Föstudagur 26.11.2010 - 00:46 - FB ummæli ()

Næsta tækifæri eftir 160 ár

Nú – daginn fyrir kosningar til stjórnlagaþings, hins fyrsta í 160 ár – er orðið ljóst að íhaldsöflin – sem engar eða litlar (og þá helst saklausar) breytingar vilja sjá á stjórnskipun landsins og stjórnarfari – munu þrátt fyrir allt ekki þora að sniðganga stjórnlagaþing alveg (eins og ég óttaðist fyrir mánuði).

Þeir nota aðra taktík, svo sem þessa:

Stjórnarskráin er ekkert svo gömul, hún er ekki dönsk – heldur frönsk, henni hefur oft verið breytt, henni er ekki um hrunið að kenna o.s.frv.

Skiptir það máli?

Umbótasinnar vilja meta þörfina sjálfir

Nei.

Þetta er ekki svar við röksemdum umbótasinna – sem annars vegar lúta að því að nauðsynlegt sé að þjóðin telji sig „eiga“ eitthvað í stjórnarskránni í stað þess að hafa fengið hana gefins frá kóngi eða valdastétt þjóðfélagsins í upphafi 20. aldar.

Hins vegar eru margar og góðar umbótatillögur ræddar.

En í stað þess að sniðganga stjórnlagaþingið eins og ég óttaðist fyrst munu íhaldsöflin reyna að fá sem flesta kjörna á stjórnlagaþing sem litlu eða engu vilja breyta.

Hafið þetta, vinsamlegast, í huga er þið veljið ykkar fulltrúa á fyrsta stjórnlagaþingið í 160 ár; það er ekki víst að tækifærið bjóðist aftur í bráð.

***

Á morgun birti ég yfirlit yfir þá 43 pistla sem ég hef birt um stjórnarskrána, stjórnlagaþingið og úrbótatillögur daglega undanfarnar sex vikur.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Fimmtudagur 25.11.2010 - 14:19 - FB ummæli ()

Reglulegt stjórnlagaþing?

Eina atriðið sem stjórnarskrárnefnd Alþingis gat eftir nokkurra ára starf orðið sammála um var að breyta því ákvæði stjórnarskrárinnar sem kveður á um hvernig stjórnarskránni skuli breytt – en nú er áskilið að Alþingi samþykki tvívegis sams konar frumvarp til stjórnarskipunarlaga og að alþingiskosningar eigi sér stað í millitíðinni.

Þessu vil ég breyta – eins og ýmsu öðru, svo sem sjá má af daglegum pistlum mínum hér á Eyjunni. Ein hugmyndin, sem einn ráðgjafa minna hefur lagt til, er að reglulega – t.d. á 30-50 ára fresti – verði hreinlega boðað til stjórnlagaþings – og oftar ef þurfa þykir.

Þetta er eitt af því sem stjórnlagaþing þarf að skoða – og kjósendur að íhuga; kannski er rétt að Alþingi verði framvegis aðeins löggjafar- og fjárstjórnarþing en valdheimildir til að leggja til breytingar á stjórnarskránni séu í höndum annarra í ljósi þess að stjórnarskráin er eins konar starfslýsing fyrir Alþingi, ríkisstjórn, dómstóla o.fl.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Miðvikudagur 24.11.2010 - 21:20 - FB ummæli ()

Stjórnlagadómstól gegn spillingu

Ekki þarf að skírskota til Árbótar-málsins til þess að hefja umfjöllun um álitamál er varðar óvandaða stjórnsýsluhætti og jafnvel ólögmæta – og þar með, eftir atvikum, bótaskylda – stjórnsýsluhætti.

Um daginn skrifaði ég um hvað ef RÚV hefði ekki á 11. stundu brugðist við gagnrýni og tekið upp maraþonsyrpu með um 500 viðtölum á þremur dögum við alla frambjóðendur til stjórnlagaþings sem þáðu það góða boð. Þá hefði ekkert úrræði verið til staðar – þar sem við höfum ekki stjórnlagadómstól.

Raunverulegur vandi – alvöru lausn

Við þurfum þó ekki að taka ímynduð dæmi til að sýna þörfina á stjórnlagadómstól; bara í fyrradag sá ég tvær fréttir – sem hefðu getað verið kæruefni fyrir stjórnlagadómstóli eins og ég hef lagt til:

Enda þótt samtök heyrnarlausra hafi fyrir nokkrum árum haft ráðrúm til þess að bera lögmæti kosningaumfjöllunar RÚV undir almenna dómstóla og þó að flýtimeðferð tiltekinna mála sé nú heimil er ljóst að skjótvirkari úrræði þarf til í slíkum tilvikum.

Lausnin gæti verið að fela Hæstarétti eða tilteknu afbrigði af Hæstarétti að gegna til viðbótar hlutverki stjórnlagadómstóls; þá hefðu hlutaðeigandi aðilar – t.d. Sjómannafélag Íslands eða Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi – getað borið lögmæti ofangreindrar framkvæmdar á stjórnlagaþingskosningum undir stjórnlagadómstól með skjótum og skilvirkum hætti. Úrlausn hefði væntanlega fengist innan fárra daga þannig að auðveldara hefði verið að bregðast við niðurstöðunni hefði hún verið kærendum í hag.

Stjórnlagadómstóll betri en fleiri efnisákvæði

Þetta er enn ein ástæðan fyrir því að stjórnlagadómstólll er eitt af mínum þremur helstu stefnumálum sem frambjóðandi til stjórnlagaþings á laugardaginn.

Þetta og hin meginstefnumál mín er að mínum dómi betur til þess fallið að skapa jafnræði, valdajafnvægi og réttlæti en sífellt fleiri efnisákvæði í stjórnarskrá – því að vandinn er ekki alltaf að efnisreglur skorti heldur að úrræði vantar til handa borgurunum í því skyni að ná rétti sínum og láta á hann reynda með bindandi og skjótum hætti.

Heyrnleysingjamálið gegn RÚV gott fordæmi

Ágætt dæmi um slíkt mál – og óvenjulega skjóta málsmeðferð fyrir almennum dómstólum – má finna í dómi Hæstaréttar fyrir rúmum áratug sem lýst er svo í útdrætti:

Félag heyrnarlausra og B kröfðust þess að Ríkisútvarpinu yrði gert skylt að láta túlka á táknmáli framboðsumræður í sjónvarpi, kvöldið fyrir kosningar til Alþingis, um leið og þær færu fram. Talið var að það væri óaðskiljanlegur þáttur kosningarréttar, sem verndaður væri í III. kafla stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 3. gr. I. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, að sá sem réttarins nyti hefði tækifæri til að kynna sér þau atriði sem kosið væri um. Ljóst þótti að það sé í samræmi við lögákveðið hlutverk Ríkisútvarpsins samkvæmt 15. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 að það kynni frambjóðendur og stefnumál þeirra fyrir kosningar til Alþingis. Bæri Ríkisútvarpinu ótvírætt að gæta jafnræðis þegar það sinnti þessu hlutverki sínu og lyti sú skylda ekki aðeins að frambjóðendum og þeim stjórnmálaöflum sem í hlut ættu, heldur einnig að þeim sem útsendingum væri beint til. Ætti því Ríkisútvarpið að haga gerð og útsendingu framboðsumræðna þannig að aðgengilegt væri heyrnarlausum, sbr. einnig 7. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Þótt játa bæri Ríkisútvarpinu verulegu svigrúmi við tilhögun dagskrár og útsendinga yrðu þær ákvarðanir, sem röskuðu þeim skyldum og réttindum, sem mælt væri fyrir um í 15. gr. útvarpslaga og 7. gr. laga um málefni fatlaðra, að styðjast við gild málefnaleg rök. Þótti Ríkisútvarpið ekki hafa fært fram nægilega gild og málefnaleg rök til að réttlæta þá mismunum sem fólst í ákvörðun þess, en fyrir lá að tæknilega var vel framkvæmanlegt hafa þann háttinn á sem krafist var. Einnig var litið til þess að skammur tími var á milli útsendingar og upphafs kjörfundar. Þóttu Félag heyrnarlausra og B eiga rétt á því að kröfur þeirra yrðu teknar til greina við þessar aðstæður.

Þess má geta að dómurinn gekk í Hæstarétti aðeins tveimur dögum fyrir kosningar og degi fyrir lokahnykk kosningabaráttunnar til Alþingis þar sem allir flokkar héldu framboðsræður.

Íraksstríðið og einkavæðing bankanna

Fleira má nefna – frá undangengnum árum – til dæmis um það sem dæmigert væri fyrir mál sem bera mætti undir stjórnlagadómstól í einu eða öðru formi:

M.ö.o. er stjórnlagadómstóll betur til þess fallinn en misöflug stjórnarandstaða og síðbúin gagnrýni af hálfu Ríkisendurskoðunar eða umboðsmanns Alþingis til þess að sporna við spillingu, valdníðslu og öðru ofríki.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Miðvikudagur 24.11.2010 - 11:45 - FB ummæli ()

Vilji þjóðarinnar verður ekki veðsettur

Sjálfstæðisbaráttu Íslendinga er ekki enn lokið.

Nú er tími til kominn að fullkomna flutning valdsins frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur með heimastjórn fyrir 105 árum – og færa það alla leið til fólksins. Til þess er stjórnlagaþing.

Þrjár stofnanir njóta sérstöðu vegna hlutverks síns í þágu þjóðarinnar: Alþingi, stofnað 930 og endurreist 1845, Háskóli Íslands, settur í fyrsta sinn á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar 1911, og Ríkisútvarpið, sett á fót á þúsund ára afmæli Alþingis 1930.

Jafnræði í rökræðu

Á Alþingi er nú [vorið 2009] rætt hvort – og þá hvernig – skuli stofnað til stjórnlagaþings til þess að semja í fyrsta skipti og á lýðræðislegan hátt heildstæð stjórnlög – nýja stjórnarskrá sem lögð verði fyrir þjóðina til afgreiðslu. Á Alþingi njóta jafnræðis þau sem styðja hugmyndina og þeir sem andmæla henni. Á sama tíma efna hinar tvær lykilstofnanir þjóðarinnar til umræðu um stjórnlagaþing – sem er vel. Það vekur hins vegar athygli mína að einungis karlar eru kallaðir til í Háskóla Íslands og Ríkisútvarpinu – þótt fjölda sérfræðinga sé til að dreifa úr hópi kvenna. Tvö frumvörp liggja fyrir Alþingi um stjórnlagaþing – hið fyrra frá þingflokki Framsóknarflokksins og hið síðara flutt af fulltrúum fjögurra af fimm þingflokkum. Engir af þeim, sem standa að þessum frumvörpum, voru fengnir til framsögu eða umræðna í háskólanum og ríkissjónvarpinu. Flestir voru efasemdarmenn eða andmælendur hugmyndarinnar – sem virðist þó njóta mikils stuðnings meðal þjóðarinnar á þessum umbrotatímum [vorið 2009].  Ég hefði talið eðlilegt að þessar tvær lýðræðisstofnanir gættu jafnræðis eins og gert er á Alþingi.

„of the people…“

Sú spurning vaknar til hvers ætti að stofna til stjórnlagaþings – og til hvers stjórnlög séu.  Sem höfundur fyrra frumvarpsins um stjórnlagaþing og einn höfunda hins síðara [vorið 2009] vil ég svara í anda Abrahams Lincolns, forseta Bandaríkjanna  – sem taldi í ræðu sinni í Gettysburg í borgarastyrjöldinni að stjórnvöld ættu að vera „of the people, by the people and for the people“.

Þessi fleygu orð Abrahams Lincolns fela í fyrsta lagi í sér að stjórnskipulagið eigi að vera lýðræðislegt í þeim skilningi að almenningur sjálfur eða fulltrúar hans stjórni landinu. Sama á við um stjórnlagaþing – hið fyrsta síðan misheppnuðum Þjóðfundi var skyndilega slitið 1851 af fulltrúa Danakonungs. Á stjórnlagaþingi eiga að sitja og ráða ráðum sínum almennir borgarar landsins. Ókjörnir sérfræðingar eða fulltrúar hagsmunaafla eiga ekki að ráða lögum og lofum um framtíðarstjórnskipan Íslands.

„… by the people…“

Í öðru lagi er grundvallaratriði að þingmenn á stjórnlagaþingi séu valdir af fólkinu sjálfu, lýðnum – sem á að ráða í lýðræði. Ég hafna hugmyndum um að ríkjandi valdhafar, stofnanir eða stjórnmálasamtök eigi að velja þá sem gera tillögur til þjóðarinnar um framtíðarskipulag íslenska lýðveldisins. Einnig er ég andvígur því að hlutkesti ráði vali á fulltrúum á stjórnlagaþing; slíkt væri ávísun á sérfræðingaveldi. Sama gildir um þá hugmynd að þingfulltrúar sinni stjórnlagagerð í hjáverkum eða komi einungis að því að staðfesta niðurstöður sérfræðinga. Stjórnlagaþing eiga þeir að sitja sem áhuga hafa og njóta trausts almennra kjósenda til þess að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir lýðræðislegt framboð og umræðu um málið – og geta því talist fulltrúar þjóðarinnar.

„…for the people“

Í þriðja lagi má ekki gleyma að stjórnskipulagið á að þjóna almenningi fyrst og síðast en ekki hagsmunaaðilum, stjórnmálastefnum eða stofnunum – sem eru aðeins leiðir að því markmiði að tryggja almenna hagsæld í lýðræðislegu réttarríki.

Ekki sérfræðingaveldi

Því nefni ég þetta að á því hefur borið að efasemdarfólk hafi viljað tryggja að stjórnlagaþing undirbyggi ríkjandi skipulag – eða raski því a.m.k. ekki um of. Ég tel – vitaskuld – mikilvægt að tryggt sé að þjóðkjörnir fulltrúar á stjórnlagaþingi njóti aðstoðar færustu sérfræðinga innanlands sem utan – en að ljóst sé hverjir ráði ferðinni. Sérfræðingarnir eiga að aðstoða – en ekki ráða för. Því er mikilvægt að þjóðkjörnir fulltrúar á stjórnlagaþingi njóti stuðnings og verndar í hlutverki sínu sem fulltrúar á stjórnlagaþingi – m.a. í því skyni að þeir verði ekki of háðir sérfræðingum.

Ýmislegt má betur fara í stjórnskipan Íslands og hafa margir sett fram hugmyndir sínar þar um. Um mínar hugmyndir get ég fjallað síðar. Margar þessara hugmynda hafa verið ræddar en ýmsar eru óræddar – og hafa jafnvel ekki komið fram í almennri umræðu. Úr því verður bætt þegar kosið verður til stjórnlagaþings en ég tel mikilvægt að á komandi hausti hafi fulltrúar á stjórnlagaþingi autt blað þegar þeir hefja störf sín.  Þá vænti ég þess að umræða næstu vikna staðfesti þörf á stjórnlagaþingi og að rökræður á komandi mánuðum auðveldi þjóðinni að gera upp við sig hvers konar breytinga er þörf á stjórnskipulagi landsins. Vilji þjóðarinnar verður ekki veðsettur.

(Endurbirt grein frá mars 2009 í Morgunblaðinu)

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Þriðjudagur 23.11.2010 - 17:00 - FB ummæli ()

Þú átt leik (gestapistill)

Ég sat við tölvuskjáinn úti í Árósum þar sem ég var í námi þegar allt hrundi, táraðist yfir að sjá hvernig komið var fyrir íslenskri þjóð en upp frá því kviknaði áhugi á því að leggja mitt lóð á vogarskálarnar við það að nýta þetta tækifæri til þess að bæta íslenskt samfélag og hag almennings.

 

Hvers vegna mótmælir fólk?

Undanfarin tvö ár hafa Íslendingar fjölmennt reglulega á Austurvöll, jafnvel í nístingskulda, kveikt elda og barið af öllum mætti í potta, pönnur, tunnur og ýmislegt fleira. Fólk hefur hent eggjum og látið óánægju sína í ljós með ýmsum hætti. Hvers vegna ætli fólk geri þetta? Jú, vegna þess að í núverandi stöðu eru þetta einu vopnin sem almenningur hefur. Minnstu munaði að yfir þjóðina yrði lagður ókleifur skuldaklafi vegna Icesave samninganna sem kostað hefðu þjóðina og komandi kynslóðir augun úr. Sem betur fer reis þjóðin upp og forseti landsins stöðvaði af mestu ólög sem farið hafa í gegnum Alþingi Íslendinga. Þessi atburður og margir aðrir sem tengjast hruni fjármálakerfisins hafa vakið þjóðina og upplýst þörfina fyrir það að endurskoða rammann um það samfélag sem við búum í, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

 

Sögulegt tækifæri

Þegar allt fer í þrot þá skapast gríðarlegt tækifæri til endurmats og vaxtar. Það tækifæri liggur hjá íslensku þjóðinni núna. Erfiðasta fólkið sem maður mætir á lífsleiðinni og erfiðasta lífsreynslan er í raun það sem maður ætti að vera þakklátastur fyrir því það gerir mann að því sem maður er. Þessu hefur Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, haldið fram. Við eigum einstakt tækifæri til þess að endurmeta grunngerð samfélags okkar og vaxa upp til blómlegri framtíðar. Margar af bestu stjórnarskrám heims hafa verið samdar upp úr hruni og kreppu. Margir mestu leiðtogar heims hafa einnig stigið fram á válegum tímum. Þetta er stórt og mikið samvinnuverkefni og við þurfum öll að leggjast á árarnar og vinna það saman.

 

Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott

Samfélag rúmlega 318 þúsund manna sem byggja eitt gjöfulasta land heims á að geta verið gott samfélag og þar eiga allir að geta haft það gott! Það hefur því miður ekki verið raunin. Gæðum landsins hefur verið mjög misskipt, sumir eiga milljarða en aðrir standa í biðröðum eftir mat. Þessu getum við breytt og þessu verðum við að breyta. Almenningur verður að snúa bökum saman og berjast fyrir betra Íslandi. Vel heppnað stjórnlagaþing er fyrsta skrefið inn í nýja framtíð. Ég vil meðal annars sjá þjóðareign á auðlindum sem ákvæði í nýrri stjórnarskrá og greinar sem stuðla að því að valdið liggi raunverulega hjá fólkinu eins og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og persónukjör.

 

Þjóðin á að kjósa um nýja stjórnarskrá áður en þingið tekur frumvarpið til meðferðar

Til þess að raunveruleg breyting náist fram verður lýðræðið að virka og valdið að liggja hjá þjóðinni sjálfri alla leið. Þegar drög að nýrri stjórnarskrá hafa verið samin af stjórnlagaþingi þarf þjóðin að greiða atkvæði um hvern kafla hennar og drögin í heild sinni áður en Alþingi fær málið til umfjöllunar.

 

Þú átt leik – taktu þátt í þvi að byggja betra Ísland og mættu á kjörstað á laugardag!

 

Kristbjörg Þórisdóttir,

frambjóðandi nr. 6582,

www.kristbjorg.wordpress.com

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Mánudagur 22.11.2010 - 21:47 - FB ummæli ()

Jafnt atkvæðavægi sjálfsögð mannréttindi (gestapistill)

Á Íslandi búum við ekki við þau grundvallarmannréttindi sem felast í jöfnu atkvæðavægi. Atkvæði vega ekki jafnt og í marga áratugi hefur verið deilt um jöfnun atkvæðisréttar. Því miður hefur andstæðingum þessa brýna máls tekist að gera þetta að deilumáli milli landsbyggðar og þéttbýlis á SV-horni landsins. Jöfnun atkvæðisréttar er hins vegar miklu stærra mál en hagsmunir landsvæða, því það snýst um að hver og einn kosningarbær maður hafi sama rétt til að kjósa og atkvæði hans hafi sama vægi.

Heildarhagsmunir eiga að ráða för

Í áranna rás hafa ýmsar breytingar verið gerðar á kosningakerfinu til að jafna atkvæðismun eftir landshlutum. Það hefur meðal annars verið gert með því fækkun og stækkun kjördæma. Enn hefur þó ekki tekist að gera landið að einu kjördæmi. Með því næst sá árangur að jafna út misvægi atkvæða og fullkominn jöfnuður næst milli kjósenda. Einnig verður kosningakerfið einfalt og auðskilið og stjórnmálaflokkarnir fá fulltrúa í samræmi við atkvæðismagnið sem þeir hafa fengið í kosningum. Veigamesta atriðið er hins vegar að í afstöðu þeirra til einstakra mála munu þingmenn láta heildarhagsmuni ráða för í stað þröngra kjördæmahagsmuna.

Þeir sem eru á móti jöfnun atkvæðisréttar benda á að ef þess konar kerfi verði tekið upp, aukist flokksræði og þingmenn fjarlægist kjósendur í dreifðari byggðum landsins og áhrif hinna dreifðari byggða á stjórn landsins minnki að sama skapi. Nú þegar eru kjördæmin orðin stór og þessar raddir heyrast í núverandi kerfi.

Jöfnuður óháð búsetu

Með því að gera landið að einu kjördæmi er stigið stórt skref í átt að auknum jöfnuði í þessu landi, öllum þegnum þess til góðs. Engin rök eru fyrir því að mismuna fólki eftir því hvar það er búsett í landinu. Því er það stór áskorun fyrir komandi stjórnlagaþing að leiðrétta hið mikla óréttlæti sem felst í óbreyttu kjördæmakerfi.

Þó ég sé sjálf búsett í Reykjavík í dag er ég alin upp á landsbyggðinni og er því meðvituð um mikilvægi hennar fyrir landið allt. Það verður að tryggja blómlega byggð á öllu landinu og þó ég vilji „einn maður eitt atkvæði“ þá verður að tryggja að staða landsbyggðarfólks verði ekki lakari en okkar sem búum á SV-horninu. Á sama tíma og ég berst fyrir því að gera landið að einu kjördæmi vil ég því að leitað verði leiða við að tryggja hagsmuni landsbyggðarinnar svo að þeir verði alltaf metnir að jöfnu við hagsmuni höfuðborgarsvæðisins.

Andi nýliðins þjóðfundar er að jafna eigi atkvæðisrétt og gera eigi landið að einu kjördæmi. Þetta er í samræmi við mínar skoðanir og mun þetta verða eitt af mínum baráttumálum á stjórnalagaþingi, nái ég kjöri.

Íris Lind Sæmundsdóttir,

frambjóðandi nr. 5108.

www.facebook.com/Iris.Lind.Stjornlagathing

www.irislind.net

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , ,

Sunnudagur 21.11.2010 - 23:46 - FB ummæli ()

Umhverfis- og almannaréttur í stjórnarskrá

Í gær svaraði ég spurningum fagfélags og hagsmunahóps varðandi afstöðu mína til að taka upp í stjórnarskrá umhverfisákvæði annars vegar og ákvæði um almannarétt hins vegar; ég tel rétt að birta spurningarnar og svör mín hér.

Spurningar Ferðafrelsisnefndar

Svohljóðandi bréf fékk ég í gær frá Ferðafrelsisnefnd sem er vinnuhópur á vegum Ferðaklúbbsins 4×4, Skotvís, Skotreyn, Slóðavina, Jeppavina og fleiri aðila sem tengjast ferðalögum og útiveru:

Í ljósi aukinnar ferðamennsku og vaxandi samkeppni um nýtingu landsins á ýmsa lund, þá finnst mörgum landsmönnum að hætta sé á að verulega verði þrengt að frjálsri för landsmanna um óbyggðir landsins.

Í III grein laga um náttúruvernd (1999 nr. 44 22. Mars ) er kveðið á um almannarétt, þ.e. rétt  almennings til ferðalaga og nýtingar. Ákvæði um almannarétt er reyndar að finna í fornum lagabálkum, svo sem Grágás og Jónsbók.

Ferðafrelsisnefnd hefur íhugað hvort ekki væri rétt að binda í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands rétt almennings til ferða um landið og nýtingu á svipaðan hátt og tilgreint er í lögum um náttúruvernd.

Á þjóðfundinum sem haldinn var þann 6.nóvember 2010 kom fram vilji fundarins til að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt. Jafnframt kom fram sá eindregni vilji fundarins  að almannahagsmunir væru ávallt í fyrirúmi og að stjórnarskráin skyldi vera fyrir fólkið í landinu. Við teljum að skýr ákvæði um almannarétt falli vel að þessum sjónarmiðum.

Spurningar ferðafrelsisnefndar

Svo spurði ferðaferlsisnefndin um afstöðu mína til þessa.

  1. Finnst þér rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar?
  2. Munt þú beita þér fyrir því að ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar verði sett í stjórnarskrá?

Svör frambjóðanda nr. 3249

Svör mín eru hér:

Finnst þér rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar?

Svar:

Já.

Röksemdir:

Til viðbótar við ágæt rök Ferðafrelsisnefndar í aðdraganda spurninganna, sem ég tek undir, hallast ég að því að stjórnarskrárbinding ákvæðis um almannarétt sé nauðsynleg í ljósi þess að slíkt ákvæði í náttúruverndarlögum – og áður í okkar fornu lögbókum, Grágás og Jónsbók – hefur ekki verið virt í raun af hálfu sumra landeigenda og því hefur lagaákvæðið ekki verið nægilega virkt í framkvæmd. Það að setja slíkt ákvæði í æðri lög – stjórnarskrána – er til þess fallið að laga þetta – almenningi í hag.

Þá spurði nefndin:

Munt þú beita þér fyrir því að ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar verði sett í stjórnarskrá?

Svar:

Já.

Röksemdir:

Ég vil gjarnan beita mér fyrir slíku ákvæði um almannarétt og í tengslum við það tryggja að slík ferðalög og nýting spilli ekki landi og landgæðum, sbr. m.a. hugmyndir mínar um umhverfisákvæði sem þessu tengist – en um það skrifaði ég einmitt fyrsta pistilinn á Eyjuna sem ég hef skrifað um stjórnarskrá og stjórnlög síðustu 5 vikur; sjá hér. http://blog.eyjan.is/gislit/2010/10/15/hvert-tre-35-000-kr-virdi/

Spurningar Félags umhverfisfræðinga

Félag umhverfisfræðinga á Íslandi (FUMÍ) gerði einnig könnun á afstöðu frambjóðenda til stjórnlagaþings til sérstaks umhverfisverndarákvæðis. Í skeyti félagsins segir að aðalfundur Félags umhverfisfræðinga sem haldinn var 25. september hafi samþykkt svohljóðandi ályktun:

Aðalfundur Félags umhverfisfræðinga á Íslandi hvetur til þess að í nýrri stjórnarskrá íslenska lýðveldisins verði fjallað sérstaklega um umhverfismál. Jafnframt hvetur fundurinn almenning til að horfa til frambjóðenda til stjórnlagaþings sem hafa umhverfismál á stefnuskrá sinni.

Til að fylgja ályktuninni eftir kveðst stjórn FUMÍ hafa ákveðið að kanna afstöðu frambjóðenda til hugmynda um að umhverfisverndarákvæði verði í endurskoðaðri stjórnarskrá. Því er spurt:

Munt þú styðja tillögur þess efnis að umhverfisverndarákvæði verði bætt við íslensku stjórnarskrána, náir þú kjöri til stjórnlagaþings?

Með umhverfisverndarákvæði er til dæmis átt við ákvæði um sjálfbæra þróun, um rétt almennings til heilnæms umhverfis, um umgengni við náttúru og umhverfi með tilliti til komandi kynslóða og um vernd villtra dýrastofna.

Tekið var fram að nöfn þeirra frambjóðenda sem hyggðust styðja tillögur um umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá yrðu birt á heimasíðu Félags umhverfisfræðinga www.umhverf.is<http://www.umhverf.is/>.

Svar mitt um umhverfisákvæði

Svar mitt er skýrt:

já.

Ítarleg rök mín og tillögu að slíku ákvæði má finna í fyrsta pistlinum af um 40 pistlum sem ég hef nú skrifað daglega á Eyjuna síðan ég ákvað um miðjan október sl. að gefa kost á mér til stjórnlagaþings; þann pistil má finna hér:

http://blog.eyjan.is/gislit/2010/10/15/hvert-tre-35-000-kr-virdi/

Að lokum tók ég eftirfarandi:

Hins vegar er ég opinn fyrir öðrum tillögum, viðbótum og breytingum, á þessari tillögu.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Laugardagur 20.11.2010 - 19:39 - FB ummæli ()

RÚV fyrir stjórnlagadómstól!

Ég vil taka undir gagnrýni og hrós Eyjufélaga minna og meðframbjóðenda í kjölfar þess að fréttist um miðjan dag í gær að Ríkisútvarpið (RÚV), útvarp í almannaþágu, ætlaði loks – viku fyrir kosningar til stjórnlagaþings – að fara að sinna framboðunum 522 og málefnaáherslum frambjóðenda.

Þá voru sumir reyndar farnir úr borginni – væntanlega m.a. í því skyni að ræða við kjósendur á landsbyggðinni!

Þarf breytingar – hverjar þá – og hvers vegna ég?

RÚV hóf sem sagt í dag upptöku allt að 522 stuttra viðtala við frambjóðendur um eftirfarandi spurningar:

Þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins núna?

–          Hverju helst?

–          Ef ekki – af hverju ekki?

Af hverju gefur þú kost á þér?

Það mun reynast mér létt verk að svara þessu – gjarnan eftir fleiri ábendingar frá lesendum og kjósendum – enda hef ég fjallað um stjórnarskrána í 20 ár og var því á heimavelli er ég lagði fyrst til stjórnlagaþing fyrir réttum tveimur árum. Mér líður eins og ég sé að fara í próf – en það fannst mér alltaf gaman ef ég þóttist kunna efnið vel.

Viðtalið við mig verður tekið upp snemma á mánudagsmorgun – og sent út [birt síðar] auk birtingar á vef RÚV að því er segir í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld.

Hvað ef ekki?

Niðurstaða RÚV felur í sér jákvæð – en síðbúin – viðbrögð við harðri gagnrýni frá fjölda frambjóðenda, bæði með undirskriftum og pistlum; þar á meðal skrifaði ég fyrir tæpri viku að slíkt tómlæti af hálfu RÚV stæðist hvorki lög né almenna skynsemi og lagði raunar til hugmynd að lausn. Í niðurlaginu sagði:

Áframhaldandi tómlæti RÚV stenst hins vegar hvorki lög né kröfur almennings.

Ég tel stjórnvöld og stjórnendur RÚV hafa viðurkennt réttmæti þessarar gagnrýni með því að ákveða að taka viðtöl við alla frambjóðendur eins og útvarpsstjóri tók raunar fram í fjölmiðlum í gær.

En hvað ef RÚV hefði áfram sýnt tómlæti gagnvart frambjóðendum og málefnaáherslum þeirra í bága við skýran lagabókstaf?

Engar afleiðingar?

Það hefði væntanlega ekki ógilt kosninguna miðað við íslenskar réttarreglur um kosningar – og enginn frambjóðandi hefði getað borið slíkt nægilega fljótt undir almenna dómstóla.

Ef við hefðum hins vegar haft stjórnlagadómstól – eins og ég lagði til í fjórða pistlinum í röð um dómsvaldið og dómstóla – þá hefði væntanlega verið hægt að bera neikvæða ákvörðun stjórnenda RÚV undir stjórnlagadómstól sem hefði e.t.v. fyrirskipað að RÚV skyldi sinna skyldum sínum í tæka tíð og e.t.v. með tilteknum hætti.

Stjórnlagadómstóll eitt af þremur helstu markmiðum frambjóðanda nr. 3249

Ef stjórnlagadómstóli yrði komið á fót – eða Hæstarétti falið það hlutverk eins og ég rökstuddi sem mína tillögu – hefðu hagsmunaaðilar (og í sumum tilvikum e.t.v. aðrir) getað borið það undir stjórnlagadómstól hvort svo þýðingarmiklu lýðræðisverkefni yrði aðeins sinnt með því að kynna þingið sjálft, aðdraganda þess og form – en ekki málefnaáherslur frambjóðenda.

Þess vegna er stjórnlagadómstóll eitt af mínum þremur helstu stefnumálum sem frambjóðandi nr. 3249.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

Föstudagur 19.11.2010 - 20:54 - FB ummæli ()

Upphafin umræða (gestapistill)

Þorsteinn Pálsson lét svo um mælt á dögunum, að umræðan um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá hefði að sumu leyti verið upphafin – og það skilaði ekki árangri. Sjálfur vildi hann horfa á þetta frá „praktískari sjónarmiðum”, því að ekki þurfi að stofna nýtt ríki, gera byltingu, þótt okkur hafi mistekist. Stjórnarskráin væri ekki orsök hrunsins og hefði ekki leitt til stjórnskipulegra árekstra.

Þorsteinn Pálsson er lögfræðingur og gamalreyndur stjórnmálamaður með kalt höfuð – og kalt hjarta og gerir sér ekki grein fyrir því, hversu mikilsvert það er, að almenningur sýni endurskoðun stjórnarskrárinnar lifandi áhuga, auk þess sem óbreyttur almúginn vill bæta samfélagið og endurreisa lýðveldið eftir mesta áfall í 65 ára sögu þess, eins og glögglega hefur komið fram á tveimur þjóðfundum.

Andstætt því sem Þorsteinn Pálsson segir, tel ég mikilsvert, að umræðan um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá sé upphafin – „sett til virðingar” – eins og merkingin að baki orðinu upphafinn segir til um. Umræðan verður að koma frá heitu hjarta því að „maður sér ekki vel nema með hjartanu – það mikilvægasta er ósýnilegt augunum“, eins og segir í bókinni Litli prinsinn eftir franska skáldið Antoine de Saint-Exupéry. Heitt hjarta er líklegra til að bæta böl en kaldur hugur, svo ég segi ekki kaldhyggja stjórnmálamanna og gamalla lögfræðinga.

Þorsteinn Pálsson segir, að ekki þurfi að gera byltingu og stofna nýtt ríki, þótt okkur hafi mistekist. Mergurinn málsins er hins vegar sá, að bylting var gerð í samfélaginu fyrir tveimur áratugum með því að gefa glæframönnum nýfrjálshyggju lausan tauminn. „Okkur” mistókst ekki, heldur siðblindum „athafnamönnum” og ófyrirleitnum útrásarvíkingum. Kjarklitlir og jafnvel getulitlir stjórnmálamenn létu svo “praktísk sjónarmið ráða” og horfðu aðgerðarlausir á.

Meirihluti þjóðarinnar vill breyta stjórnarskránni á komandi stjórnlagaþingi til þess að gera grundvallarreglur þjóðfélagsins skýrar og breyta þeirri hugsun og þeirri afstöðu sem ríkt hefur. En stjórnlagaþingi bíður mikill vandi – meiri vandi en öllum samkomum og þingum sem haldin hafa verið á Íslandi frá upphafi og meiri vandi en Alþingi hefur staðið frammi fyrir í sögu lýðveldisins. Allir menn, karlar og konur, ungir og gamlir til sjávar og sveita verða því að sameinast um að sýna kosningu til stjórnlagaþings áhuga og virðingu – meiri virðingu en Alþingi nýtur nú. Þá er von til þess að virðing Alþingis aukist einnig.

Tryggvi Gíslason,

frambjóðandi nr. 6428 til stjórnlagaþings.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

Fimmtudagur 18.11.2010 - 23:29 - FB ummæli ()

Forseti Íslands – forseti þingsins!

Eitt af því sem margir frambjóðendur til stjórnlagaþings – og kjósendur – hafa skoðun á og telja að þurfi að breyta er staða, hlutverk og jafnvel tilvist forseta Íslands. Það hef ég líka – og hef átt góðar rökræður undanfarið við kjósendur og meðframbjóðendur um málið.

Ég ætla hér að kortleggja stuttlega litróf þeirra skoðana sem heyrst hafa – og lýsa afstöðu minni:

  • Sumir vilja afnema embætti forseta Íslands; það vil ég alls ekki – nema eitthvað jafngott eða helst betra komi sannanlega í staðinn – m.a. réttur minnihluta Alþingis og tiltekins hlutfalls kjósenda til þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Slíkur réttur á ekki aðeins að vera neikvæður – til þess að hafna lögum eða stjórnarathöfnum – heldur líka jákvæður – til þess að leggja til nýjar eða breyttar stjórnarráðstafanir eða nýmæli í löggjöf.
  • All margir vilja halda forsetaembættinu óbreyttu og þá helst hverfa aftur til þess tíma þar sem forsetinn var fyrst og fremst sameiningartákn sem sátt ríkti um og beitti ekki þeim fáu valdheimildum sem stjórnarskráin felur honum óumdeilanlega – þ.e. málskotsrétti og eftir atvikum umsjón með myndun ríkisstjórnar í kjölfar kosninga til Alþingis; ég er ekki sannfærður um þennan kost – einkum afturhaldsafbrigðið enda tel ég núverandi forseta einmitt hafa staðið undir væntingum mínum er ég kaus hann 1996, þ.e. að vera sá öryggisventill sem hann á að vera og sýndi með beitingu synjunarheimildar 2004 og 2010. Ég sé m.ö.o. ekki alveg tilganginn í að kjósa sérstakan þjóðhöfðingja sem sé einungis „til skrauts“ þó að ég vilji ekki gera lítið úr sameiningartáknhlutverki hans og „diplomatisku“ hlutverki hans gagnvart öðrum þjóðum; það er bara ekki nóg.
  • Einhverjir vilja auka hlutverk forseta lýðveldisins lítillega; ég er í þeim hópi þó að ég sé vissulega til viðræðu um alla rökstudda valkosti. Eins og einn af mínum helstu ráðgjöfum hefur bent á er eitt hlutverk, sem ekki er nægilega sinnt nú, sem mætti að mínu mati fela forseta Íslands – a.m.k. við tilteknar aðstæður; það er að stýra fundum Alþingis þegar sérstaklega stæði á – og jafnvel vera forseti Alþingis. Fyrirmyndina má m.a. finna í öldungadeild þings Bandaríkja Norður-Ameríku en þar er varaforsetinn oddviti og hefur oddaatkvæði. Rök fyrir þessu nýja hlutverki felast m.a. í þeirri langvinnu, óslitnu og miklu gagnrýni sem Alþingi hefur fengið fyrir að vera talið – með réttu eða röngu – „í vasanum“ á ríkisstjórn sem hérlendis hefur oftast haft meirihluta þingsins sér að baki. Að mínu mati hefur þessi gagnrýni – bæði frá stjórnarandstöðu, fjölmiðlum og fólkinu í landinu – oft verið réttmæt og oftast skiljanleg. Henni mætti mæta með því að forseti Íslands stjórnaði þingfundum og dagskrá Alþingis af meira hlutleysi en stjórnarandstaðan hefur stundum talið forseta úr röðum stjórnarliða gera.

Enn dregið úr „ráðherraræði“

Með þessu mætti enn draga úr því ráðherraræði, sem margir gagnrýna, en ég hef þegar skrifað um tvær aðrar lausnir til að draga úr því – þ.e. að

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur