Miðvikudagur 4.12.2013 - 12:15 - FB ummæli ()

Þeir stóðu sig vel

Þeir stóðu sig vel við erfiðar aðstæður. Kastljóssmenn.

Maður er látinn. Féll fyrir byssuskoti lögreglu. Fjölskylda mannsins í sárum, nágrannarnir í áfalli. Og löggan líka. Það hlýtur að vera áfall að verða mannsbani jafnvel þegar það er óhjákvæmilegt.

Var það óhjákvæmilegt? Því hefur ekki verið svarað og þar sem lögregla neitar að gefa nokkrar upplýsingar sem gæti varpað ljósi á málið, verður ekki annað sagt en að Kastljóssmenn hafi staðið sig vel við erfiðar aðstæður í gærkvöld. Þeim tókst að finna mikilvægan flöt á málinu og umfjöllun Helga Seljan og viðmælenda hans var afar fróðleg. Ég er mjög fegin því að Helgi Seljan sé ekki meðal þeirra sem fengu reisupassann í síðustu viku.

Þrátt fyrir óbeit mína á þeirri stofnun sem lögreglan er, finn ég til samúðar með manninum sem skaut, því vel má vera, og er reyndar líklegast, að sá sami beri enga ábyrgð á því hvernig var að verki staðið. Eftir sem áður stendur sú staðreynd að maður er látinn að óþörfu. Að óþörfu segi ég, því enda þótt komi í ljós að við þessar aðstæður hafi lögreglan ekki átt annars úrkosta en að skjóta, þá var ekki óhjákvæmilegt að láta afskiptalausar ítrekaðar kvartanir um hótanir hans og fullyrðingar hans um vopnaeign sína.

Það hefur ekki vafist fyrir lögreglunni hingað til að ráðast inn á heimili eftir ábendingar um fíkniefnaeign. Fyrir nokkrum vikum var gerð húsleit hjá konu í Vestmannaeyjum eftir að fundust á henni tvær maríjúana vefjur. Það hefur ekki vafist fyrir lögreglunni að ráðast inn í húsnæði vélhjólaklúbba þótt enginn hafi lagt fram kæru. Það þykir ekki vafasamt að ráðast með ofbeldi inn á dvalarstaði flóttamanna og draga þá út á nærbuxunum.  Það þarf enga formlega kæru til þess að löggan ráðist inn í iðnaðarhúsnæði þegar einhver telur sig finna lykt af kannabisplöntum. Það er því fráleitt að ástvinir eigi að þurfa að leggja fram formlega kæru til þess að vitjað sé um mann sem full ástæða er til að ætla að sé stórhættulegur.

Ef lögreglan hefði sinnt ábendingum ættingja og nágranna mannsins, hefði sennilega verið hægt að koma í veg fyrir þá hörmulegu atburði sem leiddu til þess að maður var skotinn til bana. Sem leiddu til þess að lögregluþjónn situr ævilangt uppi með þann kross að hafa orðið manni að bana. Lögreglan verður að svara því hversvegna í ósköpunum þessum ábendingum var ekki sinnt.

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

Mánudagur 2.12.2013 - 14:51 - FB ummæli ()

Gefa yfirvöld út formleg leyfi til lögbrota?

Ég hef ásamt ásamt syni mínum og mörgum öðrum gagnrýnt forsíðufrétt Fréttablaðsins þann 20. nóvember, af máli hælisleitendanna Tony Omos og Evelyn Glory Josep frá Nígeríu. Fleiri fjölmiðlar hafa fjallað um málið á sömu nótum og Fréttablaðið. M.a. hefur verið fullyrt að Tony sé grunaður um aðild að mansali.

Nú hefur mér borist afrit af minnisblaðinu sem Innanríkisráðuneytið lak í fjölmiðla. Ekki kemur neitt fram í skjalinu sem bendir til þess að ráðuneytið gruni Tony Omos um aðild að mansali. Tony rökstyður kröfu sína um frestun réttaráhrifa m.a. með því að hann hafi verið til rannsóknar en sé það ekki lengur, en hann telji nafn sitt ekki hreinsað fyrr en rannsókn er að fullu lokið. Gott væri ef þeir fréttamenn sem hafa fullyrt að Tony sé grunaður um aðild að mansali upplýsi hvort þeir hafi þetta eftir starfsmönnum Innanríkisráðuneytisins eða hvort þetta byggi á misskilningi sem þeir hafa bara étið hugsunarlaust upp hver eftir öðrum.

Ekki verður séð að Tony hafi á nokkurn hátt reynt að villa um fyrir ráðuneytinu eða að rök hans séu ótrúverðug eða mótsagnakennd. Hann nefnir m.a. að aðstæður sínar hafi gerbreyst á þeim tveimur árum sem hann hefur dvalið á Íslandi, hann hafi myndað þar tengsl og eigi auk þess von á barni með Evelyn Josep.

Ráðuneytið tekur hvorki til greina væntanlega barnsfæðingu né önnur rök fyrir kröfu um frestun réttaráhrifa. Það sem mér finnst þó áhugaverðast er sú hugmynd ráðuneytisins að dvöl hælisleitanda á landinu sé ólögmæt. Orðrétt segir í lekabréfinu:

Ráðuneytið bendir á að sem hælisleitandi telst kærandi ekki í lögmætri dvöl á Íslandi. Sú staðreynd ein að kærandi hefur dvalið á landinu vegna málsmeðferðar stjórnvalda hefur þess vegna ekki þýðingu fyrir mat á því hvort stofnast hafi til sérstakra tengsla hér á landi.

Það verður að teljast forvitnileg hugmynd að fólk sem hefur fengið bráðabirgðadvalarleyfi og nýtur lögum samkvæmt tiltekinna réttinda (sem eru þó engan veginn sambærileg við þau réttindi sem flest okkar njóta og telja sjálfsögð) sé í  ólöglmætri dvöl.  Ef þetta er rétt þá merkir það að yfirvöld gefa út formleg leyfi til lögbrota. Fyrir leikmanni lítur þetta út eins og annaðhvort sé þversögn í lögunum eða þá að starfsmenn ráðuneytisins skilji ekki lögin. Það gengur að minnsta kosti enganveginn upp að yfirvöld gefi út leyfi til ólöglegrar dvalar. Þetta er enn ein þversögnin sem fréttamenn ættu að krefja Útlendingastofnun og Innanríkisráðuneytið skýringa á. Einnig væri áhugavert að heyra álit lögmanna á því hvernig túlka beri lögin.

Að öðru leyti er þessi umsögn einmitt ágætt dæmi um það skilningsleysi sem flóttamenn mæta. Sem hælisleitendur lifa manneskjur í stöðugri bið. Jafnvel mannleg þörf þeirra fyrir að mynda félagsleg tengsl er að engu höfð. Eftir tvö ár í nýju landi skipta vinátta, ástarsambönd og barneignir bara engu máli, hvað þá að því sé nokkur skilningur sýndur að takmarkanir á ferðafrelsi og langvarandi aðskilnaður veldur iðulega tjóni á ástarsamböndum og tengslum fjölskyldumeðlima. Þegar sjálft ráðuneytið hefur þessa afstöðu til hælisleitenda er ekki við því að búast að mannúðarsjónarmið séu ráðandi í meðferð Útlendingastofnunar á málefnum flóttamanna.

Að lokum má geta þess að ég hef nú sent lögreglunni textann af minnisblaðinu og farið fram á lögreglurannsókn á leka Innanríkisráðuneytisins enda tel ég hann augljóst brot á persónuverndarlögum og lögum um skyldur opinberra starfsmanna. Einar Steingímsson hafði áður tilkynnt málið til lögreglu og nú þegar sönnunargagn liggur fyrir má reikna með skjótum viðbrögðum af hálfu rannsóknarlögreglunnar.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur
Efnisorð: ,

Sunnudagur 1.12.2013 - 12:22 - FB ummæli ()

Orðsending til íslenskra kvenna

Mig langar að útskýra aðeins fyrir þér hvernig heimurinn lítur út frá mínum sjónarhóli. Í mínum heimi vofir stöðug hætta yfir. Ég þarf stöðugt að gæta mín á því hvað ég segi og hvenær, að hverju ég hlæ, við hvaða konur ég tala og hvernig ég nálgast konu ef ég verð hrifinn af henni. Þessar áhyggjur hefjast strax og ég er kominn með nægt vit til að ráða mér sjálfur. Ég þarf alltaf að gæta þess hvaða skilaboð ég gef frá mér því allt sem ég segi og geri kann að vera mistúlkað og notað gegn mér. Ég er oft kallaður ljótum nöfnum ef ég læt skoðanir mínar í ljós, stundum svo ég heyri til, stundum ekki. Ég get líka átt það á hættu að lenda á skrá yfir karla sem hata konur ef ég segi eitthvað sem ákveðnar konur fíla ekki.

Ég bý í landi þar sem dómskerfið er ekki skapað til að verja fólk eins og mig og ég þarf að treysta á lögregluyfirvöld þar sem alvarlegar ásakanir um kynferðislega áreitni og ofbeldi viðgangast gagnvart karlmönnum og geta auðveldlega komið saklausum manni í fangelsi. Ég starfa á vinnumarkaði þar sem mér er stöðugt sagt að ég njóti forréttinda sem karlmaður enda þótt allir viti að 99% karlmanna hafa engin völd og flestir okkar fá bara greitt eftir töxtum. Sem meðalmaður hef ég mun minni möguleika á styrkjum til náms og atvinnusköpunar en kona í sömu stöðu. Bara vegna þess að ég fæddist af öðru kyni.

Ef (þegar) ég eða vinir mínir verðum fyrir umgengnistálmunum getum við reiknað með að verða ásakaðir um ofbeldi gagnvart konum og börnum og að samband okkar við börnin verði lagt í rúst og mannorð okkar eyðilagt. Ef við fáum dómsúrskurð og sækja þarf börnin til móðurinnar með lögregluvaldi, erum það við sem erum ásakaðir um eigingirni og að láta okkar hagsmuni bitna á börnunum, en ekki mamman sem er þó að ræna okkur börnunum.

Í mínum vinahópi eru 11 karlar. Þrír þeirra búa við eða hafa búið við andlegt ofbeldi af hálfu maka og einn þeirra líkamlegt líka. Tveir hafa ranglega verið ásakaðir um kynferðisofbeldi, annar þeirra sætti lögreglurannsókn vegna þess. Sá síðasti hefur sætt umgengnistálmunum í mörg ár og verið ranglega sakaður um að lemja barnsmóður sína. Ótrúlegt en satt er þetta algilt og jafnvel verra samkvæmt tölfræði maskúlínista um ofbeldi kvenna gegn körlum.

Við vitum að karlakúgun er alþjóðlegt vandamál. Við heyrum fréttir frá löndum þar sem geisar stríð og langflestir þeirra sem deyja, verða fyrir pólitískum ofsóknum, sitja í fangelsi án þess að ákæra hafi verið gefin út, og sæta pyntingum, eru karlar. En það er ekki bara stríð í útlöndum og karlakúgun viðgengst ekki bara annars staðar. Það ríkir líka stríð gegn körlum hér, en það fer fram hljóðlaust innan veggja heimilanna, heimila karlanna sjálfra eða þar sem þeir koma sem gestir. Ásakanir um líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi er mjög áhrifaríkt vopn til að halda körlum niðri. Í stað þess að elta drauma sína eyðir stór hluti karla góðum hluta lífsins í að reyna að þóknast konum með því að hlaupa á eftir duttlungum þeirra, víkja fyrir þeim, leggja á sig meiri vinnu en þær, dekstra þær eins og smábörn og tipla á tánum í kringum þær til að styggja þær ekki. Einnig þurfa margir okkar að vinna úr áfallinu að vera sakaður um kynferðislegt ofbeldi sem hefur í ofanálag engar afleiðingar fyrir konuna sem laug upp á okkur.

Þetta er minn heimur en þú þekkir hann víst ekki neitt. Samt skapaðir þú hann ásamt systrum þínum. Þú ert í raun mín ógnarstjórn. Ég biðla því til þín að breyta hegðun þinni og þar með heimsmynd minni. Þú getur byrjað á sjálfri þér og svo systrum þínum. Ég veit og vona að þú sem ert búin að lesa svona langt hafir áhuga á breytingu. Að gera samfélagið öruggara fyrir karla. Að litlu strákarnir í dag geti strokið sér frjálst um höfuð þegar þeir verða stórir. Stöndum saman um að vinna gegn kvenlegum tíkarskap.

———

Hvernig orka svona skrif á ykkur? Mér finnst þetta vera ömurlegt aumingjavæl ofdekaðra karla. Samt er heilmikill sannleikur í þessu. Karlar verða raunverulega fyrir óréttlæti alveg eins og konur. En þessi framsetning, sú aðferð að ásaka allar konur, láta sem vandinn sé eingöngu á þeirra ábyrgð, emja yfir því hvað karlar eigi bágt, það er ekki aðferð sem vekur mér samúð og fær mig til að líta í eigin barm. Þessi aðferð svæfir mig og hafi ég ekki trúað því fyrr þá sannfærir hún mig um að karlmenn séu skaplausir aumingjar.

En þetta er ekki bréf frá karlmanni. Heldur speglun á skrifum konu.

Konur lifa í stöðugum og ástæðuríkum ótta og þú ert persónulega ábyrgur fyrir því. Eina lausnin er sú að þú hættir að vera svona mikið ógeð og takir svo að þér að reka djöfulinn úr öðrum karlmannsógeðum.

Nokkurnveginn svona er kjarninn í skilaboðum stjórnarkonu Kvenréttindafélag Íslands. Skilaboðunum er beint að elskulegum föður mínum sem alla tíð hefur staðið með mér. Að maka mínum sem umvefur mig ástúð og metur allt sem ég geri að verðleikum. Að bræðrum mínum, sonum mínum, vinum og nágrönnum; karlmönnum sem alltaf eru boðnir og búnir að rétta konu hjálparhönd og því fremur ef hætta steðjar að henni. Ég lái engum þeirra þótt þeir afgreiði Hrafnhildi og hennar líka sem ómarktækar væluskjóður.

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð:

Laugardagur 30.11.2013 - 15:33 - FB ummæli ()

Svínshausarasismi

Nei elskurnar, það á ekki að refsa fólki fyrir að vera fífl.

Í fyrsta lagi eru rökin fyrir ritskoðun og annarri skerðingu tjáningarfrelsis alltaf þau að uppræta þurfi hættuleg viðhorf eða koma í veg fyrir að þau nái fótfestu. Í okkar samfélagi vilja góðir menn þagga niður í þeim sem hatast við samkynhneigð. Í mörgum Afríkuríkjum vilja góðir menn þagga niður í þeim sem tala fyrir réttindum samkynhneigðra. Rökin eru hin sömu í báðum tilvikum; óvinurinn ógnar góðu siðferði.

 

405539_10151009617427963_1674882930_n

Ég tel að upplýsinga- og tjáningarfrelsi sé mikilvægasta tækið til þess að byggja upp og viðhalda lýðræði og jafnrétti. Þegar margar ólíkar raddir fá að heyrast höfum við betra tækifæri til að mynda okkur sjálfstæðar skoðanir og taka upplýstar ákvarðarnir.  En allt sem  gott er og fagurt kostar fórnir og tjáningarfrelsið hefur sína galla. Það hefur í för með sér meira umburðarlyndi gagnvart særandi og niðurlægjandi orðræðu og því miður þrífast lygar, gervivísindi, vond list og subbulegur húmor í skjóli tjáningarfrelsis.

 
Hvernig á þá að taka á kynþáttahatri?
 
Leiðin til að taka á þessum vandamálum er ekki sú að banna og refsa. Refsingar breyta ekki viðhorfum fólks. Rökræða getur hinsvegar gert það. Ekki viðhorfum þeirra öfgafyllstu heldur skoðunum hófsama meðalmannsins og þeirra sem hætta er á að tileinki sér hugmyndir sem byggjast á röngum upplýsingum. Kynþáttahatur, hatur gegn trúarhópum, hatur gegn samkynhneigðum og öðrum minnihlutahópum á ekki að þagga í hel með refsingum heldur að ræða það í hel með rökum. Afhjúpa það.

Þessi svínahausagjörningur hefur reyndar jákvæða hlið. Hann lýsir glórulausri heift í garð minnihlutahóps, sem hefur ekki valdið íslensku samfélagi neinum skaða og það vekur hugsandi fólki bæði samúð með múslimum og andúð á rasisma. Þvælan sem streymdi upp úr Óskari Bjarnasyni og mannvitsbrekkunum á kommentakerfum í kjölfarið afhjúpar svo vanþekkinguna sem býr að baki þessum viðhorfum og gefur okkur fínt tækifæri til þess að leiðrétta ranghugmyndir.

 

Ranghugmyndir Óskars Bjarnasonar

Óskar heldur því fram að moska á Íslandi jafngildi herstöð. Gott væri ef einhver skeleggur blaðamaður innti Óskar eftir því hvaða moskur það eru sem eru notaðar sem herstöðvar.  Í Bretlandi einu saman eru um 1500 moskur. Ég hef ekki nákvæmar tölur um fjölda moska í heiminum en þær eru vel yfir 2 milljónum. Óskar getur kannski svarað því hversu margar þeirra hafa verið notaðar sem herstöðvar.

Blaðamenn gætu einnig spurt Óskar hvort hann telji í alvöru að 1,62 milljarður manna sé stórhættulegt bókstafstrúarfólk. Staðreyndin er sú að trúrækni múslima breytist venjulega mjög hratt þegar þeir flytjast til Vesturlanda frá mjög íhaldssömum samfélögum þar sem trúin er grundvöllur lagakerfis og samfélagsskipunar. Viðhorf þeirra breytast líka. Í París er m.a.s. risin „hommavæn moska„. Það er erfitt að sjá neitt sem styður þá hugmynd að múslimir séu ólíklegri til þess en aðrir menn að tileinka sér jafnrétti og frjálslyndi.

Einnig væri rétt að Óskar og aðrir rasistar færðu rök fyrir fullyrðingum sínum um skipulagðar nauðganir múslima á sænskum og norskum konum.  Fyrir nokkrum árum kom upp ljótt mál í Noregi. Haft var eftir lögreglunni að múslimar væru ábyrgir fyrir nánast öllum nauðgunum síðustu fimm ára. Þessar fréttir rötuðu inn í norska ríkissjónvarpið. Því miður var það þó ekki svo gott að Norðmenn væru hættir að nauðga konum. Opinberar tölur sýna nefnilega að í 89% tilvika voru Norðmenn að verki.

Í umræðum um fréttina benti einhver á að sænskir fjölmiðlar hefðu ekki flutt neinar fréttir af meintum múslimanauðganafaraldri í Svíþjóð. Einhver viskubrunnurinn skýrði það með því að gyðingar stjórnuðu öllum fréttaflutningi í Svíþjóð. Annar benti á rasistasíður sem heimild. Dæmi nú hver fyrir sig.

Þá þyrfti einnig að krefja Óskar svara við því hvar það hefur komið fram að múslimir líti á sænskar konur sem hórur og hvar í Kóraninum sé að finna tilmæli um að konum skuli nauðgað.

 

Hættulega fólkið dreifir ekki svínsblóði

Málflutningur Óskars og annarra rasista af hans tagi er svo glórulaus að þeir afhjúpa sig nánast hjálparlaust. Við þurfum ekki að refsa þeim heldur svara þeim. Við eigum ekki að óttast þá heldur hía á þá. Ég er dálítið hissa á því að fréttamenn láti manninn komast upp með að halda fram þvílíkri þvælu nánast gagnrýnislaust. Það er óþarfi því það þarf ekki merkilegri fréttamann en meðalbloggara til þess að svara bjánum.

Það eru hinir „hófsömu“ rasistar sem við þurfum að hafa áhyggjur af.  Þessir sem eru nógu menntaðir til þess að orða rasisma sinn af aðeins meiri fágun og smekkvísi. Menn  eins og Ólafur F. Magnússon og Guðmundur Franklín. Þeir hættulegu eru ekki þeir sem ekki dreifa svínshausum heldur þeir sem dreifa röngum upplýsingum, eins og t.d. lögreglan í Noregi. Eins og t.d.  Jón Magnússon sem laug því að hælisleitendur fengju dagpeninga upp á 215 þúsund á mánuði. Rétt eins og norska sjónvarpið flutti fréttir af múslimanauðgunum, án þess að hafa fyrir því að skoða heimildina,  löptu íslenskir fjölmiðlar upp lygina úr Jóni Magnússyni og hún hefur vRerið margtuggin síðan.

Hættulega fólkið er nefnilega ekki illa talandi þvaðurþursar á facebook, heldur hinir virtu og menntuðu svínshausar sem smygla kynþáttahyggju inn í stjórnkerfið, menntakerfið og fjölmiðla, með rangfærlsum og rækilega dulbúnum áróðri. Það er fólkið sem fréttamenn þyrftu að hafa fyrir að afhjúpa, gagnrýna, krefja skýringa og hrekja út í horn, því það eru þessháttar rasistar sem hafa raunveruleg áhrif.

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Flóttamenn og innflytjendur · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: , , ,

Miðvikudagur 27.11.2013 - 17:33 - FB ummæli ()

Vítisengill með áfallastreituröskun

 
Einar „Boom“ Marteinsson krefst skaðabóta vegna ólögmæts gæsluvarðhalds. Það myndi ég líka gera í hans sporum. Maðurinn sat í fangelsi í fimm mánuði, þar af tvo í einangrun enda þótt ekkert hefði komið fram sem bendlaði hann við líkamsárás sem í fjölmiðlum var kölluð „vítisenglamálið“ (þótt þar hefði enginn vítisengill komið nærri.)

Við lestur dómsins vakna margar spurningar sem bæði lögreglan og dómarar hefðu átt að spyrja en var stungið undir stól. Rannsakendum virðist hafa verið í mun að koma sök á Einar, og þótt eflaust álíti einhverjir að það væri æskileg misnotkun á réttarkerfinu, er óvíst að hinir sömu verði löggunni alltaf sammála um það hver skuli flokkast sem úrhrak.
 

Krafa Einars er byggð á sjúkdómsgreiningu

 
Sumum finnst það fullmikil frekja að fara fram á sjötíu og fjórar milljónir í bætur. Höfum samt hugfast að krafan er að hluta byggð á því að Einar beri mikinn skaða af þessari  ólögmætu frelsisviptingu með tilheyrandi ofbeldi og niðurlægingu. Hann er greindur með áfallastreituröskun (PTSD), alvarlegan geðsjúkdóm, sem einkennist af miklum, andlegum þjáningum, er í sumum tilvikum ólæknanlegur og getur leitt til varanlegrar örorku. Sjötíu og fjórar milljónir eru ekkert ósanngjörn krafa fyrir ónýta geðheilsu. Hvort PTSD greining er sönnun þess að meint geðveiki sé alfarið afleiðing mannréttindabrotsins er svo aftur umdeilanlegt.

Ég hef gagnrýnt þá stefnu að nota vottorð um áfallastreituröskun sem sönnunargagn í sakamálum. PTSD greining var ekki hönnuð í þeim tilgangi að sanna afbrot eða meta vitnisburði, heldur til þess að lýsa skaða af alvarlegum áföllum. PTSD greining sannar í mesta lagi sjálfa sig og rannsóknir sýna auk þess að mat greinenda er langt frá því að vera öruggt. Að vísu eru til próf sem eiga að greina á milli raunverulegra einkenna og ýktra en það er (sem betur fer) ekki hlutverk þeirra sem annast fórnarlömb ofbeldis að draga trúverðugleika skjólstæðinga sinna í efa. Það liggur því í hlutarins eðli að mat meðferðaraðila er hlutdrægt og því vafasamt sönnunargagn.
 

Notkun PTSD greiningar í dómsmálum

 
Í dómskerfinu hefur PTSD greining fyrst og fremst verið notuð í kynferðsbrotamálum. Brotaþoli greinist með áfallastreituröskun og sækjandi leggur greininguna fram sem sönnunargagn um að glæpur hafi verið framinn. Gagnrýni á þessi vinnubrögð er venjulega afgreidd sem hatursfull árás á brotaþola, en ekki sem áhyggjur af því að þau bjóði heim hættunni á dómsmorði. Á sama hátt hlýtur það að skoðast sem árás á Vítisengla þegar ég efast um að það mat læknis, að Einar Marteinsson sé haldinn áfallastreituröskun, eigi erindi fyrir dóm.

Ég held þó fast við þá skoðun að PTSD greining ætti ekki að fá mikið vægi í dómsmálum, ekki heldur þessu. Ég efast ekkert um að Einar hafi þjáðst vegna þessa máls en það er í ekki sönnun þess að yfirvaldið hafi farið offari gegn honum. Sennilega gætu hin dómfelldu í meintu „vítisenglamáli“ auðveldlega fengið vottorð upp á geðröskun ef þau bæru sig eftir því.
 

Viðvörun Brynjars Níelssonar
 
Árið 2010 varaði Brynjar Níelsson við því að notkun PTSD greiningar, sem sönnunargagns um kynferðisbrot, byði heim hættunni á því að samskonar greining yrði notuð sem sönnun þess að sakborningur væri borinn röngum sökum.  Þar með yrðu réttarhöld einn allsherjar sirkus sem á endanum færi að snúast um starfsheiður geðlækna en ekki glæpinn. Þetta hefur enn ekki gerst en nú er komið upp mál þar sem PTSD greining er ekki notuð í þeim tilgangi að sanna kynferðisbrot, heldur til að fá viðurkenningu á glæp yfirvalds gagnvart almennum borgara. Borgara sem fáum finnst sympatískur. Það er því síður en svo fráleit hugmynd að nota megi sjúkdómsgreiningar í víðari tilgangi, t.d. til þess að fá seka menn sýknaða.
 

Reynsla annarra þjóða

 
Þegar spádómur Brynjars rætist skulum vona að það hafi ekki verri afleiðingar en þær að réttarhöld snúist upp í skrípaleik. Í Bandaríkjunum og Kanada hefur misnotkun PTSD greiningar nefnilega leitt af sér harmleiki, fremur en sirkus. Kannski má líta fram hjá því að hermenn, sem hafa tekið þátt í ofbeldi, kúgun og manndrápum, hafa notað PTSD greiningu til að herja út bætur. Þeir sem telja framburð meintra brotaþola í kynferðisbrotamálum heilagan munu áreiðanlega loka augunum fyrir hættunni á að menn séu sakfelldir á grundvelli slíkrar greiningar. En kannski fer dálítið um hina sömu þegar þeir átta sig á því að PTSD greiningar eru einnig notaðar til þess að fá stórhættulega glæpamenn sýknaða eða dóma yfir þeim mildaða. Áfallastreituröskun er geðsjúkdómur. Morðinginn/nauðgarinn var því ekki ábyrgur gjörða sinna; það getur læknirinn hans sannað með „greiningu“. Einnig eru dæmi um að PTSD greining í amerískum sakamálum sé annaðhvort vítavert fúsk eða meðvituð misnotkun á sjúkdómsgreiningu.

Við getum kannski lokað augunum fyrir því sem gerist í henni stóru, ljótu Ameríku en lítum okkur nær. Í þessari grein reifar læknir misnotkun sjúkdómsgreininga í sænska dómskerfinu. Meðal þess sem hann gagnrýnir harðlega er meðferð PTSD greininga sem hann telur beina afleiðingu af uppgangi feminiskra gervivísinda. Þetta er rosalega andfeminisk grein, ég mæli með henni (ath að hún er í 3 hlutum).
 

Þarf virkilega geðveiki til að ná fram rétti gagnvart yfirvaldinu?

 
Ég vona að Einar Marteinsson fái háar skaðabætur. Ekki af því að ég sé sérlegur Vítisenglavinur, heldur vegna þess að það er fullkomlega óþolandi að menn séu fangelsaðir á grundvelli orðróms, orðspors, vináttu- eða ættartengsla, fyrri afbrota, mótorhjólaeignar eða geðþóttamats lögreglu á því hversu líklegir þeir séu til afbrota.

Vegna þess að mannréttindi voru ekki fundin upp fyrir kórdrengi, heldur alla, líka Grettisgötugengið og Vítisengla.
Vegna þess að Einar á ekki að þurfa neina geðveikisgreiningu til þess að fá rétt sinn viðurkenndan.
Vegna þess að ef ég lendi í hans sporum vil ég fá leiðréttingu minna mála án þess að gerast veik á geði.

Samt myndi ég áreiðanlega hugsa „whatever works“ í sporum Einars og tefla fram öllum sjúkdómum í bókinni. Það hefur nefnilega reynst almennum borgurum fjári erfitt að ná fram rétti sínum gagnvart yfirvaldinu. Ég tala nú ekki um þá sem helst eiga það á hættu að verða fyrir mannréttindabrotum. Og það eru sko ekki neinir kórdrengir, sóttir inn í fermingarveislu.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Lögregla og dómsmál · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: , , ,

Mánudagur 25.11.2013 - 12:07 - FB ummæli ()

Hólmsteinn, lækin og feministarnir

Kæri Hannes Hólmsteinn

Ég fyrirlít sumar pólitískar skoðanir þínar. Það er ekkert persónulegt. Ef ég sæi þig standa við stöðumæli og snúa vösunum út, myndi ég rétta þér tíkall. Ég fyrirlít samt brauðmolakenninguna, hugmyndina um einkavæðingu auðlinda, stóriðjustefnu og margt fleira sem öfgasinnaðir kapítalistar pilsfaldakapítalistar boða.

Það er algengt að fólk yfirfæri óbeit sína á boðskap yfir á persónur og ég efast ekki um að til sé fólk sem hatar þig en í þessu tilviki er afstaðan til hlutverks Ríkisútvarpsins miklu nærtækari skýring á viðbrögðunum sem þú bendir á í pistli þínum.

Í fyrsta lagi segir þú ekkert í þessu viðtali sem lýsir sérfræðiþekkingu á bandarískum stjórnmálum. Eins og svo oft áður notaðir þú tækifærið til að stunda pólitískt trúboð og monta þig af kynnum þínum við áhrifamenn. Við því mátti búast  og þessvegna er það ósmekklegt af fréttaskýringaþætti á vegum Ríkisútvarpsins að fá þig sem viðmælanda. Spurningin „Af hverju er Hannes Hólmsteinn í útvarpinu mínu?“ af hálfu manneskju sem telur hlutverk Ríkisútvarpsins ekki vera það að sinna pólitískum áróðri á því fullan rétt á sér, og kvartanir Jóns Þórissonar líka.

Í öðru lagi þá ert þú ekki einu sinni sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum Hólmsteinn minn. Í nótt svaraðir þú ummælum mínum á facebook, þess efnis að þú værir enginn fræðimaður, með upptalningu af ritum. Bókum sem eru kannski ágæt afþreying en hafa ekki staðist neina ritrýni og eru ekkert merkilegri fræði en lofrollur þínar um Davíð Oddsson. Eflaust veistu mikið um bandarísk stjórnmál en ég hef aldrei heyrt neitt frá þér sem bendir til þess að þú hafir djúpan skilning á þeim. Spegillinn hefði alveg eins getað boðið t.d. Silju Báru Ómarsdóttur eða Magnúsi Sveini Helgasyni að kynna pólitískar skoðanir sínar í krafti sérfræðiþekkingar og vel má vera að það hafi hann einhverntíma gert. En Ríkisútvarpið ætti ekki að vinna þannig.

Þessi umræða sem þú vísar til og öll „lækin“ eru miklu frekar viðbrögð við þeirri áráttu íslenskra fjölmiðla að kynna persónulegar skoðanir  stjórnmálafræðinga sem vísindi, en að þau séu merki um persónulega óvild vinstri manna gagnvart þér.

Sá ósiður að gefa pólitískum öfgastefnum vægi með því að kynna boðbera þeirra sem einhverskonar kennivald, á ekki aðeins við um snudd fjölmiðla utan í  stjórnmálafræðinga. Það er líka algengt að klámpostular séu fengnir til viðtals og kynntir sem sérfræðingar. Þó er „þekking“ þeirra fyrst og fremst pólitískt uppeldi sem fram fer í HÍ undir yfirskini „kynjafræði“,  þ.e. (samkvæmt Þorgerði Einarsdóttur) „akademískur feminismi“, m.ö.o. pólitísk stefna, dulbúin sem fræði.  Það er áhugavert að þú átt það einmitt sameiginlegt með feministum að bregðast við umræðu sem þér líkar ekki með því að túlka ummælin og „lækin“ sem merki um heift og hatur. Í staðinn ættirðu kannski að leggjast undir feld og velta því fyrir þér hvað það er í þínum málflutningi sem veldur því að fólki finnst óboðlegt að Ríkisútvarpið leiti álits þíns.

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Kynjapólitík · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

Sunnudagur 24.11.2013 - 22:09 - FB ummæli ()

Grimmdin, heimskan og fimmstjörnu hótelin

Umræðan um mál stúlknanna sem sitja í fangelsi í Tékklandi fyrir kókaínsmygl gerir mig bæði sorgmædda og reiða.

Eins og venjulega þegar málefni fanga ber á góma er ógeðið í umræðunni yfirþyrmandi. Það hlakkar beinlínis í sumum þeirra sem tjá sig um málið og þeir skammast sín ekki einu sinni fyrir illgirnina heldur freta henni yfir internetið og auka þannig enn á þjáningar vandamanna stúlknanna. Þeir sem óska stúlkunum þess að fá að afplána dómana í sínu heimalandi, þar sem þær eiga möguleika á að hitta foreldra sína reglulega, eru atyrtir fyrir að vorkenna þeim, rétt eins og það sé samúðin sem er ósiðleg en ekki grimmdin. Sömu kommentarar sjá ofsjónum yfir því hversu dýrt það yrði fyrir skattgreiðendur að hafa stúlkurnar í fangelsi en virðast ekkert spá í það hvað það mun kosta samfélagið að fá þær kannski heim skaddaðar til lífstíðar eftir svo mannskemmandi reynslu sem margra ára fangavist við vondar aðstæður er.

Grimmdin og nískan sameinast svo heimskunni í allsherjar skítaplebbaorgíu þegar mannvitsbrekkurnar byrja að tala um Litla Hraun sem fimm stjörnu hótel.  Fyrir nú utan það hversu skemmtilegt það yrði að vera læstur inni á fimmstjörnu hóteli í mörg ár, hafa þeir sem nota þessa samlíkingu sennlega aldrei heyrt um pyntinganefnd Evrópuráðsins, sem hefur margsinnis gagnrýnt aðbúnað íslenskra fanga. Nú síðast gerði nefndin athugasemd við að pyntingafleki hefði fundist á Litla Hrauni. Eftir þarsíðustu heimsókn pyntinganefndarinnar var fangelsið skikkað til þess að fjarlægja pyntingabúnað sem festur var í gólf einangrunarklefa. Stjórnendur fangelsisins hafa sennilega haldið að þarna væru á ferðinni stílistar sem vildu gefa þeim ráð um innanhússarkitektúr. Að mannsta kosti virðast þeir ekki hafa túlkað gagnrýni nefndarinnar á þann veg að ekki ætti að pynta fanga því þeir komu sér bara upp færanlegum pyntingabúnaði í staðinn.

Sem betur fer er ástandið í íslenskum fangelsum skárra en í Tékklandi en að líkja því við lúxushótel er í skársta falli heimskulegt. Ég hef ekki séð neinn afsaka afbrot stúlknanna og það að óska þeim þess að fá að afplána dómana heima er ekki meðvirkni heldur eðlileg umhyggja. Án þess að afsaka dópsmygl leyfi ég mér að fullyrða að innræti þeirra sem óska þessum ungu konum frekari ófarnaðar er hálfu verra en innræti nokkurs fíkniefnasmyglara.

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Föstudagur 22.11.2013 - 18:01 - FB ummæli ()

Andfélagslegt yfirvald

Svona á að gera þetta! Ekkert að vera að eyða tímanum í að ræða við dauðadrukkið fólk heldur hóta því strax frelsissviptingu og ofbeldi. Já og þegar hálfrænulaus manneskja gónir í forundran á lögguna, skal umsvifalaust túlka gónið sem „ögrandi augnaráð“ og hefja forvirkar refsiaðgerðir hið snarasta. Það ku aukinheldur virka einkar vel á almenna borgara að gera þeim ljóst að hegðun þeirra beri vott um greindarskort að því marki að það teljist fötlun, sér í lagi mun ölvað fólk taka slíkar athugasemdir til gaumgæfilegrar athugunar og leggja sig fram um að hegða sér af sömu skynsemi og yfirvaldið.

Ríkislögreglustjóri þykist yfir það hafinn að gefa skýringar á samstarfi sínu við erlendar leyniþjónustur. Innanríkisráðherra neitar að tjá sig um refisivert brot ráðuneytisins á persónuverndarlögum. Þessi lögguhrotti kemst reyndar ekki upp með að neita að svara en hann svífst þess ekki að tala eins og HANN sé þolandinn í þessu máli.

Þótt þessar fréttir séu ótengdar vakna ósjálfrátt nokkrar óþægilegar spurningar þegar maður les þær allar á sama háftímanum. Ef ögrandi augnaráð telst svo sterkt merki um að manneskja sé hættuleg, að lögreglan telji það réttlæta það ofbeldi sem við höfum sjálf séð á myndbandi sem almennir borgarar náðu af atburðinum, hvernig hugsa þá valdníðingar í æðstu stöðum? Er ögrandi augnaráð nóg til þess að almennir borgarar sæti ólöglegu eftirliti? Er nóg að fyrir ólétta konu að ögra yfirvaldinu með því að kvarta yfir framkomu þess í fjölmiðlum til þess að það telji nauðsynlega refsiaðgerð að leka perónuupplýsingum eða þarf hún að vera svört líka?

Yfirvald er réttlætt með því að einhvernveginn þurfi að koma böndum á hina andfélagslegu. Ofbeldismenn og þjófa. Drukkið fólk og útlendinga. Orðið „andfélagslegt“ á þó öllu betur við hegðun opinberra stofnana sem neita að svara fyrir gjörðir sínar og starfsmenn sem misbeita valdi sínu og kunna ekki einu sinni að skammast sín. Við þurfum að koma á ytra eftirliti (ekki innra heldur ytra) með ofbeldisstofnunum ríkisvaldsins; Lögreglunni, Fangelsismálastofun og Útlendingastofnun, sem fyrst, því andfélagslegri fyrirbæri finnast varla og vald þeirra er þegar allt of mikið.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 21.11.2013 - 14:02 - FB ummæli ()

Hanna Birna verður að segja af sér

Síðustu daga hafa fjölmiðlar flutt fréttir af máli hælisleitandans Tony Omos frá Nígeríu. Komið hefur fram að samkvæmt trúnaðargögnum sem starfsmaður Innanríkisráðuneytisins lak í fjölmiðla hafi Útlendingastofnun vísað manninum úr landi þrátt fyrir að hann sé grunaður um aðild að mansali. Mansal er glæpur sem einn og sér varðar 12 ára fangelsi og verður að teljast í hæsta máta undarleg ráðstöfun að senda manninn úr landi áður en lögreglurannsókn er lokið. Einnig kemur fram í sömu gögnum að maðurinn sé ekki lengur grunaður um aðild að mansali og einmitt á þeirri forsendu hafi honum verið vísað úr landi.

Hér stöndum við frammi fyrir mótsögn sem ég vil fá skýringu á.  Annaðhvort hefur Innanríkisráðuneytið lagt blessun sína yfir það að mögulegum þrælasala sé hleypt úr landi, eða þá að heimildamaður fjölmiðla hefur beinan ásetning um að sverta mannorð manns sem ekki hefur verið sakfelldur fyrir neinn glæp og vafasamt er að liggi einu sinni undir grun.

Auk þess að gera Tony tortryggilegan innihalda gögnin viðkvæmar persónuupplýsingar. Í þeim kemur fram að hælisumsókn Evelyn byggist á því að hún sé fórnarlamb mansals. Evelyn var ekki spurð álits á því hvort hún kærði sig um að það yrði gert opinbert. Þar kemur einnig fram að Tony hafi orðið tvísaga um það hvort hann sé faðir barnsins en hvorugt þeirra hefur gefið leyfi fyrir því að efasemdir hans um það eða önnur þeirra persónulegu mál yrðu gerð opinber. Evelyn frétti það svo í fjölmiðlum að Útlendingastofnun teldi Tony vera í tygjum við íslenska konu og enda þótt það sé viðurkennd hegðun í flestum Afríkuríkjum að karlar eigi hjákonur, þá reiknaði Evelyn ekki með að frétta það úr fjölmiðlum, hvað þá að fréttaveitan væri starfandi í Innanríkisráðuneytinu.

Mótsagnirnar eru ekki aðeins í gögnum Innanríkisráðuneytisins, heldur birtast einnig í viðbrögðum Gísla Freys Valdórssonar aðstoðarmanns innanríkisráðherra. Hann þvertekur fyrir að lekinn komi frá Innanríkisráðuneytinu en útilokar þó ekki að óbreyttir starfsmenn ráðuneytisins safni persónuupplýsingum um hælisleitendur og leki þeim til fjölmiðla.

Innanríkisráðuneytið lekur gögnum í fjölmiðla en neitar svo að svara fyrir það á þeirri forsendu að starfsmenn þess geti ekki tjáð sig um einstaka mál. Ef Innanríkisráðuneytið kemst upp með það í þetta sinn getum við átt von á því að fleiri opinberar stofnanir taki þessi vinnubrögð upp. Það er því bráðnauðsynlegt að þingheimur skikki Hönnu Birnu til að segja af sér ef hún hefur ekki þá siðferðisvitund að gera það sjálf.

(Stutt hugleiðing mín um umræðuna um mál Tonys, birtist í Kvennablaðinu í dag.)

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur
Efnisorð: , ,

Þriðjudagur 19.11.2013 - 12:46 - FB ummæli ()

Hvað hefði Jesús gert, Hanna Birna?

Kærleiksblómið sem gegnir embætti innanríkisráðherra vill koma kristniboðskap inn í skólana aftur. Daginn eftir að þær fréttir bárust sagði DV frá enn einu mannréttindabrotinu af hálfu Útlendingastofnunar. Flóttamenn eru fólk sem á raunverulegri ögurstund neyddist til að flýja heimaslóðir sínar og margir þeirra eiga ekki afturkvæmt þangað. Ég þekki ekki sögu Tonys en ég veit að fátækt er stórt vandamál í Nigeríu, að ræningjar þeir sem kapítalistar nefnast hafa svo sannarlega herjað á Nigeríu eins og önnur Afríkulönd og að stjórnvöld í Nigeríu hafa margsinnis verið gagnrýnd fyrir mannréttindabrot á öllum sviðum.

Ef ráðherra væri í einlægni umhugað um kærleiksuppeldi þjóðarinnar myndi hún byrja á þeim sviðum sem hún ber sjálf ábyrgð á. Hún gæti t.d. fengið prest til að segja starfsfólki Útlendingastofnunar söguna af miskunnsama Samverjanum.

Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá.

En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann.

Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.

Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?
Hann mælti: Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum. Jesús sagði þá við hann: Far þú og gjör hið sama.

 

Þjóðkirkjan hefur túlkað þessa sögu eins og eðlilegast er. Boðskapurinn er sá að þegar einhver er hjálparþurfi t.d. vegna veikinda, slyss, ofbeldis, kúgunar eða fátæktar, þá beri okkur sem sæmilegum manneskjum að koma til hjálpar og má þá einu gilda hvort viðkomandi tilheyrir okkar hópi eður ei. Þjóðerni manns firrir okkur ekki ábyrgðinni á okkar minnsta bróður.

Sem betur fer þarf ekki kristindóm til þess að sjá ástæðu til að virða mannréttindi. Réttinn til lífs, öryggis, frelsis og mannlegrar reisnar. Rétt ástvina til að vera saman og rétt barns til foreldra sinna en Tony á unnustu á Íslandi og þau eiga von á barni. Þessvegna ætlar fólk, kristið fólk sem ókristið, fólk sem ætlast til þess að Útlendingastofnun virði mannréttindi, að koma saman við innanríkisráðuneytið á morgun, miðvikudaginn 20. nóv. kl 12 og andmæla brottvísuninni. Þar sem langflestir þeirra sem komnir eru yfir tvítugt fengu kristilegt uppeldi í grunnskóla ætti mætingin að verða harla góð.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur
Efnisorð: ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics