Laugardagur 15.3.2014 - 12:06 - FB ummæli ()

Alltaf í tölvunni og tók aldrei til

Fréttir af máli mannsins sem er ákærður fyrir að hafa banað barni sínu, með því að hrista það, vekja margháttaðan óhugnað.

Dauði barnins og kenningar um dánarorsök vekja óhugnað og enn meiri óhugnað þegar mögulegt er að foreldri hafi verið að verki.

Vísbendingar um að ungbarni hafi margsinnis verið misþyrmt vekja óhugnað.  Spurningin um það hversvegna enginn brást við þótt barnið bæri alvarlega áverka vekur óhugnað. Hvað var heilbrigðisstarfsfólk að hugsa? Eða vinir og ættingjar sem vissu af áverkunum? Hvað var mamman að hugsa?

Og það sem ráða má af fréttum um málatilbúnað ákæruvaldsins vekur líka óhugnað. Er saksóknari virkilega að láta að því liggja að samband sé milli tölvuleikjaspilunar og barnsdráps? Að það skipti einhverju máli hvort maðurinn tók oft eða sjaldan til hendi heima hjá sér? Að fólk sem er ekki haldið neinum geðsjúkdómi, en er hlédrægt, sé líklegt til að „snappa“ skyndilega og verða barni að bana?

„Þetta gerist mjög mjög hratt,“ sagði Sigríður. „Hann var engan veginn að höndla þessar aðstæður allar saman.“

Er ríkissaksóknari í alvöru að halda því fram að myndir af barninu brosandi hafi einhverja merkingu í þessu máli?

„Barnið hreinlega vildi ekki vera hjá honum. Það fór að gráta þegar það var hjá honum,“ sagði Sigríður og sagðist telja að það væri vegna þess að barnið hefði vitað að hann gæti meitt það. Það taldi hún sjást vel á myndum sem teknar voru þennan dag, þegar telpan var ein var hún kát og glöð en í fangi föður síns grét hún mikið.

Ég vona að umfjöllun fjölmiðla endurspegli ekki áherslurnar í málflutningi ákæruvaldsins. Því ef það skiptir einhverju máli hvort ákærði er fáskiptinn tölvuleikjafíkill, þá getum við búist við því að næst þegar manndrápsmál kemur fyrir dómstóla verði bent á þjóðerni, stéttarstöðu eða trúarskoðanir ákærða.

Flokkar: Allt efni · Lög og réttur
Efnisorð:

Fimmtudagur 13.3.2014 - 10:30 - FB ummæli ()

Á hvaða leið eru Píratar?

piratarÉg kaus Píratapartýið í síðustu Alþingiskosningum. Ég þekkti grunnstefnu Pírata og treysti frambjóðendum – og ég greiddi þeim atkvæði mitt án þess að lesa stefnuskrána gaumgæfilega.

Ég sé ekki eftir því að hafa kosið Pírata. Þingmenn okkar hafa staðið sig prýðilega og ég treysti þeim ennþá, en ég væri ánægðari með sjálfa mig ef ég hefði sýnt meiri ábyrgð.

Það er góð tilfinning að treysta öðrum en það hefur líka í för með sér hættu á að maður verði værukær og það hef ég verið. Ég hef aðeins fylgst lauslega með Pírataumræðunni á netinu og lítið sem ekkert blandað mér í hana, bara verið ósköp ánægð með mitt fólk á þingi.

Það var ekki fyrr en nú í aðdraganda sveitastjórnakosninga sem ég fór að skoða stefnuskrána almennilega og ég verð að segja að hluti hennar kom mér verulega á óvart. Einkum jafnréttisstefnan en hluti hennar stríðir beinlínis gegn yfirlýstri grunnstefnu Pírata.

Viðbrögðin við gagnrýni á þessa stefnu eru að mestu leyti jákvæð. Sumir bregðast auðvitað ókvæða við og reyna að þagga niður í mér en blessunarlega hefur það fólk sem ég treysti fyrir þingsetu og ýmsir aðrir úr röðum Pírata, lýst yfir einlægum vilja til stöðugrar endurskoðunar. Það gleður mig og ég tel á móti rétt að gera grein fyrir því hversvegna ég álít nauðsynlegt að Píratar endurskoði jafnréttisstefnu sína.

Hæpnar forsendur og skilningsleysi á grunnhugtökum

Píratar gefa sig út fyrir að vera öðrum stjórnmálasamtökum frjálslyndari. Markmið þeirra að auka lýðræði, einkum með áherslu á borgaraleg réttindi aukið gagnsæi og valddreifingu og bætt aðgengi almennings að upplýsingum.

piratar*

Ýmislegt í jafnréttisstefnu Pírata er í beinni mótsögn við þessa grunnstefnu. Ég læt nægja að fara yfir þann kafla jafnréttisstefnunnar sem lýtur að staðalmyndum.

Í fyrsta lagi eru forsendur staðalmyndastefnunnar vafasamar. Vísað er í borgaraleg réttindi en ekki verður séð að þessi staðalmyndastefna komi borgaralegum réttindum neitt við.

Í öðru lagi eru gögnin sem lögð eru til grundvallar vafasöm, annarsvegar ein Wikipedíugrein um þriðja kynið og hinsvegar ein BA ritgerð um áhrif kláms á unglinga. Ég hefði búist við því að Píratar byggðu hugmyndir sínar um áhrif kláms á traustari grunni, ekki síst í ljósi þeirrar ritskoðunarumræðu sem hefur farið fram hin síðustu ár, ekki bara í netheimum heldur hafa umræður um sérstakan „klámskjöld“ farið fram inni í ráðuneytum og á þingi.

Í þriðja lagi virðist stefnan vera byggð á misskilningi á hugtakinu „borgaraleg réttindi“. Borgaraleg réttindi eru náskyld mannréttindum og lúta að rétti almennra borgara gagnvart yfirvöldum. Borgaraleg réttindi eru ekki hvaðeina sem okkur finnst réttlátt og gott, heldur tiltekin réttindi sem stjórnvöldum ber að tryggja. Borgaraleg réttindi geta ekki náð yfir eitthvað sem stjórnvöld eiga enga möguleika á að ráða við.

Tökum sláandi dæmi um mannréttindahugtakið. Rétturinn til fæðu hefur ennþá ekki verið skilgreindur sem mannréttindi.  Það er ekki hægt að sækja yfirvöld til saka fyrir mannréttindabrot þótt stórir hópar fólks svelti. Það er ekki vegna þess að mannréttindasinnum um víða veröld finnist hungursneyð viðunandi ástand, heldur vegna þess að það er ekki hægt að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau komi í veg fyrir náttúruhamfarir og uppskerubrest. Fólki er því ekki tryggð nein vernd gegn hungursneyð í samningum sem hafa lagagildi.*

Á sama hátt takmarkast borgaraleg réttindi af því sem mögulegt er að tryggja með lögum. Tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífs og kynfrelsi falla undir borgaraleg réttindi. Það merkir að við eigum að geta leitað til dómstóla ef brotið er gegn þessum réttindum.

Í fjórða lagi ber ályktunin merki feminisma. Það er áhyggjuefni vegna þess að sá feminismi sem hefur verið ríkjandi á Íslandi síðustu áratugi er afar stjórnlyndur, hallur undir ritskoðun og samræmist grunnstefnu Pírata engan veginn.

Staðalmyndastefnan er í anda stjórnlyndis

Auk þess að bera vott um misskilning á hugtakinu borgaraleg réttindi, stríðir staðalmyndakafli jafnréttisstefnunnar gegn frjálslyndishugmyndum Pírata. Skoðum aðeins hvert atriði fyrir sig.

1.  Að samhliða því að nám verði einstaklingsmiðaðra (sbr. menntastefnu Pírata) verði einnig markvisst unnið að því að draga úr kynbundnum hindrunum við val á námi og starfssviði.

Hvaða kynbundnu hindranir er átt við? Engar fomlegar hindranir eru til staðar. Kynin hafa þegar jafnan rétt til náms, námslána og styrkja. Reyndar eru dæmi um kynbundna styrki til nýsköpunar í atvinnulífinu en þeir styrkir eru ætlaðir konum og væntanlega er þessari staðalmyndastefnu ekki ætlað að afnema þau forréttindi kvenna.

Þær kynbundnu hindranir sem við mætum í námi og atvinnulífi felast í viðhorfum. Staðalmyndir geta vissulega verið hamlandi og það er sjálfsagt að benda á það. En afnám staðalmynda fellur ekki undir borgaraleg réttindi. Ríkið á að tryggja okkur rétt til að leita til dómstóla ef við verðum fyrir ofsóknum eða mismunun, hvort sem það er vegna staðalmynda eða einhvers annars. Það er hinsvegar ekki hægt gera þá kröfu til ríkisins að það verndi fólk gegn þeim staðalmyndum og fordómum sem valda því að stúlkur sækja í aðrar námsgreinar en piltar.

2.  Að komið verði á fót jafnréttisfræðslu innan grunnskóla samhliða kynfræðslu þar sem áhersla verði lögð á fjölbreytileika, umburðarlyndi og virðingu. Fræðsluefni taki einnig mið af því að vinna á móti fordómum og staðalímyndum almennt.

Það flokkast síður en svo sem borgaraleg réttindi og er á skjön við það frjálslyndi sem Píratar kenna sig við, að ætla ríkisvaldinu að stjórna því með svo sértækum hætti hverskonar námsefni grunnskólarnir bjóða upp á.

Einnig er vert að hafa í huga að Kynungabók, jafnréttisnámsefni fyrir framhaldsskóla, sem menntamálaráðuneytið gaf út fyrir nokkrum árum, og rætt er um að gera að skyldunámsefni í grunnskólum, boðar þá skoðun að gervöll mannkynssagan sem og okkar vestræna nútímasamfélag, einkennist á einn eða annan hátt af kvennakúgun.  Ég efast um að meðal Pírata ríki víðtæk sátt um innrætingu slíkra hugmynda.

3. Spornað skuli við neikvæðum áhrifum kláms á kynhegðun og kynjaímyndir, ekki síst á börn og unglinga. Stuðlað skuli að öflugri fræðslu og þjóðfélagsumræðu sem miðar að því að vekja fólk til umhugsunar um eðli kláms og áhrif þess.

Hér er gengið út frá neikvæðum áhrifum kláms sem staðreynd. Sú ályktun verður að teljast vafasöm, en þar að auki samræmist það hvorki borgaralegum réttindum né frjálslyndi að ætla yfirvöldum að stýra samfélagsumræðu og móta smekk almennings á listum eða annarri menningu. Þvert á móti bendir þessi liður til forræðishyggju og forræðishyggja getur af sér hugmyndir um ritskoðun og eftirlit með netnotkun.

4.  Að Ríkisútvarpinu verði gert að marka sér stefnu um innkaup á barna- og unglingaefni með áhugaverðum og skemmtilegum söguhetjum af ýmsum kynjum.

Píratar eru síðasta stjórnmálaaflið sem mér hefði dottið í hug að vildi meiri ríkisafskipti af fjölmiðlum. Það hljómar fallega að bjóða börnum upp á fjölbreyttar söguhetjur en ef við ætlum að setja Ríkisútvarpinu reglur um innkaup á barnaefni sem hugnast tilteknum stjórnmálaöflum, hvar drögum við þá mörkin? Myndum við umbera stjórnmálaflokk sem vildi skikka RÚV til að kaupa skemmtilegt barnaefni sem boðar hollustu við föðurlandið og opnar augu barna fyrir áhugaverðum stóriðjumöguleikum af ýmsu tagi?

5. Að viðurkennt verði lögformlega „þriðja“ kynið í opinberum skráningum svo sem í vegabréfum og hugtakið innleitt í öðru opinberu starfi. Með vísan til Indlands, Pakistan, Nepal, Ástralíu og Nýja Sjálands.

Það er sannarlega í anda Pírata að losa fólk undan kynjastimplum. Þó má spyrja hvort það sé í raun róttæk breyting að hafa kynin þrjú í stað tveggja og hvort allir þeir sem ekki eru hrifnir af því að vera flokkaðir eftir kynfærum sínum séu sáttir við að vera „þriðja kynið“ eða yfirhöfuð eitthvert kyn. Einnig má spyrja hvort ástæða sé til að ríkið skrái kyn og hvort sé nauðsynlegt að kyn sé skáð í vegabréf.

Ég tel fimmta liðinn alls ekki andstæðan grunnstefnu Pírata en er ekki þörf á meiri ígrundun um þetta mál áður en við sláum því föstu að „þriðja kynið“ sé gott svar við staðalmyndum?

Umræðan

Ég varð mjög slegin þegar sá þessa jafnréttisstefnu og einkum staðalmyndakaflann. Fyrstu viðbrögð mín voru þau að skrifa einkar fýlulega Facebookfærslu þar sem ég sagði Pírötum að fara í rass og rófu. Í framhaldinu spunnust umræður og kom þá í ljós að það er síður en svo nein eining um jafnréttisstefnuna meðal Pírata. Þingmenn Pírata hafa ekki gert neina tilraun til að framfylgja henni og Birgitta lýsti því yfir í útvarpsþættinum Harmageddon að hún teldi þessa stefnu þarfnast endurskoðunar. Er það vel.

Í umræðunni tóku einnig þátt harðir fylgismenn þessarar jafnréttisstefnu og verður að segjast að sumir þeirra virðast fremur frábitnir opinni samræðu og gagnrýni á eigin flokk. Þannig fékk ég þegar í stað ákúrur frá einum þátttakenda, ekki fyrst og fremst fyrir snúðuglega yfirlýsingu mína um að fara í rass og rófu, heldur beinlíns fyrir að vera að tjá mig um þessa hluti á minni eigin Facebook síðu. Ákúrnum fylgdu kurteislega orðuð tilmæli um að hypja mig með mína gagnrýni inn í sérpíratalegan málefnahóp.  Rétt eins og þetta séu mál sem þoli ekki dagsljósið. Mér finnst það einkar ópírataleg afstaða sem ég vona að viðkomandi taki til endurskoðunar.

Annar þátttakandi tekur í sama steng og telur umræður um stefnu Pírata ekki eiga heima í „afkimum internetsins“ (en þar er átt við mitt netsvæði) auk þess að saka mig um tröllskap og mannhatur fyrir það að telja feminiska forræðishyggju ekki samræmast stefnu Pírata. Sami netverji sakar mig vera að reyna að stjórna Pírötum með „trúboði“. Það mun víst flokkast sem trúarbrögð að telja þá klámfóbíu og fórnarlambsvæðingu kvenna sem einkennir málflutning femnista, eiga litla samleið með því frjálslyndi sem Píratar boða.

Sem betur fer eru þeir þó fleiri sem lýsa þeirri skoðun að hver sem er megi tjá sig um stefnu Pírata að vild.

Til hvers er ég að ræða þetta?

Ég hef hvorki trú á þvi að ég geti stjórnað Pírötum né minnsta áhuga á því heldur. Mér þótti mikill fengur að Pírataframboðinu, ég aðhyllist grunnstefnuna og ég vona að áfram verði á þingi sterkir fulltrúar þeirra sjónarmiða. En ég tek hugsjónir mínar fram yfir vörumerkið og stend fullkomlega við það að Píratapartýið má mín vegna fara í rass og rófu ef það reynist ekkert annað en farvegur fyrir nýja eða gamla stjórnlyndisstrauma.

Ég hef þó góða von um að það sé aðeins lítill en duglegur hópur sem kennir sig við Pírata sem raunverulega hefur þá skoðun að pólitískar hreyfingar megi nota grunnskólana og Ríkisútvarpið til þess að koma hugmyndafræði á framfæri við börn. Ég hef einnig góða von um að samþykkt jafnréttisstefnunnar sé fyrst og fremst merki um að fleiri en ég hafi gerst sekir um sofandahátt í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga.

En á meðan stefnuskráin er óbreytt er það aðeins von, og nú þegar líður að sveitarstjórnarkosningum væri æskilegt að fá það á hreint hvort Píratar standa við þær hugmyndir sem birtast í opinberri jafnréttisstefnu þeirra.

Ef ekki, þá væri kannski lag að endurskoða hana. Svona áður en þeir sem aðhyllast þá grunnstefnu sem Píratar lögðu upp með, nota kjörseðilinn sinn en ekki Facebook vegginn til þess að segja Pírötum að fara í rass og rófu.

 

—–

* Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um að allir eigi rétt til lífsviðurværis. Yfirlýsingin hefur ekkert lagagildi og réttindi eru marklaus á meðan enginn er ábyrgur fyrir því að tryggja að þeim rétti sé framfylgt. Vonandi kemur að því að alþjóðasamfélagið, fremur en yfirvöld í hverju landi, verður tilbúið til að gangast við þeirri ábyrgð að sjá öllum fyrir fæðu.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

Þriðjudagur 11.2.2014 - 10:38 - FB ummæli ()

Mótmæli við irr

Í hádeginu á morgun, miðvikudag, boða nokkur samtök til mótmælafundar við innanríkisráðuneytið að Sölvhólsgötu. Lýðræðisfélagið Alda, Attac, No Borders -Iceland og Fálg áhugafólks um málefni flóttamanna, standa að fundinum. Tilefnið er lekamálið en þess er krafist að lekamálið verði upplýst og að innanríkisráðherra víki. Nánari upplýsingar um viðburðinn má sjá hér.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald
Efnisorð:

Miðvikudagur 29.1.2014 - 12:06 - FB ummæli ()

Viltu fá að éta? Mígðu þá í bauk.


Fyrir liggur úrskurður Persónuverndar um að félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs hafi ekki verið heimilt að krefja umsækjanda um fjárhagsaðstoð um þvagsýni.

Ástæðan sem félagsmálanefnd ber fyrir sig er grunur um að umsækjandi neytti fíkniefna en í reglum félagsþjónustunnar um fjárhagsaðstoð segir:

Heimilt er að synja umsækjendum um fjárhagsaðstoð séu þeir í neyslu áfengis- eða annarra vímuefna, en bjóða aðstoð til að fara í áfengis/vímuefnameðferð s.s. með greiðslu ferðakostnaðar og vasapeninga til einstaklinga sem eru að fara í áfengismeðferð og/eða aðra vímuefnameðferð og aðstoð vegna dvalargjalds á áfangaheimili

article-2201221-14F06618000005DC-679_312x486Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að hvergi sé að finna í lögum nein þau ákvæði sem réttlæti söfnun viðkvæmra persónuupplýsinga um þá sem sækja um fjárhagsaðstoð, umfram þær upplýsingar um fjárhagsstöðu sem fram komi í skattskýrslum og launaseðlum.

Viðbrögðin sem ég hef séð við þessari frétt á netinu eru á einn veg, fólk er undrandi og hissa á því að félagsmálanefnd hafi farið fram á lífsýni og flestir eru hneykslaðir. Eftirlit yfirvalda með borgurunum er meira en flestir gera sér grein fyrir.

Það er út af fyrir sig ágætt að hafa fengið staðfestingu á því að félagsmálayfirvöldum sé ekki heimilt að reyna að ala fullorðið fólk upp með þvingunaraðgerðum af þessu tagi. Það verður vonandi til þess að félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs og félagsmálayfirvöld annarsstaðar á landinu virði rétt fólks til þess að ráðstafa sínu eigin hlandi og öðru því sem frá manninum fellur.

Hitt er svo annað mál og verra að líklegast mun enginn þurfa að axla ábyrgð á því að hafa brotið gegn friðhelgi umsækjandans.  Afbrot yfirvalda eru nefnilega oftast nær refsilaus. Í skársta falli er skattgreiðendum refsað, því í þeim fáu tilvikum sem þolanda eru greiddar bætur koma þær frá hinu opinbera en ekki þeim sem braut af sér.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald
Efnisorð:

Miðvikudagur 29.1.2014 - 00:15 - FB ummæli ()

Nímenningamálið hið nýja

Níu manns sæta ákæru í Gálgahraunsmálinu. Glæpur þeirra er sá að óhlýðnast lögreglu. Sem vafasamt er að hafi haft nokkurn rétt til að skipa þeim fyrir.

Þótt Hraunavinir hafi verið að mótmæla allt öðrum hlutum en mótmælendurnir sem mættu í Alþingshúsið 8. desember 2008, og þótt Hraunavinir séu ekki ákærðir fyrir tilraun til valdaráns, eru nokkur atriði sem minna á nímenningamálið svokallaða.

  • Í báðum tilvikum var fólk handtekið fyrir að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til mótmæla.
  • Í báðum tilvikum er óhlýðni við lögreglu sú ástæða sem gefin er upp fyrir handtökum.
  • Í báðum tilvikum sæta níu manns ákæru.

Þau líkindi sem vekja mestan áhuga minn í augnablikinu eru þó þau að  í báðum tilvikum er vinsæll, þjóðþekktur maður í hópi hinna handteknu, sem af einhverjum ástæðum sem enginn skilur og allra síst hann sjálfur, sætir ekki ákæru eins og félagar hans.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

Mánudagur 27.1.2014 - 21:00 - FB ummæli ()

Þessvegna eru þetta trúnaðargögn, Sigurjón

Sigurjón Kjærnested var einn þeirra sem tóku til máls í umræðum um lekamálið í þinginu í dag. Sigurjón fullyrðir að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að gögnin hafi komið frá innanríkisráðuneytinu. Þetta er ekki rétt hjá Sigurjóni. Þvert á móti bendir ALLT til þess að gögnin komið þaðan.

1.  Eins og Mörður Árnason benti á er ritstíll og yfirbragð skjalsins eins og um óformlegt minnisblað úr ráðuneytinu sé að ræða.

2.  Óformleg minnisblöð eru aldrei send milli stofnana. Ef skjal er sent úr ráðuneytinu með löglegum hætti er það gert formlega og um leið er það skráð sem formlegt skjal.

3.  Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, hefur látið hafa það eftir sér að hugsanlega hafi einhverjir starfsmenn ráðuneytisins „tekið niður punkta„. Ljóst er að aðeins æðstu starfsmenn ráðuneytisins áttu að hafa aðgang að þeim upplýsingum sem fram koma í skjalinu.

4.  Annar aðstoðarmaður ráðherra, Þórey Vilhjálmsdóttir talaði fyrr í þessum mánuði um „minnisblað úr ráðuneytinu“ í viðtali í morgunútvarpi rásar tvö.

5.  Aðrir sem gætu hafa haft aðgang að þeim upplýsingum sem koma fram í skjalinu eru Útlendingastofnun, Ríkislögreglustjóri og lögmaður Tony Omos. Bæði Útlendingastofnun og Ríkislögreglustjóri þvertaka fyrir að kannast við blaðið og það hefði verið beinlínis fáránlegt tiltæki hjá lögmanninum að falsa slíkt gagn. Það að innanríkisráðherra hafi ekki strax beðið um rannsókn á þessum þremur aðilium sem kemur til greina að hafi falsað blaðið bendir til þess að ráðherra hafi vitað að slík rannsókn myndi ekki bera árangur.

6.  Blaðið var birt á afar heppilegum tíma fyrir ráðuneytið sem lá undir ámæli um að sundra fjölskyldu.

7.  Innanríkisráðuneytið hefur enn ekki beðið þá miðla sem fyrst fluttu fréttir af „minnisblaði úr innanríkisráðuneytinu“ að leiðrétta staðhæfingar um að blaðið sé þaðan.

8.  Innanríkisráuneytið hefur ekki kært málið, þrátt fyrir að láta að því liggja að þarna hafi skjalafals átt sér stað.

Þetta hefur allt saman komið fram og bendir allt til þess að innanríkisráðuneytið sé ábyrgt.

Sigurjón furðar sig einnig á því að það sem kemur fram í skjalinu séu trúnaðarupplýsingar og bendir á að erlendis séu úrskurðir um mál hælisleitenda opinber gögn rétt eins og dómsmál. Sigurjón virðist ekki skilja muninn á formlegum úrskurði og illa ígrunduðum og að hluta ósönnum vangaveltum um einkalíf hælisleitenda. Hér er  um að ræða plagg þar sem fram koma viðkvæmar, persónulegar upplýsingar, ekki aðeins um umsækjandann sjálfan heldur einnig ástkonur hans. Heldur varaþingmaðurinn virkilega að þessháttar gögn séu opinber í nágrannalöndunum?

Að lokum vil ég benda Sigurjóni á að enda þótt stjórnvöld í nágrannaríkjum okkar væru svo smekklaus að birta opinberlega upplýsingar á borð við þær sem hér um ræðir, þá er slíkt ólöglegt á Íslandi. Það er bara þannig. Þessvegna eru þetta trúnaðargögn, Sigurjón. Og þá veistu það.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Mánudagur 27.1.2014 - 16:49 - FB ummæli ()

Hanna Birna vill vita hvar Mörður fékk minnisblaðið

Í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag sagði innanríkisráðherra að minnisblað um tiltekna hælisleitendur samræmdist ekki neinum gögnum sem til séu hjá ráðuneytinu. Eðlilegast er að túlka þessi orð Hönnu Birnu á þann veg að blaðið hafi verið samið utan ráðuneytisins. Hafi hún átt við eitthvað annað, svosem það að blaðið hafi einhverntíma verið til en sé það ekki lengur, er um að ræða útúrsnúning og undanbrögð sem ráðherra eru ekki sæmandi.

DV hefur fjallað ítarlega um lekamálið allt frá að mbl.is vitnað í „óformlegt minnisblað innanríkisráðuneytisins“ í nóvember sl. Eins og fram kom hjá Bjarkeyju Gunnarsdóttur í þinginu í dag hefði verið eðlilegt af ráðherra að fara fram á leiðréttingu af hálfu Morgunblaðsins fyrst það var rangt með farið að blaðið væri frá innanríkisráðuneytinu.

Mörður Árnason benti á að blaðið bæri þess öll merki að vera skrifað af starfsmönnum innanríkisráðuneytisins. Sé það rétt að blaðið sé ekki úr ráðuneytinu sé því um grófa en vel heppnaða fölsun að ræða.

Það er áhugavert að innanríkisráðherra, sem telur að einhver önnur stofnun eða óprúttinn einstaklingur falsi gögn með þeim árangri að hver sem þau sér telur víst þau komi frá ráðuneytinu, hvort heldur eru blaðamenn, þingmenn eða leikmenn, skuli ekki hafa kært tiltækið til lögreglu. Eins og Helgi Hrafn Gunnarsson benti á þá eru viðbrögð ráðuneytisins við málinu ekki síður alvarleg en málið sjálft.

Í seinni framsögu sinni sagðist Hanna Birna telja viðeigandi að Mörður Árnason upplýsti hvaðan hann hefði blaðið. Í ljósi þess að minnisblaðinu var dreift á ýmsa fjölmiðla og einstaklinga fyrir mörgum vikum, þá skiptir auðvitað engu máli hvar Mörður fékk það. Það sem skiptir máli er hvernig Morgunblaðið og Fréttablaðið fengu það. Því hefur Hanna Birna enn ekki svarað.

Hér má sjá þingfundinn en Lára Hanna birti myndskrá á undan þinginu, eins og svo oft áður.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

Mánudagur 27.1.2014 - 10:34 - FB ummæli ()

Tek undir tillögur forsætisráðherra

Ég er sjaldan sammála forsætisráðherra en nú ber svo við að ég get tekið heilshugar undir tvennt sem hann hefur látið hafa eftir sér á örfáum dögum.

Í fyrsta lagi finnst mér ágætt að ráðamenn hugsi upphátt. Það er auðveldara að sjá í gegnum þá þegar þeir gera það. Þetta sést glögglega af dæmi Vigdísar Hauksdóttur sem hefur hugsað upphátt alveg frá því að hún varð áberandi á sviði stjórnmála, en hún blekkir fáa, ef nokkurn.

Hinsvegar er ég því sammála að setja mætti lög gegn lobbýisma. Ég tek undir það og bæti lýðskrumi við. Nú vill svo til að lýðskrum er samofið öllu starfi Framsóknarflokkins. Kosningaloforð Framsóknar reynast innihaldslítið lýðskrum. Framsóknarflokkurinn er mesti lobbýistaflokkur landsins, hann heldur verndarhendi yfir hagsmunasamtökum á borð við Bændasamtökin og situr leynifundi með LÍÚ, voldugustu hagsmunaklíku landsins.

Ef lobbýismi og lýðskrum yrði bannað yrði starf Framsóknarflokksins, í þeirri mynd sem við þekkjum það, þar með ólöglegt.

Segið svo að það komi ekki góðar tillögur frá forsætisráðherra þegar hann loksins fer að hugsa upphátt.

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin

Föstudagur 17.1.2014 - 16:27 - FB ummæli ()

Þórey liggur sjálf undir grun

Þetta viðtal við Þóreyju Vilhjálmsdóttur er einhver aumasta tilraun til yfirklórs sem ég hef nokkurntíma orðið vitni að.

Fyrst talar hún um að fjölmiðlar hafi vitnað í „minnisblað úr ráðuneytinu“. Svo heldur hún því fram að búið sé að sýna fram á að blaðið hafi ekki farið úr ráðuneytinu. Þetta er þversögn. Enginn annar en ráðuneytið hafði aðgang að skjalinu, það fór því augljóslega þaðan.

Þórey segir einnig að ráðuneytið sé búið að gera allt sem hægt er til að komast til botns í þessu máli.  Það er tóm tjara. Venjulega er hægt að eyða ummerkjum um að póstur hafi verið sendur og varla eru símtöl starfsmanna hleruð svo það hlýtur að vera mögulegt að einhver hafi lesið textann af blaðinu upp fyrir blaðamann eða einhvern annan. Ef er á annað borð hægt að færa sönnur á að texti skjalsins hafi ekki verið sendur úr ráðuneytinu er augljóst að einhver sem hafði aðgang að skjalinu, t.d. ráðherra, aðstoðarmaður ráðherra eða annar hátt settur starfsmaður, hefur prentað það út og tekið það með sér út úr ráðuneytinu. Ef ráðherra hefði viljað komast til botns í málinu hefði gagnaþjónaðurinn auðvitað verið kærður strax og tæknideild lögreglunnar falið að rannsaka persónulegar tölvur og síma starfsmanna.

Vonandi leiðir rannsókn ríkissaksóknara í ljós hver starfsmanna innanríkisráðuneytisins lak skjalinu. Þórey hlýtur að vera mér sammála um það. Hún tilheyrir nefnilega sjálf þeim fámenna hópi sem kemur til greina og eina leiðin til þess að hreinsa hana er sú að brotið sannist á einhvern félaga hennar. En kannski þarf ríkissaksóknari ekki að sækja vöndinn. Kannski er sá sem lak skjalinu nógu vönduð manneskja til þess að játa og hreinsa þannig sína nánustu samstarfsmenn. Kannski.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar
Efnisorð: , ,

Mánudagur 13.1.2014 - 11:43 - FB ummæli ()

Ljósmæður komnar í feministaruglið

Skapabarmaaðgerðum fjölgaði mjög í Bretlandi á árunum 2004-2011. Árið 2011 var gerð ein slík aðgerð þar á hverjar 12500 konur á aldrinum 15-49 ára. Ef hlutfallið er svipað á Íslandi merkir það að árlega fara 6 konur í skapabarmaaðgerð á Íslandi.
Nú hafa ljósmæður ítrekað mælt gegn lýtaaðgerðum á kynfærum. Það er þarft verk að upplýsa fólk um hætturnar sem ónauðsynlegar aðgerðir hafa í för með sér og vel má vera að ranghugmyndir um útlit kvenlíkamans séu útbreiddar og að konur fari í skapabarmaaðgerðir á vafasömum forsendum. Það réttlætir þó ekki órökstuddar fullyrðingar heilbrigðisstarfsfólks um ástæður kvenna og eðli þessara aðgerða.
Þann 20. desember birti Kvennablaðið grein um skapabarmaaðgerðir eftir tvær ljósmæður. Höfundar fullyrða að helstu ástæður fyrir skapabarmaaðgerðum séu útlitslegar eða til að geðjast maka. Ekki vísa ljósmæðurnar í nein gögn sem styðja þessa fullyrðingu. Samkvæmt Wikipediu eru um 37% slíkra aðgerða gerðar eingöngu vegna útlitsins. Þar er átt við bandarískar rannsóknir en vel má vera að hlutfallið sé allt annað á Íslandi. Það væri þó rétt af ljósmæðurnum að taka fram hvaðan þær hafa þetta. Ég hef ekki fundið nein gögn um það hversu margar konur fara í kynfæraaðgerðir vegna þrýstings frá maka sínum og væri áhugavert að fá upplýsingar um það hvaðan ljósmæðurnar hafa þá hugmynd að það sé ein af algengustu ástæðunum.
Til stuðnings þeirri hugmynd að skapabarmaaðgerðir séu samfélagsvandamál, vísa höfundar í rannsókn sem gerð var í Bretlandi árið 2007. Samkvæmt henni fara konur í skapabarmaaðgerðir vegna þess að þær telja útlit sitt óeðlilegt, án þess þó að þær séu vissar um hvað teljist eðlilegt. Um er að ræða svokallaða eigindlega rannsókn. Valdar voru 17 konur sem höfðu farið í skapabarmaaðgerð á tveggja ára tímabili.  Aðeins 6 þeirra fengust til þess að ræða við rannsakendur. Af frásögnum þessara 6 kvenna eru dregnar almennar ályktanir. Þessi gögn nota svo íslenskar ljósmæður til þess að kynda undir þeirri hugmynd að lýtaaðgerðir séu sambærilegar við kynfærabrottnám barna í Afríku.
Höfundar virðast undir sterkum áhrifum frá feminisma því varpað er fram spurningum um það hvort ástæðurnar fyrir lýtaaðgerðum séu þær sömu og fyrir kynfærabrottnámi í samfélögum sem einkennast af ólæsi, örbirgð og nauðungarhjónaböndum og hvort hinn alræmdu klámvæðingu sé um að kenna,
…eða er þessi aðgerð til að markaðssetja kynfæri kvenna á nýjan hátt, gera þær gjaldgengar á hjónabandsmarkaði í karllægu samfélagi nútímans, eða gjaldgengar í eigin augum vegna markaðssetningar klámvæðingarinnar?
Greinin er skrifuð fyrir hönd ljósmæðrafélags Íslands, sem bendir til þess að félagsmenn hafi gefið almennt ef ekki einróma samþykki fyrir greininni. Í janúar komu svo tvær ljósmæður til viðbótar fram í síðdegisútvarpi rásar tvö. Þær telja einnig að skapabarmaaðgerðir falli undir skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á kynfæraumskurði og staðhæfa að slíkar aðgerðir séu ólöglegar.
Þótt ég hafi efasemdir um nauðsyn skapabarmaaðgerða ég tel samlíkinguna við kynfærabrottnám ekki gera umræðunni neitt gagn og fullyrðingin um að þær séu ólöglegar er fráleit. Ég fjallaði nánar um þessi mál með grein í Kvennablaðinu.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , , ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics