðurinn
Skólakafli Kynungabókar
Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Kynjapólitík · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: , , , ,

Fimmtudagur 22.11.2012 - 15:28 - FB ummæli ()

Til hvers þarf löggan næstum 300 skotvopn?

Í gær sagði visir.is frá því að lögreglan hefði yfir að ráða 254 skammbyssum og 37 rifflum.

Í fréttinni er engin tilraun gerð til þess að skýra þörfina á þessari miklu vopnaeign. Mér skilst að sérsveit lögreglunnar skipi um 50 manns. Ef það er rétt er erfitt að sjá fyrir sér aðstæður þar sem þörf er fyrir á hátt á þriðja hundrað skotvopna. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort verið sé að leggja drög að því að lögreglan gangi með skotvopn á sér.

Mér finnst að einhver fjölmiðill ætti að taka að sér að fá fram svör um það á hvaða forsendum þessi vopnaþörf sé metin. Ef ekki af ást sinni á almennri upplýsingu og þjónustulund við almenna borgara, þá allavega af umhyggju fyrir  Stefáni Eiríkssyni. Ég held nefnilega að honum finnist ekkert gaman að fá bréf frá mér.

Komaso blaðamenn; finnið nú út hver fjárinn er eiginlega í gangi.

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Lög og réttur · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

Miðvikudagur 21.11.2012 - 12:07 - FB ummæli ()

Hvaða lausn sérð þú?

Allt stefnir í að Ísraelsmenn sölsi undir sig það litla sem eftir er af Palestínu og drepi réttmæta eigendur landins eða stökkvi þeim á flótta. Engin friðsamleg lausn er í sjónmáli. Ísraelsmenn hafa engan áhuga á tveggja ríkja lausn og það að Hamas skuli njóta stuðnings stafar sannarlega ekki af því að trúarofstæki þeirra og mannréttindabrot gagnvart eigin fólki þyki svo frábær, heldur af því að þeir hafa staðið fast á því að gefa ekki eftir. Í Palestínu ríkir sennilega mjög lítill áhugi á tveggja ríkja lausn þótt það yrði nógu mikil bót til þess að hún yrði samþykkt ef Ísraelar hefðu áhuga á því.

Tveggja ríkja lausn hefur ekki náð fram að ganga á 64 árum og engin ástæða til að halda að hún verði að veruleika. Svo hvað er þá til ráða? Í gær nefndi ég möguleikann á því að þjóðir heims tækju sig saman um að afvopna Ísrael og leysa Ísraelsríki upp. Það mætti ekki gerast nema Ísraelsmönnum yrði boðinn ríkisborgararéttur annarsstaðar. Við getum ekki reiknað með að fólk sem hefur misst land sitt í ræningjahendur og hrakist á flótta, verið hent út af heimilum sínum, fangelsað án réttarhalda og pyntað, horft á ástvini sína myrta og jafnvel verið neitað um að fá að grafa lík þeirra, gleymi og fyrirgefi, þegar óvinurinn heldur ekki lengur á byssu. Ef Ísraelsmenn stæðu uppi vopnlausir í dag yrði þeim einfaldlega útrýmt.

Það eru í alvöru til Íslendingar sem finnst þetta bara allt í lagi

Ekki stóð á viðbrögðum. Hugmyndin um að greiða fyrir þjóðflutningum (einmitt til þess að afstýra þjóðarmorði á Ísraelum) þykir gjörsamlega fyrir neðan allar hellur. Að leysa upp samfélag fólks sem hefur í tugþúsunda tali verið flutt inn frá Bandaríkjunum og Evrópu, sérstaklega í þeim tilgangi að ræna landi, yfirtaka heimili, fremja skemmdarverk og drepa búfénað; að koma því fólki í þá aðstöðu að þurfa kannski að snúa heim til sín; yfirgefa landið sem það rændi; það þykir svo svívirðileg hugmynd að eingöngu Zionistar fást til að ræða hana, og vitanlega ekki með rökum heldur skítkasti.

Annar möguleiki er að halda áfram að ræða málin á meðan Ísraelsmenn henda íbúum Austur-Jerúsalem út á gaddinn, leggja undir sig ólívulönd í nágrenni Nablus og sprengja Gaza aftur á miðaldir. Og hvað svo þegar þeir eru búnir að ná allri Palestínu undir sig? Verða þá allir glaðir? Róast Jórdaníumenn og Egyptar þegar þeir fá fleiri milljónir palestínskra flóttamanna í hausinn til viðbótar við þá sem fyrir eru í löndum þeirra? Hvernig er það annars, er ekki hægt að sanna það með Biblíunni að gyðingar eigi tilkall til Jórdaníu líka? Eða bara að þeir eigi allan heiminn? Væri kannski lausn á þessari deilu að senda Nató í stríð við Mið-Austurlönd og gefa gyðingagreyjunum þau bara öll? Ég meina þeir eru nú einu sinni fórnarlömb helfararinnar.

Svona í alvöru talað, þið sem eruð að kafna af hneykslun á þeirri hugmynd að leysa Ísraelsríki upp; hvað viljið þið gera? Sjáið þið möguleika á því að Ísraelsmenn og Palestínumenn muni búa saman í friði í Palestínu? Hvernig? Hvenær? Eða á alþjóðasamfélagið bara að halda áfram að útvega Ísraelsmönnum vopn?

 

Bendi að lokum á þetta myndband með einlægri frásögn ísraelsks hermanns sem útskýrir hversvegna er ekki hægt að koma í veg fyrir stríðsglæpi með því að refsa bara skúrkunum.

 

Flokkar: Allt efni · Mannréttinda- og friðarmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Þriðjudagur 20.11.2012 - 18:16 - FB ummæli ()

Hvað er þjóðarmorð?

Í umræðunni um ástandið í Palestínu hefur heyrst það sjónarmið að rangt sé að tala um meðferð Ísraela á Palestínumönnum sem þjóðarmorð. Með því sé verið að gengisfella hugtakið. Við skulum skoða réttmæti þess að nota orðið þjóðarmorð, með því að bera ástandið í Palestínu saman við skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á þjóðarmorði.

Í 2. grein sáttmála um varnir gegn þjóðarmorði, segir að með þjóðarmorði sé átt við sérhverja þá eftirtalinna aðgerða sem framin sé í þeim tilgangi að eyða að hluta eða í heild, hóp af sameiginlegu þjóðerni, þjóðarbroti, kynþætti eða trúarbakgrunni.

(a) Dráp á meðlimum hópsins.
(b) Að valda meðlimum hópsins alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða.
(c) Að setja hópnum viljandi lífsskilyrði sem eru til þess fallin að eyða honum að hluta eða í heild
(d) Íþyngjandi aðgerðir sem ætlaðar eru til þess að koma í veg fyrir barnsfæðingar innan hópsins.
(e) Nauðarflutningar barna frá hópnum til annars hóps.

Síðustu tvö atriðin eiga ekki við um Palestínu. Ég hef a.m.k. aldrei heyrt að Palestínumenn séu hindraðir í því að fjölga sér þótt rétt sé að benda á að þrátt fyrir að Ísrael heimti skatta af Palestínu hafa Palestínumenn ekki aðgang að ísraelsku velferðarkerfi. Ég veit heldur ekki til þess að börn séu flutt frá samfélagi sínu.  Hin atriðin þrjú eiga öll við og hvert þeirra um sig fellur undir skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á þjóðarmorði.

 

a)  Manndráp

Enginn mótmælir því með tækum rökum að mannfall í Palestínu sé gríðarlegt. Samkvæmt nýjustu fréttum hafa 110 Palestínumenn fallið á Gaza í árásum síðustu daga en 3 Ísraelsmenn hafa fallið fyrir hendi Palestínumanna. Ég veit ekki hvort eru til nokkrar öruggar tölur um mannfall frá 1948 en til að gefa nokkra hugmynd þá getum við skoðað tölur frá utanríkisráðuneyti Ísraels og B’tSelem (það eru mannréttindasamtök sem taka ekki afstöðu með eða á móti Palestínu.)  Samkvæmt þeim heimildum féllu 7978 Palestínumenn á árunum 1987-2011 en 1503 Ísraelsmenn.  Hér er eingöngu um að ræða þá sem hafa fallið í beinum átökum. Ekki er tekið tillit til þeirra sem hafa látið lífið í fangelsum eða þeirra sem hafa dáið vegna þess að aðgengi lækna og sjúkrabíla að slösuðum og sjúkum hefur verið hindrað. Ekki er heldur reiknað með þeim þúsundum sem hafa horfið.

Það er ekki aðeins herinn sem sprengir hús til grunna og skýtur almenna borgara. Í Hebron, þar sem landnemabyggðir eru inni í palestínskum borgum, ganga landræningjar vopnaðir á götum úti. Almenningi í Hebron stendur meiri stuggur af landræningjum en hernum því ótti hersins við alþjóðasamfélagið dugar til þess að hermenn skjóta sjaldan nema telja sig geta réttlætt það fyrir sínum yfirmönnum. Landneminn skýtur hinsvegar á eigin ábyrgð.

Afar sjaldgæft er að nokkur sé dreginn til ábyrgðar fyrir dráp eða stórskaða á Palestínumanni en Palestínumaður sem sést taka upp stein getur reiknað með þriggja ára fangelsi.

 

b)  Fólk skaðað líkamlega eða andlega

Ég dvaldi á Vesturbakkanum tvo mánuði árið 2008 og heimsótti margar borgir. Hvergi hitti ég karlmann yfir 25 ára aldri sem  hafði ekki verið handtekinn a.m.k. einu sinni. Sé handteknum manni ekki sleppt samdægurs reiknar fjölskyldan með a.m.k. þremur mánuðum þar til honum er sleppt og oft fá menn engar skýringar á því hvað þeim er gefið að sök; það er „öryggisatriði“ að leyna ákæruefninu og dómnum. Langflestir ef ekki allir Palestínumenn sem sitja í fangelsi í Ísrael sæta meðferð sem er skilgreind sem pyntingar. Þeir eru sviptir svefni, hrelldir með hvellum hljóðum þegar minnst varir, bundið fyrir augu þeirra og þeir meiddir líkamlega. Ég hitti sjálf marga menn sem bera varanlegt líkamstjón af pyntingum í ísraelskum fangelsum og einn sem er örkumlaður eftir að hafa verið lokaður í pínulitlu búri sólarhringum saman.

Mótmælaaðgerðum (jafnvel friðsamlegustu göngum þar sem markmiðið er aðeins að komast að tilteknum stað og biðjast þar fyrir) svarar herinn með hljóðsprengjum, táragasi og gúmíkúlum. Þessi vopn eru ætluð til þess að leysa upp hóp þegar óeirðir eiga sér stað en ísraelski herinn beitir þessum ráðum á ólöglegan hátt. Hljóðsprengjum er varpað beint að fólki með þeim afleiðingum að það verður fyrir þungum höggum og hvassar flísar skerast inn í hold. Brennheitum táragasshylkjum er skotið beint inn í hóp fólks og gúmíkúlum (sem samkvæmt reglum á að skjóta í fætur) er skotið í augnhæð. Allt er þetta til þess fallið að skaða fólk líkamlega og andlega.

Andlegt tjón af völdum stríðs og ofsókna er ekki eins augljóst og líkamlegt tjón en engum dylst þó að ástand eins og það sem ríkir á Gaza leiðir til andlegs tjóns. Hátt hlutfall barna á Gaza ber einkenni áfallastreituröskunar. Það er ekki ágiskun frá liðsmönnum félagsins Ísland-Palestína heldur niðurstöður rannsókna sem hafa birst í ritrýndum vísindatímaritum, t.d. hér og hér. Báðar þessar greinar eru gamlar, svo þessar niðurstöður eiga ekkert bara við um atburði síðustu daga heldur langvarandi ástand.

Auk beinna aðgerða sem leiða til líkamstjóns og andlegra áfalla er mikið um óbeinar aðgerðir svo sem tafir á ferðum sjúkrabíla. Mörg dæmi eru um að konur hafi alið börn við vegatálma og því fylgja óþarfa veikindi og dauðsföll vegna ófullnægjandi heilsugæslu við fæðingu.

Þá eru ótaldar vísvitandi aðgerðir landræningja til að valda skaða. Palestínsk börn sem búa nálægt landnemabyggðum geta alltaf átt von á að vera grýtt á leið í skólann en þar sem palestínsk börn búa til herlög er hægt að handtaka þau og halda þeim föngnum í átta daga ef þau svara fyrir sig. Þann tíma sem ég dvaldist í Palestínu kom ég eitt sinn á stað þar sem landræningjar höfðu úðað piparúða inn um svefnherbergisglugga þar sem palestínsk hjón sváfu ásamt ungum börnum sínum. Þeir sömu höfðu spillt neysluvatnsbrunni fjölskyldunnar og ég heyrði framburð fleiri fjölskyldna sem höfðu orðið fyrir því að neysluvatn væri viljandi mengað. Þetta eru augljós dæmi um vísvitandi tilraunir til að skaða fólk vegna þjóðernis síns en ísraelska lögreglan er svo ólíkleg til að bregðast við kærum vegna slíkra mála að fólk reynir ekki einu sinni að kvarta.

 

(c) Skaðvænleg lífsskilyrði 

Vísvitandi aðgerðir Ísraelsríkis til þess að gera lífsskilyrði Palestínumanna óviðunandi dyljast engum sem kynnir sér fréttir frá Palestínu. Skiptingin á neysluvatni er kannski augljósasta dæmið en hér má sjá nýjustu fréttir af því hvernig vatni er skipt milli íbúanna. Hluti af áætlun Ísraela um að sprengja Gaza aftur á miðaldir felst einmitt í því að eyðilegga vatnslagnir. Varla er hægt að flokka það sem neitt annað en morðtilraun að hefta aðgang fólks að drykkjarvatni.

Palestínumenn eru ennfremur hindraðir í ýmsum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til þess að viðhalda heilbrigði. Gaza er ekki eina svæðið þar sem holræsamál eru í ólestri en líklega er ástandið verst þar. Vatnsskortur og höft á innflutningi lyfja, öryggsbúnaðar og annarra nauðþurfta er ekki nýtt vandamál á Gaza, þetta er langvarandi ástand sem skapað er með einbeittum vilja ísraelskra yfirvalda, með því markmiði að skaða Palestínumenn, stökkva þeim á flótta og drepa þá.

Auk beinna skaðvænlegra aðgerða er óbreyttum borgurum svo gert ókleyft að sjá fjölskyldum sínum farborða, ekki aðeins með eignanámi og byggingu aðskilnaðarmúrsins sem takmarkar möguleika á atvinnu og námi verulega, heldur einnig með lögum um að fólk megi ekki reka fyrirtæki annarsstaðar en í sinni heimabyggð og lögum um eignaupptöku á landi sem ekki skilar arði í tiltekinn tíma. Fólkinu er svo gert ómögulegt að búa á sama stað og það rekur fyrirtæki og aðgengi þess að löndum sínum hindrað með öllum ráðum, löglegum sem ólöglegum. Þúsundir heimila eru á framfæri hjálparstofnana, sjaldnast vegna örorku eða annarra óumflýjanlegra aðstæðna, heldur vegna þess að fjölskyldufaðirinn situr í fangelsi eða hefur með beinum eða óbeinum hætti verið sviptur rétti til að rækta land og stunda launavinnu.

 

Ein helför réttlætir ekki aðra 

Hjá UNWRA eru nú 5 milljónir Palestínumanna á skrá yfir flóttamenn. Ekki er með neinni vissu hægt að segja til um hversu margir eru óskráðir á vergangi. Þetta fólk er ekki í ævintýraleit; það er á flótta af því að það býr við ofsóknir sem ógna rétti þess til lífs, frelsis, öryggis og mannlegrar reisnar. Ofsóknir sem Íslendingar styðja með stjórnmálasamstarfi sínu við Ísrael.

Ef til vill eru þeir sem mótmæla því að þjóðarmorð eigi sér stað í Palestínu að hugsa um gyðingaofsóknir nazista í síðari heimstyrjöldinni og finnst lítið koma til hörmunganna á Gaza í samanburði við frásagnir Elie Wiesel og annarra sem hafa lífsviðurværi sitt af sögum úr fangabúðum nazista. Ekki er nokkur vafi á því að gyðingaofsóknir nazista voru þjóðarmorð. Saklaust fólk var handtekið, aðskilið frá ástvinum sínum og vistað í pestarbælum þar sem taugaveikifarandur geysaði, það var svelt, þrælkað, sumir voru pyntaðir og tugir þúsunda létu lífið myrtir. Um það efast enginn, ekki heldur þeir sem telja Elie Wiesel kríta liðugt.

Ein helför réttlætir þó ekki aðra. Hugtakið þjóðarmorð á einnig við um það ástand sem nú hefur varað í Palestínu í 64 ár og má telja í meira lagi kaldhæðnislegt að ríki sem stofnað var vegna þeirrar samúðar sem Gyðingar hlutu sem fórnarlömb þjóðarmorðs, skuli sjálft standa fyrir aðgerðum sem falla undir viðurkenndar skilgreiningar á þjóðarmorði.

Að sama skapi er það kaldhæðnislegt að þótt bæði almenningur og ráðherrar fordæmi þjóðarmorðið í Palestínu, skuli Íslendingar hika við að stlíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Birgitta Jónsdóttir ber upp þá hugmynd og þótt ég skilji það sjónarmið Össurar Skarphéðinssonar að best sé að eiga samstarf við hin Norðurlöndin um slíkar ákvarðanir, sé ég enga ástæðu til að bíða eftir því að einhver annar taki frumkvæði í þeim efnum.

Össur er fyrsti utanríkisráðherra Íslendinga sem tekur afstöðu með Palestínumönnum. Ég vona innilega að hann fylgi orðum sínum eftir og geri sitt til að stuðla að því að Norðurlöndin slíti stjórnmálasamstarfi við Ísrael hið fyrsta.

 

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: , , ,

Þriðjudagur 20.11.2012 - 00:42 - FB ummæli ()

Innanríkisráðherra er lýðskrumari og hræsnari

Aldeilis mögnuð ræðan hans Ögmundar við Bandaríska sendiráðið, sérstaklega þetta: „Hvað verður búið að drepa mörg börn í tíu fréttum?“ Ég má eiginlega til með að deila þessum skilaboðum sem ég sá á facebook, svona í tilefni dagsins.

Hvað verður búið að drepa mörg börn fyrir tíu fréttir?“ spurði innanríkisráðherra í „eldræðu“ sinni við bandaríska sendiráðið í dag, þar sem hann m.a „bar aðstæður í Palestínu saman við Ísland, til þess að setja þær hörmungaraðstæður sem þar ríkja í samhengi.“(visir.is)

Aðeins örfáum tímum eftir ræðuna var búið að hneppa þrjá flóttamenn, þar af einn frá Írak, í varðhald lögreglunnar á Suðurnesjum, og verða þeir sendir áleiðis til helvítis með fyrsta flugi í fyrramálið.

„Hvað verður búið að senda marga flóttamenn út í opinn dauðann fyrir mánaðarmót“ ??? er hægt að spyrja Ögmund á móti, til þess að setja hörmungaraðstæður sem flóttamenn eru að flýja í samhengi.

 

 

Flokkar: Allt efni · Flóttamenn og innflytjendur · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð:

Mánudagur 19.11.2012 - 14:45 - FB ummæli ()

Nató ber líka ábyrgð á blóðbaðinu á Gaza

Ég styð tillögur um viðskiptabann gagnvart Ísrael. Ég styð allar aðgerðir gegn Ísrael sem ekki fela í sér mannréttindabrot. Íslendingar geta ekki afvopnað Ísraelsmenn en við getum gert þeim erfiðara fyrir með viðskiptabanni.

Ég er sannfærð um að friður mun ekki komast á fyrir botni Miðjarðarhafs fyrr en Ísraelsríki hefur verið leyst upp og Gyðingum boðinn ríkisborgararéttur á Vesturlöndum. Ég sé ekki aðra lausn, því á meira en sextíu árum hafa engar sáttaumleitanir borið árangur og jafnvel þótt Palestínumönnum yrði útrýmt væri það ekki lausn því nágrannaríkin myndu ekkert sætta sig við það. Það er heldur ekkert líklegt að Zionistar teldu nóg að ná allri Palestínu undir sig; þeir myndu áreiðanlega komast að þeirri niðurstöðu að Drottinn hersveitanna hefði ætlað sinni útvöldu þjóð nágrannalöndin líka. Eina lausnin á þessum átökum er sú að svelta hernaðarskrímslið en ef það gerist of skart verður Gyðingum útrýmt. Það væri því betri lausn ef Sameinuðu þjóðirnar fengjust til að viðurkenna að stofnun Ísraelsríkis á sínum tíma hafi verið mistök og gerð yrði áætlun um að greiða fyrir þjóðflutningum áður en einhverjar hörmungar verða til þess að Bandaríkin klippi skyndilega á fjárhagsstuðning sinn við Ísrael.

Kannski væri nær að hætta viðskiptum við Bandaríkin en Ísrael. Bandaríkjamenn fjármagna hernað Ísraela og bera þar með mikla ábyrgð á manndrápum þeirra og mannréttindabrotum. Fjárhagsstuðningur þeirra skýrist ekki af neinum mannkærleika gagnvart Ísraelsmönnum heldur þjónar það heimsvaldaórum ríkisstjórnarinnar að hafa hernaðarítök fyrir botni Miðjarðarhafs. Af þeim sökum munu Bandaríkjamenn víst seint hætta að ausa í þá hít en hættan er sú að þeir neyðist til þess ef náttúruhamfarir, plágur eða einhverjir ófyrirséðir afburðir kalla stór fjárhagsleg áföll yfir Bandaríkin. Ja, eða viðskiptabann, en fyrr mun víst frjósa í Helvíti.

Bandaríkin bera ennþá mesta ábyrgð á ástandinu í Palestínu en þar sem Bandaríkjamenn treysta ítök sín er Nató sjaldan langt undan. Nató er ekki varnarbandalag  heldur stuðningsnet við heimsvaldasinnuð yfirvöld í Bandaríkjunum. Nató hefur m.a. staðið fyrir árásum á almenna borgara í löndum á borð við Afghanistan, þar sem almenningur er langhrjáður af fátækt, skorti á menntun og heilsugæslu, hefur búið við ógnarstjórn með tilheyrandi mannréttindabrotum og á enga möguleika á að verja sig. Nató hefur ekki fordæmt mannréttindabrot Ísraela gagnvart Palestínumönnum, heldur treyst samstarf sitt við Ísraelsher á undanförnum árum. Ísland er í Nató og ber þar með ábyrgð á illvirkjum Nató í Afghanistan, Pakistan og fleiri löndum. Aðildarríki Nató bera líka ábyrgð á hernaðarsamstarfi Nató og Ísraels.

Það er nánast útilokað að þjóðir heims taki sig saman um viðskiptabann gagnvart Bandaríkjunum en við getum nú samt alveg gert eitthvað meira en að deila myndum af viðurstyggð eyðingarinnar á facebook. Við getum t.d:

Fordæmt aðgerðir Ísraelsmanna á alþjóðavettvangi.
Fordæmt hernámið, landránið aðskilnaðarmúrinn og mannréttindabrot Ísraelsstjórnar .
Fordæmt stuðning Bandaríkjamanna við Ísrael.
Gengist fyrir alþjóðlegu viðskiptabanni gagnvart Ísrael.
Slitið stjórnmálasambandi við Ísrael.
Fordæmt samstarf Nató við Ísrael.
Gengið úr Nató.

Það fyrsta sem almenningur á Íslandi getur gert er að mæta á mótmælafund sem Ísland-Palestína boðar til fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna klukkan 17 í dag. Ég er ekki á landinu sjálf en  vona að sem flestir mæti.

 

Svo mæli ég með þessum fyrirlestri.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: , ,

Sunnudagur 18.11.2012 - 14:47 - FB ummæli ()

Opið bréf til forseta Íslands

Jæja Ólafur Ragnar

Nú eru liðnir sjö mánuðir síðan ég heimsótti skrifstofu þína á Sóleyjargötunni, við þriðja mann, í þeim tilgangi að biðja þig að beita þér í málefnum Palestínu.  Ég reiknaði að vísu með að þú hefðir þegar heyrt af hernáminu og séð dramatískar ljósmyndir af sundurtættum búkum. Ég hafði engu að síður lofað slökkviliðsstjóranum í Nablus að segja forseta Íslands frá ástandinu í Palestínu og hafði dregið allt of lengi að ganga á fund þinn. Þú varst að vísu í kosningaferð úti á landi þennan dag en ritari þinn tók vinsamlega á móti okkur og tók fyrir þína hönd við útprentun af ferðasögu minni til Palestínu, haustið 2008 en samþætt henni er dagbók Hauks sonar míns sem hafði dvalist í Hebron tveimur árum fyrr.

Ástæðan fyrir því að ég afhenti þér söguna alla var sú að ég bjóst við að þurfa meira en örfáar reynslusögur til að sýna þér fram á hvernig hernámið gegnsýrir allt daglegt líf fólks á Vesturbakkanum og Gaza. Ég vissi að ef þú skildir hvernig smávægilegustu atburðir í lífi fólks sem býr við hernám verða að vandamálum, værir þú löngu búinn að gera eitthvað í málinu. Mig langaði líka að sýna þér reiði og vanmáttarkennd sjálfboðaliða sem átta sig á því að sjálfboðastarf af þessu tagi hefur ekkert að segja nema okkur takist að fá fólk sem getur haft áhrif á alþjóðavettvangi til að hlusta. Fólk eins og t.d. forsetann og maka hans.


Þessi mynd birtist á ruv.is í morgun
ásamt fleiri góðum myndum frá Gaza

Nú reikna ég með að þú hafir hlustað gaumgæfilega á Örnólf ritara þinn þegar hann útskýrði fyrir þér að það væri ekki nóg að renna í gegnum dramatískustu sögurnar, þú yrðir líka að horfa á ómerkilegri atburði og setja þig í spor fólks sem kemst ekki til vinnu sinnar eða á sjúkrahús nema í fylgd útlendinga. Fólks sem stendur ráðalaust þegar nágrannarnir byggja sér geymslu inni á einkalóð þess, fólks sem er hindrað í því að sækja vatn í sinn eigin brunn eða bera látna ástvini til grafar. Ég geng að því vísu að þú hafir lesið sögurnar af athygli (fyrir utan túristakaflana sem ég merkti sérstaklega til að þreyta þig ekki með efni sem skiptir ekki máli fyrir aðra en persónulega vini mína) og að þú hafir síðan unnið baki brotnu við að beita áhrifum þínum til að uppræta hernámið. Ég býst við að þú hafir tekið sérstaklega til greina ábendingar mínar í persónulegu bréfii til þín á bls 314  í bókinni. Þú hefur eflaust átt náið samstarf við félagið Ísland-Palestínu og ég geri ráð fyrir að þú sért búinn að skipuleggja opinbera heimsókn til Palestínu. Ennfremur reikna ég með að við megum á hverri stundu eiga von á því að þú fordæmir hernámið, aðskilnaðarmúrinn og stríðsglæpi Ísraelsmanna á alþjóðavettvangi.

Þótt ég hafi ekki bent þér sérstaklega á það, finnst mér líklegt að þú hafir sjálfur áttað þig á kostum þess að hafa stuðning utanríkisráðherra í baráttu þinni gegn þjóðarmorðinu í Palestínu. Við erum nefnilega svo gæfusöm að hafa nú, í fyrsta sinn í Íslandssögunni, utanríksisráðherra sem hefur sýnt kjark og vilja til þess að styðja frelsisbaráttu Palestínumanna og ég efast ekki um að Össur hefur tekið erindi þínu vel þegar þú leitaðir liðsinnis hans.

Ennþá hefur ekkert heyrst frá þér á opinberum vettvangi varðandi ástandið í Palestínu en líklegt þykir mér að undirbúningsvinnu sé nánast lokið og nú langar mig að vita hvenær nákvæmlega við Íslendingar getum vænst þess að forseti vor lýsi opinberlega yfir hneysklun sinni á þeim atburðum sem nú eiga sér stað á Gaza.

Einnig kalla ég eftir upplýsingum um það hvenær og með hvaða hætti þú hyggist koma þeim skilaboðum til alþjóðasamfélagsins að Ísland muni leggja sitt af mörkum til þess að binda endi á undirokun og ofsóknir herveldis gegn vopnlausri þjóð og hvernig Íslendingar muni styðja Palestínumenn í því að endurheimta hernumdu svæðin.

Ég vona að þú svarir þessu bréfi fljótt og vel, helst opinberlega en að öðrum kosti geturðu sent mér tölvupóst.

Kær kveðja
Eva

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: ,

Laugardagur 17.11.2012 - 06:08 - FB ummæli ()

Losum okkur líka við strympu

Fyrst ég var nú komin í þjóðlega gírinn á degi íslenskar tungu, fór ég að velta fyrir mér orðtakinu „nú vænkast hagur strympu.“ Undarlegt að það hafi aldrei þvælst fyrir mér fyrr.  Orðið strympa hefur augljós orðsifjatengsl við stromp og ein skýring sem orðabækur gefa er sú að strympa sé skessa en ég kom þessu ekki heim og saman svo ég spurði snjáldrið.

Fyrstu tilgáturnar sem komu fram tengdust strumpunum en mér þótti ótrúlegt að orðtakið væri upprunnið úr strumpabókunum þar sem ég taldi mig hafa þekkt það löngu áður en þær komu út. Fljótt kom þó fram trúleg skýring. Stromphúfa tilheyrði nefnilega búningi heldri kvenna fyrr á öldum. Fullkomlega rökrétt. Samt fékk amma mín sáluga hland fyrir hjartað þegar ég talaði um skautbúning sem „búning með strumpahúfu.“

Hér sjáið þið strympu

Þjóðbúningar eru annars dálítið fyndið fyrirbæri. Svona eins og þjóðsöngurinn. Hér í Glasgow sér maður oft karla í skoskum búningi á götum úti en aldrei konur. Á Íslandi sér maður aldrei konur í þjóðbúningi nema á þorrablótum og enginn fer í karlabúning nema kannski meðlimir þjóðdansafélagsins. Hátíðabúningur karla var ekki hannaður fyrr en 1994.

Það er í raun stórfurðulegt að kvenbúningarnir skuli ennþá vera dregnir fram á þorrablótum því þeir eru hræðilega ljótir. Hin þjóðlegu snið gera ekki bara ráð fyrir lærapokum heldur því að þjóhnappar kvenna nái frá mjóbaki og niður að hnjám og strumpahúfan, svo hræðileg sem hún er, er þó skömminni skárri en pottlokið sem fylgir upphlutnum. Upphluturinn sjálfur er reyndar ekki svo slæmur einn og sér. Ef maður sleppir pilsinu og blússunni, já og auðvitað pottlokinu, er hann bara svona huggulegt vesti með einhverju gulldrasli.  Ég gæti ímyndað mér að það færi vel við níðþröngar rúskinns- eða leðurbuxur og þá á ég vitanlega við að konan yrði nakin undir vestinu, með þokkalegan barm og laus við krumpubringu. Það yrði auk þess í anda klámvæðingarinnar en klám er einmitt hinn nýi húslestur og færi vel á því að láta þjóðbúning endurspegla samruna þessara tveggja menningarstrauma; gvuðsmenningarinnar og klámsins.

Allt hefur sinn verðmiða en mikið mætti þó ganga á til þess að ég fengist til að klæðast þjóðbúningi. Það væri þá helst þessi með strumpahúfunni en húfan yrði örugglega skilin eftir heima nema þeim mun glæsilegri verðlaun væru í boði. Ég hef reyndar heyrt þá kenningu að húfur strumpanna eigi rætur sínar í búningi Kú Klúx Klan en líklegra þykir mér að íslenski strumpahúfubúningurinn hafi orðið tískuhönnuði Klansins að innblæstri. Þótt ég hafi gaulað Land míns föður af innlifun á 18 mánaða skammti af áfengi í nokkrum „rannsóknarferðum“ stúdenta á sokkabandsárum mínum (nota reyndar sokkabönd ennþá eg svo ber undir svo sokkabandsárin hljóta að standa enn), get ég ómögulega lagt nafn mitt við þá þjóðernishyggju sem varð fyrirmynd Kú Klúx Klan. Fyrir náttúrulega utan það að húfan er skelfing hallærisleg þótt hún sé kannski skárri en pottlokið, prjónahúfan og viskustykkið með spjaldinu upp úr. Hvernig stendur annars á því að sá höfuðbúnaður sést ekki lengur? Hann gæti hentað sköllóttum þjóðrækniskonum prýðilega.

En gott og vel. Vonandi vænkast hagur strympu með nýrri stjórnarskrá og ef einhver tekur að sér að hanna íslenskan búning með svörtum leðurbuxum og klámvæddu upphlutsvesti, þá gætum tekið hann upp um leið og við skiptum um stjórnarskrána og þjóðsönginn. Hvað erum við annars að þvælast með þetta þjóðarhugtak ef við göngum ekki í þjóðbúningum og syngjum þjóðsöngva? Er það kannski eitthvað annað sem gerir okkur að þjóð? Eða er þjóð goðsögn?

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð: ,

Föstudagur 16.11.2012 - 17:14 - FB ummæli ()

Æ losum okkur við Matthías

Tilfinningar og skynsemi fara því miður ekki alltaf saman. Hjá mér verða slíkir árekstar þar á milli í hvert sinn sem ég heyri eitthvað sem ég skilgreini sem málvillu eða vont málfar.

Tilfinningin segir mér að til sé „rétt íslenska“ og ég finn fyrir fasískri löngun til að þröngva skilningi mínum á því upp á aðra. Einkum er það stofnanamálfar sem fer í taugarnar á mér. Ef ég væri einvaldur yrðu orðskrípi og frasar á borð við „langtímabúsetuúrræði“ og „heildrænt stefnumörkunarferli“ bönnuð með öllu. Ég myndi skikka blaðamenn til að nota viðtengingarhátt amk einu sinni í hverri frétt og gera það refsivert að nota orðin „sjálfbærni“, „lífstíll“ og „lýðræðisþáttaka“ án þess að skilja merkingu þeirra. Punktar í skammstöfunum yrðu aflagðir enda eru þeir bæði tilgangslausir og ljótir.  Notkun hástafa yrði samræmd við þær reglur sem gilda í ensku sem og útlit gæsalappa en hinar forljótu íslensku gæsalappir eru gróf árás á fegurðarskyn mitt og ættu ekki að líðast. Yfsilon skyldi notað hvar sem því verður viðkomið.

Til allrar hamingju er ég ekki einvaldur og þar sem skynsemi mín segir mér að þessar hugmyndir mínar séu umdeilanlegar hef ég ekki varið miklum tíma til að sannfæra landann um ágæti þeirra. Ég er þó ekki frá því að það sé verðugt markmið (svona í tilefni dagsins) að knýja á um að hinn hræðilegi sálmur Matthíasar Jochumssonar sem kallaður er „þjóðsöngur“ Íslendinga, enda þótt fáir kunni nema fyrsta erindið og ennþá færri ráði við að syngja lagið, verði setur á Þjóðminjasafnið og annar betri tekinn upp í staðinn, ef er þá yfirhöfuð einhver ástæða til að hafa þjóðsöng.

Til er ágætt ættjarðarkvæði eftir Margréti Jónsdóttur. Kvæði sem mjög margir kunna utanbókar og er oft sungið á mannamótum við sönghæft og alþýðlegt lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar. Til eru meiri stórvirki bæði hvað varðar ljóð og lag en Ísland er land þitt er hinn raunverulegi þjóðsöngur Íslendinga og það er auðveldara að syngja hann en Land míns föður sem er nú sennilega besti ættjarðarsöngurinn.

Auk þess er Margrét eina íslenska skáldkonan, fyrr og síðar, sem hefur náð nægri hylli til þess að almenningur þekki (hvað þá kunni utan bókar) meira af bundnu máli eftir hana en sem nemur einni blaðsíðu. (Reyndar kunna nokkuð margir söngtextana hennar Ragnhildar Gísladóttur en hennar verður nú sennilega frekar minnst sem tónlistarkonu en skálds.) Ég myndi ekki mæla með því að taka upp annan þjóðsöng bara til þess að gefa konum meira vægi en Margrét orti það ættjarðarljóð sem hefur náð mestum vinsældum og væri þá ekki við hæfi að viðurkenna það formlega?

Kvæði Margrétar er ekki aðeins betur ort og á alþýðlegra máli en hinn uppskrúfaði sálmur Matthíasar heldur hefur það líka þann kost að vera ekki sálmur; það er rétt aðeins minnst á eilífan föður í lokin. Að mínu mati væri best að sleppa öllu trúarkvaki í þjóðsöng samfélags sem segir sig virða trúfrelsi en í flestum ættjarðarljóðum er eitthvað minnst á Gvuð og hans slekti. Ég man reyndar ekki eftir öðru Íslandsljóði sem bæði er laust við trú og gæti komið til greina sem þjóðsöngur en Land míns föður og ég efast um að næðist almenn sátt um þann söng.

Berið saman Lofsöng Matthíasar og kvæði Margrétar; Ísland er land þitt, og segið mér svo að þið séuð sammála mér. Annars skal ég stefna að því að verða ykkar „hertogi á þjóðlífsins braut“ og skipa svo fyrir að zetan verði tekin upp aftur.

 

Hinn opinberi þjóðsöngur

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:; Íslands þúsund ár, ;:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
:; Íslands þúsund ár, ;:
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.,
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
:; Íslands þúsund ár, ;:
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.

 

Hinn raunverulegi þjóðsöngur

Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.
Ísland er landið sem ungan þig dreymir,
Ísland í vonanna birtu þú sérð,
Ísland í sumarsins algræna skrúði,
Ísland með blikandi norðljósa traf.
Ísland að feðranna afrekum hlúði,
Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.

Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,
Íslensk er lundin með karlmennskuþor.
Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
Íslensk er trúin á frelsisins vor.

Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
Ísland sé blessað um aldanna raðir,
íslenska moldin, er lífið þér gaf.
Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.

Flokkar: Allt efni · Menning og listir · Ýmislegt
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 15.11.2012 - 15:40 - FB ummæli ()

Eru ekki allir glaðir núna?

Þegar ríkissaksóknari úrskurðaði að nauðgunarkæru á hendur Agli Einarssyni skyldi vísað frá, með þeim rökum að framburður kæranda samræmdist ekki öðrum gögnum málsins, sá ég marga netverja hneykslast. Niðurstaðan þótti ömurleg og sumir tefldu henni fram sem sönnun fyrir því að réttarkerfið væri karllægt. Rökin fyrir því að þetta væri vond ákvörðun hjá ríkissaksóknara voru þau að allir ættu rétt á áheyrn hjá réttarkerfinu, hvort sem lögreglurannsókn leiddi í ljós einhverjar líkur á sakfellingu eður ei. Þetta liggur beinast við að túlka á þann veg að réttur meints brotaþola til að draga mann fyrir dóm sé mikilvægari en  sá réttur þess sem ásakaður er um glæp að vera ekki dreginn fyrir dóm nema kæra sé studd einhverjum tækum gögnum.

Nú hefur lögreglan vísað frá rannsókn kæru Egils á hendur sömu stúlku vegna rangra sakargifta. Ríkissaksóknari hefur hnekkt ákvörðun lögreglunnar og úrskurðað að málið skuli rannsakað en í úrskurðinum kemur fram að ekki sé að sjá að nein rannsókn hafi farið fram. Þar með er auðvitað ekkert gefið að niðurstaða rannsóknarinnar verði í samræmi við vonir Egils en löggan hefur þó allavega verið skikkuð til að skoða málið. Ef kæran reynist byggð á tómum hugarburði þá þarf löggan að útskýra fyrir ríkissaksóknara hvernig hún komst að þeirri niðurstöðu.

Ekki hef ég orðið vör við nein fagnaðarlæti yfir því hversu frábært það sé að meintur þolandi fái allavega áheyrn hjá löggunni. En Egill tilheyrir kannski ekki þessum öllum sem eiga rétt á að fá áheyrn?

Flokkar: Allt efni · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics