Miðvikudagur 25.5.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Nú er tækifærið

Gaman er að vita til þess að mikill fjöldi erinda hefur borist stjórnlagaráði. Sjálfur er ég enn á eftir með lesturinn – enda er þetta hörkuvinna – en mun lesa þau öll; erindin berast í viðeigandi nefnd og fá umfjöllun þar ef ekki svar.

Á morgun er mikilvægur fundur í stjórnlagaráði þar sem meginatriði varðandi stjórnskipun landsins – þingræði – og afar góðar tillögur um breytingar á mannréttindakafla verða tekin fyrir.

Beitið ykkur!

Nú þegar líður að því að skammur starfstími stjórnlagaráðs verði hálfnaður vil ég þó brýna almenning, svo og hagsmunaaðila og hugsjónasamtök, til þess að senda sem fyrst viðeigandi nefnd erindi um hugðarefni sín og umbótatillögur varðandi stjórnarskrá – og fylgja því gjarnan eftir við fulltrúa í stjórnlagaráði – eftir atvikum með ósk um fund með fulltrúm ráðsins.

Þú tryggir ekki – góða stjórnarskrá – eftirá.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Þriðjudagur 24.5.2011 - 23:32 - FB ummæli ()

Manna-, nútíma-, laga- eða stefnumál

Er við í stjórnlagaráði semjum tillögur að nýrri stjórnarskrá – í stað þeirrar sem gilt hefur, lítt breytt, í mannsaldur frá lýðveldisstofnun 1944, og að stofni til í tvo mannsaldra frá 1874 – er eitt mikilvægasta atriðið hvernig orða á hlutina og til hvers.

Mannamál, já…

Ég er meðvitaður um eftirfarandi:

  1. Almenn og líklega langvinn krafa er meðal almennings um að stjórnarskrá – grundvallarlög okkar allra, æðri öðrum lögum – sé orðuð á nútímamáli í stað þess forna stíls sem víða er skiljanlega enn í gildandi stjórnarskrá sem er, sem sagt, að stofni til frá 1874.
  2. Brýn þörf er á að stjórnarskráin sé á mannamáli og þannig læsilegri almenningi í stað þess að lagatæknilega þjálfun þurfi til þess að lesa hana; sem dæmi má nefna er forsetakafli stjórnarskrárinnar mörgum ólöglærðum eða útlendum vitnisburður um mikil völd forseta – þar til lesendur átta sig á að 13., 14. og 19. gr. draga algerlega úr sjálfstæðu valdi forseta – að gildandi reglum; því kann að vera vilji til þess að breyta.

Ég held hins vegar að mannamál og lagamál sé samrýmanlegt – ef góðir íslenskumenn skilja lagahugsun og ekki síður ef lögfræðingar eru sæmilega þenkjandi á íslensku; sem dæmi má nefna eina fallegustu grein stjórnarskrárinnar eftir breytingu hennar 1995 sem hljóðar svo:

Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.

… en skýrt mál, líka

Þó að þetta orðalag sé ekki í bundnu máli er það bæði gagnort, fallegt og skýrt – lagalega séð; spyrjið hvaða lögfræðing sem er.

Ég vil að þetta sé sem víðast stíllinn eða stefnan í nýrri stjórnarskrá.

M.ö.o. vil ég leysa álitamál, sem við ræðum um þessar mundir bæði í mannréttindanefnd (A) og valdþáttanefnd (B) stjórnlagaráðs, með sama hætti og ég geri ráð fyrir að dóms- og lýðræðisnefnd (C) mun væntanlega leysa úr álitamálum.

Ég vil, sem sagt, leysa hagsmuna- og hugsjónaágreining í stjórnarskrá þannig að skýrt verði hver á að gera hvað og hver hefur hvaða völd og að unnt sé að leysa úr ágreiningi sem rís. Ég geri t.d. ekki ráð fyrir að kosningareglur verði þannig að „stefnt verði að sem mestu jafnræði“ í atkvæðavægi, að dómstólar séu skipaðir „eftir bestu manna yfirsýn“ eða að „kjördæmi séu sem best skipulögð.“

Stjórnarskráin sé virk og virt

Ég er m.ö.o. tilbúinn að koma á nútímamáli í stjórnarskrá og samrýma mannamál og lagamál – en er ekki mjög hrifin af fjórða málinu:

stefnumáli.

Ef stjórnarskráin verður full af stefnumálum – án þess að þeim sé gefin bein virkni eða óbein úrræði til þess að fá þeim framgengt – er ég hræddur um að stjórnarskráin verði almennt lítið virk og lítt virt.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , ,

Mánudagur 23.5.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Stjórnarskráin og eldgos

Halda mætti við fyrstu sýn að fyrirsögnin sé grín – eins og í færslu fyrir stjórnlagaþingskosningar í nóvember sl.; þegar nánar er að gáð er ekki svo vitlaust að athuga samhengi stjórnskipunarinnar við eldgos – eins og nú hafa dunið á þjóðinni og Norðurhveli jarðar tvö ár í röð – sem og aðra ófyrirséðar hamfarir eða óvænta viðburði.

Nýleg dæmi sanna þörfina

Bandarísk stjórnskipan tilgreinir skýra valdaröð ef forseti ferst eða dettur úr sambandi með öðrum hætti. Þar er tiltekin viðbragðsáætlun virkjuð við aðstæður á borð við þær sem komu upp við árásina á Tvíburaturnana 11. september 2001. Sama gera reglur konungsríkja um erfðaröð. Þá eru innan við tvö ár síðan forseti Póllands fórst í flugslysi ásamt töluverðum hluta pólska stjórnkerfisins. Hér gæti eldgos, jarðskjálfti eða aðrar hamfarir gert hluta af íslenska stjórnkerfinu óvirkt eða illa starfhæft; svo ótrúlegt sem það virðist fljúga einnig daglega stórar flugvélar beint yfir kvosinni í Reykjavík þar sem bæði Alþingishúsið, Stjórnarráðshúsið og fleiri ráðuneyti eru staðsett.

Saga okkar sýnir einnig að þörf getur verið á að bregðast við ófyrirséðum aðstæðum; þannig þurfti Alþingi t.d. að taka ákvörðun með vísan til neyðarréttar 10. apríl 1940 um að fela ríkisstjórninni konungsvald er Þjóðverjar hernámu Danmörku.

Íslenska stjórnarskráin fáorð um viðlagaviðbrögð

Í íslensku stjórnarskránni eru fá viðlagaákvæði við slíkar aðstæður; auk reglna um að varaþingmenn taki sæti alþingismanna ef sæti þeirra losnar af einhverjum sökum má helst svohljóðandi ákvæði 7. og 8. gr. og 3.-4. mgr. 11. gr. stjórnarskrárinnar:

Nú deyr forseti eða lætur af störfum, áður en kjörtíma hans er lokið, og skal þá kjósa nýjan forseta til 31. júlí á fjórða ári frá kosningu.

Nú verður sæti forseta lýðveldisins laust eða hann getur ekki gegnt störfum um sinn vegna dvalar erlendis, sjúkleika eða af öðrum ástæðum, og skulu þá forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti hæstaréttar fara með forsetavald. Forseti Alþingis stýrir fundum þeirra. Ef ágreiningur er þeirra í milli, ræður meiri hluti.

Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meiri hluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mánaða, frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi, og gegnir forseti eigi störfum, frá því að Alþingi gerir samþykkt sína, þar til er úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru kunn.

Nú hlýtur krafa Alþingis eigi samþykki við þjóðaratkvæðagreiðsluna, og skal þá Alþingi þegar í stað rofið og efnt til nýrra kosninga.

Þarf að álagsprófa stjórnskipun Íslands?

Þegar vinnu stjórnlagaráðs vindur fram þarf að athuga betur og samræma málfar, lagaleg atriði o.fl. – og þar með talið hafa sumir glöggir félagar mínir í stjórnlagaráði nefnt að stjórnarskrá ætti að álagsprófa af sérfræðingum.

Vel skal vanda það sem lengi skal standa; eitt af því sem þarf að meta á skipulegan hátt er hversu vel stjórnskipan okkar – núgildandi eða til framtíðar – stenst álag af ýmsu tagi.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Föstudagur 20.5.2011 - 21:44 - FB ummæli ()

Mannréttindi gagnvart fyrirtækjum!

Eitt af því sem ég hef vakið máls á í stjórnlagaráði og þeirri nefnd (A), sem fjallar um mannréttindakafla stjórnarskrárinnar er að viðbótarvídd vanti í nálgun varðandi mannréttindi. Væntanlega mun ég leggja fram tillögu um þetta – sem tengist ekki beint aðalálitamálinu, sem við erum þessa dagana að takast á um, þ.e. hvort – og hve mikið – auka á við efnisákvæði stjórnarskrárinnar og telja fleiri en færri atriði upp í samræmi við réttarþróun innanlands og fjölda alþjóðlegra sáttmála um aukna mannréttindavernd.

Raunar hallast ég þvert á móti að því að ekki eigi að auka um of við efnisákvæði mannréttindakafla stjórnarskrárinnar – heldur fremur huga því að hverjum þau beinast.

Mannréttindi lúta vitaskuld að réttindum manna – en oft gleymist að hefðbundið er í stjórnskipunarrétti, bæði lögum, fræðum, dómum og annarri framkvæmd, að félög manna, lögaðilar – t.d. fyrirtæki – njóta gjarnan sömu réttinda þar sem við á, t.d. eignarréttar og atvinnufrelsis.

Ég geri enga athugasemd við það enda fullgild rök fyrir því.

Fyrirtæki ekki síður ógn við réttindi fólks en ríki

Það sem ég vil breyta er hin hliðin; mannréttindi eru sögulega og lagalega f.o.f. annars vegar neikvæð frelsisréttindi og hins vegar jákvæð réttindaákvæði til handa borgurunum – en hvor tveggja tegundin lýtur að sambandinu við ríkið, upphaflega kónginn. Þau segja fyrir um vernd fyrir ríkinu eða rétt til einhvers frá því.

Ég vil gjarnan skýra aðra vídd í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar – mannréttindi borgaranna hvers gagnvart öðrum (sem til er sem fræðilegt álitamál í stjórnskipunarrétti) og þá einkum réttarstöðu einstaklinga gagnvart fyrirtækjum og öðrum lögaðilum. Eins og ég hef oftar en einu sinni rætt opinberlega í embættisnafni og bent á í stjórnlagaráði og á nefndarfundum er ríkið e.t.v. ekki lengur mesta ógn eða oftast stærsta ógnun við frelsi og réttindi okkar „þegnanna.“

Af 100 stærstu efnahagsheildum heims töldust nýverið 51 eða meirihlutinn vera lögaðilar – fyrirtæki eða samsteypur þeirra – en ekki ríki.

Auðvelt er að ráða af sögu Vesturlanda síðustu áratuga og einkum hremmingum okkar Íslendinga síðustu ár að ekki er síður þörf á að setja bönd á fyrirtæki, samsteypur og aðra lögaðila – svo sem hagsmunasamtök – en á athafnarsemi og afskiptasemi handhafa ríkisvaldsins. Að mínu mati er ekki álitamál að lögaðilar hafa á sér minni hömlur þegar um er að ræða misbeitingu valds.

Stjórnarskráratriði?

Nú kann einhver að spyrja hvort einhver þörf sé á að taka á þessu í stjórnarskrá; er ekki nóg að löggjafinn, Alþingi, setji þessi mörk og leikreglur? Af a.m.k. þremur ástæðum tel ég svarið vera neikvætt:

  1. Framangreind stjórnarskrárvernd lögaðila, þ.m.t. fyrirtækja og samsteypa þeirra, gerir að verkum að takmörkun þeirrar verndar og afmörkun þarf að vera á sama stigi – stjórnarskrárstigi; ella er hætta á að almennum lögum um slíkt yrði hnekkt af dómstólum með vísan til stjórnarskrárverndarinnar.
  2. Hagsmunatengsl stjórnmálaflokka og þingmanna, sem við í stjórnlagaráði erum að vísu að leitast við að sporna við, geta gert að verkum að þeir séu ekki hæfir til þess að taka á þessu álitamáli með fullnægjandi hætti.
  3. Af sömu ástæðum er nauðsyn til þess að samskiptum og réttarstöðu fyrirtækja og borgara verði ekki of auðveldlega breytt, þ.e. með almennum lögum.

Hvernig hemjum við skepnuna?

Orðalagið hef ég ekki afráðið – enda er ég ekki sérfræðingur í mannréttindafræðum þó að ég hafi lagt mikla stund á valdþáttahluta stjórnskipunarréttar. Ég er opinn fyrir tillögum frá leikum sem lærðum um hvernig leggja má í stjórnarskrá hömlur við „frelsi“ fyrirtækja og annarra ópersónulegra aðila – „auðvaldsins“ eins og nefnt var á síðustu öld – til þess að hafa slæm áhrif á frjálst líf borgaranna og möguleika til þess að þroskast í lýðræðissamfélagi.

Tíminn er núna.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Miðvikudagur 18.5.2011 - 23:56 - FB ummæli ()

Sannleiksskylda ráðherra

Í valdþáttanefnd stjórnlagaráðs,  nefnd B, höfum við undanfarið unnið að tillögum að því hvernig efla má Alþingi sem handhafa löggjafarvalds og sem eftirlitsaðila gagnvart ráðherrum sem aðalhandhöfum framkvæmdarvalds. Hið fyrra verður á ráðsfundi á morgun lagt fram til afgreiðslu í áfangaskjal og hið síðara til kynningar.

Sannleiksskyldu skortir í stjórnarskrá

Varðandi eftirlitsvaldið höfum við rætt margar álitlegar tillögur í þessu skyni og sumar þeirra koma, sem sagt, til kynningar á morgun; hvet ég alla áhugasama til þess að fylgjast með.

Eitt atriði, sem ég hef lagt til á fundum okkar í valdþáttanefndinni, hefur þó ekki enn verið rætt ítarlega eða til þess tekin afstaða; tillaga mín er að stjórnarskráin kveði á um sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi. Þarna er ekki um að ræða – eins og í mörgum öðrum atriðum í störfum okkar stjórnlagaráðsmanna og -kvenna – tillögu um að skýrar verði kveðið á um eitthvert óljóst atriði eða að eitthvað verði tekið fram formlega sem undirskilið hafi verið sem óskráð regla. Þótt ótrúlegt megi virðast er ekkert í íslensku stjórnarskránni sem kveður á um að ráðherrar skuli segja Alþingi – sem veitir þeim nú í raun umboð þeirra – satt og rétt frá.

Sögulegt og pólitískt tilefni

Þetta er ekki bara fræðilegt álitamál eða vandamál; eins og við vitum, sem fylgst höfum með stjórnmálum undanfarna tvo áratugi og lesið stjórnmálasögu undangenginna áratuga, hefur verið pottur brotinn í þessu efni. Einn lærifeðra minna, dr. Gunnar G. Schram heitinn, prófessor í stjórnskipunarrétti, benti á það í útvarpsviðtali snemma á 10. áratug síðustu aldar, er ég var við laganám, að slíka reglu skorti í íslensk lög og stjórnarskrá.

Ég legg til að við bætum úr þessu – og er opinn fyrir tillögum um orðalag.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

Þriðjudagur 17.5.2011 - 23:57 - FB ummæli ()

Norska, sænska eða íslenska leiðin?

Í dag er 17. maí – og þá verður mér gjarnan hugsað til Noregs; þar gildir sú sérstaka regla að ekki er heimilt að rjúfa löggjafarþingið, Stortinget, eins og yfirleitt er hægt í þingræðisríkjum á borð við þau sem við sækjum okkar fyrirmyndir. Í þingrofi felst að kjörtímabil (hér: 4 ár) er stytt og boðað til almennra þingkosninga.

Ég hef efasemdir um að sú regla sé vænleg hérlendis og veit ekki til þess að neinn vilji taka hana upp hér; fjölyrði ég því ekki um þennan formála.

Þingið ráði þingrofi að meginstefnu til

Í valdþáttanefnd stjórnlagaráðs, nefnd B, virðist hins vegar ríkur stuðningur við að taka upp að sænskri fyrirmynd þá reglu að þingið sjálft eigi að samþykkja þingrof – í stað þess að forsætisráðherra (sem hefur að vísu meirihluta þingsins á bak við sig ef við höldum okkur við þingræðisskipulag) ákveði þetta – með atbeina þjóðhöfðingja – eins og hér hefur verið gildandi réttur síðan þingræði komst á hér 1904.

Ég er sammála félögum mínum um þessa meginbreytingu – að færa þingrofsréttinn til Alþingis sjálfs. Sjálfsagt er að stytta kjörtímabil og ljúka umboði þingmanna sem sjálfir telja að endurnýjun þurfi að koma til.

Forseti hafi einnig þingrofsrétt  í sérstökum tilvikum

Einu vil ég þó gjarnan bæta við; ég vil gjarnan að sjálfstæður, þjóðkjörinn forseti – ef embættið verður áfram til (sem enn er ekki búið að ráða til lykta í stjórnlagaráði) – hafi í undantekningartilvikum sérstakan þingrofsrétt. Er það í samræmi við þá meginstefnu mína í stjórnlagastörfum mínum að auka valddreifingu og búa til skipulag þar sem einstakir valdþættir veita hver öðrum aðhald (e. checks and balances). Á nefndarfundi í dag orðaði ég þetta eitthvað á þessa leið:

Forseti Íslands getur einnig rofið Alþingi ef þingið er óstarfhæft.

Horfi ég þá til lagalegra fordæma úr stjórnskipunarrétti Ólafs Jóhannessonar prófessors og uppfærslu dr. Gunnars G. Schram prófessors, sem ég aðstoðaði við er ég stundaði laganám við lagadeild Háskóla Íslands á 10. áratug síðustu aldar. Ég viðurkenni að um er að ræða matskennda heimild – eins og oft í stjórnskipunarrétti: forsetinn yrði sjálfur að meta þetta eftir málefnalegum sjónarmiðum og venjum; góð reynsla er af slíku í nágrannaríkjum okkar með langa lýðræðishefð og réttarríkisskipulag. Þá minni ég á að tillögur eru í smíðum um stjórnlagadómstól sem sporna myndi gegn misnotkun og valdníðslu á þessu sviði.

Einnig lít ég til stjórnmálasögu Íslands – bæði starfshátta Alþingis síðustu öld og vandræða í ýmsum sveitarstjórnum undanfarin ár þar sem gott hefði verið að „áfrýja“ til kjósenda ágreiningi og fá nýtt lið inn á völlinn.

Óháður dómari ef leikurinn fer úr böndum

M.ö.o. tel ég nauðsynlegt að einhver óháður aðili eigi að geta skorist í leikinn ef fulltrúar þjóðarinnar á löggjafarsamkundu hennar eru óstarfhæfir – en viðurkenna það e.t.v. ekki sjálfir.

Önnur leið væri að kjósendur gætu krafist þingrofs en sú leið er fjarlægari mér sem lögfræðingi auk þess sem ég aðhyllist fulltrúalýðræði sem meginstef.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

Mánudagur 16.5.2011 - 23:58 - FB ummæli ()

Hver á að semja frumvörpin?

Í valdþáttanefnd stjórnlagaráðs, nefnd B, brjótum við þessa dagana heilann um hvernig unnt er að færa stefnumótandi frumkvæði til Alþingis og fastanefnda þess en tryggja um leið að frumvörp og önnur þingmál séu samin af þeirri sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg er. Um þetta höfum við rætt og hugsað – bæði í nefndinni og í stjórnlagaráði – auk þess sem ábendingar hafa borist í erindum og á vefnum um að þingmál séu oft svo flókin að hvorki ráðherrar né þingmenn einir séu færir um að semja þau af þekkingu.

Þetta vitum við og þurfum að leysa.

Sem dæmi má nefna er til staðar hjá sérfræðingum Stjórnarráðsins bæði þekking á

  • framkvæmd löggjafar – þ.m.t. ágöllum,
  • athugasemdum frá hagsmunaaðilum við löggjöf og framkvæmd hennar,
  • sjónarmið frá hugsjónasamtökum,
  • forsögu lagasetningar,
  • fyrirmyndum (og vítum að varast) erlendis frá,
  • Evrópurétti sem tengist löggjöf og
  • öðrum alþjóðlegum skuldbindingum eða stefnum varðandi sviðið.

Sumt af þessu – t.d. sjónarmið hagsmuna- og hugsjónaaðila – má raunar fremur auðveldlega flytja til þjóðkjörins þings í stað þess að skipaðir embættismenn og ráðnir sérfræðingar víli og díli um þessi atriði.

Samráð og jafnræði

Þá hafa margir bent á að um leið væri tilefni til þess að auka samráð handhafa ríkisvalds (hvort sem er Stjórnarráðsins eða Alþingis) við samfélagið, hagsmunaaðila og hugsjónasamtök – og að mínu mati ber að tryggja að jafnræði sé viðhaft í því efni.

Af þessum sökum hef ég lagt til – eins og í fleiri málum – að við hittum sérfræðinga og eftir atvikum aðra „hagsmunaaðila“ á þessu sviði til að heyra nánar um hvernig málum er nú háttað og hvaða vandamál og lausnir eru í boði.

Lána eða flytja – ekki tvöfalda

M.ö.o. er ljóst – m.a. vegna smæðar íslenska ríkisins – að síst stendur til að koma upp tvöföldu sérfræðingakerfi. Hvort sérfræðingar Stjórnarráðsins verða fluttir eða lánaðir til Alþingis er álitamál enda kannski úrlausnarefni hvernig unnt er að hafa starfsskyldur við Alþingi en heyra formlega undir ráðherra; einhver millilausn verður að finnast – í því skyni að feta þann meðalveg að auka veg Alþingis í stefnumótun um leið og virtar eru ofangreindar staðreyndir um sérfræðiþekkingu innan og utan Stjórnarráðsins.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Fimmtudagur 12.5.2011 - 23:50 - FB ummæli ()

Hæstiréttur sem stjórnlagadómstóll

Hér er breytingartillaga sem ég boðaði á ráðsfundi fyrir viku og skrifaði enn um hér og lagði fram á fundi stjórnlagaráðs í dag við Dómstólakafla og Lögréttu varðandi útvíkkaðan Hæstarétt sem stjórnlagadómstól:

„Orðin „að því marki sem á það reynir í dómsmáli“ í 2. mgr. ákvæðis D3 falli brott ásamt kafla um Lögréttu. Þess í stað komi þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

„Þegar Hæstiréttur dæmir um

  • a) lögmæti kosninga til Alþingis,
  • b) ráðherraábyrgð eða
  • c) hvort lög eða stjórnarathafnir samrýmast stjórnarskrá nefnist hann Lögrétta og skal hann skipaður þannig að auk reglulegra dómara Hæstaréttar sitji þar jafnmargir kjörnir dómarar auk fyrrverandi forseta Alþingis sem síðast gegndi því embætti og situr ekki á þingi. Skal fyrrverandi þingforseti vera forseti dómsins í þeim málum.

Mál skv. c-lið geta þriðjungur alþingismanna, fastanefnd Alþingis eða forseti Íslands borið fram.

Nánar skal mælt fyrir um skipan og störf Lögréttu í lögum.“

Röksemdir fyrir bindandi stjórnlagadómstóli

Bindandi stjórnlagadómstóll

  1. eykur aðhald að handhöfum ríkisvalds,
  2. leiðir til meiri gæða í lagasetningu og stjórnarathöfnum
  3. tryggir tímanlega lausn stjórnskipulegra ágreiningsmála – fyrr en almennir dómstólar og áður en skaði er skeður
  4. er liður í aukinni valddreifingu og
  5. gefur hagsmunaaðilum tækifæri til aðildar að máli með svonefndri meðalgöngu.

Tenging stjórnlagadómstóls (Lögréttu) við Hæstarétt

  1. gefur færi á skjótri lausn stjórnskipulegra álitaefna,
  2. er skilvirkari en aðrar leiðir þar sem sérþekking Hæstaréttar undanfarna öld nýtist,
  3. tryggir hæfni dómara betur en margar aðrar leiðir,
  4. er ódýrari en að setja á fót nýja stofnun,
  5. stuðlar að samræmi í réttarframkvæmd fremur en réttaróeiningu,
  6. gefur færi á sameiningu Lögréttu og Landsdóms (svipuð skipan) og
  7. er skynsamleg nú þegar rætt er um nýtt áfrýjunarmillidómstig þannig að úr störfum Hæstaréttar dregur.

Takmörk á því hverjir geti skotið málum til Lögréttu

  1. draga úr kostnaði og
  2. koma í veg fyrir að Lögrétta verði of störfum hlaðin.

Loks þykir ekki fært að Alþingi úrskurði sjálft um eigið kjör, sbr. 46. gr. stjórnarskrárinnar.

Tilefni í dæmaskyni:

  • Öryrkjamálið.
  • Ágreiningur um auðlindamál.
  • Kosningar til stjórnlagaþings.
  • Aðild að stríðsrekstri gegn Írak.
  • Aðild að EES.
  • Niðurfelling þjóðaratkvæðis 2004 í kjölfar lagasynjunar forseta.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Miðvikudagur 11.5.2011 - 23:55 - FB ummæli ()

Hvernig efla skal Alþingi

Á morgun, fimmtudag, verður í stjórnlagaráði umræða um verkefni okkar í valdþáttanefnd (B), sem fjallar um löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið – þ.m.t. hlutverk og stöðu forseta. Fyrir utan stutta skýrslu frá nefnd um dómsvaldið o.fl. (C) og afgreiðslu á breyttum tillögum nefndar um mannréttindi o.fl. (A) verður þetta aðalefni fundarins:

Tillögur um eflingu löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldi lagðar fram til kynningar

Hér má sjá og heyra stutt viðtal við mig um málið á YouTube. Um kl. 17 á morgun verða svo formaður nefndarinnar, Katrín Fjeldsted, og ég í viðtali um málið á rás 2 á RÚV.

Þingkjörnir eða þjóðkjörnir handhafar framkvæmdarvalds?

Að vísu höfum við enn ekki tekið ákvörðun um hvort leggja eigi til breytingar á því hvernig handhafar framkvæmdarvalds eru valdir – þ.e. hvort hér verði áfram þingræði eða komið skuli á forsetaræði.

  • Þingræði felur í sér að ríkisstjórn þarf að njóta stuðnings eða hlutleysis þjóðþingsins og sé því í raun valin af Alþingi.
  • Forsetaræði – eins og í Bandaríkjum Norður-Ameríku, Frakklandi og nú í Ísrael – merkir að forseti (í Ísrael forsætisráðherra) er kjörinn af þjóðinni og hann velur svo sína ráðherra án atbeina þjóðþingsins nema í tilteknum tilvikum.

Breytt og eflt þingræði

Eftir umræður í valdþáttanefnd (B) og ráðinu sýnist mér valið standa milli milds forsetaræðis og töluvert breytts þingræðis, þar sem staða þingsins – einkum sem löggjafa og eftirlitsaðila með handhöfn framkvæmdarvalds – verði styrkt töluvert; segja má að með síðarnefnda valinu væri komið á þingræði í rýmri merkingu – þ.e. að þjóðkjörið löggjafarþing væri aðalhandhafi ríkisvalds í umboði þjóðarinnar og jafnvel sá valdamesti með þeim takmörkunum sem stjórnarskráin tilgreinir.

Hallast ég að síðarnefndu leiðinni og spái því að sú verði niðurstaðan – um leið og ég styð eindregið að djúpar og ítarlegar umræður fari fram um báðar leiðir og aðra valkosti eftir atvikum – kosti þeirra og galla – fyrir opnum tjöldum í stjórnlagaráði; það verður þó ekki á morgun.

Á morgun ræðum við hvernig styrkja megi Alþingi – sem handhafa löggjafar- og eftirlitsvalds.

Fjórða valdið – síðar

Enn á eftir að ræða betur aðalstefnumið mitt í stjórnlagaráði sem er:

Flutningur hluta af fjárstjórnarvaldi Alþingis (skattlagningar- og fjárveitingarvaldi) til héraða landsins, þ.e.a.s. til sveitarfélaga, væntanlega stærri, færri og sterkari.

Meira um það síðar.

***

Viðtal við mig um málið á YouTube.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

Þriðjudagur 10.5.2011 - 22:10 - FB ummæli ()

Herlaust Ísland

Í dag eru liðin 71 ár frá því að Ísland var hertekið – að vísu af vinsamlegra stórveldi en því sem flestir óttuðust meira. Með þeirri óumbeðnu – en í sjálfu sér valdboðnu og þó vinsamlegu – hertöku var þessu litla landi forðað frá því að verða leiksoppur árásarveldis Evrópu, þriðja ríki Þýskalands. Ári síðar tóku Bandaríki Norður-Ameríku yfir „hervernd“ landsins og rufu þar með eigið hlutleysi – um hálfu ári áður en Öxulveldin gerðu það með árás á Perluhöfn.

Meðal þess sem til umræðu er í stjórnlagaráði er að stjórnarskráin banni herskyldu. Þetta friðar marga sem vilja auka veg og virðingu friðar og hlutleysis en kemur þó ekki í veg fyrir sjálfboðaliðaher á ófriðartímum – t.d. ef ráðist yrði á landið – en þá vilja sumir að unnt sé að grípa til varnaraðgerða, svo ólíklegt sem þetta er, sem betur fer. Á móti vilja sumir ganga lengra og kveða á um frið og hlutleysi Íslands í stjórnarskrá en um það næst varla sátt enda erum við aðilar að varnarbandalagi, NATO.

Þetta sögulega og vonandi ólíklega dæmi endurspeglar að mínu mati sátta- og lausnarhug sem einkennir störf okkar í stjórnlagaráði. Unnt er að fylgjast með störfum þess á vefnum: www.stjornlagarad.is.

Um þessi mál skrifaði ég annars pistil í aðdraganda þjóðkjörs til stjórnlagaþings.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur