Laugardagur 28.12.2013 - 14:20 - FB ummæli ()

Jólasaga úr feðraveldisríki

Í dag var lítill drengur jarðsunginn í Álaborg. Hann hét Rasmus og lét lífið þann 16. desember sl. Hann var fjögurra ára.  Foreldrar hans höfðu staðið í umgengnisdeilu. Pabbinn á sér fortíð, hefur setið inni vegna afbrota sem hann framdi áður en drengurinn fæddist, og móðirin taldi hann vanhæfan til að umgangast börn. Dómstólar voru ekki sammála og höfðu þann 12. desember úrskurðað honum eðililega umgengni. Umgengnisúrskurðurinn kvað m.a. á um að barnið skyldi vera hjá föður sínum yfir jólin.

Carsten, faðir drengsins, taldi víst að það væri eitthvað mikið að hjá barnsmóður hans og mánudaginn 16. desember sendi hann félagsmálayfirvöldum tölvupóst og bað þau að grípa inn í. Bréfið endar á orðunum;

…der sker noget forrygende galt, hvis ikke I hjælper.

Carsten reyndist sannspár. Líklega hefði Rasmus litli orðið eldri en fjögurra ára ef hann hefði verið hjá þessum ómögulega pabba sínum þann 16. desember.  En hann var hjá mömmunni. Og mamma hans tók hann í fangið og kyrkti hann til bana.  Carsten vissi ekki, þegar hann skrifaði bréfið, að sonur hans hafði þá þegar verið látinn í tvo klukkutíma. Konan gaf sig fram morguninn eftir.

Carsten, hinn forræðislausi faðir Rasmusar, vildi að drengurinn yrði jarðsettur í Kaupmannahöfn þar sem hann býr en mamman var ósammála. Og þar sem hún hafði forræðið var hún einráð um það hvað yrði gert við líkið.  Carsten skaut málinu til viðeigandi dómstóls en tapaði því og niðurstaðan er ekki áfrýjanleg. Morðingi Rasmusar litla var því einráður um það hvar og hvernig drengurinn yrði borinn til grafar. Þegar dómurinn féll hafði lögmaður hennar á orði að það væri henni ofurlítil huggun í sorginni.

Það var mamma morðingi sem með aðstoð fjölskyldu sinnar skipulagði jarðarförina. Það var hún sem ákvað að jarðneskar leifar barnsins yrðu grafnar í Álaborg. Það var hún sem tók ákvörðun um bálför. Það var hún sem ákvað frá hvaða kirkju drengurinn yrði jarðsunginn, það var hún sem valdi kistubera og það var hún sem valdi tónlistina. Carsten hafði ekkert um það að segja en systir barnsmóður hans sýndi honum þó þau manneskjulegheit að hringja í hann og spyrja hann álits á þeim sálmum sem móðurfjölskyldan hefði valið. Honum stóð einnig til boða að fá í sinn hlut helminginn af ösku barnsins en honum fannst ekki viðeigandi að skipta jarðneskum leifum sonar síns í tvennt.

Eftir að þetta allt var skeð ákvað mamma morðingi svo að mæta ekki í jarðarförina. Það var henni víst of þungbært.

Svona er nú feðraveldið í ríki Dana í dag. Í Úganda hafa konur ekki foreldrarétt og ekki heldur erfðarétt eftir maka sinn. Ef karlinn deyr kemur fjölskylda hans, tekur börnin og eignirnar ef einhverjar eru og hendir konunni út á götu. Í Danmörku búa konur við pínulítið betri kjör. Ekki jafnrétti samt heldur bara aðeins skárri aðstæður. Þar heldur móðir forræðinu eftir að hafa myrt barnið og faðirinn fær ekkert að hafa um greftrunina að segja. Feðraveldi í báðum tilvikum. Bara bitamunur en ekki fjár.

—-

Uppfært: Hér eru myndir frá útför drengins sem fór fram í Álaborg í dag án þáttöku móðurinnar sem hafði skipulagt hana.

Hér eru nokkrir tenglar á fréttir af málinu. Í hverri frétt eru fleiri tenglar

http://www.mx.dk/nyheder/danmark/story/20611329
http://www.mx.dk/nyheder/danmark/story/16499961
http://www.bt.dk/krimi/hun-kvalte-4-aarige-rasmus-mor-kommer-ikke-med-til-begravelse
http://ekstrabladet.dk/112/article2182819.ece
http://ekstrabladet.dk/112/article2181532.ece

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Mánudagur 23.12.2013 - 12:29 - FB ummæli ()

Blaðamannaverðlaunin afhent

 
Blaðamannaverðlaun Evu Hauksdóttur voru afhent í fyrsta sinn sunnudagskvöldið 22. desember.  Þrír blaðamenn hlutu viðurkenningar að þessu sinni.
 

Jóhann Páll Jóhannsson hlaut titilinn Efnilegasti blaðamaðurinn, 2013

Jóhann Páll hefur á árinu sýnt einlægan áhuga á því að fylgja fréttum eftir af einurð þrátt fyrir svartregðu ráðamanna og opinberra stofnana, einkum með fréttaflutningi sínum af leka innanríkisráðuneytisins á trúnaðargögnum.

 

Jón Bjarki Magnússon hlaut titilinn Blaðamaður íslands, 2013

Jón Bjarki hefur lagt áherslu á ítarlegan fréttaflutning og vandaðar fréttaskýringar. Hann hefur öðrum blaðamönnum fremur krafið yfirvöld skýringa á málum sem ráðamenn og opinberar stofnanir hafa skotið sér undan að ræða og svarað þöggunartilburðum með því að leita svara annars staðar. Sem dæmi um framúrskarandi blaðamennsku má nefna umfjöllun hans um stuðning Íslands við þjálfun pyntingasveita á vegum Nató, tengsl greiningardeildar ríkislögreglustjóra við erlendar njósnastofnanir og leka innanríkisráðuneytisins á trúnaðargögnum.

 

Lára Hanna Einarsdóttir hlaut titilinn Besti bloggari Íslands

Lára Hanna Einarsdóttir hefur um árabil verið einn áhrifamesti bloggari landsins.  Pistlar hennar eru byggðir á rannsóknarvinnu, þeir eru upplýsandi, vel skrifaðir og mikilvægt innlegg í samfélagsumræðuna. Auk þess að skrifa hefur Lára Hanna klippt saman afhjúpandi myndbönd sem hafa notið mikilla vinsælda. Ennfremur hefur hún tekið að sér ólaunaða þjónustu við
almenning með því að setja á netið myndskeið úr fréttum Ríkisútvarpsins, sem oft kemur sér vel þar sem ekki er hægt að treysta því að efnið sé aðgengilegt á vef RÚV.

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar
Efnisorð: , ,

Föstudagur 20.12.2013 - 12:43 - FB ummæli ()

Enn af afrekum Hönnu Birnu

Ráðsnilld íslenskra stjórnvalda er með ólíkindum þegar þau vilja losna við flóttamenn. Oftast er Dyflinnarsamkomulagið misnotað til þess að troða flóttamanninum upp á ríki sem þegar taka við miklu fleira fólki en þau ráða við. Það sem gerist þá er að Útlendingastofnun sendir þarlendum stjórnvöldum erindi þess efnis að hún telji að hinu ríkinu beri að taka við manninum.  Ef Dyflinnarreglan á við getur hitt ríkið ekkert gert annað en að samþykkja.

Tony Omos var sendur til Sviss á dögunum. Hann á að vísu von á barni á Íslandi og ljóst að með því tiltæki er verið að brjóta alþjóðasamninga um rétt barna og foreldra til að umgangast. Núverandi innanríkisráðherra virðist þó ekki bera sérstaka virðingu fyrir alþjóðasamningum eða íslenskum lögum svo það ætti í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart þótt brotið sé gegn réttindum Tonys og ófædda barnsins hans eins og annarra sem sækja um hæli á Íslandi. Það sem kemur mér á óvart í þessu máli er að þegar Tony lenti í Sviss fékk hann þær upplýsingar að svissnesk yfirvöld hefðu ekki samþykkt að taka við honum. Þar með neituðu þau að hýsa hann. Það sem getur hafa gerst hér er eitt af þrennu;

  • Verið getur að svissnesk stjórnvöld hafi dregið að svara erindinu og að þegar frestur þeirra var útrunninn hafi háttvirtur innanríkisráðherra ákveðið að senda manninn úr landi án þess að nokkur trygging væri fyrir því að mál hans yrði tekið fyrir í Sviss.
  • Vera má að svissnesk stjórnvöld hafi svarað erindinu á þá leið að þau telji Dyflinnarregluna ekki eiga við, sem er ekkert ólíklegt þar sem Tony er búinn að vera á Íslandi í tvö ár. Ef svo ólíklega vill til hefur Innanríkisráðuneytið farið enn verr að ráði sínu en ég hefði talið trúlegt.
  • Einnig er hugsanlegt að svissnesk stjórnvöld hafi aldrei móttekið neitt erindi frá Íslandi.

Hver sem ástæðan er, er staðan þessi; Tony Omos er staddur í Sviss. Meðalhitastig á þessum árstíma er 5°C. Þegar þetta er ritað er hitastigið í Bellinzona, þar sem Tony er staddur,  2°C. Tony er á götunni og hefst við á lestarstöð.

Það er Hanna Birna Kristjánsdóttir sem ber ábyrgð á því.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur
Efnisorð: , ,

Sunnudagur 15.12.2013 - 15:05 - FB ummæli ()

Aðventuljósin eru ekki gyðingaljós

 

adventuljos-688x400Aðventuljósin, stjaki með sjö kertum sem mynda tind, eru oft kölluð „gyðingaljós“ á Íslandi enda telja margir þau tengd ljósahátíð gyðinga. Þessar vinsælu aðventuskreytingar hafa þó litla ef nokkra tengingu við gyðingdóm.

Aðventuljósin eru upprunnin í Svíþjóð. Þar var siður í sveitum að setja kertaljós í glugga frá Lúsíuhátíðinni þann 13. desember og fram að jólum, til þess að varða leiðina fyrir kirkjugesti sem voru á ferð í skammdeginu. Rafmagnsljósin voru fyrst fjöldaframleidd í Gautaborg 1939 eftir hönnun manns að nafni Oscar Andersson sem smíðaði fyrstu skreytinguna af þessu tagi, að minnsta kosti þá fyrstu sem vitað er um, nokkrum árum fyrr.

Ljósin sjö eru sumstaðar sögð tákna hina sjö daga vikunnar en ég hef ekki séð skýringar á því hvaða máli dagafjöldinn skipti eða hvernig hann tengist þessum árstíma. Talan sjö er miklvæg í flestum trúarbrögðum svo auðvitað getur verið að sé djúp hugsun á bak við það að hafa kertin 7 talsins en kannski var hönnuðurinn líka bara að hugsa um útlitið. Fyrstu aðventuljósin sem voru fjöldaframleidd mynduðu brú en síðar komst í tísku að láta þau mynda hvassan tind og það útlit er sennilega vinsælast á Íslandi.

julottestaken

Aðventuljósin bárust til Íslands 1964. Íslenskur kaupsýslumaður, Gunnar Ásgeirsson keypti fyrst nokkra stjaka til persónulegra gjafa en hóf síðar innflutning á þeim, löngu áður en þau náðu útbreiðslu í Svíþjóð.

Íslendingar hafa kallað aðventuljósin „gyðingaljós“. Þessar sænskættuðu ljósabrýr eru þó að útliti ólíkar þeim kertastjökum sem einkenna hanukkah, þ.e. ljósahátíð gyðinga. Þar eru kertin 9 talsins, 4 þeirra mynda beina línu en miðjukertið ber hærra. Ljósahátíðin stendur í 8 daga og kveikt er á einu kerti hvern dag hátíðarinnar. Miðjukertið má loga hvenær sem er en hin kertin eru eingöngu notuð við trúariðkun. Einnig er til í gyðingdómi sjöljósa stjaki, menorah, sem er ekki sérstaklega tengur ljósahátíðinni. Hann hefur einnig allt annað útlit en sænsku aðventuljósin, því þar eru öll kertin í sömu hæð. Einnig er til afbrigði þar sem miðjukertið ber hæst eins og á hanukkah stjakanum Bæði hanukkah ljósastjakinn og menorah ljósastjakinn standa á fæti, ólíkt „gyðingaljósum“ Svía.

Auk þess sem aðventuljósin eru ólík hanukkah-ljósum í útliti er gyðingdómur ekki útbreiddur í Svíþjóð. Það er því ekkert sérstakt sem bendir til þess að aðventuljósin hafi neitt með gyðingdóm eða önnur trúarbrögð að gera. Fyrst og fremst eru þau huggulegt sænskt jólaskraut, ætlað til þess að lýsa upp skammdegið, og sennilega ekkert meira en það.

===

Áður birt í Kvennablaðinu.

Flokkar: Allt efni · Menning og listir · Ýmislegt
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 12.12.2013 - 15:16 - FB ummæli ()

Einhver verri og óheppnari en Ragnar Þór

 

Góður maður verður fyrir óljósum ásökunum um kynferðisbrot gegn barni.

  • Útilokað reynist að fá upplýsingar um það hvaðan ásökunin kemur eða hvað nákvæmlega hann er sakaður um.
  • Maðurinn fer sjálfur fram á lögreglurannsókn en í stað þess að fagfólk sé látið um málið, sætir hann afar einkennilegri „rannsókn“ á vegum yfirmanna sinna.
  • Löggunni er neitað um upplýsingar og í stað þess að kalla yfirmennina til yfirheyrslu um það hvað hafi orðið um gögnin, hringir löggan vælandi í þolandann og fær hughreystingu til að gera aðra tilraun til að fara náðarsamlegast fram á upplýsingar. Lætur svo ekkert meira í sér heyra.
  • Æðsti yfirmaður þolandans harmar það að hann sé ósáttur við miðaldavinnubrögð sem ég efast ekki um að mannréttindadómstóll myndi fordæma.
  • Maðurinn sér þá leið vænsta í stöðunni að segja alþjóð söguna alla, enda ekki við öðru að búast en að ósönn og rætin afbrigði af henni grasseri þegar svo margir hafa fengið veður af áburðinum.

Viðbrögð lesenda eru á einn veg; fólk er orðlaust, hneykslað og fullt samúðar með þolanda rangra sakargifta og vondra vinnubragða yfirmanna og lögreglu. Það er þó óvíst að sama fólk hefði brugðist eins við ef það hefði heyrt sögunni hvíslað. Margir hafa það prinsipp að trúa alltaf áburði um kynferðisbrot. Ragnar Þór hefur sjálfur haft það prinsipp að leiðarljósi. Margir þeirra sem heyra af svona áburði út undan sér telja útilokað annað en að eitthvað sé hæft í sögunni.

Ragnar Þór Pétursson er vandaður maður og vel liðinn. Og hann er skynsamur. Hann gerði allt rétt. Krafðist sjálfur rannsóknar og reyndi að opna málið frekar en að svæfa það. Og þar sem hann hefur ekkert að skammast sín fyrir, og er óhræddur við skítseiðið sem kom sögunni af stað, getur hann opinberað málið.

Breyskar manneskjur verða líka fyrir illmælgi

Ragnari Þór tekst að hreinsa sig af þessum ásökunum í augum almennings. Honum tekst það vegna þess að hann er vammlaus, skapstilltur, heiðarlegur, klár, hugrakkur, úthaldsgóður og vinsæll. En hvað gerist þegar breyskari og óskynsamari maður en Ragnar Þór er ranglega ásakaður um barnaníð?

Einhver sem er ekki vammlaus. Einhver sem á sögu sem öðrum finnst benda til þess að hann sé varhugaverður. Einhver sem hefur verið staðinn að fíkniefnanotkun eða orðið það á að  fá „lán“ hjá vinnuveitanda sínum án samþykkis.

Einhver sem er ekki skapstilltur heldur bregst  við ásökunum með því að steyta hnefa og kalla vinnuveitendur sína ónefnum fyrir að hlusta á sögusagnir.

Einhver sem er ekki nema miðlungi heiðarlegur, telur vænlegast að reyna að þagga málið niður, og reynir í örvæntingu sinni að nota sér kunningsskap til þess að koma í veg fyrir að rannsókn verði sett af stað.

Einhver sem er ekki sérlega klár, þekkir ekki réttarstöðu sína, veit ekki hvaða kröfur hann getur gert um vinnubrögð og kann ekki að rökstyðja kröfur sínar um upplýsingar og vandað verklag.

Einhver sem skortir hugrekki, horfist ekki í augu við þær afleiðingar sem svona ásakanir geta haft, lætur þessa meðferð yfir sig ganga athugasemdalaust og vonar að þeir sem fá upplýsingar um áburðinn séu eingöngu strangheiðarlegt fólk sem virðir þagnarskyldu og lætur sakborning njóta vafans.

Einhver sem hefur ekki úthald í ellefumánaða Helvítisvist, gefst upp þegar hann fær ekki svör og hrekst úr starfi niðurbrotinn með viðbjóðinn á bakinu og ónýtt mannorð.

Einhver sem nýtur ekki vinsælda. Utangarðsmaðurinn. Útlendingurinn sem hefur ekki gott tengslanet. Einhver sem er klaufi í samskiptum. Einhver sem skortir persónutöfra. Einhver sem kann ekki að koma fyrir sig orði.

Ragnar Þór Pétursson átti ekki skilið að verða fyrir þessum hremmingum. Engin saklaus manneskja á það skilið. En saklaust fólk sem verður fyrir ærumeiðingum er ekki alltaf jafn góðum mannkostum búið og Ragnar Þór. Og þegar góður maður hrekst úr starfi vegna illgirnislegra lyga, vanhæfra yfirmanna og vanhæfrar lögreglu, hvað haldiði þá að gerist þegar sá sem verður fyrir einhverju svipuðu reynist ekki vera neinn „kórdrengur“?

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , ,

Miðvikudagur 11.12.2013 - 15:37 - FB ummæli ()

Hildur Lilliendahl og hatrið á netinu

Tjáningarfrelsi þitt nær ekki lengra en svo að um leið og þú ert farinn að valda öðrum sársauka og þjáningum, þar lýkur því.

Svo mælti Hildur Lilliendahl í viðtali við Ríkisútvarpið í gær. Tilefnið var fundur, á vegum Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, um hatursorðræðu á netinu.

 

Netdólgur pönkast á netdólgum

Hildur Lilliendahl er með umdeildari konum. Hún er dáð vegna ábendinga um það sem hún telur kvenhatur. Hötuð vegna þess að túlkanir hennar á orðum sem hún skilgreinir sem kvenhatur eru stundum í litlu samræmi við ásetning þess sem lét orðin falla. Þegar ummæli lenda í albúminu alræmda er það Hildur sem skilgreinir hatursorðræðuna. Gerandinn (eða þolandinn?) hefur ekkert um það segja hvernig túlka beri orð hans og mönnum sem telja sig hafa lýst réttmætum skoðunum hefur sárnað ákaflega að vera stillt upp við hliðina á netsóðum sem hafa í frammi hótanir og persónulegar svívirðingar. Albúmið er kallað „Stasi-listinn hennar Hildar“ meðal þeirra sem hafa meiri áhyggjur af ritskoðunarórum sjálfskipaðrar netlöggu, en af dónaskap og fylliríisrausi.

Hildur hefur einnig verið ötul við að benda á ummæli sem ekki eru hatursfull heldur bara bjánaleg. Oft hefur hópur fólks gert grín að ummælum sem Hildur hefur bent á  (ég hef sjálf tekið þátt í þessháttar gríni) og vel gæti ég trúað að vesalingunum sem verður á að berrassa kjánaskap sinn, þyki glensið bera keim af hatri.

Vond framkoma við aðra á netinu felst ekki eingöngu í ljótum orðum, heldur einnig í ósanngjörnum tengingum og því að nudda fólki upp úr eigin skít eða bjánaskap. En það eru ekki bjánarnir á Blandinu eða facebook sem skilgreina hatursorðræðuna eða ákveða hvaða tengingar teljast meiðandi, það er Hildur sem ákveður það.

Hildur hefur sjálf látið ósmekkleg ummæli falla á netinu, bæði um nafngreint fólk og karla sem hóp. Líklega er þekktasta dæmið þegar hún kallaði Heimi Má Pétursson „nauðgaravin“. Ég hef líka séð hana kalla nafngreindan mann „ógeð“, tala um Nýhil sem „pungfýluklúbb“, frábiðja sér innlegg karla sem henni líkar ekki við með þeim skýringum að hún hafi beint oðrum sínum til „góðra“ manna (sem gefur til kynna hvað henni finnst um þá sem hún óskar ekki að tjái sig) og fara þess vinsamlegast á leit að einhver taki að sér að berja nafngreinda konu vegna ummæla sem fóru fyrir brjóstið á Hildi. Ekkert af þessu gengur fram af mér. Ég er blóðsek sjálf, hef oft uppnefnt hópa fólks og hyggst gera það áfram. Ekki einu sinni tilmælin um að berja konuna gefa tilefni til bókstafstúlkunar, ekki frekar en að fleyg orð Gillzeneggers, um „granítharðan í hárugan bílskúrinn“, fólu í sér ógnun. Hvorttveggja eru þetta dæmi um ósmekkleg viðbrögð við gremju, viðbrögð sem engin ástæða er til að taka sem hótun. Mig grunar þó  að ef karlmaður hefði spurt hvort einhver væri til í að berja Hildi, hefði hún talað um það sem hvatningu til ofbeldis og dæmi um kvenhatur.

En já, þeir eru til sem álíta Hildi sjálfa sannkallaðan netdólg og frekar óheppilegt að Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar skuli fá þennan umdeildasta netaktívista landsins til þess að tala gegn tjáningarfrelsi.

 

Framsóknarmenn eru líka hópur

indexMörg þeirra ummæla sem Hildur hefur bent á eru hreinn viðbjóður. Mig hryllir samt við þeirri hugmynd að lögregla hafi afskipti af skítkasti á netinu, nema þegar um er að ræða ofsóknir gegn einstaklingum, hótanir, eða hvatningu til ofbeldis. Og við skulum athuga að skilgreiningin á hvatningu til ofbeldis þarf að vera býsna þröng til þess að ná ekki yfir tilmæli Hildar sjálfrar um ofbeldi gegn tiltekinni konu.

Refsistefna fyrir hatursfull ummæli gegn hópum er tjáningarfrelsinu stórhættuleg. Ef á í þokkabót að skilgreina hatursorðræðu út frá upplifun þolandans er beinlínis verið að bjóða upp á skoðanakúgun. „Hópar“ eru ekki bara mengi varnarlausra fórnarlamba, svosem  feminista, innflytjenda, transfólks og fatlaðra. Framsóknarmenn eru hópur. Lögreglumenn líka. Ríkisstjórnin er fámennur hópur sem iðulega verður fyrir skítabombum.

Við getum rétt ímyndað okkur hverskonar fasima það byði upp á ef fólki yrði refsað fyrir móðganir gegn hópum. Baráttukonan Freyja Haraldsdóttir móðgast þegar hin fágaða Vigdís Finnbogadóttir notar orðið „fötlun“ í neikvæðri merkingu. Ef hatursorðræða er skilgreind út frá upplifun er frú Vigdís þar með komin að hættulegum mörkum. Allur húmor á kostnað hópa gæti fallið undir þessa skilgreiningu á hatursorðræðu. Gæti ég átt fangelsisdóm yfir höfði mér fyrir að gagnrýna stjórnvöld ef forsætisráðherra landsins er hörundssár? Ójá, ef við tökum upp það viðmið að tjáningarfrelsi okkar endi þegar við völdum öðrum sársauka, þá er eðilegt að refsa þeim sem móðga höfðingja.
 

Til að tryggja tjáningarfrelsi þitt þarftu að umbera tjáningarfrelsi annarra

Það er einstaklega kaldhæðnislegt að tillaga um að takmarka tjáningarfrelsi við upplifun annarra komi frá Hildi Lilliendahl, því aldrei líður svo vika að ég verði ekki vör við að einhver sé henni sár eða reiður. Hildur hefur ítrekað orðið fyrir því að facebook-aðgangnum hennar hefur verið lokað vegna kvartana frá stórmóðguðum notendum sem vilja takmarka tjáningarfrelsi hennar. Ef lögreglan færi að hlaupa eftir ábendingum allra sem telja sig hafa séð dæmi um særandi framkomu á netinu yrði Hildur með þeim fyrstu sem teknir yrðu til rannsóknar. En þegar öll kurl koma til grafar er hugmyndin ekki sú að fólk skilgreini sjálft hvað því finnst særandi heldur að eitthvert kennivald skeri úr um það. Ef til vill sama kennivald og það sem Norræna ráðherranefndin lítur til þegar hún leggur til að andóf gegn feminisma skuli skilgreint sem hatursorðræða og sett undir sama hatt og hægri öfgar. Yrði þetta albúm flokkað sem hatursáróður?

Ég ætla að halda áfram að kalla ríkisstjórnina „silfurskeiðabandalagið“ og lýsa andstyggð minni á yfirvöldum sem sleikja rassgöt mannréttindaníðinga. Þessvegna er mér líka annt um málfrelsi Hildar Lilliendahl og þessvegna vona ég að þeir sem lenda á Stasi-listanum hundsi hann fremur en að stefna Hildi fyrir dóm, jafnvel þótt komi á daginn að Stasi-listinn kunni að varða við lög. Vegna þess að til að tryggja mitt eigið tjáningarfrelsi þarf ég að umbera tjáningarfrelsi annarra.  Einnig tjáningarfrelsi hommahatara, nýnazista og fasystra.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Kynjapólitík
Efnisorð: , , ,

Þriðjudagur 10.12.2013 - 14:58 - FB ummæli ()

Nokkrar þversagnir í lekamálinu

Eini fjölmiðillinn sem hefur lagt sig fram um að knýja fram svör varðandi leka Innanríkisráðuneytisins á trúnaðargögnum er DV.

Í stuttu máli eru niðurstöðurnar þessar:

 1

Af hverju er Innanríkisráðuneytið ekki búið að fara fram á lögreglurannsókn á því hver hefur útbúið og dreift skjali sem ekki er upprunnið í ráðuneytinu en er greinilega ætlað að líta út fyrir vera þaðan?

———————————————

2

  • Gísli Freyr Valdórsson hefur sagt fjölmiðlum að verið geti að starfsmenn Innanríkisráðuneytisins hafi „tekið niður punkta“, hér sé því ekki um formlegt gagn að ræða.
  • Viðmælendur DV sem hafa gegnt ábyrgðarstöðum innan stjórnsýslunnar staðfesta að eingöngu þeir sem gegna ábyrgðarstöðum innan ráðuneytisins eigi að hafa aðgang að þeim upplýsingum sem koma fram í skjalinu.

Af hverju er Innanríkisráðherra ekki búinn að setja af stað lögreglurannsókn á því hverjir hinna almennu starfsmanna ráðuneytisins hafi verið að hnýsast í trúnaðargögn og dreifa þeim?

———————————————

3

  • Hanna Birna Kristjánsdóttir segir gögn á borð við rökstuðning fyrir úrskurðum í málum hælisleitenda vera send á milli margra stofnana. Eins og DV hefur fengið staðfest þá verður gagn formlegt um leið og það er sent á milli stofnana.
  • Samkvæmt fréttum DV kannast Útlendingastofnun ekki við minnisblaðið.
  • Á umræddu blaði koma einnig fram aðrar vangaveltur og allt bendir til þess að skjalið sé samið í ráðuneytinu.

Ef blaðið er ekki til hjá ráðuneytinu, af hverju segir Hanna Birna það þá ekki? Og af hverju lætur hún ekki rannsaka hvaða stofnun lak upplýsingum ef þær voru sendar milli stofnana með lögformlegum hætti?

————————————————

4

  • Ef þetta blað hefur ekki lekið úr ráðuneytinu þá er það annaðhvort falsað eða það hefur verið afhent öðrum stofnunum.
  • Ef það hefur verið afhent öðrum stofnunum með löglegum hætti þá er um formlegt gagn að ræða.
  • Lögmenn Tony Omos og Evelyn Joseph fóru fram á afrit af minnisblaðinu en fengu ekki.

Af hverju fá lögmenn ekki umyrðalaust afhent formleg gögn sem að sögn innanríkisráðherra eru send á milli stofnana?

————————————————

5

Ekki er verið að biðja ráðuneytið að tjá sig um mál einstaklinga heldur að staðfesta hvort rétt sé að trúnaðarupplýsingar sem eru í almennri dreifingu, séu til hjá ráðuneytinu og hafi verið sendar þaðan. Af hverju er því ekki svarað?

————————————————

Ekki hafa enn borist fréttir af því hvort Hanna Birna hefur verið kölluð fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.  Eftir hverju er verið að bíða?

————————————————

Nokkrir tenglar á umfjöllun um lekamálið:

http://www.dv.is/frettir/2013/11/26/dv-fer-fram-ad-fa-leyniskjal-afhent/
https://www.dv.is/frettir/2013/12/8/raduneytislekinn-kaerdur-0IYRW8/
http://www.dv.is/frettir/2013/12/7/raduneytislekinn-kaerdur-421YT2/
http://www.dv.is/frettir/2013/11/29/opid-bref-til-olafs-th-stephensen-E4JXWT/
https://www.dv.is/frettir/2013/11/21/fordaemalauslekiraduneytisapersonuupplysingum/

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald
Efnisorð: ,

Föstudagur 6.12.2013 - 12:48 - FB ummæli ()

Löggan skúrar eftir sig

Ætli það tíðkist nokkursstaðar í hinum vestræna heimi að þegar lögreglan skýtur mann til bana fái hún sjálf að hreinsa vettvang  áður en rannsókn hefst? Eru þetta eðlileg vinnubrögð? Hvernig er þetta gert í öðrum löndum? Og hversvegna eru engir fjölmiðlar að leita svara við því?

Hér eru smá upplýsingar um það hvernig Norðmenn standa að rannsókn á málum þar sem borgarar falla fyrir lögreglu. Gegnsæi er lykilorð þar og eins hefur mannréttindadómstóll Evrópu lagt mikla áherslu á gegnsæi í slíkum málum. Miðað við það ógrynni frétta sem skrifaðar hafa verið um þetta mál er þó með ólíkindum hversu litlar upplýsingar fást um atburðinn sjálfan og það hvernig staðið verður að rannsókn. Stór hluti fréttanna snýst um það hvað löggan hafi staðið sig vel og annar stór um það hvað maðurinn hafi verið hættulegur, geðveikur og sekur um marga glæpi.

Ég skrifaði ríkissaksóknara eftirfarandi bréf í gærkvöld:

 

Til embættis ríkissaksóknara

Ég lýsi hér með þungum áhyggjum vegna frétta af því að lögreglan sé að hreinsa íbúðina í Hraunbænum þar sem maður féll fyrir byssuskoti lögreglu að morgni mánudags.
Annarsvegar virðist það mjög sérkennilegt að vettvangur sé hreinsaður áður en rannsókn fer fram. Hinsvegar verður að teljast óheppilegt að lögreglan sinni því starfi.
Ég tel að lögreglan ætti ekki að koma nálægt þessari rannsókn sjálf og virðist það mat mitt vera í samræmi við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um það hvernig staðið skuli að málum þegar lögreglan verður manni að bana, sbr. þessa klausu:
As part of this obligation, the State is required to ensure an impartial, effective and timely investigation where State agents have been directly involved in a death.1 International law and jurisprudence requires that the investigation:• be hierarchically, institutionally and practically independent;
• be adequate and effective; • be open to public scrutiny;
• be prompt and carried out with reasonable expedition; and
• involve the next-of-kin.

Samkvæmt fréttum fær lögreglan nú heila viku til þess að hreinsa íbúðina. Ég spyr því:

  1. Hvernig ætlar ríkissaksóknari að tryggja að gögnum verði ekki spillt í þessu hreinsunarstarfi?
  2. Hvernig verður tryggt að engir hagsmunaaðilar komi að rannsókninni?

 

Virðingarfyllst
Eva Hauksdóttir

 

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Lögregla og dómsmál
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 5.12.2013 - 17:11 - FB ummæli ()

Hvor fréttin er röng?

06:00: Sérsveitarmenn beita gasvopnum. Maðurinn hleypir af skotum út um glugga íbúðarinnar í framhaldinu. Ekkert gengur að hafa samband við manninn. Þegar sérsveitarmenn fara inn í íbúðina öðru sinni skýtur hann á þá og hæfir höfuð eins þeirra.

http://www.ruv.is/frett/lest-eftir-skotbardaga-vid-logreglu

Klukkan 7:34 er maðurinn kominn upp á slysadeild og búið að aflýsa hættuástandi.

 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu taldi lögregla á þessum tímapunkti yfirgnæfandi líkur á að maðurinn hefði svipt sig lífi. Hvellur hefði heyrst frá íbúðinni og ekkert samband náðst við hann í tvo klukkutíma.

http://www.ruv.is/frett/lasasmidur-i-storhaettu-i-umsatrinu

Það tók lásasmiðinn 20 mínútur að komast inn. Það hefur því í allra síðasta lagi verið klukkan 7:10 sem ákveðið var að brjótast inn til hans. Samkvæmt því hefur ekkert heyrst frá íbúðinni frá kl 5:10.

 

Hvor fréttin er röng? Hvenær fáum við skýringar á þessu misræmi?

 

—–

Uppfært:

 

Mbl.is er svo með eina útgáfuna enn

Í fyrstu taldi lögregla mögulegt að maðurinn hefði framið sjálfsvíg í íbúðinni og opnaði dyrnar að íbúðinni til að kalla inn til hans. Maðurinn skaut þá úr haglabyssu á lögreglu, skotið hæfði skjöld eins lögreglumannsins sem kastaðist við það aftur á bak niður stigann.

Systkinin telja að lögreglumennirnir hafi verið í íbúðinni frá um klukkan 3.30 til um 5, þegar liðsmenn sérsveitar ríkislögreglustjóra fylgdu þeim út.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/12/05/logreglan_leitadi_skjols_hja_fjolskyldu/

 

Það var samkvæmt þessu milli 3 og 5 sem þeir töldu hann hafa fyrirfarið sér.  Hvað er rétt?

Eru fjölmiðlar með allt niður um sig? Er virkilega enginn sem hefur yfirsýn yfir þær upplýsingar sem hafa komið fram og sér um að leita skýringa?

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

Fimmtudagur 5.12.2013 - 15:01 - FB ummæli ()

Persónuleikapróf. Ertu feministi?

 
Tölfræðin sýnir að fáar konur eru meðal verkfræðinga. Hvað gerir þú?

  1. Hvetur þær konur sem þú veist að hafa áhuga á verkfræði til að láta drauma sína rætast en telur ekkert óeðlilegt þótt fleiri konur hafi áhuga á umönnun en vélum.
  2. Lærir verkfræði af því að eina leiðin til þess að fjölga konum innan greinarinnar er sú að konur sýni henni áhuga.
  3. Lærir kynjafræði svo þú getir betur útskýrt nauðsyn þess að fjölga konum (einhverjum öðrum konum en þér) í verkfræði.
  4. Skrifar Knúzpistil þar sem þú útskýrir að þetta sé feðraveldinu að kenna.


Þú sérð klám sem þér finnst ógeðslegt og niðurlægjandi fyrir konur. Hvað gerir þú?

  1. Sleppir því að horfa á klám en lætur þá sem vilja klám í friði.
  2. Færð gúggul og vinkonur þínar til að benda á klám sem hentar þér eða framleiðir þitt eigið.
  3. Heimtar netsíur eða aðrar aðferðir til að takmarka aðgengi annarra að klámi.
  4. Vælir yfir því hvað klámvæðingin sé hræðileg.


Færri karlar en konur sitja í sveitarstjórnum og á Alþingi. Hvað gerir þú?

  1. Ekkert. Það er ekki þitt vandamál ef fáar konur bjóða sig fram og ekki þitt að segja öðru fólki hvern það á að kjósa.
  2. Býður þig fram eða tekur virkan þátt í kosningabaráttu kvenna, því þetta breytist ekki nema konur gefi kost á sér.
  3. Krefst kynjakvóta því þetta er feðraveldinu að kenna.
  4. Vælir yfir óréttlætinu og heimtar kynjafræðikennslu í skólum.


Þig langar að sjá kvikmyndir um konur en í bíó er lítið framboð af þeim. Hvað gerir þú?

  1. Leitar fanga annarsstaðar því slíkar myndir eru til. Mælir með þeim sem þér þykja góðar.
  2. Ferð út í kvikmyndagerð og framleiðir þær myndir sem þér finnst vanta.
  3. Krefst þess að ríkið hætti að styrkja gerð kvikmynda sem uppfylla ekki Bechdel prófið.
  4. Vælir yfir því að karlmenn framleiði ekki nógu margar kvikmyndir um konur.


Gaurinn á dekkjaverkstæðinu býður karlmanni sem kom inn á eftir þér þjónustu á undan þér. Hvað gerir þú?

  1. Veltir því fyrir þér hvort það hafi eitthvað með kynferði þitt að gera. Gerir manninum vinsamlegast aðvart um mistök sín og gleymir þessu svo.
  2. Segir hátt og skýrt „ég var á undan“ og gengur út frá því að þessi mistök hafi ekkert með þig eða þitt kynferði að gera.
  3. Bíður á meðan þrír aðrir eru teknir fram fyrir þig og kvartar ekki einu sinni við einu manneskjuna sem getur leiðrétt mistökin enda er það karlremba sem þýðir ekkert að ræða við.
  4. Ferð á facebook og vælir þar yfir yfirgangi feðraveldisins og krefst þess að kynjafræði verði kennd í skólum.


Þú ert á djamminu og hefur gefið manni undir fótinn en hefur samt ekki áhuga á að sofa hjá honum. Hann biður þig að deila rúmi með sér og lofar að ekkert muni gerast. Hvað gerir þú?

  1. Finnur þér afsökun fyrir að fara heim því þú varst eiginlega búin að bjóða upp á þessar aðstæður og vilt ekki særa manninn.
  2. Afþakkar og ferð heim því þú veist að kynhvöt og áfengisneysla draga úr prúðmennsku fólks og þú nennir ekki að svara suðinu í fullum og gröðum karlmanni. Gefur enga aðra skýringu en þá að þig langi meira heim, enda á hann ekkert inni hjá þér.
  3. Gistir á sófanum hjá honum. Kemur þér burt þegar þú vaknar við að hann er að káfa á þér og kærir hann fyrir nauðgun.
  4. Drífur þig úr fötunum og upp í rúm til hans því hann á að skilja að nei þýðir nei. Sofnar, vaknar svo við að hann er að káfa á þér, frýst, og þorir ekki að stoppa hann eða einu sinni að segja nei.


Undanfarið hefur þú oft hugsað um karla sem stórgallaðar skepnur og þér finnst heimurinn kvenfjandsamlegur. Hvað gerir þú?

  1. Álítur að togstreita milli kynjanna sé óhjákvæmileg og ákveður að takast á við hana með því að setja þig í spor karla sem ergja þig og útskýra fyrir þeim hvað þú ert að hugsa.
  2. Leitar þér aðstoðar við að takast á við þessi viðhorf því þér finnst þau gera líf þitt erfiðara og veist að það meikar engan sens að afskrifa helming mannkynsins sem aumingja eða hrotta.
  3. Forðast þær viðurstyggilegu verur sem karlmenn kallast.
  4. Útskýrir fyrir karlmönnum að þeir séu ógeðslegir og þurfi að breyta sér og bræðrum sínum.


Karlmaður segir ömurlegan brandara sem lyktar af kvenfyrirlitningu. Hvað gerir þú?

  1. Ekkert. Það er ekki þitt vandamál þótt maðurinn sé fífl. Nóg af betri félagsskap í boði.
  2. Lætur manninn vita að þér sé misboðið. Ef hann tekur það ekki til greina finnurðu þér einhvern annan að tala við.
  3. Stofnar facebook-hóp gegn hatursorðræðu og blokkerar manninn.
  4. Vælir yfir því hvað karlmenn sem hópur séu vondir við konur sem hóp.


Dóttir þín, 9 ára gömul, vill fá að klæðast g-streng og nota varalit. Hvað gerir þú?

  1. Segir nei. Þessir hlutir eru ekki fyrir börn frekar en áfengi, ofbeldiskvikmyndir og verðbréfaviðskipti.
  2. Semur um varalit við sérstök tilefni en strækar á g-strenginn. Það er normalt að litlar stelpur langi að vera skvísur en allt hefur sinn tíma.
  3. Skrifar blaðagrein þar sem þú útskýrir að þessi hræðilega staða sé klámvæðingunni að kenna.
  4. Krefst þess að kynjafræði verði kennd í skólum.


Þú stendur 14 ára son þinn að því að skoða gróft ofbeldisklám á netinu. Hvað gerir þú?

  1. Setur upp netsíu sem sigtar mesta ógeðið frá og ræðir alvarlega við hann, en reynir ekki að hindra hann í því að skoða myndir af berum konum.
  2. Segir honum álit þitt á slíku efni og lætur í ljós ósk um að hann vandi val sitt betur framvegis. Færð eldri félaga hans til að spjalla um þetta við hann.
  3. Harðbannar honum að skoða klám og kemur eftirlitsbúnaði fyrir í tölvunni hans.
  4. Setur af stað vitundarvakningarátak um nauðsyn þess að kenna kynjafræði í skólum.

Vinkona þín er í sambandi við mann sem hefur tvisvar sinnum lagt hendur á hana. Hún vill samt ekki fara frá honum heldur að hann leiti sér hjálpar. Hvað gerir þú?

  1. Gerir allt sem þú getur til þess að fá hana til að leita til Kvennaathvarfsins. Hún gerir sér augljóslega ekki grein fyrir því hvað hún er kúguð svo hún þarf ráðgjöf og sjálfsstyrkingu.
  2. Segir henni að þú óttist um öryggi hennar. Hvetur hana til þess að koma sér burt strax og segja manninum að hún komi aftur þegar hann sé búinn að leita sér hjálpar.
  3. Efnir til kröfugöngu gegn kynbundnu ofbeldi því þetta er ekkert hennar einkamál heldur ógn sem vofir yfir öllum konum.
  4. Tekur þátt í netumræðu þar sem þú útskýrir að í raun búi allar konur við ofbeldi, bara misgróft og það sé enginn eðlismunur á manni sem kallar konuna sína tussu þegar hún heldur framhjá honum og þeim sem kjálkabrýtur hana af því að hann er fullur.

 

Ef þú getur merkt við að minnsta kosti eitt svar við hverri spurningu er niðurstaðan sú sama; þú ert feministi, vegna þess að feminsti er sá sem veit að jafnrétti hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics