Sunnudagur 17.10.2010 - 21:08 - FB ummæli ()

Lögskylt samráð í stjórnarskrá?

Eitt uppáhalds orðið – og fyrirbærið – mitt er „samráð.“ Hjá sumum hefur það auðvitað óheppilegan blæ enda hefur samráð fyrirtækja um verð, markað o.fl. verið bannað að viðlagðri refsingu a.m.k. frá því að samkeppnislög voru sett hér 1993 – enda þótt meginákvæði laganna noti reyndar annað hugtak.

Ég hef langa og góða reynslu af lögmætu samráði – bæði úr störfum mínum í þágu stúdenta, launafólk og neytendur í hálfan annan áratug, svo og úr einkalífi og félagsstarfi; víða er samráð ekki bannað – heldur þvert á móti æskilegt, rótgróið og jafnvel áskilið eða lögboðið, t.d. víða í vinnumarkaðsmálum sem hefur verið lengsti starfsvettvangur minn.

Vernd þeirra sem veikar standa

Í þessum þriðja pistli mínum um stjórnarskrármálefni í aðdraganda stjórnlagaþings vil ég fjalla um hvort rétt sé að áskilja einhvers konar samráð í stjórnarskrá umfram það sem þegar er. Í fyrsta pistlinum fjallaði ég um hvort rétt væri að setja í stjórnarskrá ákvæði um umhverfisvernd, sameign auðlinda og sjálfbæra nýtingu. Í öðrum pistlinum greindi ég mannréttindaákvæði – ekki aðeins hin hefðbundnu frelsisréttindi heldur fremur hin „jákvæðu“ sem fela í sér réttindi þeirra sem standa lakar að vígi en aðrir borgarar.

Spyrja má – úr því að stefna beri að umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá og fyrst mannréttindi ýmissa hópa, sem eru veikir fyrir, eru þegar tryggð í stjórnarskrá – hvort hið sama eigi ekki að gilda um aðra hópa sem eiga á brattann að sækja í viðskiptum sínum við sterkari aðila, t.d. gagnvart atvinnurekendum!

Samningsréttur launafólks stjórnarskrárvarinn

Úr þessu var reyndar þegar bætt árið 1995 hvað launafólk varðar þegar svohljóðandi nýmæli var bætt í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar við heildarendurskoðun hans:

Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.

Þetta er að mínu mati afbragðsákvæði – sem ég vitnaði gjarnan til er ég var framkvæmdarstjóri Bandalags háskólamanna (BHM) 1998-2005 og einnig sem lögmaður samtakanna í dómsmálum þar sem það átti við; fáir aðrir virðast hafa gert slíkt hið sama því endurtekin könnun á dómasafni Hæstaréttar í dag sýnir að aldrei virðist hafa verið vitnað til ákvæðisins í dómsforsendum í 15 ára sögu þess og eru vinnumarkaðsmál þó all nokkur. (Félagsdómur býður ekki upp á sams konar leit en hann er sérdómstóll sem dæmir um mörg vinnumarkaðsmál.)

Hvað með neytendur?

Ég er ekki einn af þeim sem telja að öll aðskiljanlegustu (áhuga)mál skuli tekin upp í stjórnarskrá og afgreidd þar, efnislega, enda kveður stjórnarskrá gjarnan fremur á um form og bærni – svo sem æðstu stjórn ríkis og takmörkun á valdi þess gagnvart borgurunum. Þarna kann hins vegar að vera góð fyrirmynd að ákvæði sem gæti a.m.k. stuðlað að því að hagsmunir og réttindi neytenda (og e.t.v. fleiri hópa sem eiga á brattann að sækja) yrðu betur tryggð – þ.e. að áskilja einhvers konar samráð við til þess bæra fulltrúa neytenda þegar settar eru nýjar reglur um neytendamál eða reglum, sem varða neytendur, er breytt.

Á þetta skortir enn nokkuð á – rétt eins og reynsla mín af vinnumarkaðsmálum var lengi sú að fyrr, betur og meira var haft samráð við fulltrúa atvinnurekenda en sambærilega fulltrúa launafólks. Þetta mat mitt kann að vísu að nokkru leyti að stafa af því að ég starfaði fyrir „litla bróður“ á þeim vettvangi því að BHM er bæði yngra og minna en hin heildarsamtökin, ASÍ og BSRB, en BHM er nú komið betur á kortið að því er virðist – enda var lengi fyrir því barist.

Tala ekki bara við banka og útvegsmenn

M.ö.o. velti ég því upp hvort skynsamlegt sé að setja í stjórnarskrá ákvæði sem tryggi að jafnt samráð sé haft við þá sem gæta andstæðra eða illsamrýmanlegra hagsmuna og réttinda. Það myndi hafa í för með sér að löggjafanum og þeim sem hafa frumkvæði að löggjöf eða nýjum reglum, svo sem þingnefndum og ráðherrum, væri beinlínis skylt að leita jafn snemma og álíka mikið eftir sjónarmiðum annarra en sterkra hagsmunasamtaka atvinnurekenda, svo sem hlutaðeigandi samtök neytenda.

Sama gæti e.t.v. átt við þegar náttúran ætti í hlut, sbr. nánar pistil minn frá í fyrradag. Þá mætti hafa þetta í huga varðandi aðra hópa sem standa lakar að vígi, sbr. til hliðsjónar pistilinn frá í gær.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Laugardagur 16.10.2010 - 23:20 - FB ummæli ()

Jákvæð og neikvæð mannréttindi (örnámskeið í stjórnlagafræði)

Nú bjóða hundruðir Íslendinga – fæstir sem betur fer lögfræðingar – sig fram til fyrsta stjórnlagaþings í sögu okkar (ef frá er talinn Þjóðfundurinn 1851 – „Vér mótmælum allir“).

Í því skyni að hinir þjóðkjörnu fulltrúar verði ekki ofurseldir áhrifum frá löglærðum sérfræðingum stjórnlagaþings vona ég að sem flestir frambjóðenda og kjörinna þingfulltrúa kynni sér eftir megni grunnatriði í stjórnlögum Íslands – bæði það sem er (gildir) og því sem betur má fara (pólitík). Reyndar væri ágætt að einn og einn sérfræðingur í stjórnlagafræði eða stjórnskipunarrétti byði sig einnig fram og yrði kjörinn – til þess að meðal þingfulltrúa sjálfra verði fyrir hendi sjálfstæð þekking til þess að (endur)meta kenningar, skoðanir og ráð hinna ráðnu sérfræðinga.

Hér langar mig hins vegar að leggja til málanna smávægilega grunnþekkingu á stjórnarskránni okkar fyrir þá sem hafa áhuga og metnað til þess að sitja stjórnlagaþing.

Stjórnarskrá er annars vegar um stjórnkerfi og hins vegar um mannréttindi

Stjórnarskráin skiptist í megindráttum í tvennt. Annars vegar fjallar hún æðstu stjórn ríkisins, hvernig völd skiptast milli mismunandi valdþátta, hvernig handhafar þeirra valdþátta eru valdir og hvernig samskiptin milli þeirra eru; um þetta ætla ég ekki að skrifa frekar að þessu sinni.

Hins vegar kveður stjórnarskráin eins og flestar slíkar á um svonefnd mannréttindi – en þar er í raun ákveðið hvert samband ríkisvaldsins annars vegar og borgaranna hins vegar skuli vera; þetta síðarnefnda er meginefni pistils þessa.

Mannréttindi eru í stórum dráttum af tvennum toga – annars vegar réttur til frelsis frá afskiptum eða íhlutun ríkisins gagnvart borgurunum, svonefnd frelsisréttindi eða neikvæð réttindi, og hins vegar réttur til einhvers frá ríkinu, oft nefnt jákvæð mannréttindi eða félagsleg réttindi. Mörg þessara réttinda eru gömul og vel viðurkennd að stofni til; önnur eru nýrri – og e.t.v. sambland af þessu tvennu, t.d. réttur til sanngjarnrar málsmeðferðar fyrir dómstólum og stjórnarskrárvarinn réttur launafólks til þess að semja um kjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.

Neikvæð frelsisréttindi

Fyrrnefndu réttindin eru eldri að stofni til – oft kölluð borgaraleg réttindi og eiga uppruna sinn í kenningum sem áttu að lokum þátt í að gerðar voru stjórnarbyltingar í Frakklandi og Bandaríkjunum seint á 18. öld og svo í kjölfarið á fyrri hluta 19. aldar í nokkrum ríkjum Evrópu; segja má að þessir straumar hafi loks náð til okkar Íslendinga þegar hinn danski konungur okkar færði okkur stjórnarskrána frá 5. janúar 1874 sem ekki er mikið breytt að stofni til síðan. Meðal þessara réttinda – er kveða, sem sagt, einkum á um rétt til frelsis frá afskiptum handhafa ríkisvalds – eru sígild réttindi borgarastéttar þróaðra ríkja frá þessum tíma, svo sem atvinnufrelsi, eignarréttur, tjáningarfrelsi (framan af prentfrelsi) fundafrelsi og félagafrelsi. Síðar – í okkar tilviki með stjórnarskrárbreytingum frá 1995 – var bætt við réttindum, sem okkur flestum finnast nú sjálfsögð, svo sem réttur til lífs – þ.e. bann við dauðarefsingum – og frekari útfærsla á rétti til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

Jákvæð eða félagsleg réttindi

Hin réttindin – sem margir lögfræðingar hafa framan af litið fremur niður á, gleymt eða gert minna úr – eins og málshöfðanir lögmanna og niðurstöður dómstóla sums staðar benda til – eru nýrri í sögunni en að mínu mati jafn rétthá í grunnatriðum. Þau fela í sér rétt til einhvers frá ríkinu og hafa oft gleymst í lögfræðilegum rannsóknum, lagakennslu og framkvæmd laganna af hálfu lögmanna og þar með dómara. Það var eiginlega ekki fyrr en með svonefndu öryrkjamáli um aldamótin síðustu að þeim réttindum var veitt eitthvert inntak hérlendis – og olli það nokkrum jarðskjálfta þjóðfélagslega séð eins og margir muna.

Félagsleg réttindi eru líka stjórnarskrárvarin

Í slíkum ákvæðum er – og hefur í sumum tilvikum reyndar lengi verið – kveðið á um réttindi á borð við eftirfarandi:

  • Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.
  • Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.
  • Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Undirstrika ég hér að ofan þau fremur fortakslausu orð eða hugtök sem benda til þess að framfylgja beri réttindum þessum sem öðrum – en þau hugtök eða orð sem eru heldur matskennd skáletra ég; þeim er sammerkt að inntakið getur þróast eftir efnum og aðstæðum þjóðfélagsins. Athyglisvert er samræmið um að í öllum þremur tilvikum er sameiginlegt með stjórnarskrárákvæðum þessum að þar er kveðið á um að í þessum tilvikum

  • skuli (ekki bara megi eða gjarnan),
  • tryggður (ekki bara stefnt að),
  • réttur eða vernd og umönnun (ekki bara ósk eða umsókn),
  • til handa öllum (ekki bara sumum eða eða eftir mati nema að því leyti sem ákvæðin fela í sér mat) og, loks, að
  • skylda þessi hvíli á löggjafanum sjálfum (en ekki aðeins sveitarfélögum eða ráðherrum með reglugerð).

Eins og áherslumerkingar mínar sýna og upptalningin í kjölfarið áréttar er ekki um nein sýndarréttindi eða óljós loforð að ræða þó að inntakið þurfi að skilgreina hjá pólitískum valdhöfum, þ.e. fyrst og fremst löggjafanum. Í því felst bæði réttur og skylda Alþingis í núverandi stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Föstudagur 15.10.2010 - 22:17 - FB ummæli ()

Hvert tré 35.000 kr. virði!

Í kurteisisheimsókn á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands frétti ég af merkum dómi Hæstaréttar frá í gær – sem hafði farið fram hjá mér. Ég hef ekki séð umfjöllun um hann í fréttum – en vil lýsa ánægju með hann; í málinu, sem fjallað var um á sínum tíma, var Kópavogsbæ stefnt vegna yfirgangs þáverandi bæjaryfirvalda. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að Kópavogsbær var dæmdur til þess að greiða tæpar 20 millj. kr. til Skógræktarfélags [Reykjavíkur] vegna þess að nær 560 tré í Heiðmörk voru eyðilögð við gerð vatnsveitu. Dómurinn er fróðlegur og sannfærandi að flestu leyti; hið eina sem ég leyfi mér að efast um er hvort smásöluvirði trjánna – og þar með fjárhagleg nýting hins eyðilagða trjágróðurs – sé eina eða nærtækasta viðmiðunarverð dæmdra skaðabóta en þær efasemdir tengjast meginefni pistilsins.

Fjárhagslegir mælikvarðar varla þeir einu

Þess vegna set ég til einföldunar í fyrirsögn að hvert tré var metið á um 35.000 kr. að meðaltali í mati dómkvaddra matsmanna sem bæði héraðsdómur og Hæstiréttur féllust á með vel rökstuddum forsendum – enda eru flestir gildir mælikvarðar í okkar kerfi enn fjárhagslegir (eins og fjallað var um á fróðlegan og gagnrýnan hátt í hádegiserindi dr. Rögnu Benediktu Garðarsdóttur í Háskóla Íslands í gær: „Er betra að gráta í Mercedes Benz eða hlæja á hjóli? Neyslusamfélög og efnishyggja nútímans“ – en það er nú útúrdúr).

Dómurinn er í fyrsta lagi í samræmi við rótgrónar en að miklu leyti óskráðar meginreglur norræns skaðabótaréttar – um að sá, sem veldur öðrum tjóni á saknæman hátt, skuli bæta fjárhagstjón sem af þeirri háttsemi leiðir með sannanlegum og fyrirsjáanlegum hætti. Í öðru lagi staðfestir málið sterka stöðu eignarréttar í íslensku réttarkerfi og sjálfri stjórnarskránni – en eignarréttindi eru meðal þeirra hefðbundnu mannréttinda sem njóta hvað sterkastrar stöðu miðað við önnur mannréttindi sem einnig eru stjórnarskrárvarin. Síðast – en ekki síst – vekja málaferlin mig í þriðja lagi til umhugsunar um atriði, sem fyrrum lærifaðir minn, dr. Gunnar G. Schram prófessor heitinn, varð víst meðal þeirra fyrstu til þess að vekja athygli á og Hjörtur Torfason, fyrrverandi hæstaréttardómari, hefur einnig nefnt á lögfræðiráðstefnum:

Er þörf á að að náttúran eða umhverfið njóti sérstakrar stjórnarskrárverndar?

Veikur fyrir umhverfisverndarákvæði

Ég er veikur fyrir þessari áleitnu spurningu.

Í fyrsta lagi er það vegna þess að sem skógræktarmaður tel ég umhverfið og gæslu þess, viðhald og sjálfbæra nýtingu eiga að njóta sérstakrar verndar.

Í öðru lagi hef ég um 15 ára reynslu af því að gæta réttinda og hagsmuna þeirra sem hafa gjarnan veikari stöðu en atvinnurekendur og aðrir fulltrúar peningavalds – þ.e. f.h. stúdenta, launafólks og neytenda; það ber misjafnan árangur – og hafa þessir hópar þó sjálfstæða rödd og oft ágæta fulltrúa en umhverfið hefur ekki sjálfstæða rödd.

Í þriðja lagi var ég einn 3ja fulltrúa í nefnd á vegum forsætisráðherra snemma árs 2009 sem falið var að semja á örfáum vikum fyrir alþingiskosningar í apríl í fyrra frumvarp til breytinga á stjórnarskránni sem bæði fól í sér stjórnarskrárvarið stjórnlagaþing og ýmis efnisákvæði, svo sem eftirfarandi ákvæði um umhverfis- og auðlindamál (en frumvarpið náði því miður ekki fram að ganga vegna málþófs þingmanna Sjálfstæðisflokksins):

Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.

Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.

Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.

Mikilvægt atriði á stjórnlagaþingi

Nú í aðdraganda stjórnlagaþings er álita- og  umræðuefni hvort setja beri einhvers konar ákvæði í framtíðarstjórnarskrá okkar Íslendinga um að umhverfið sé mikilvægt verndarandlag, sameign okkar allra og að sjálfbær nýting sé áskilin.

Eða viljum við að umhverfið (t.d. tré, sem tekur áratugi að rækta með alúð og árvekni) njóti aðeins verndar laganna ef einhver á það – sem ekki er ávallt raunin? Vissulega nýtur umhverfið nokkurrar réttarverndar vegna refsiákvæða sem geta samkvæmt sérlögum leitt til refsiábyrgðar sé því spillt – en mitt mat er að sú vernd sé veik og tilviljunarkennd, m.a. vegna þess að opinbert eftirlit með almannahagsmunum er oft brotakennt.

Því spyr ég:

Hvað finnst þér?

***

Hér má kynna sér fróðlegar og traustvekjandi forsendur dóms Hæstaréttar frá í fyrradag.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Sunnudagur 10.10.2010 - 23:58 - FB ummæli ()

„Við gefumst upp“

Þegar ég var unglingur bjó ég í Danmörku og heyrði sögur af því (1986) hvernig hinn gáfaði öfgamaður, Mogens Glistrup, hefði valdið jarðskjálfta við kosningar 1973. Eitt það skemmtilegasta sem haft var eftir þessum ultrahægrimanni var að leggja ætti niður danska herinn (sem entist reyndar ekki nema nokkrar klukkustundir gagnvart Þjóðverjum 9. apríl 1940 meðan Norðmenn börðust í margar vikur) og setja í stað þess í sparnaðarskyni upp símsvara er skyldi svara – á rússnesku:

Við gefumst upp.

Þetta kom mér í hug er ég var viðstaddur áhugaverða málstofu Seðlabanka Íslands í liðinni viku um eftirfarandi efni:

Peningastefnan í aðdraganda hrunsins og skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis.

Á málstofunni voru annars einkum hámenntaðir hag- og viðskiptafræðingar – og, að mig grunar, flestir innan kerfis – og fyrirlesturinn og spurningar eftir því. Ég hjó þó eftir því að fyrirlesarinn, dr. Lúðvík Elíasson, var óvenju berorður – þannig að jafnvel leikmaðurinn ég þóttist skilja; efnislega sagði hann – í stuttu máli, sbr. þó glærurnar til ítarefnis (og vonandi síðar fyrirlesturinn sjálfan í heild, skrifaðan eða upp tekinn):

  • Mikil mistök voru gerð við upptöku nýrrar gengisstefnu 2001.
  • Seðlabankinn og stjórnvöld önnur féllu í nær allar gildrur sem hægt var í kjölfarið.
  • Um og upp úr árunum 2005-6 tók Seðlabanki Íslands virkan þátt í að veita íslenskum fjármálafyrirtækjum innistæðulaus ástarbréfalán í gríðarlegum og sívaxandi mæli – sem hefði átt að veita þeim, sem sáu – eða áttu að horfa á – mælana, næg tilefni til þess að bregðast við, með einhverjum hætti.

Ekki nægir að mínu mati til sýknu að spyrja á móti: „hvað átti að gera?“ Það var hlutverk hinna færu, hálaunuðu og valdamiklu sérfræðinga og stjórnenda að bregðast við í tæka tíð og finna út hvað átti að gera – og hvernig og hvenær.

Úr því að það var ekki gert reynt kann íslenska ríkið að hafa bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart tjónþolum – þ.m.t. íslenskum neytendum.

Við þetta tækifæri datt mér Mogens Glistrup í hug; til hvers að hafa seðlabanka – ef hann sinnir ekki hlutverki sínu og virðist hvorki fær um það né hafa til þess vilja?

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Sunnudagur 19.9.2010 - 23:59 - Lokað fyrir ummæli

Metur Landsdómur þingmenn vanhæfa?

Árið 1987 kvað Hæstiréttur upp dóm um að handhafi ákæruvalds væri vanhæfur til þess að gefa út ákæru í sakamáli; rökin voru að bróðir ríkissaksóknara var meðal þeirra sem til álita gat komið að rannsaka og ákæra í sama máli. Í þessum pistli ætla ég – vitaskuld með málefnalegum rökum að vanda – að fjalla um hvort hið sama geti hugsanlega átt við um einhverja af þeim 63 alþingismönnum og -konum, sem alla jafna fara fyrst og fremst með löggjafar- og eftirlitsvald gagnvart æðstu handhöfum framkvæmdarvaldsins, ráðherrum, en þurfa nú að taka afstöðu til þess hvort ákæra eigi ráðherra – fjóra, þrjá eða engan – fyrir Landsdómi!

Ég óttast að gerð verði óþarfa formleg mistök á ögurstundu ef hlutaðeigandi meta ekki hæfi sitt og víkja í einhverjum tilvikum sæti í nokkra daga af Alþingi meðan málinu er ráðið til lykta. Þetta sjónarmið hef ég raunar fyrir nokkru leitast við að kynna óformlega fyrir lykilþingmönnum úr öllum flokkum.

Vel rökstutt að mínu mati…

Ég árétta að 7 af 9 þingmönnum, sem best og lengst eiga að hafa kynnt sér þetta erfiða mál, vilja ákæra nokkra þáverandi ráðherra fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð vegna vanrækslu á árinu 2008 í aðdraganda hrunsins eins og ítarlega er rökstutt í fyrrnefndu tillögunni, sem gengur lengra; er sá rökstuðningur að mínu mati afar vel unninn og sterkur frá lagalegu sjónarmiði – en það er aukaatriði í þessum pistli. Í frávikstillögunni um að undanskilja einn fyrrverandi ráðherra er það einnig rökstutt málefnalega – enda þótt að ég telji að þau rök eigi fremur að leiða til refsilækkunar, skilorðsbindingar eða jafnvel sýknu – af hálfu Landsdóms. Ófært er að handhafi ákæruvalds „sýkni“ í svo alvarlegu máli eins og ég hef rökstutt áður.

… en matsatriði

Augljóst er að í allri handhöfn ákæruvalds – og dómsvalds – er mat lykilatriði, málefnaleg mat og rökstutt. Þess vegna eru hæfisreglur strangari þar en annars staðar, t.d. í stjórnsýslunni. Af þeim sökum bjó Hæstiréttur til nýtt fordæmi 1987 – að mínu mati afar skynsamlegt og, að ég held, fremur óumdeilt meðal lögfræðinga um að handhafi ákæruvalds – í því tilviki ríkissaksóknari – yrði að vera hafinn yfir vafa um vanhæfi er hann gæfi út ákæru.

Ég vek sérstaka athygli á að það, sem virðist greina á milli þeirra, sem vilja láta ákæra, og hinna, sem ekki vilja ákæra, er

  • hvort sú pólitíska ábyrgð, sem þegar er fram komin að hluta, er nægilegt viðbragð eða
  • hvort nú sé tíminn til þess að láta reyna á hina lagalegu ábyrgð sem lengi hefur verið fyrir hendi og á allra vitorði, sem eiga í hlut, og er margra alda hefð fyrir og byggist auk þess á lögum sem reglulega og nýlega hafa verið uppfærð; ég aðhyllist síðarnefndu skoðunina eins og greina má – en það er aukaatriði miðað við aðalatriðið um að hæfissjónarmiða sé gætt.

Bróðir hugsanlegs sakbornings í Hafskipsmáli vanhæfur

Um var að ræða svonefnt Hafskipsmál – sem tengdist Útvegsbankanum – þar sem bróðir ríkissaksóknara var bankaráðsmaður á því tímabili sem um ræðir; Hæstiréttur var ekki að segja að ákæra hefði átt bróðurinn – enda fór víst svo að hann var sýknaður fyrir dómi síðar eins og fleiri sem ákærðir voru af þeim ríkissaksóknara sem settur var í hans stað til þess að ljúka þessu máli.

Hlýðum á rök hins reynda sakadómara – sem síðar varð farsæll hæstaréttardómari – en á þau féllust fjórir af fimm hæstaréttardómurum án viðbóta eða athugasemda (H 1987:1146):

Fyrir liggur, að Jóhann S. Einvarðsson, bróðir Hallvarðs Einvarðssonar ríkissaksóknara, tók sæti í bankaráði Útvegsbanka Íslands 1. janúar 1985 og sat í því uns bankanum var með lögum breytt í hlutafélagsbanka á sl. vori, sbr. lög nr. 7, 1987.

Skv. 12. gr. laga nr. 12, 1961 um Útvegsbanka Íslands hafði bankaráð yfirumsjón með starfsemi bankans og ljóst er af ákvæðum sömu laga um starfsskyldur bankastjórnar og erindisbréfi bankastjóra, að eftirlitsskylda bankaráðsins með starfsemi bankans er rík.

Svo sem fyrr er rakið eru ákærðu í máli þessu saksóttir fyrir að hafa misgert stórlega við Útvegsbanka Íslands með því að leggja fyrir hann röng eða villandi gögn og að hafa með sviksamlegum hætti náð að auka skuldir Hafskips hf. við bankann um samtals rúmlega 400 milljónir króna á árun um 1984 og 1985. Fer ekki hjá því, að mál þetta hlýtur að varða mjög bankaráð Útvegsbankans enda liggur fyrir að málefni Hafskips hf. voru oft til umræðu og umfjöllunar á fundum ráðsins á árinu 1985.

Með hliðsjón af ofanrituðu verður að líta svo á, að Hallvarður Einvarðsson ríkissaksóknari sé þannig skyldur einum bankaráðsmanni Útvegsbankans, að skv. grundvallarreglum 3. og 7. tl. 36. gr. laga nr. 85, 1936 mætti hann eigi gegna dómarastörfum í máli þessu og því hafi ekki verið rétt skv. 22. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 74, 1974 að hann fjallaði um ofangreindar sakir. Enda þótt ákæran snúist og um önnur atriði, sem ekki tengjast hagsmunum Útvegsbanka Íslands, er eðlilegast að um þessi efni öll sé fjallað í einu máli og því þykir rétt að vísa ákærunni í heild sinni frá dóminum af þessum sökum.

Í þessu fordæmi frá Hæstarétti fólst, sem sagt, útfærsla á hinni matskenndu hæfisreglu um dómara sem nú enn er í lögum þar sem segir nú að handhafi ákæruvalds sé eins og handhafi dómsvalds vanhæfur til þess að fara með mál:

ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.

Á annað við um stjórnskipulegt vanhæfi?

Þess vegna tel ég vafasamt að fallast á gagnsjónarmið að um stjórnskipulegu stigi gildi ávallt önnur lögmál – enda er handhöfn ákæruvalds af hálfu þjóðþings að mínu mati eðlislík handhöfn þess á stjórnsýslustigi embættismannakerfis þó að sérsjónarmið um Landsdóm séu af stjórnskipulegum og sögulegum ástæðum fyrir hendi; vissulega gildir aðeins ein sett vanhæfisregla í lögum um þingmenn sem handhafa síns reglubundna valds – og varðar það ekki löggjafarvaldið heldur fjárveitingarvaldið því þeir mega ekki skv. lögum um þingsköp Alþingis „greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín.“

Þá sé ég ekki grundvallarmun á því hvort handhafi ákæruvalds er einn – að frátöldu starfsfólki undir stjórn ríkissaksóknara – eða 63 enda getur vanhæfi starfsmanns, sem undibýr ákæru eða annað stjórnsýslumál, valdið ógildi þess samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga. Ef ég væri lögmaður eins hinna ákærðu, ef til þess kemur, fyrir Landsdómi myndi þessi röksemd vera sú fyrsta sem ég bæri fram – og myndi hún ónýta málatilbúnaðinn fram að miðjum september 2010, ef fallist yrði á hana, þannig að Alþingi, fyrrverandi ráðherrar og þjóðfélagið allt þyrfti að fara í gegnum þennan málatilbúnað allan að nýju – eins sársaukafullt og það er. Með því að víkja sæti í nokkra daga meðan máli þessu er ráðið til lykta geta þeir þingmenn, sem gegndu (lykil)ráðherraembættum, á árinu 2008 einfaldað lyktir málsins með afar málefnalegum hætti. Ég leyfi mér því vinsamlegast að leggja það til í þjóðarþágu.

Á ég að gæta bróður míns?

Í mínum huga er hugsanlegt að þessi dómur komi til álita við mat á hæfi þingmanna sem handhafa ákæruvalds gagnvart Landsdómi vegna ráðherraábyrgðar. Ef handhafi ákæruvalds er vanhæfur vegna álitamála, er varða bróður hans, hlýtur að koma til álita að maður víki sæti ef hann sjálfur kemur til álita við mat á hvort og gegn hverjum á að höfða opinbert sakamál. Ef þingmenn, sem hugsanlega eru vanhæfir, víkja ekki sæti nú óttast ég að málið ónýtist eins og reyndar hafa komið fram spár um af öðrum ástæðum. Um leið og ég árétta að ekkert þarf að vera athugavert við að vera vanhæfur – t.d. vegna tengsla við aðila máls eða málefnið – ítreka ég því ábendingu um að þeir sem kunna að vera vanhæfir víki sæti við meðferð þessa máls. Á mannamáli:

Annars verður ákvörðun um hugsanlega ákæru fyrir Landsdómi ekki trúverðug.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , ,

Laugardagur 11.9.2010 - 17:00 - FB ummæli ()

Meðábyrgð ein tegund ábyrgðar

Í tilefni dagsins vil ég árétta þá fráviksreglu sam talin

er gilda í lagaframkvæmd varðandi handhöfn ákæruvalds að þegar embættismenn, t.d. lögreglumenn, eigi í hlut eigi að ákæra ef möguleiki sé á sakfellingu meðan meginreglan er að ekki skuli ákæra (borgara) ef ekki eru meiri líkur en minni á sakfellingu. Þetta sjónarmið ríkir til þess að fyrirbyggja vantraust þess efnis að valdhafar og fulltrúar þeirra njóti sérmeðferðar og að betra sé að dómstólar sýkni en að handhafar ákæruvalds felli niður mál á fyrri stigum. Ég tel ótvírætt að sama sjónarmið eigi við hér – enda þótt vitaskuld reyni ekki oft á það í 106 ára sögu ráðherraræðis Íslendinga.

Þetta er úr pistli mínum frá 2. maí sl. sem hér má lesa í heild.

Sniðganga er vanræksla og meðábyrgð er ein tegund ábyrgðar

Þar rökstuddi ég hví Landsdómur ætti að koma saman enda ætti Alþingi að ákæra 4 fyrrverandi ráðherra, þ.m.t. fyrrverandi utanríkisráðherra; niðurlagið er svohljóðandi:

Er útilokað að sannleikurinn felist öðrum þræði í þeirri skuggastjórnun og sniðgöngu sem þáverandi utanríkisráðherra var aðalleikari í? Nei; Landsdómur verður að skera úr – enda er meðábyrgð ekki undanskilin í ábyrgð.

Fyrr náum við ekki endurreisn en við tökumst á við allar meinsemdir og ákærumalla sem við á. Þar geta þeir, sem hér og víðar eru bornir sökum, einnig varið hendur sínar með réttum hætti – eins og þáverandi viðskiptaráðherra benti þegar á 12. apríl sl.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Sunnudagur 5.9.2010 - 20:52 - FB ummæli ()

Sjálftaka er ekki lögvarin; taka tvö

[Í fjölmiðlum undanfarið hafa margir undrast] hvernig réttnefnd sjálftaka gæti staðist. Samfélagið ólgar í kjölfar þess að skilanefndarfólk, skiptastjórar og lögmenn virðast geta skammtað sér – ef ekki verkefnin sjálf þá greiðslur fyrir þau.

Fyrsta árs laganemi veit betur

Svo er ekki – eins og ég ætla að rekja hér út frá þremur vel þekktum meginreglum lögfræðinnar. Það sem ég undrast er að stjórnendur hjá hinu opinbera og kjörnir fulltrúar virðast ekki vita betur; þó er þetta eitthvað sem laganemar læra yfirleitt strax á fyrsta ári!

Dómarar, stjórnendur og kjörnir fulltrúar eiga lögum samkvæmt að gæta þess f.h. almennings og eftir atvikum kröfuhafa að ekki sé farið á svig við eftirfarandi reglur.

Vanhæfi

Fyrst vil ég nefna svonefndar hæfisreglur – sem gilda um alla opinbera starfsemi, bæði stjórnendur og starfsmenn ríkis samkvæmt stjórnsýslulögum, dómara og skiptastjóra samkvæmt réttarfarslögum og aðra opinbera sýslunarmenn – t.d. lögmenn – skv. öðrum lögum. Ekki ætti að þurfa að eyða löngu púðri í að rökstyðja frekar að slíkir aðilar geti ekki samið við sjálfa sig eða sína um verk eða verðmæti – enda hafa forstjórar misst starfið fyrir þvíumlíkt. Ekki stenst heldur að þeir sem hafa komið að viðskiptum stjórni uppgjöri þrotabús eða öðru uppgjöri.

Samningsfrelsi?

Ummæli efnahags- og viðskiptaráðherra [fyrr á árinu] er hann var spurður um þessi mál – um að afskipti handhafa ríkisvalds af „launum“ á frjálsum markaði séu liðin tíð – virðast á misskilningi byggð. Annars vegar í ljósi vanhæfis samkvæmt ofangreindu; menn geta ekki samið við sjálfa sig eða tengda aðila. Hins vegar er ljóst að einhver sjálfstæður aðili þarf að

  • panta verk eða semja um það og
  • meta og samþykkja greiðslur fyrir það.

Almennt hljóta stjórnendur og kjörnir fulltrúar hjá ríki og sveitarfélögum að gæta þess að gerðir séu verksamningar – gjarnan og í stærri tilvikum að undangengnu útboði eða auglýsingu – um inntak og umfang verks; þar má ekki láta staðar numið því væntanlega er samið um heildarverð eða tímagjald og fjölda stunda eða áætlun um tímafjölda! Þetta geri ég jafnan – í smáu og einkum stóru – bæði sem almennur neytandi, stjórnandi o.s.frv. Á að gera minni kröfur til hins opinbera?

Samningsfrelsið er nefnilega tvíhliða – ekki einhliða; slíkt héti sjálftaka – og stenst ekki lög.

Reglan um sanngjarnt endurgjald

Í einhverjum tilvikum kann – af einhverjum ástæðum, í undantekningartilvikum og þá t.d. vegna hraða atvika – að hafa farist fyrir að semja um endurgjald fyrir verk; sem dæmi má nefna að kvöldið sem neyðarlögin svonefndu voru sett 6. október 2008 og nóttina á eftir gafst ekki tími til þess að semja um tímagjald við sérfræðinga sem skyndilega voru kallaðir til. Fljótlega í kjölfarið hefði hins vegar átt að ganga frá verksamningi – til lengri eða skemmri tíma. Ég trúi ekki að sjálftaka líðist án athugasemda meðan á verkinu stendur. Víða í íslenskum lögum er sú lagaregla staðfest sem hefur verið við lýði í aldir, kemur úr svonefndum Rómarrétti og er kennd við sanngjarnt endurgjald, precium justum; svona er hún t.d. í einum íslenskum lagabálki:

Ef kaup eru gerð án þess að kaupverðið leiði af samningi skal kaupandi greiða fyrir söluhlut það gangverð sem er á sams konar hlutum, seldum við svipaðar aðstæður, við samningsgerðina, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Ef ekki er um neitt slíkt gangverð að ræða skal kaupandi greiða það verð sem sanngjarnt er miðað við eðli hlutar, gæði hans og atvik að öðru leyti.

Yfir 2000 ára gömul regla gleymd?

Þetta er ekki „bara“ einhver siðaregla; þetta er gildandi og bindandi lagaregla sem er að finna bæði í fjölmörgum lagabálkum og er einnig óumdeild sem óskráð meginregla. Hún gildir ekki aðeins í svonefndum neytendamarkaðsrétti. Stjórnendur – bæði hjá hinu opinbera og á frjálsum markaði – og ekki síður kjörnir fulltrúar eiga að þekkja þessa reglu – og framfylgja henni. Allir lögfræðingar, sem væntanlega gefa ólöglærðum stjórnendum og kjörnum fulltrúum ráð, þekkja þessa reglu. Ef ekki er farið eftir henni í samskiptum við verksala (t.d lögmenn og skilanefndir) framfylgja dómstólar henni ef málið er réttilega borið undir þá. Auk þess er þessi regla, sem sagt, búin að vera í gildi í yfir 200o ár og er kennd á fyrsta ári í lagadeild.

Ég segi bara:

Hvað er málið?

***

Að gefnu tilefni er pistill þessi, birtur 21. febrúar 2010, endurbirtur nú – óbreyttur nema hvað varðar nokkur orð, sem eru innan hornklofa og varða tímasetningar, enda er tilefnið ærið og óbreytt ástand þótt ekki hafi verið tekið mark á þessu í fyrra skiptið.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Fimmtudagur 17.6.2010 - 07:00 - Lokað fyrir ummæli

Áhrif gengisdómanna og viðbrögð

Eins og alþjóð má vita voru í gær kveðnir upp tveir dómar í Hæstarétti, af fimm einhuga hæstaréttardómurum, í málum milli eignarleigufyrirtækja og neytenda vegna svonefndra bílalána. Neytendur höfðu sigur í málunum – sem einkum lutu að (ó)lögmæti svonefndra gengislána eða myntkörfulána. Í því skyni að upplýsa neytendur um álitaefni og tæk svör og til þess að undirbúa væntanlegt samráð við stjórnvöld um eðlileg viðbrögð vil ég strax birta þetta yfirlit yfir hugsanleg viðbrögð við dómunum og álitaefni varðandi áhrif þeirra.

 

Reyndar var einnig í gær í Hæstarétti kveðinn upp dómur sem í héraði var úrskurðaður á grundvelli svipaðs ágreiningsefnis milli banka og lögaðila, af þremur dómurum; Hæstiréttur tekur hins vegar ekki undir forsendur héraðsdóms að neinu leyti – heldur staðfestir hann aðeins niðurstöðu úrskurðar héraðsdóms en á grundvelli formlegra réttarfarsatriða en ekki efnisatriða, sbr. síðar.

 

Byggt á þremur röksemdum – vannst á fyrstu

Málsástæður eða lagarök lögmanna neytenda í báðum málunum voru þrenns konar:

  1. Gengisbundin lán í íslenskum krónum væru ólögmæt.
  2. Forsendubrestur hefði orðið vegna gengisfalls og gengishruns í kjölfar bankahruns.
  3. Víkja ætti lánssamningunum til hliðar þar sem ósanngjarnt væri nú vegna síðari atvika og mismunandi stöðu aðila að bera þá óbreytta fyrir sig.

Hæstiréttur féllst ótvírætt og án fyrirvara á fyrstu röksemdina. Af því leiðir í fyrsta lagi að enn á eftir að reyna á sjónarmið um forsendubrest og svonefnda ósanngirnisreglu 36. gr. samningalaga – t.d. í annars konar málum, sem ekki falla undir fordæmisgildi þessara dóma. Í öðru lagi má leiða af dómsforsendum að dómarnir hafa nokkuð víðtækt fordæmisgildi eins og ég mun leitast við að greina í kjölfarið.

Möguleg viðbrögð við dómunum

Áður en ég tel stuttlega upp þau álitaefni er vakna við dómana – og ég mun leitast við að svara eða taka afstöðu til – vil ég í stuttu máli greina hugsanleg (æskileg og síður æskileg) viðbrögð sem geta orðið við dómunum af hálfu handhafa almannavalds og neytenda sjálfra; leitast ég við að raða þeim nokkurn veginn upp í forgangsröð með besta kost að mínu mati fyrst og þann lakasta síðast:

 

  1. Stjórnvöld viðhafa á næstu dögum víðtækt samráð um hugsanlega löggjöf til uppgjörs og útfærslu dómanna (eins og boðað hefur verið af hálfu fjármálaráðherra og krafist af mér) – þ.m.t. við sjálfstæða fulltrúa neytenda á borð við talsmann neytenda – sem gætir réttmætra hagsmuna neytenda af útfærslu dómanna og lögin verði samþykkt af Alþingi í júnílok.
  2. Gerðardómur í anda tillagna og tilmæla talsmanns neytenda frá í fyrra, skipaður fulltrúum kröfuhafa og neytenda, leggi til útfærslu á uppgjöri á næstu vikum.
  3. Strax verði sett afturvirk lög um hópmálsókn (og jafnvel einnig flýtimeðferð) til þess að reka nokkur uppgjörs- eða önnur prófmál fyrir almennum dómstólum á næstu vikum.
  4. Ef ófullnægjandi viðbrögð – hvað varðar tímasetningar, inntak eða samráð varðandi nýja löggjöf til uppgjörs eða útfærslu gengisbundinna lánasamninga – verða af hálfu stjórnvalda og sátt næst ekki um löggjöf til útfærslu á uppgjöri munu eignarleigufyrirtæki hugsanlega freista þess að höfða ný dómsmál til þess að leysa úr því ágreiningsefni hvort eitthvað annað getur komið í stað þeirrar gengistryggingar sem Hæstiréttur hefur dæmt ólögmæta, sbr. um mína greiningu á því álitaefni hér að neðan; Hæstiréttur leysti ekki úr því álitaefni eins og héraðsdómur gerði í þriðja dóminum sem nefndur var að ofan.

Ef svo ólíklega og illa fer að fjórði möguleikinn verði raunin mun ég væntanlega ráðleggja neytendum almennt hvernig þeir geta brugðist við til varnar svo að þeir fái knúið á um löglegt og réttmætt uppgjör sinna lánasamninga í stað þeirra einhliða, nokkuð seinfæru og ófullnægjandi úrræða sem hingað til hafa einkum staðið til boða – án þess að eiga á hættu að fyrirgera rétti sínum eða ofgreiða frekar en orðið er.

 

Hugsanlegur 5. valkostur er að til þess bærir aðilar kanni hvort unnt er að fá lagt lögbann við áframhaldandi, óbreyttri innheimtu gengisbundinna bíla- og væntanlega íbúðarlána samkvæmt sérlögum – en þennan valkost kynnti ég óformlega sem möguleika gagnvart þeim samtökum og stjórnsýsluaðilum sem hafa heimild til þess að óska slíks lögbanns sl. haust, áður en fyrri héraðsdómurinn gekk um að gengislán væru lögmæt.

Til greina kemur eitthvert sambland af ofangreindum kostum eða samspil þeirra.

 

Yfirlit yfir álitaefni sem vakna

Næst vil ég telja upp helstu álitaefni sem ég greini í dóminum og hann ýmist svarar – beint eða óbeint – eða vekur upp. Allt eru þetta að mestu leyti svonefnd lagaatriði nema 2. tl. sem varðar sönnun á staðreyndum og að hluta til 1. tl.; á því að vera unnt að gefa vísbendingu um rökstutt svar án þess að skoða gögn og gera fyrirvara um atvik í ríkum mæli. Dómarnir svara beint fyrstu þremur ágreiningsefnunum. Önnur má ráða af dómunum en sum eru meira álitaefni; ég mun leitast við að svara þeim hér eða á öðrum vettvangi – t.d. www.talsmadur.is – á næstunni en mér sýnist á umfjöllun fjölmiðla fyrsta hálfa sólarhringinn eftir dómsuppkvaðningu að helst verði spurt – og deilt – um 10. álitaefnið hér að neðan, sem ég mun því leitast við að svara fljótt fyrir mitt leyti:

  1. Er um að ræða samninga um peningalán eða samning um leigu á bifreið?
  2. Er um að ræða lán í íslenskum krónum, bundið gengisviðmiðum, eða lán í erlendri mynt?
  3. Er slíkt lán lögmætt?
  4. Hafa dómarnir fordæmisgildi gagnvart sambærilegum íbúðarlánum í íslenskum krónum sem bundin eru gengisviðmiðun?
  5. Hafa dómarnir þýðingu fyrir annars konar lán, t.d. lán sem eru sannanlega í erlendri mynt, sambærileg lán með ólíka skilmála eða „venjuleg verðtryggð“ lán í íslenskum krónum?
  6. Við hvað skal miða við uppgjör samkvæmt endurgreiðslurétti neytenda sem hafa greitt of mikið miðað við dómsforsendur – ýmist við enduruppgjör þegar (of)greiddra greiðslna í slíkum samningum eða endurupptöku heildaruppgjörs þegar (of)greiddra samninga?
  7. Eru eignarleigufyrirtæki (og bankar) bótaskyldir vegna fullnustugerða (t.d. fjárnáms eða uppboðs) á grundvelli lánssamninga sem nú teljast ólögmætir samkvæmt dómum Hæstaréttar?
  8. Eru kröfuhafar bótaskyldir vegna vörslusviptinga sem átt hafa sér stað án þess að réttarfarslögum hafi verið fylgt?
  9. Hafa neytendur, sem ekki hafa gert fyrirvara við uppgjör eða skilmálabreytingar á gengisbundnum lánum, glatað rétti sínum?
  10. Hvaða áhrif hafa dómar Hæstaréttar á greiðslur framvegis í viðvarandi samningum um lán í íslenskum krónum, sem gengistryggðir hafa verið með ólögmætum hætti?
  11. [Viðbætur eftir ábendingu kl. 19:30: Þá þarf væntanlega að tryggja með lögum að neytendur, sem hafa farið á vanskilaskrá vegna lána sem eru gengistryggð með ólögmætum hætti, verði teknir út af henni – t.d. með því að slík fjárnám verði endurupptekin sjálfkrafa af hálfu sýslumanns.
  12. Einnig að þarf að skylda dómstóla með lögum til þess að endurskoða sjálfkrafa öll slík skuldamál sem dæmd hafa verið án þess að neytendur hafi mætt og tekið til varna, þ.e. svonefndar áritaðar stefnur.]
  13. [Viðbót 26.6.’10 eftir spurningu blaðamanns: Eru væntanlegar endurgreiðslukröfur til handa neytendum vegna ofgreiðslu að einhverju leyti fyrndir samkvæmt lögum?]
  14. [Viðbót 26.6.’10 í samræmi við fræðilega umfjöllun sérfræðings í kröfurétti sem birtist á vef talsmanns neytenda nk. sunnudag, 27.6.’10: Hvaða áhrif hafa reglur fullnusturéttarfars, kröfuréttar og laga um samningsveð varðandi skilyrði fyrir því að lán teljist skuldabréfalán og fyrir því að veð stofnist og fjárám megi gera?]
  15. [Viðbót 26.6.’10: Er hugsanlegt að refsiviðurlög samkvæmt laga um vexti og verðtryggingu komi til álita og þá gagnvart hverjum?]
  16. [Viðbót 2.7.’10 eftir samráð við Samtök fjármálafyrirtækja: Hvaða áhrif hefur það á uppgjör vegna hugsanlegra ofgreiðslna til fjármálafyrirtækja að skuldaraskipti hafa áhtt sér stað við eiganedaskipti að veðandlagi gengistryggðs láns?
  17. Hver er réttarstaða eiginlegra rekstrarleigusamninga, þ.e. sem ekki eru í raun lán miðað við fordæmi Hæstaréttar?
  18. Er  hægt að notast við geymslugreiðslu af hálfu neytenda samkvæmt lögum um geynslufé og að hve miklu leyti og að uppfylltum hvaða skilyrðum?]
  19. [Viðbót 2.7.’10 eftir spurningu frá neytanda: Hver er réttarstaða „blandaðra“ samninga, þ.e. virðast vera verðtryggðir í íslenskum krónum að hluta en gengistryggðir að öðru leyti?]

 

Spurningin sem brennur á öllum

Megin ágreiningsefnið, miðað við fréttir sem þegar hafa birst, er –  sem sagt skv. 10. tl. – þetta:

 

Áður en ég leitast við að svara þessu álitaefni – helst ekki síðar en á morgun – vil ég, alveg án skuldbindingar, telja upp þær hugmyndir, sem ég hef heyrt nefndar – fyrir og eftir uppkvaðningar dómanna í Hæstarétti í gær; ég árétta að í upptalningunni felst ekki að ég telji að þær hugmyndir séu allar frambærilegar, hvað þá réttmætar, sem valkostir.

Nefndir – en alls ekki allir tækir – kostir

Í stað ólögmætrar gengistryggingar komi:

  1. ekkert; aðeins skuli greiða það sem eftir stendur af endurreiknuðum höfuðstól miðað við umsamda vexti;
  2. „venjuleg verðtrygging“ en þó með tilteknu hámarki auk umsaminna vaxta;
  3. „venjuleg verðtrygging“ auk umsaminna vaxta;
  4. „venjuleg verðtrygging“ og almennir vextir skv. 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu;
  5. almennir óverðtryggðir vextir skv. 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu;
  6. „venjuleg verðtrygging“ auk álags og umsaminna vaxta;
  7. „venjuleg verðtrygging“ auk álags og almennra vaxta skv. 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu.
  8. [Viðbót 26.6.’10 eftir ábendingu lögfræðings: Eru almennir vextir af skaðabótakröfum, nú 5,5% skv. 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu nærtækari en almennir vextir óverðtryggðra (nú 8,25%) eða verðtryggðra (nú 4,80%) skuldabréfalána?]

Það skal áréttað að Hæstiréttur skar ekki úr þessu álitaefni í áðurtilvísuðum þriðja dómi en í úrskurði héraðsdóms var tekið skýrt fram að „annars konar verðtryggingu“ mætti ekki reikna í stað ólögmætrar gengisviðmiðunar.

 

[Viðbót eftir ábendingu kl. 19:30: Þá er spurning hvort rökstyðja má ólíka nálgun gagnvart gengisbundnum íbúðarlánum annars vegar, þar sem tekin voru há lán, til áratuga nærri hápunkti húsnæðisbólunnar, og bílalánum hins vegar þar sem mun lægri fjárhæðir eru yfirleitt teknar, til skemmri tíma og bifreiðaverð í sögulegu lágmarki um það leyti.]

 

Lagaákvæði um vaxtaviðmiðun í endurgreiðslu

Að því er endurgreiðsluréttinn, sbr. 6. tl. hér að ofan, er hugsanlegt að gildandi lög – þau sömu og kveða á um ólögmæti gengisviðmiðunar – veiti vísbendingu um hvernig leysa beri úr álitaefninu að því er varðar endurgreiðslurétt neytenda (en ekki er þar með sagt að sú vaxtaviðmiðun sé nærtæk varðandi áframhald gildandi samninga sem ekki hafa verið (of)greiddir).

Í 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu segir:

Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.

 

Í 4. gr. sömu laga segir:

Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

Í 10. gr. laganna segir:

Lánastofnunum ber að tilkynna Seðlabanka Íslands um öll vaxtakjör og breytingar á þeim í því formi og með þeim fyrirvara sem Seðlabankinn krefst.

Seðlabankinn skal fyrir lok hvers mánaðar birta í Lögbirtingablaði vexti af óverðtryggðum og verðtryggðum útlánum skv. 4. gr. og vexti af skaðabótakröfum skv. 8. gr. og skal hver tilkynning lögð til grundvallar í samræmi við lög þessi næsta mánuðinn eða uns næsta tilkynning birtist. Jafnframt skal Seðlabankinn birta í Lögbirtingablaði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr., þ.e. grunn dráttarvaxta og vanefndaálag. Seðlabankinn skal um hver áramót birta í B-deild Stjórnartíðinda töflu er sýnir vexti samkvæmt þessari málsgrein á hverjum tíma á næstliðnu ári.

Auk vaxta skv. 2. mgr. getur Seðlabankinn birt í Lögbirtingablaði aðra vexti lánastofnana.

Ábendingar vel þegnar

Ég mun, sem sagt, reyna að svara stóru spurningunni (10. tl.) ekki síðar en á morgun, föstudag, og öðrum smám saman þegar kostur gefst. Í millitíðinni þigg ég gjarnan ábendingar um fleiri spurningar, valkosti eða álitaefni – svo og tilgátur um svör.

 

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Miðvikudagur 9.6.2010 - 22:26 - FB ummæli ()

8 leiðir að stjórnlagaþingi?

Hér vil ég gera grein fyrir

  • fræðilegum kostum í stjórnlagaþingsmálinu,
  • mati mínu á raunhæfum valkostum í því efni og
  • ágiskun minni um hvaða aðilar aðhyllist hvern þeirra,

uppraðað frá íhaldssemi til róttækni; ég vona að mér fyrirgefist stikkorðin fremst í upptalningunni þó að sum þeirra kunni að vera nokkuð gildishlaðin – en þó rökstudd:

  1. Afturhald. Engra breytinga sé þörf á stjórnskipan landsins. Þennan valkost tel ég ótækan. Hann aðhyllast íhaldssömustu öfl landsins, líklega einkum í Sjálfstæðisflokknum en hugsanlega einnig í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði (VG) – og jafnvel í Framsóknarflokknum og hjá fólki utan flokka en síst í Samfylkingu, að því er ég tel.
  2. Íhald. Ekki hafi verið sýnt fram á að nokkurra breytinga sé þörf á stjórnarskránni enda ekkert um það fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnskipan okkar sé orsök hrunsins eða ástæða vanda okkar Íslendinga; í mesta lagi sé rétt að allir flokkar og öfl sameinist um að breyta því hvernig stjórnarskránni er breytt (79 .gr. stjskr.). Þetta er óraunhæfur valkostur að mínu mati því að flestir eru ósáttir við þessa stefnu. Þetta virðist vera mat núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins og hugsanlega nokkurs hluta hinna þriggja eldri flokkanna.
  3. Varfærni. Breytinga sé vissulega þörf á stjórnarskránni – þó að ekki séu allir á einu máli hvaða breytinga er (helst) þörf – en of róttækt sé að láta sverfa til stáls gagnvart íhaldi og afturhaldi með því að stofna í andstöðu við þessi öfl til bindandi stjórnlagaþings; því sé rétt að láta við það sitja að ráðgefandi, þjóðkjörið stjórnlagaþing komi saman og geri tillögur til Alþingis – sem hafi lokaorðið samkvæmt gildandi stjórnarskrá (79. gr. stjskr.). Þetta tel ég líklega ekki nægilegt til að fullnægja kröfu meginþorra þjóðarinnar – m.a. þeirra sem ekki eru virkir í flokksstarfi eða meðvitaðir um flóru þessara kosta – um sjálfstæðar umbætur á „kerfinu.“ Þessi tillaga virðist þó afstaða ráðandi stjórmálaafla, þ.e. ríkisstjórnarinnar og a.m.k. þeirra í þingflokkum Samfylkingar og VG sem hafa tjáð sig – auk a.m.k. eins þingmanns Framsóknarflokksins og hugsanlega einhverra sjálfstæðisþingmanna; miða ég þar við fyrirliggjandi ríkisstjórnarfurmvarp sem nú er til umfjöllunar (öfugt við hið fyrra sem ég átti aðild að og hið fyrsta sem ég samdi og lutu bæði að bindandi stjórnlagaþingi, sbr. 8. tl.).
  4. Lýðræðisleg varfærni. Ekki sé meginmálið hvort stjórnlagaþing er bindandi eða ráðgefandi – heldur hvort og hvernig almenningi, sem ekki situr á stjórnlagaþingi, gefst kostur á að koma að mótun nýrrar stjórnarskrár. Að mínu mati er þetta raunhæfur valkostur þó að ég sé reyndar of róttækur eða of mikill efahyggjumaður á þessu sviði til þess að aðhyllast þennan kost. Þessi kostur er meginatriði í málflutningi þingmanna Hreyfingarinnar (og nýtur líklega fylgi víðar án þess að ég þekki það).
  5. MR-leið. Við ættum að nýta okkur þá sérfræðiþekkingu sem við búum yfir og kalla saman þjóðfund með aðstoð helstu sérfræðinga á sviðinu til þess að koma saman og leggja til úrbætur. Þetta er að mínu mati alger söltun á umbótahugmyndum og í sama stíl og fjöldi stjórnarskrárnefnda (sem að vísu voru skipaðar alþingismönnum en ekki öðrum eins og hér virðist gert ráð fyrir) og betra að sleppa þessu í bili frekar en að fela sérfræðingum að leggja til nýja stjórnarskrá í samráði við svonefndan þjóðfund. Þessi stefna virðist nýverið fram komin af hálfu Sjálfstæðisflokksins til þess að sætta – eða þæfa – málið!
  6. Upplýsingastefna. Góð reynsla sé af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) og því ættum við að fela nokkrum valinkunnum, sérfróðum einstaklingum, sem Alþingi tilnefnir eða kýs, til þess að koma með tillögu að nýrri stjórnarskrá (sem Alþingi þarf væntanlega að fjalla um og staðfesta eða breyta eða hafna). Að mínu mati er þetta einhver ólýðræðislegasti kosturinn í boði – enda í anda upplýsts einveldis;  RNA lagði aðeins mat á staðreyndir og ályktaði af þeim en var ekki falið að leggja til bindandi æðstu lög til frambúðar, jafnvel til áratuga! Þessa frumlegu tillögu hefur Þráinn Bertelsson, þingmaður utan flokka, kynnt óformlega í ræðum og víðar og vill örugglega vel (en tillagan lýsir vantrausti á lýðræði að mínu mati).
  7. Málamiðlunarhugmynd. Ljóst sé að þeir róttækustu fallast ekki á mismunandi útgáfur af ráðgefandi stjórnlagaþingi sem lýst er að framan en að sinni náist ekki sátt um róttækustu tillöguna (í 8. tl.); því sé rétt að fallast á að stjórnlagaþing sé formlega ráðgefandi en hafi í raun úrslitavald með því að tillaga þjóðkjörins stjórnlagaþings verði send beint í (ráðgefandi) þjóðaratkvæði þannig að Alþingi hafi fyrst og fremst formlegan staðfestingarrétt. Fallist þjóðin á tillögu stjórnlagaþings muni hvorki einstakir þingmenn né þingflokkar treysta sér til þess að hafna tillögunni (einkum ef samþykkið er með yfirgnæfandi meirihluta). Þetta er hugsanleg málamiðlunartillaga ef allir aðilar láta af ítrustu hugmyndum sínum til íhalds eða róttækni. Þetta er hugmynd sem kom upp í samtölum mínum í gærkvöldi – og ég gæti íhugað í því skyni að ná bæði sáttum og árangri. Ég þykist vita að fleiri frjálslyndir umbótasinnar aðhyllist þessa lausn.
  8. Róttæk umbótastefna. Upprunaleg hugmynd mín (sem ég hef samið eitt frumvarp um í nafni þingflokks Framsóknarflokksins og verið meðhöfundur að öðru í umboði allra flokka nema Sjálfstæðisflokks) lýtur að því að sjálfstæðu, þjóðkjörnu stjórnlagaþingi verði – í eitt skipti – falin stjórnarskrárvarin heimild til þess að gera tillögu til þjóðaratkvæðis að nýrri stjórnarskrá, að höfðu samráði við Alþingi. Samþykki þjóðin – sem á vitaskuld síðasta orðið – tillöguna sé hún bindandi stjórnarskrá með þeim gildistíma, efnisákvæðum og breytingarákvæðum sem tillagan sjálf felur í sér. Þetta er raunhæfur valkostur að mínu mati; ella hefði ég ekki lagt hann til 28. nóvember 2008 á fundi hjá lýðræðisnefnd Framsóknarflokksins, fengið hana samþykkt í nefndinni í desember 2008 og á flokksþingi í janúar 2009 – og í kjölfarið fengið það hlutverk frá þingflokknum í janúar 2009 að semja frumvarp um málið. Þessa tillögu aðhyllist ég enn; hana studdu þá Framsóknarflokkurinn auk vinstriflokkanna 2ja sem Framsóknarflokkurinn varði vantrausti frá 1. febrúar 2009 auk þingmanna Frjálslynda flokksins sem þá áttu fulltrúa á Alþingi. Ég held að stór hluti kjósenda aðhyllist þessa hreinu, sjálfstæðu umbótaleið. Sjálfstæðisflokkurinn einn var á móti og stöðvaði framgang frumvarpsins með málþófi vorið 2009.

Ég hef reynt að lýsa kostunum, valkostunum og því hverjir fylgja þeim án þess að láta mína skoðun hafa áhrif en sem upphafsmaður bindandi stjórnlagaþings er vitaskuld ekki hægt að fullyrða að það hafi tekist! Ég hef vitaskuld oft lýst persónulegri afstöðu minni á opinberum vettvangi og víðar. Þá leyfði ég mér undirstrikun undir meginatriði besta kostsins að mínu mati í 8. tl.

PS Ef ég hef gleymt einhverjum meginkostum eða misskilið einhverja þigg ég gjarnan leiðréttingar – einkum um efni máls – svo og leiðbeiningar til lausnar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

Sunnudagur 30.5.2010 - 22:54 - Lokað fyrir ummæli

Stjórnlög í þjóðarumboði

Danakonungur færði okkur stjórnarskrá, einhliða – í boði danska stjórnlagaþingsins 1848-9 fyrir rúmum 135 árum, 1874. Ég tel rétt að við Íslendingar endurmetum stjórnlög Dana á þessum tímamótum.

Lykilatriði í mínum tillögum hafa verið eftirfarandi:

  1. Sjálfræði. Stjórnlagaþing hafi stjórnarskrárvarið umboð til þess að leggja til endurbætur á stjórnskipan ríkisins og aðeins þjóðin sjálf geti samþykkt þær tillögur eða hafnað – ekki Alþingi.
  2. Hæfi. Á stjórnlagaþingi sitji aðeins þjóðkjörnir fulltrúar með atkvæðisrétt; fulltrúar hagsmunasamtaka geti þó haft áheyrnaraðild og málfrelsi – en ekki atkvæðisrétt.
  3. Traust. Enginn þingmaður, ráðherra eða fulltrúi stjórnmálaflokks eigi sæti á stjórnlagaþingi.
  4. Umboð. Þjóðkjörnir fulltrúar ráði ráðum sínum með aðstoð sérfræðinga sem ráðnir verði til aðstoðar; sérfræðingum verði ekki falið að sjá um málið og fá stimpil stjórnlagaþings.
  5. Sjálfstæði. Stjórnlagaþing hafi frelsi til þess að leggja til við þjóðina breytingar á stjórnskipan landsins án fyrirmæla eða afskipta ríkisstjórnar eða Alþingis.

Fyrirliggjandi tillaga ríkisstjórnarinnar virðist aðeins uppfylla kröfur 2. og 3. tl.

Endurskoðun stjórnarskrá er þjóðarnauðsyn

Þó að ýmsar réttarbætur hafi fylgt stjórnarskrá Danakonungs – og haldist – höfum við ekki enn endurmetið hana í heild og grunn, sjálf – út frá eigin forsendum, sögu og aðstæðum. Stjórnmálaleiðtogar hafa í ártugi heykst á að breyta stjórnarskránni í grundvallaratriðum og bera sjálfstætt undir þjóðina; því verðum við að taka valdið til þess í eigin hendur. Þingið – þar sem stjórnmálaflokkar ríkja – er þess ekki umkomið. Líkja má þessu við vanhæfisreglur; við semjum ekki ein eða einhliða eigin ráðningarsamning eða erindisbréf; það gerir vinnuveitandinn a.m.k. með okkur – í þessu tilviki þjóðin og fulltrúar hennar.

Aðalatriðið er að þjóðin fái – eða, réttara sagt, taki sér – vald til þess að setja samfélaginu nýja stjórnarskrá – eins og ég lagði fyrst til fyrir hálfu öðru ári. Flestir tóku vel í þá tillögu; eina stóra álitamálið í upphafi var hvort vettvangurinn ætti að heita „stjórnlagaþing“ í anda erlendra fyrirmynda eða „þjóðfundur“ eins og árangurslítil fyrirmynd okkar frá 1851.

„Ráðgefandi“ stjórnlagaþing er markleysa

Enginn virtist mér í upphafi deila um að stjórnlagaþing ætti að hafa raunverulegt umboð þjóðarinnar – nema íhaldið sem eyðilagði málið með málþófi á Alþingi í fyrravor. Nú virðist mér að sitjandi ríkisstjórnin hafi gefist upp fyrir andófinu; hún hampar „ráðgefandi“ stjórnlagaþingi – sem er markleysa að mínu mati. Það er aðeins enn ein stjórnarskrárnefndin úti í bæ – á borð við þær sem mistekist hefur áratugum saman að endurskrifa stjórnarskrána; voru þær þó gjarnan skipaðar þingmönnum og fulltrúum ríkjandi stjórnmálaafla.

Alþingi á ekki að hafa neitunarvald eins og ríkisstjórnin leggur til

Meginatriðið er stjórnarskrárvarið umboð þjóðkjörins vettvangs til þess að breyta stjórnarskránni – ekki leggja til breytingar við Alþingi; þjóðaratkvæði var vitaskuld áskilið til þess að staðfesta tillögur stjórnlagaþings en Alþingi átti ekki – og á ekki – að hafa neitunarvald.

Neitunarvald Alþingis er til staðar í frumvarpi ríkisstjórnarinnar; Alþingi getur þá hunsað tillögur stjórnlagaþings – í heild eða að hluta. Ég hafna slíku „ráðgefandi stjórnlagaþingi“ og bíð fremur raunverulegs stjórnlagaþings – hins fyrsta frá 1851 er Jón Sigurðsson mælti fyrir munn allra:

Vér mótmælum allir.

Rennur blóð til skyldunnar að tryggja umboð stjórnlagaþings

Á þessum tímamótum rennur mér blóðið til skyldunnar að minna á nauðsyn stjórnlagaþings enda varð ég til þess að stinga upp á því fyrst við síðustu tímamót – fyrir um hálfu öðru ári – nánar tiltekið 28. nóvember 2008 (á afmælisdegi annarrar systur minnar) á fundi hjá lýðræðisnefnd Framsóknarflokksins.

Nefndinni leist svo vel á að mér var falið að gera minnisblað um málið – sem ég skilaði á 90 ára afmæli fullveldisins, 1. desember 2008. Í kjölfarið var málið samþykkt í öðrum stofnunum flokksins – ekki síst á flokksþingi um miðjan janúar 2009; lagði þingflokkurinn fram frumvarp um málið í byrjun febrúar 2009. Nýmynduð minnihlutastjórn vinstriflokkanna í skjóli Framsóknar vildi setja mark sitt á málið og gerði það með því að skipa nefnd 3ja lögfræðinga – þar sem ég átti sæti – sem samdi lítið breytt frumvarp um sama mál.

Þrjár útgáfur

Hér má sjá frumvörpin þrjú sem nýverið hafa komið fram um þetta mál (og einnig lesa sér til um forsögu og fyrirmyndir):

  1. Frumvarp þingflokks Framsóknarflokksins í febrúar 2009 (höfundur: Gísli Tryggvason): http://www.althingi.is/altext/136/s/0512.html.
  2. Frumvarp minnihlutastjórnarinnar í apríl 2009 (höfundar: Björg Thorarensen, Bryndís Hlöðversdóttir og Gísli Tryggvason; ritari: Páll Þórhallsson): http://www.althingi.is/altext/136/s/0648.html.
  3. Frumvarp núverandi ríkisstjórnar (höfundar óþekktir): http://www.althingi.is/altext/138/s/0168.html.

***

Fyrsta frumvarpið leyfi ég mér að birta hér að neðan – enda er það ekki svo langt í sjálfu sér (greinargerðina má lesa hér):

136. löggjafarþing 2008–2009.

Þskj. 512 — 286. mál.

Frumvarp til stjórnarskipunarlaga

um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Birkir J. Jónsson, Eygló Harðardóttir,

Helga Sigrún Harðardóttir, Höskuldur Þórhallsson,

Magnús Stefánsson, Valgerður Sverrisdóttir.

1. gr.

Við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði um stundarsakir, svohljóðandi:

Forseti Íslands boðar til stjórnlagaþings um gerð nýrrar stjórnarskrár. Á þinginu sitja 63 fulltrúar sem kjörnir eru í almennum kosningum sem haldnar skulu innan fjögurra mánaða frá gildistöku stjórnarskipunarlaga þessara.

Stjórnlagaþingfulltrúar skulu kjörnir ásamt einum varafulltrúa fyrir hvern þeirra í persónukjöri úr hópi þeirra sem lýst hafa framboði fyrir landskjörstjórn innan tveggja mánaða frá gildistöku stjórnarskipunarlaga þessara og hlotið hafa meðmæli 300 kjósenda til stjórnlagaþings. Varafulltrúar skulu kjörnir með sama hætti og aðalfulltrúar. Í þeim kosningum skal landið allt vera eitt kjördæmi og getur hver kjósandi greitt allt að sjö frambjóðendum atkvæði. Atkvæði greidd fleirum en sjö eru ógild.

Kosningarrétt til stjórnlagaþings eiga allir sem eiga kosningarrétt skv. 33. gr. stjórnarskrárinnar.

Kjörgengir til stjórnlagaþings eru allir sem uppfylla kjörgengisskilyrði 34. gr. stjórnarskrárinnar að frátöldum forseta Íslands, ráðherrum, alþingismönnum og varaþingmönnum.

Forseti Íslands setur stjórnlagaþing og stýrir kjöri forseta þingsins úr hópi þingfulltrúa í sérstöku kjöri og víkur forseti Íslands svo af stjórnlagaþingi. Forseti stjórnlagaþings stýrir kjöri stjórnlagaþingritara úr hópi þingfulltrúa í sérstöku kjöri. Þá skulu kjörnir tveir varaforsetar og þrír vararitarar úr hópi þingfulltrúa. Forseti, stjórnlagaþingritari, varaforsetar og vararitarar skipa sjö manna forsætisnefnd stjórnlagaþings.

Stjórnlagaþing sker sjálft úr hvort þingfulltrúar séu löglega kosnir, svo og úr því hvort þingfulltrúi hafi misst kjörgengi. Stjórnlagaþingfulltrúar eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.

Stjórnlagaþing og fundir starfsnefnda þingsins skulu vera haldnir í heyranda hljóði. Að loknu kjöri fulltrúa í forsætisnefnd setur stjórnlagaþing sér fundarsköp og aðrar starfsreglur með einföldum meiri hluta. Þar skal m.a. kveðið á um fjölda og hlutverk starfsnefnda, svo og hámarksfjölda í hverri nefnd.

Forsætisnefnd stjórnlagaþings skipar allt að 31 fulltrúa samkvæmt tilnefningum almannasamtaka, hagsmunasamtaka og stjórnmálasamtaka til setu í hlutaðeigandi starfsnefndum stjórnlagaþings með tillögurétti og málfrelsi eftir nánari reglum í fundarsköpum þingsins. Stjórnlagaþing getur í fundarsköpum og öðrum starfsreglum sett takmarkanir fyrir hagsmunagæslu utanaðkomandi gagnvart þinginu, starfsnefndum, þingfulltrúum, starfsfólki og ráðgjöfum þingsins. Skulu þær takmarkanir vera skriflegar og skýrar og skal birta þær starfsreglur með sama hætti og lög frá Alþingi. Brot gegn þeim starfsreglum skulu varða refsingu skv. XXV. kafla laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, eftir nánari ákvæðum í starfsreglum stjórnlagaþings.

Stjórnlagaþing skal starfa í allt að sex mánuði eftir þörfum en hefur heimild til þess að framlengja starfstíma sinn um allt að tvo mánuði með einföldum meiri hluta.

Einfaldur meiri hluti ræður úrslitum um einstök ákvæði í tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Til samþykktar heildartillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland á þinginu þarf samþykki2/3kjörinna þingfulltrúa.

Náist tilskilinn aukinn meiri hluti fyrir tillögu að nýrri stjórnarskrá á stjórnlagaþinginu skal tillagan innan tveggja mánaða frá samþykkt hennar á þinginu borin undir alla sem eiga kosningarrétt skv. 33. gr. stjórnarskrárinnar í leynilegri þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar með einföldum meiri hluta greiddra atkvæða. Um þjóðaratkvæðagreiðsluna gilda reglur sem stjórnlagaþing setur með einföldum meiri hluta í ályktun sem birt skal með sama hætti og lög frá Alþingi.

Sé samþykkt synjað í þjóðaratkvæðagreiðslu skulu varafulltrúar á stjórnlagaþingi taka sæti aðalfulltrúa sem verða varafulltrúar. Fá þeir þrjá mánuði til þess að ná saman með sama hætti um síðari tillögu að nýrri stjórnarskrá en geta með einföldum meiri hluta framlengt starfstíma sinn um einn mánuð. Skal tillaga að nýrri stjórnarskrá borin undir þjóðina með sama hætti náist tilskilinn aukinn meiri hluti á stjórnlagaþingi.

Fulltrúar á stjórnlagaþingi og varafulltrúar meðan þeir sitja skulu á starfstíma þingsins njóta sama þingfararkaups og alþingismenn og skulu laun þeirra greidd úr ríkissjóði. Forseti stjórnlagaþings nýtur sömu launa og forseti Alþingis, stjórnlagaþingritari nýtur sömu launa og alþingismenn sem eru formenn stjórnmálaflokks en aðrir fulltrúar í forsætisnefnd njóta sömu launa og varaforsetar Alþingis. Formenn starfsnefnda þingsins njóta sömu launa og formenn fastanefnda Alþingis. Biðlaun skulu aðeins greidd ef stjórnlagaþing stendur skemur en sex mánuði og þá sem nemur sömu launum og greidd eru þingfulltrúum út sex mánaða tímann eða eftir atvikum út þriggja mánaða tímann. Eftirlaun samkvæmt lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara stofnast ekki vegna setu á stjórnlagaþingi en um lífeyrisréttindi fer eftir almennum reglum A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þingfulltrúar skulu njóta sömu verndar, friðhelgi og réttinda, annarra en starfskjara, og alþingismenn samkvæmt stjórnarskrá, sbr. m.a. 49. gr., og lögum frá og með kjöri og þar til starfstíma stjórnlagaþings, eða eftir atvikum þjóðaratkvæðagreiðslu, lýkur.

Stjórnlagaþing skal njóta sömu verndar og Alþingi skv. 36. gr. stjórnarskrárinnar og XI. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Forsætisnefnd stjórnlagaþings hefur heimild til þess að stofna til útgjalda ríkissjóðs vegna þingsins sjálfs, svo sem vegna aðstöðu, starfsfólks eða ráðgjafar. Forsætisnefnd staðfestir einnig kostnaðarreikninga frá þingfulltrúum eða hópum þeirra vegna sérfræðiaðstoðar og annars sem forsætisnefnd telur nauðsynlegt. Kostnaður við stjórnlagaþing skal greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar til ólaunaðra fulltrúa almannasamtaka, hagsmunasamtaka og stjórnmálasamtaka vegna setu þeirra í starfsnefndum þingsins.

Við stjórnarathafnir forseta Íslands samkvæmt stjórnarskipunarlögum þessum gildir 1. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar ekki. Þá skal undirritun forseta Alþingis koma í stað undirritunar ráðherra skv. 19. gr. stjórnarskrárinnar.

Handhafar ríkisvalds starfa með óbreyttum hætti meðan á stjórnlagaþingi stendur með sömu skilyrðum og reglum um skipun og frávikningu í embætti og endranær. Þó skal umboðsmaður Alþingis gegna réttindum og skyldum dómsmálaráðherra að því er varðar framkvæmd

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur