Þriðjudagur 20.4.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Win-win; flugöryggismiðstöð á KEF

Ég velti fyrir mér í gær hvort ekki myndu allir vinna við að sett yrði á fót á Keflavíkurflugvelli alþjóðleg rannsóknarmiðstöð fyrir flugöryggi:

Flugneytendur fengju flugöryggi; flugrekendur myndu fá aukið rekstraröryggi; Besser-wisserar gætu sagt: „þetta hef ég alltaf sagt;“ flugfélögin yrðu himinlifandi; fréttamenn myndu áfram fá nóg að gera; Íslendingar fengju nýsköpun; stjórnmálamenn gætu verið sammála um eitthvað; Suðurnesjamenn fengju atvinnutækifæri; ESB fengi tækifæri til þess að setja fé í brýnan málaflokk; alþjóðlegir sérfræðingar á sviði eldgosafræða, flugöryggis, verkfræði o.fl. greina fengju atvinnutækifæri; Ísland fengi uppreisn æru; eldgosin í ár myndu fá annan tilgang en fegurð; eldgosið fæli í sér skapandi eyðileggingu; sjálfstæðir atvinnurekendur myndu njóta aukinna umsvifa; forgöngumenn þess að ljúka strax við tvöföldun Reykjanesbrautar fengu strax meðbyr; Vinstrihreyfingin – grænt framboð – fengi möguleika á að taka þátt í umhverfisvænni nýsköpun; bæjarsjóður Reykjanesbæjar fengi betri möguleika; fleiri smáfyrirtæki ættu tækifæri til að verða til; ESB-sinnar myndu fá enn eitt tækifærið til þess að benda á gagnsemi evrópskrar samvinnu; hernaðarandstæðingar gætu bent á að þetta væri þarfara en hollenska flugher(mi)fyrirtækið; pilsfaldakapítalistar gætu rökstutt að ríkið ætti að leggja í púkkið; Samtök atvinnulífsins yrðu hæstánægð; Sunnlendingar gætu fengið fé til að koma öskunni burt; heildarsamtök launafólks sæju aðeins kosti við þetta; lögfræðingar myndu eiga þess kost að leggja traustan grunn að lausn; askan gæti gert gagn; gamla herstöðin á Keflavíkurflugvelli fengi loks jákvætt hlutverk; frjálshyggjumenn yrðu sterkir í rökræðu um framlag hins frjálsa framtaks; efasemdarmenn yrðu að sætta sig við að með þessu yrði leyst úr álitamálinu um skaðsemi ösku við tilteknar aðstæður; lífeyrissjóðir sæju innkomumöguleika; embættismenn hefðu áfram nóg að gera; íðorðafræði myndi ganga í endurnýjun lífdaga; jöklabréfin myndu bráðna; sveitarfélögin á svæðinu nytu góðs af; samstarfsþjóðir okkar sæju að við gætum líka leyst vandamál; við fengjum loks eitthvað uppbyggilegt að fást við.

Og bloggarar – nafnlausir sem nafngreindir – geta fundið þessu allt til… forgöngu. Sjáiði fleiri kosti?

Óheimilt er að benda á galla fyrr en eftir 12 klst.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð:

Sunnudagur 18.4.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Hamfaraviðbrögð

Ræða mín á Austurvelli síðdegis í gær,

að beiðni Alþingis götunnar.

Við munum öll ræðuna sem þáverandi forsætisráðherra hélt fyrir hálfu öðru ári. Áður en hann bað Guð að blessa Ísland líkti hann tilefni neyðarlaganna, sem sett voru í flýti 6. október 2008, við efnahagslegar hamfarir.

En voru viðbrögðin í kjölfarið í samræmi við viðbrögð við náttúruhamförum?

Kannski fyrir kerfið og kröfuhafa. En hvað með neytendur?

Nú í sömu viku og vönduð skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var birt hófust raunverulegar hamfarir úr iðrum jarðar; eftir að „túrista“gosi á Fimmvörðuhálsi lauk varð skyndilega alvöru eldgos – sem hefur haft furðu líkar afleiðingar og hinar efnahagslegu hamfarir fyrir 18 mánuðum; gríðarlegt, sýnilegt tjón hefur orðið á hluta Íslands og hluti Íslendinga er að verða fyrir miklu tjóni; aðrir sleppa enn. Einnig hafa hamfarirnar þegar valdið gríðarlegu – en ekki eins sýnilegu – tjóni fyrir venjulegt fólk og efnahagslífið í stórum hluta Evrópu – rétt eins og hamfarirnar sem urðu þegar bankarnir reistu sér hurðarás um öxl og féllu eins og sú spilaborg sem þeir voru. Við þessu tjóni Evrópu getum við lítið gert.

Tjón Evrópu af Icesave og töpuðum lánum er – eins og tjónið af öskugosinu – það sem í lögfræði er nefnt almennt fjártjón, ósýnilegt – en ekki ómerkilegra fyrir það. Tjón bænda og annarra á Suðurlandi og kannski víðar er fyrst og fremst svonefnt rauntjón, í lögfræðinni. Raunveruleg verðmæti – á borð við landgæði og mannvirki – tapast rétt eins og tjón margra Íslendinga af kreppunni varð strax raunverulegt, t.d. missir atvinnu, stórhækkun lána og vöruverðs og eignamissir. En eru viðbrögðin við raunverulegu tjóni Íslendinga sambærileg í efnahagslegu hamförunum og í náttúruhamförunum?

Viðbrögð við efnahagshamförum og náttúruhamförum

Nei – enda höfum við árhundruðareynslu af eldgosum og afleiðingum þeirra; viðbrögð yfirvalda nú í vikunni voru skjót, skipulögð, fumlaus og árangursrík – enda vel undirbúin. Allsherjarrýming átti sér stað. Varnargarðar – sem fyrir voru m.a.s. – voru styrktir. Það sem meira var; rofin voru skörð í þjóðveginn til þess að vernda brúna yfir Markarfljót; minni hagsmunum var fórnað fyrir meiri – eins og vera ber. Fólkið var í fyrirrúmi, skepnur í öðru sæti og aðrir fjármunir og önnur gæði í þriðja sæti.

Ólíku er saman að jafna þegar litið er til viðbragða stjórnvalda við efnahagshamförunum í þágu neytenda. Ég lít fram hjá áðurnefndum neyðarlögum í þágu kerfis og kröfuhafa, svo og ólögfestra og jafnvel ólögmætra ívilnana í þágu sjóðfélaga í peningamarkaðssjóðum og innistæðueigenda.

Skrýtinn birtingartími grundvallarupplýsinga

Nú liggja loksins fyrir nokkuð heildstæðar tölur frá Seðlabanka Íslands um málið; þeim tölum var reyndar valinn sá undarlegi birtingartími, sl. mánudag þegar öll þjóðin var upptekin við að kynna sér niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis á orsökum bankahrunsins. Meðal þess sem þar kemur fram er að um 2/3 ungs barnafólks, sem keypti sér húsnæði 2006 eða síðar, er með neikvætt eigið fé – á minna en ekkert. Ég hvet ykkur til þess að kynna ykkur þær tölur á vef seðlabankans. Orðrétt segir undir skýringarmynd (með tölunni 65% miðað við kaup eftir 1. janúar 2006):

Meginþorri ungs barnafólks sem tók lán á seinni stigum húsnæðisverðsuppsveiflunnar skuldar meira en það á í húsnæði sínu. Hópurinn er fimmtungur allra sem er í neikvæðri eiginfjárstöðu.

Byggja skal brúna þannig að barnið detti ekki af henni

En hvað var gert og hvað á að gera? Því miður er oft talað við okkur lögfræðingana eftir að skaðinn er skeður meðan verkfræðingar fá gjarnan það verkefni að hanna sterka brú sem stenst tímans tönn og áföll eins og ég nefndi áðan. Svo þegar viðvörun kemur er árbakkinn styrktur, varnargarðar efldir, skörð rofin í vegi og flóði hleypt í gegn – svo að það valdi sem minnstum skaða.

Bráðaaðgerðir, einskiptisleiðrétting og jöfnun

  1. Fyrsta skrefið var bráðaaðgerðir á borð við frestun fullnustugerða og frystingu lána; það gerðist smám saman og er komið í ágætt horf – enda tími bráðaaðgerða löngu liðinn nú, hálfu öðru ári eftir neyðarlögin.
  2. Annað skrefið, sem ég o.fl. lögðum til í mismunandi útgáfum, var einskiptisleiðrétting í þágu lántakenda venjulegra neytendalána, einkum íbúðarlána og bílalána. Margar tillögur hafa komið fram en stjórnvöld og kröfuhafar – þ.m.t. lífeyrissjóðir landsins – hafa hafnað þeim öllum eða ekki virt okkur svars. Mínar megintillögur felast í heildstæðri niðurfærslu neytendalána samkvæmt mati gerðardóms – eins og ég lagði til við stjórnvöld fyrir réttu ári síðan – og fékk ekkert svar – og mæltist svo til við banka, lífeyrissjóði, eignarleigufyrirtæki og aðrakröfuhafa í lok ágúst í fyrra – en fékk rökstudd afsvör frá flestum; þessar tillögur má finna á talsmadur.is.
  3. Þriðja skrefið er varanleg jöfnun á stöðu neytenda og kröfuhafa til frambúðar – en það átti að vera aðalumfjöllunarefni mitt í dag, t.d. dráttarvextir.

Erfitt er að ræða þriðja skrefið meðan enn er beðið eftir aðgerðum í 2. skrefi enda eiga almennar reglur og réttarúrbætur ekki við – duga ekki til – þegar hamfarir verða; en ég skal fara um þær nokkrum orðum.

Afar hagstæði réttindi og úrræði fyrir peningakröfuhafa

Hvað eru dráttarvextir? Þeir eru skaðabætur fyrir að kröfuhafi fær greitt of seint, dráttur verður á greiðslu.

  1. Sá réttur kröfuhafans er ekki aðeins lögvarinn og reiknaður út af ríkisstofnun, Seðlabanka Íslands.
  2. Réttur kröfuhafa til skaðabóta er í öðru lagi nánast ótvíræður og án sakar, ábyrgðin er hlutlæg sem kallað er í lögfræði.
  3. Þá eru skaðabæturnar í þriðja lagi staðlaðar – óháð tjóni hverju sinni; kröfuhafi þarf ekki að sanna hvort hann hafi beðið tjón eða hversu mikið tjónið er – eins krafist er í skaðabótarétti.
  4. Í fjórða lagi eru skaðabætur í formi dráttarvaxta vægast sagt háar – nú reyndar komnir niður í 16%.
  5. Í fimmta lagi stendur tæknilegur bakhjarl bankanna, Reiknistofa bankanna – með aðsetur hjá Seðlabanka Íslands – sig í stykkinu við að fram þessum dráttarvöxtum en þess virðist ekki ávallt gætt hvenær krefja má fyrst um dráttarvexti.
  6. Í sjötta lagi má auk dráttarvaxta krefja neytendur um nokkuð háan innheimtukostnað og enn er töluverð brotalöm í þeim reglum sem þó eru loks komnar.

Berum saman bótarétt kröfuhafa neytenda

Líkjum þessu saman við rétt neytanda til bóta vegna galla á vöru eða þjónustu.

  1. Sá réttur er að vísu oftast fyrir hendi en er ekki reiknaður út af ríkisstofnun; talsmanni neytenda er t.d. ekki heimilt að taka til meðferðar einstök ágreiningsmál – hann má aðeins kynna almennar reglur eins og hér er gert.
  2. Í öðru lagi er skaðabótaréttur neytanda ekki í öllum tilvikum ótvíræður og án tillits til sakar kaupmannsins.
  3. Í þriðja lagi eru skaðabætur til handa neytendum ekki staðlaðar; sanna þarf tjón hverju sinni og fjárhæð þess.
  4. Í fjórða lagi má deila um hvort bæturnar bæti ávallt allt tjón neytenda eða teljist háar; í besta falli eru þær – eins og vera ber – fullar bætur.
  5. Í fimmta lagi er engin stofnun sem sér um að koma þessum kröfum fram fyrir hönd neytenda með líkum hætti og Reiknistofa bankanna gerir fyrir þá.
  6. Í sjötta lagi er vægast sagt erfitt – í raun a.m.k. – fyrir neytendur að krefja kaupmenn um þóknun fyrir ómak og kostnað við að ná fram rétti sínum.

Heildstæð lausn á skuldavanda nú erfiðari

Nú er heildstæð lausn á skuldavanda heimilanna erfiðari en í fyrra og afleiðingar þess að stoppa í götin eru farnar að sýna sig með dómum í héraði; enn er langt að bíða úrlausnar Hæstaréttar – eða úrlausna, því þær verða væntanlega margar og mismunandi eftir atvikum og álitaefnum. Vonandi er heildstæð lausn ekki óframkvæmanleg nú.

Flóðið nálgast óðum sjóinn og hefur þegar valdið miklum skaða fyrir neytendur.

Úrræði auk eftirlits

En hver er hugmynd mín um almennar úrbætur á vanda neytenda að frágengnum skrefum 2 og 3? Nú halda kannski einhverjir að mín lausn felist í að styrkja embætti talsmanns neytenda eða eftirlitsstofnanir. Vissulega má huga að því en er eftirlit nægileg lausn? Nei; eftirlit er nauðsynlegur hluti lausnar – en ekki nægilegt eitt og sér. Við sjáum glöggt af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að nokkuð öflugar eftirlitsstofnanir, mælt í stærð, kostnaði og valdheimildum, geta brugðist – og gerðu það á ögurstundu. Þá geta veikburða embætti ekki breytt miklu. Eftirlitið eitt saman veitir því í sumum tilvikum falskt öryggi; flóðið er komið út í sjó þegar viðbrögð koma – ef þau koma.

Þrennar réttarfarsumbætur fyrir neytendur

Ég held því að til viðbótar við traust eftirlitskerfi þurfi úrbætur á þeim úrræðum sem neytendum sjálfum eiga að standa til boða; sem dæmi nefni ég þrjú atriði sem ég hef látið mig varða og ítrekað rætt opinberlega sem brýn úrbótaatriði:

  1. Hópmálsókn til handa neytendum og öðrum þar sem óraunhæft er að hver og einn höfði mál.
  2. Flýtimeðferð brýnna neytendamála.
  3. Smámálameðferð vegna smærri og einfaldari neytendamála.

Þá þarf að virkja þau úrræði sem þegar eru í lögum – svo sem heimild neytenda og annarra til sáttameðferðar hjá sýslumanni. Einnig vil ég nefna heimild neytenda og annarra, sem hafa beðið tjón vegna refsiverðs verknaðar, til þess að bera fram skaðabótakröfur og aðrar kröfur í þeim sakamálum sem framundan eru gegn þeim sem stjórnuðu – eða áttu að stjórna – efnahagslífinu. Ég hef þegar vakið athygli á þessum rétti eins og lesa má á vefsíðu embættisins,talsmadur.is, sl. mánudag.

Brúum gjána milli formlegra réttinda neytenda og stöðu þeirra í raun

Þessar úrbætur og [þessi] lítt þekktu úrræði geta orðið til þess að staða neytenda verði ekki aðeins formleg og lagaleg heldur raunveruleg og sterk þannig að þeir geti sjálfir náð rétti sínum, saman, einir eða með aðstoð samtaka, embætta og lögmanna sem láta sig málefni neytenda varða. Eins og staðan er í dag þurfa neytendur alltof oft að hnekkja „status qou“ til þess að ná rétti sínum – og það er oft dýrt, seinlegt, óvissu háð og erfitt í marga staði.

Þegar náttúruhamfarir verða er flóðið ekki látið skella á óbreyttu kerfi! Ég vil líkja afleiðingum efnahagshrunsins fyrir lántakendur við það að láta flóðbylgjuna skella beint á mannvirkjum meðan stjórnvöld eltast við smákvíslir Markarfljóts.

Óhefðbundin viðbrögð þarf við óvenjulegum atburðum.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Föstudagur 16.4.2010 - 06:59 - FB ummæli ()

60. gr. stjskr.

Er hlustað er á frábæran lestur leikara Borgarleikhússins á ítarlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vaknar fremur ásökun en spurning hvort lögfræðingar og lykilaðilar Stjórnarráðsins og stofnana ríkisins þekki ekki 2. málslið 60. gr. stjórnarskrárinnar

Þó getur enginn, sem um þau leitar úrskurðar, komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms.

Þetta þýðir að stjórnvöld geta beitt sínum valdheimildum ef þau telja rétt þar til dómstólar hnekkja þeim ráðstöfunum; hefðu stjórnvöld og embættismenn ekki átt að vera aðeins djarfari?

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

Þriðjudagur 13.4.2010 - 22:11 - FB ummæli ()

Grátónar eða svarthvítt!

Þegar ég var táningur heillaðist ég af ljósmyndun og gerði lítið annað í nokkur ár en að sinna henni – í svarthvítu; ætlaði ég reyndar alla tíð að vera óháður öllum flokkum og öflum í því skyni að geta farið um heiminn og sýnt hið sanna og breytt heiminum til hins betra. Hápunkturinn var verðlaun fyrir svarthvítt listaplakat 1986 í menntaskóla.

Er ég flutti til Danmerkur síðar það ár hafði ég hins vegar fengið nóg af þessu áhugamáli þar sem það var orðið að atvinnu minni öðrum þræði; ég var t.a.m. orðinn fréttaljósmyndari á 17. ári og var farinn að taka myndir gegn greiðslu í stað þess að sinna listagyðjunni. Áður en ég hætti hafði ég hins vegar fengið smekk fyrir myndanálgun Ansel Adams – sem meistara grátónanna.

Grátónaðir dómar

Enn aðhyllist ég grátóna. Ég hef á ýmsan hátt valið mér þá hillu í lífinu að sjá, vinna og lifa lífið ekki í svarthvítu heldur í grátónum hið minnsta – og jafnvel í litum þegar við á.

Ég hef oft látið í ljós þá von að dómendur götunnar og bloggheima og þeir sem kveða upp dóma í heitu pottunum og fermingarveislum taki ekki hina algengu íslensku afstöðu um að annað hvort sé þetta þessum eða hinum að kenna. Þó að ég fallist ekki á þá afstöðu að við séum öll (sam)sek og þetta sé meira og minna okkur öllum að kenna (einkum þeim sem keyptu flatskjái) og gildismati þjóðarinnar – tel ég varhugavert að bara einn aðili eða geiri sé sekur. Eins og rannsóknarskýrslan sýnir eru bæði opinberir aðilar og einkaaðilar sekir um ýmislegt – athafnaleysi og athafnir.

Hið opinbera hefur athafnarskyldu – einkaaðilar hafa athafnafrelsi

M.ö.o. tel ég augljóst að umfjöllun um ábyrgð embættismanna eða stjórnmálamanna – sem hafa athafnarskyldu (lögbundnar eftirlitsskyldur og sjálfsagðar frumkvæðisskyldur) – geri ekki lítið úr ábyrgð lykilaðila í viðskiptalífinu – sem hafa frelsi til athafna innan marka laganna. Hvort tveggja brást; athafnarskylda hins opinbera var vanrækt og athafnarfrelsi viðskiptalífsins var misnotað. Við þurfum ekki að velja á milli.

Nú í kvöld átti ég langt og ítarlegt samtal við vin minn í fjármálageiranum sem taldi sig – réttilega – svikinn og sagði sökina ca. 90% hjá útrásarvíkingum og öðrum helstu gerendum í banka- og fyrirtækjageiranum; hann vildi gera lítið úr ábyrgð stjórnmála- og embættismanna – miðað við ábyrgð hinna. Sjálfur hafði ég sennilega ekki eins miklar væntingar til stjórnenda og eigenda í einkageiranum og þessi vinur minn. Ég horfi f.o.f. á þann geira sem ég þekki betur og treysti betur – opinbera geirann; ég tel hann hafa brugðist. Vinur minn horfði hins vegar á þann geira sem hann starfaði í og þekkti vel; sá brást gróflega – svo að örugglega varðar refsingu og vonandi skaðabótum. Kjarninn í mínu máli er að við þurfum ekki að velja; báðir/fleiri bera ábyrgð.

Pinochet eða Stalin?

Eins og mörgum er ofarlega í huga á hið sama við í stjórnmálalífinu; fólki mislíkar ef forystufólk eða fylgismenn tala eins og einn flokkur sé alsaklaus og annar einn ábyrgur.

Flestir flokkar – en e.t.v. ekki allir – og margir forystumenn – bera ábyrgð, mismikla. Ég vona sem sagt að við náum okkur fljótt upp úr þeim skotgröfum sem voru allsráðandi þegar ég var að alast upp og hafði engan áhuga á pólitík. Þegar ég var að réttlæta mitt staðarval í stjórnmálum orðaði ég það stundum þannig að hægrimenn verðu Thatcher, Reagan og jafnvel Pinochet án tillits til röksemda og sæju allt illt til vinstri og í austri en sá sem hallaðist til vinstri gagnrýndi þau öll og bæri blak af Sovét og öllum grimmdarverkum kommúnista; við miðjumenn sæjum hins vegar kost og galla á hvoru tveggja og veldum það besta úr hvoru fyrir sig.

Hvort sem það er rétt eður ei er ljóst að við verðum að meta málin af jafnvægi og sanngirni og um leið að leyfa gagnrýni og „fókus“ á einn aðila, sérstakt tilvik eða ákveðinn geira án þess að svara alltaf:

Já, en hvað með hinn og þennan?

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð:

Sunnudagur 11.4.2010 - 17:45 - FB ummæli ()

Rétt og rangt um forsetavald

Í gær, 10. apríl 2010, var merkisdagur í stjórnskipunarsögu Íslands – ekki síður en morgundagurinn getur orðið það. Í gær voru rétt 70 ár liðin frá því að íslenskt þjóðhöfðingjavald var fært í íslenskar hendur fyrsta sinni – fyrst í hendur ríkisstjórnar 1940, svo í hendur ríkisstjóra 1941 og frá 1944 hefur þjóðhöfðingjavald verið í höndum þing- og síðan þjóðkjörins forseta. Hefur það verið svo síðan. Athyglisvert er að síðan hefur ráðstöfun valdsins verið innanlands enda virðist stjórnarskráin – a.m.k.  miðað við óslitna framkvæmd í áratugi – gera ráð fyrir að forseti geti ekki sinnt störfum sínum meðan hann dvelur erlendis því þá færist valdið í hendur þriggja handhafa forsetavalds.

Hernám Danmerkur skapaði neyðarrétt

Þá voru líka óvenjulegar aðstæður; heimaríki konungsins yfir Íslandi, Danmörk, hafði á örfáum klukkstundum daginn áður, 9. apríl 1940, orðið undan að láta fyrir innrás frá hinu herskáa þýska stórveldi. Ísland gat ekki búið við að þjóðhöfðingjavaldið væri í höndum konungs meðan ríki hans væri hersetið – og það af fjandsamlegri stórþjóð (öfugt við þau augu sem hernám Breta mánuði síðar á Íslandi og síðar Bandaríkjamanna virðist hafa verið litið).

Alþingi ákvað því þegar í stað með þingsályktun að fela Stjórnarráði Íslands, þ.e. ríkisstjórninni, að fara með konungsvald; sú ákvörðun fól í sér sjaldgæfa beitingu neyðarréttar því ekkert ákvæði í stjórnlögum gerði sérstaklega ráð fyrir slíkri ráðstöfun – sem var vitaskuld fullkomlega eðlileg eins og réttmæt beiting stjórnskipulegs neyðarréttar telst í eðli sínu.

Jákvætt og neikvætt vald

En hvað felst í þjóðhöfðingjavaldinu? Um það ætla ég að fjalla í stuttu máli á þessum tímamótum.

Annars vegar er um að ræða „jákvætt“ vald, þ.e. vald til þess að ákveða að eitthvað skuli gert, einhverju skipað eða ráðstafað. Hins vegar er fyrir hendi það sem nefna má „neikvætt“ vald sem felur í sér að eitthvað, sem annar hefur ákveðið að gera eða leggja til, skuli ekki gert. Hið fyrra lýtur að skipun æðstu handhafa framkvæmdarvalds, ráðherra í ríkisstjórn, og hið síðara felur í sér neitunarvald gagnvart aðalhandhafa löggjafarvalds, Alþingi; e.t.v. má ræða um frestandi vald frekar en neitunarvald og ræða um synjunarvald þar sem synjun forseta samkvæmt stjórnarskránni hefur þau sjaldgæfu áhrif að lög taka engu að síður gildi til bráðabirgða en endanlegt gildi þeirra fer eftir úrslitum þjóðaratkvæðis sem efnt skal til í kjölfarið – eins og við höfum nú nýverið orðið vitni að.

Hvað felst í synjunarvaldi?

Synjunarvald forseta er nú óumdeilanlega til staðar. Þrátt fyrir efasemdir margra fræðimanna á sviði stjórnskipunarréttar áður er ljóst að bókstafur stjórnarskrárinnar er skýr og nýleg dæmi 2004 og 2010 um beitingu synjunarvalds forseta gagnvart lögum frá Alþingi sýna að forseti hefur þetta vald.

Hið eina sem kann að vera álitamál eru réttaráhrifin en segja má að stjórnskipulega hafi verið fallist af hálfu forseta á það frávik frá stjórnarskrárbundnum áhrifum synjunar í formi þjóðaratkvæðis að Alþingi taki lögin til baka eins og gerðist sumarið 2004. Því er ljóst að synjunarvald forseta er ekki formlegs eða fræðilegs eðilis heldur felur í sér raunverulegt vald.

Synjunarvald forseta er hins vegar í eðli sínu þannig að vitaskuld er ekki líklegt eða heppilegt að á það reyni oft; voru efasemdir umræddra fræðimanna – að tveimur undanskildum – enda yfirleitt ekki rökstuddar með lögfræðlegum röksemdum heldur oftar með stjórnmálafræðilegum rökum. Stjórnmálafræðingar hafa vitaskuld ekki megináhrifavald um rétta skýringu stjórnlaga heldur lögfræðingar – og þá einkum þeir sem lagt hafa sérstaka stund á stjórnskipunarrétt. Í þessum pistli ætla ég hins vegar aðallega hér að leiðrétta endurteknar staðhæfingar ólöglærðra um hinn þáttinn í óumdeildu valdi forseta.

Umfjöllun um synjunarvald hef ég ekki öllu lengri en árétta að vitaskuld er meðferð synjunarvalds ekki frekar en önnur meðferð opinbers valds háð geðþótta; forseti þarf – eins og hann hefur sýnt með ítarlegum rökstuðningi sínum 2004 og 2010 – að hafa málefnalegar og væntanlega ríkar ástæður til þess að beita því. Misbeiting forseta á synjunarvaldi getur vitaskuld leitt til þess að Alþingi láti reyna á þá einu ábyrgð sem forseti ber samkvæmt stjórnarskránni – þ.e. pólitíska ábyrgð – og láti þjóðina velja milli sín og forseta eins og gert er ráð fyrir.

Forsetavald við myndun ríkisstjórnar

Hitt er verra að endurtekið sé rangt farið með þann þátt í valdi forseta sem hefur verið nokkuð óumdeildur meðal lögfræðinga, þ.e. hlutverk hans við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Undanfarnar vikur hefur hagfræðingur í kennarastöðu við ríkisháskóla endurtekið farið rangt með stjórnskipunarreglur um þetta í ríkisútvarpinu. Það skapar auðvitað engan rétt en vekur ranghugmyndir meðal ólöglærðra hlustenda. Fullyrt hefur verið af Guðmundi Ólafssyni lektor að forseti geti tekið það upp hjá sjálfum sér að því er virðist án skilyrða eða aðdraganda að mynda svonefnda utanþingsstjórn ef ríkisstjórn fer frá. Það er ekki rétt.

Þó að margt sé enn ómótað og gjarnan mætti rannsaka ýmislegt frekar í sambandi við hlutverk forseta við stjórnarmyndun er óumdeild stjórnskipunarregla frá 1904 svonefnd þingræðisregla. Hún er ýmist talin styðjast við stjórnskipunarvenju eða rétta lögskýringu á 1. gr. stjórnarskrárinnar þar sem rætt er um að á Íslandi sé þingbundin stjórn – en óumdeilt er að reglan er bindandi.

Í þingræði felst að ríkisstjórn verður ekki skipuð nema þjóðþingið, Alþingi, styðji hana eða þoli hana a.m.k.; slík regla hefur einnig verið við lýði í skandinavísku ríkjunum í yfir 100 ár og kostaði nokkur átök – t.a.m. í Danmörku og Noregi. Svipuð regla hefur nýverið verið tekin upp í Evrópusambandinu (ESB) um sambandið milli Evrópuþingsins og framkvæmdarstjórnar ESB en nokkuð ólík regla gildir t.a.m. í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Af þingræðisreglunni leiðir m.a. að ríkisstjórn verður að víkja ef þingið vottar henni vantraust og sama er talið gilda um einstaka ráðherra. Sömuleiðis felst í þingræðisreglu stjórnarskrárinnar að forseta er beinlínis óheimilt að skipa ríkisstjórn sem vitað er að vottað verður vantraust við fyrsta tækifæri á þingi. Þingræðisstjórn er því alger aðalregla. Hérlendis hafa þingræðisstjórnir yfirleitt stuðst við fyrirfram ljósan meirihluta – en ef ekki liggur fyrir að vantraust verði samþykkt á Alþingi í kjölfar ríkisstjórnarmyndunar er ekkert því til fyrirstöðu að svonefnd minnihlutastjórn sé skipuð eins og gert var 1949, 1958, 1979 og 2009.

Utanþingsstjórn – undantekning við tilteknar aðstæður

Ef forystumönnum þingsins mistekst eftir margar tilraunir og yfirleitt nokkurn tíma (og á meðan situr þá væntanlega svonefnd starfsstjórn sem misst hefur meirihluta en situr áfram að beiðni forseta til bráðabirgða) er raunhæft að forseti fari að huga að svonefndri utanþingsstjórn; samkvæmt orðanna hljóðan felur það í sér að ráðherrar sitji ekki á þingi en í raun þýðir utanþingsstjórn ríkisstjórn sem ekki styðst við stuðning þingflokka.

Þar sem forseta er samkvæmt þingræðisreglunni óheimilt að skipa ríkisstjórn sem vitað er að fengi strax á sig vantraust er ekki raunhæft að hann skipi utanþingsstjórn upp úr þurru. Áður þarf hann árangurslaust að hafa gefið líklegum forystumönnum þing- eða stjórnmálaflokka færi á að mynda þingræðisstjórn. Annað væri brot á stjórnarskránni þrátt fyrir formlegt vald forseta til þess að skipa ráðherra; brot gegn þessu gæti m.a. varðað ráðherra, sem þannig léti skipa sig, ráðherraábyrgð samkvæmt lögum eins og segir á bls. 131 og 151 í riti, sem ég átti þátt í að endurskoða, Stjórnskipunarréttur frá 1997 í ritstjórn dr. Gunnars G. Schram prófessors heitins.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð:

Mánudagur 5.4.2010 - 22:33 - FB ummæli ()

Krefjumst rannsóknar á morðum í Írak

Almannasamtökin Wikileaks og ríkisstofnunin RÚV sönnuðu tilvistarrétt sinn enn frekar rækilega í kvöld. Þau birtu ekki aðeins hrátt myndband úr árásarþyrlu bandaríska hersins þar sem sjá mátti morð á fjölda íraskra borgara 2007 heldur fylgdi vel undirbúin þýðing, félagslegt samhengi og tæknileg útskýring – auk stærðar og almenns áhorfs sjónvarpsskjásins.

Nú er komið að okkur.

Ég er samsekur

Þó að ég hafi verið passivur félagi í Samtökum hernaðarandstæðinga (áður Samtökum herstöðvarandstæðinga) u.þ.b. frá sjálfræðisaldri eða líklega í nær aldarfjórðung er ég líka borgari í sjálfstæðu ríki sem studdi móralskt og með aðstöðu sinni innrás í Írak – enda þótt réttilega hafi verið efast um lögmæti þeirra ákvarðana samkvæmt íslenskum stjórnskipunarreglum; það mál er óútkljáð enn. Auk þess er ég félagi í flokki þar sem þáverandi formaður og utanríkisráðherra samþykkti þessa aðild íslenska ríkisins. Ég er líka sekur um að hafa hvorki beitt mér gegn innrásinni í Írak – hvorki fyrr né síðar, a.m.k. ekki aktivt. Ég verð að bæta úr því.

Reglur um stríðsátök

Í fljótu bragði kann ég enga betri leið sem lögfræðingur en að fara yfir og þýða aðgengilegar reglur um stríðsátök þó að þetta tilvik falli nú varla undir stríðsátök – en þess þá heldur. Þá finnst mér stundum að reglur um stríð feli í sér innri andstæðu (e. contradiction in terms) en staðreynd er að slíkar reglur hafa verið við lýði í aldir.

Í fávisku minni hélt ég sem sagt að um athafnir bandaríska hersins eins og annarra herja giltu virkar reglur um hvenær, hvar, gegn hverjum og hvernig beita mætti hernaðarvaldi. Oft hefur maður í fréttum og bíómyndum heyrt um „rules of engagement.“ Ef leitað er á vefnum finnst að bresku reglurnar eru einmitt þannig fram settar að þær lúti að þessu:

  • When military force may be used
  • Where military force may be used
  • Against whom force should be used in the circumstances described above
  • How military force should be used to achieve the desired ends.“

Bandarísku reglurnar samkvæmt sömu heimild eru að vísu tengdar „Marine Corps“ frá 1999 og kenndar við návígi en varla eru þær óhagstæðari almennum borgurum en aðrar reglur af sama tagi. Þær virka frekar stigskiptar og hljóða þannig í fljótlegri þýðingu minni:

  • Stig 1: Eftirgjöf (í samvinnu). Viðfangsefni svarar og verður við munnlegum skipunum. Bardagatækni í návígi á ekki við.
  • Stig 2: Vörn (passiv). Viðfangsefni bregst ekki við munnlegum skipunum en verður strax við hvers konar stjórnun í návígi. Bardagatækni í návígi á ekki við.
  • Stig 3: Vörn (aktiv). Viðfangsefni sýnir í upphafi andstöðu í verki. Notið stjórntæki til þess að ná fram eftirgjöf í því skyni að ná stjórn á aðstæðum. Í þriðja stigi felst að beita bardagatækni í návígi til að þvinga viðfangsefni líkamlega til að verða við skipunum. Tæknin felur m.a. í sér: „Come-along holds, Soft-handed stunning blows, Pain compliance through the use of joint manipulation and the use of pressure points.“
  • Stig 4: Árás (Líkamleg meiðsl). Viðfangsefni kann að gera líkamlega árás en notar ekki vopn. Notið varnartækni til að eyða hættunni. Varnartækni felur m.a. í sér: „Blocks, Strikes, Kicks, Enhanced pain compliance procedures, Impact weapon blocks and blows.“
  • Stig 5: Árás (Banvæn). Viðfangsefnið hefur venjulega vopn og mun annað hvort drepa eða særa einhvern ef það er ekki stöðvað þegar í stað og yfirhöndinni náð. Nauðsynlegt er að ná viðfangsefni undir stjórn með banvænni árás – annað hvort með skotvopnum eða ekki.

Svo kemur þessi texti:

Rules of engagement are most often decided upon by battle-space commanders and are created to carry out and fall in line with over-arching orders or goals from higher command. In order for this to be accomplished, battle-space commanders must manufacture rules of engagement that will not violate the trust of the local population, but will instead foster a relationship of respect and understanding.

Krefjumst rannsóknar sem aðilar að stríðinu

Í stuttu máli er mér ómögulegt að skilja hvernig tilvik sem ég felli undir stig 1 eða 2 (ef yfirleitt er hægt að fella umræddar aðstæður undir reglur um stríðsátök) – ef á hefði reynt – leiða til viðbragða á 5. og efsta stigi og dauða nær allra, að því er virðist saklausra borgara. Jafnvel þótt svo ótrúlega færi að einhver féllist á að tilefnislaus þyrluskotárás á nokkra menn með myndavélar (og að sögn með vopn) hefði verið réttlætanleg vegna þess að þyrlumönnum hefði missýnst að myndavél væri flugskeytavopn getur ekki verið að nokkur samþykki – eftir að hafa séð þetta myndband – að skotárás á borgara í bíl (með börn) sem vildu bjarga særðum manni teljist uppfylla kröfur framangreindra reglna um stríðsátök.

Eigum við ekki sem NATO-þjóð og (passivir) aðilar að Íraksstríðinu að krefjast – ekki skýringa, heldur – rannsóknar á því sem varla er hægt að kalla annað en morð á borgurum í Írak, þ.m.t. skotárás á saklaus börn?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.4.2010 - 21:59 - FB ummæli ()

Verður hann dæmdur?

Í fyrri viku var í Kastljósi rætt við konu sem var ásamt manni sínum stödd á árshátíð í Fljótshlíð um gosnóttina. Höfðu þau neytt áfengis og töldu sig ekki eiga neinn annan kost en að aka ölvuð af stað þegar rýma þurfti svæðið. Það endaði svo með árekstri á brúarstólpa eins og málinu er lýst á heimasíðu Kastljóss. Spurning er hvort þau geta borið fyrir sig svonefndan neyðarrétt ef til þess kemur – eins og líklegt er – að höfðað verði sakamál á hendur ökumanni og krafist refsingar (væntanlega sektargreiðslu) auk sviptingar ökuleyfis.

Þrír nýlegir dómar Hæstaréttar

Um svipuð mál eru til þrír nýlegir hæstaréttardómar en vitaskuld eru engin atvik eins í dómsmálum. Auk  þeirra eru til eldri dómar íslenskir og norrænir sem gætu verið til viðmiðunar en ég fjalla aðeins um hugsanlegt fordæmisgildi þessara þriggja hér – sem allir varða tilvik þar sem maður var ákærður fyrir ölvunarakstur en bar fyrir sig neyðarrétt. Í almennum hegningarlögum er svohljóðandi ákvæði:

Það verk er refsilaust, sem nauðsyn bar til að unnið væri í þeim tilgangi að vernda lögmæta hagsmuni fyrir yfirvofandi hættu, þótt með því séu skertir aðrir hagsmunir, sem telja verður að miklum mun minni.

Tvívegis hafnað neyðarrétti – hjá sama manninum

Tveir umræddra dóma varða reyndar sama manninn – þekktan síbrotamann sem margoft hafði fengið dóm fyrir ölvunaraktstur – sem bar fyrir sig í báðum málunum að hann hefði verið í yfirvofandi hættu. Í fyrra sinnið, 1999, var fallist á að um raunverulega hættu hefði verið að ræða en ekki var fallist á að honum hefði verið nauðugur kostur að aka ölvaður vegna aðsúgs, sem gerður var að honum, enda hafi honum verið önnur úrræði tæk. Rök héraðsdómara, sem Hæstiréttur féllst á, voru þessi:

Eins og rakið hefur verið var ákærði lagstur til hvílu í bifreið sinni er hópur unglinga safnaðist kringum bifreið hans og gerði hróp að honum, auk þess sem bifreið ákærða var lýst upp með ljósum nokkurra bifreiða á bifreiðaplaninu. Af framburði vitna hjá lögreglu verður að ganga út frá því að bifreið ákærða hafi verið hrist til, auk þess sem upplýst er að sparkað var einu sinni í bifreiðina. Þá er einnig upplýst að tilgangur unglinganna var að fá ákærða með einhverjum ráðum brott frá Hvolsvelli. Mátti ákærði því hafa beyg af þeim skara unglinga sem safnast höfðu saman á bifreiðaplaninu og í kring um bifreið hans. – Hins vegar ber að líta til þess að þótt unglingarnir hafi kallað ókvæðisorðum að ákærða, verður samkvæmt framburði vitna í málinu ekki byggt á þeirri fullyrðingu ákærða að honum hafi verið hótað lífláti eða líkamsmeiðingum. Þá er ekkert fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu ákærða að bifreið hans hafi orðið fyrir grjótkasti. Ekki er heldur trúverðugur framburður ákærða um að ungmennin hafi að eigin frumkvæði ýtt þannig með samstilltu átaki á bifreið ákærða að ákærði gat gangsett hana, heldur ber að miða við framburð vitna um að ákærði hafi átt orðaskipti við ungmennin og sjálfur óskað eftir aðstoð þeirra. Ákærði mátti vita að akstur hans var vítaverður þar sem hann ók undir áhrifum áfengis um götur Hvolsvallar og eftir þjóðvegi nr. 1, þar sem umferð getur verið töluverð, í stað þess til dæmis að leita eftir aðstoð á matsölustaðnum Hlíðarenda eða hringja þaðan eftir aðstoð, en atvik gerðust snemma kvölds og bifreið ákærða var lagt rétt við matsölustaðinn. Verður því hvorki fallist á með ákærða að réttlætanlegt hafi verið fyrir hann að aka bifreiðinni réttindalaus og verulega undir áhrifum áfengis né að atvik hafi verið með þeim hætti að fella beri refsingu ákærða niður.

Í síðara skiptið, 2001, var skýring ákærða um hættu ekki eins trúverðug og höfnuðu bæði héraðsdómur og Hæstiréttur skýringu hans, sá síðarnefndi með þessum röksemdum:

Á það verður ekki fallist með ákærða að háttsemi hans hafi verið honum refsilaus samkvæmt neyðarréttarákvæði 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem honum hafi verið nauðugur sá kostur að aka bifreiðinni til að forða lífi sínu, limum og eignum vegna ógnunar „eiturlyfjagengis“ um að hann yrði beittur ofbeldi ef hann hefði sig ekki á brott innan klukkustundar.

Athyglisvert er að báðir þessir dómar koma í kjölfar hæstaréttardóms þar sem fallist var á neyðarrétt sem refsileysisástæðu við ölvunarakstur.

Einu sinni fallist á neyðarrétt við ölvunarakstur

Í elsta dóminum, sem hér eru til skoðunar, frá 1999, féllst Hæstiréttur hins vegar – eins og héraðsdómur – á að ölvunarakstur væri refsilaus vegna aðstæðna í því máli – og leiddi hann því ekki heldur til ökuleyfissviptingar. Atvik voru á þessa leið:

Stúlkan B og D ákváðu að næturlagi að fara frá starfsmannahúsi við Búrfellsvirkjun að Þjórsárdalssundlaug og ók B, sem var án ökuréttar. Á leiðinni til baka missti hún stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún valt. Var B í miklu uppnámi eftir slysið og kvartaði mjög undan verkjum í baki og hálsi og var ekki í ástandi til að aka. Ók D því bifreiðinni um vegaslóðann aftur að virkjuninni, til að koma B undir læknishendur, þótt hann væri undir áhrifum áfengis. Var hann ákærður fyrir ölvunarakstur. Talið var nægilega sýnt fram á að B hefði verið ófær um að ganga eða aka sjálf frá slysstað og að D hefði ekki verið stætt á því að skilja hana eina þar eftir á meðan hann gengi til byggða eftir aðstoð. Þá var talið að D hefði haft ástæðu til að ætla að meiðsl B væru alvarlegri en raun varð á og að henni væri brýnt að fá aðstoð læknis. Var fallist á að D hefði ekki átt annarra kosta völ en að aka sjálfur bifreiðinni, en engin umferð var á veginum og áfengismagn í blóði hans fór ekki verulega fram úr lágmarki umferðarlaga. Var talið að þrátt fyrir það að háttsemi D væri andstæð ákvæði 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga hefði hún verið nauðsynleg til að vernda fyrir yfirvofandi hættu lögmæta hagsmuni, sem voru stórum meiri en þeir hagsmunir sem skertir voru. Var verknaðurinn því refsilaus samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga og niðurstaða héraðsdóms um sýknu D staðfest.

Nánar tiltekið voru röksemdir Hæstaréttar þessar:

Eins og ráðið verður af framangreindu virðast hvorki ákærði né [stúlkan] hafa borið fyrir lögreglu um meiðsl hennar eða einkenni á fyrstu stigum eftir slysið. Hvorugt þeirra virðist hafa fært þar í tal að ákærði hafi ekið í umrætt sinn af neyð, heldur var því fyrst borið við fyrir héraðsdómi. Verður ekki séð að leitað hafi verið skýringa á þessu við skýrslugjöf ákærða eða [stúlkunni] fyrir dómi. Á hinn bóginn verður ekki litið fram hjá því að vegna vitneskju lögreglunnar um atvik málsins, þar á meðal um flutning [stúlkunnar] á sjúkrahús, var ríkt tilefni vegna ákvæðis 2. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að beina spurningum til ákærða með tilliti til þessa þegar hann gaf fyrrnefndar skýrslur sínar 14. og 16. júlí 1998 án þess að óska eftir því að réttargæslumaður yrði kvaddur til. Getur tómlæti ákærða um að bera fyrir sig neyðarrétt því ekki orðið honum til réttarspjalla. – Í hinum áfrýjaða dómi er staðháttum lýst svo að vegurinn, sem bifreið ákærða var ekið út af, liggi að sundlaug, sem sé í miðri sandauðn í Þjórsárdal. Séu 8 til 11 km frá slysstað að malbikuðum þjóðvegi, en þaðan 3 til 4 km til byggða. Af hálfu ákæruvalds hefur ekki verið leitast við að hnekkja þessari lýsingu með nýjum gögnum. Ber því að leggja hana til grundvallar. – Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á það með héraðsdómara að sýnt sé nægilega fram á að [stúlkan] hafi verið ófær um að ganga eða aka sjálf frá slysstað, svo og að ákærða hafi ekki verið stætt á að skilja hana þar eina eftir. Af framburði vitna, sem hefur nú fengið frekari stuðning í fyrrgreindum læknisvottorðum, er jafnframt nægilega leitt í ljós að ákærði sem leikmaður hafði ástæðu til að ætla að meiðsl [hennar] væru alvarlegri en raun varð á og að henni væri brýnt að fá aðstoð læknis. Eins og atvikum var háttað verður að fallast á að ákærði hafi ekki átt annarra kosta völ til að sinna þessum þörfum en að aka sjálfur bifreiðinni til byggða, enda gátu þau ekki vænst mannaferða í námunda við slysstað fyrr en að liðnum þó nokkrum tíma. Áfengismagn í blóði ákærða fór ekki verulega fram úr því lágmarki, sem um ræðir í 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997. Leggja verður til grundvallar að hann hafi ekið hægt eftir vegum, sem aðrir áttu ekki leið um á sama tíma. Þessi háttsemi ákærða var að sönnu andstæð fyrrnefndu ákvæði umferðarlaga. Í ljósi framangreinds verður hins vegar að telja sýnt að hún hafi verið nauðsynleg til að vernda fyrir yfirvofandi hættu lögmæta hagsmuni, sem voru stórum meiri en þeir hagsmunir sem skertir voru. Verknaður ákærða var því refsilaus samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga.

Í öllum tilvikum sátu þrír hæstaréttardómarar í dómi og í tveimur eldri málunum var um að ræða sama héraðsdómara – en það skiptir ekki meginmáli frekar en sú áhugaverða tilviljun að bæði fordæmin gerast eins og gosmálið á Suðurlandi.

Voru raunhæfir valkostir?

Ef þessir tveir dómar eru bornir saman má gera ráð fyrir að aðalálitaefnið fyrir dómi í máli varðandi ölvunarakstur vegna rýmingar í kjölfar eldgossins verði hvort fólkið átti annarra raunhæfra kosta völ miðað við aðstæður. Líklegt er að þá spili inn í möguleikar á að kalla á aðstoð, t.d. hringja með GSM-síma, og aðrir möguleikar til brottfarar og hversu yfirvofandi hættan mátti teljast. Eins og sjá má á tilvitnuðum dómum verður þar væntanlega byggt á huglægu mati fólksins sjálfs en ekki hvernig hættan er metin síðar af yfirvegun og af hálfu fagfólks. Miðað við fordæmin tvö er einnig líklegt að litið verði til áfengismagns í blóði en Hæstiréttur gat þess sérstaklega í málinu þar sem sakfellt var að ákærði hefði verið „verulega undir áhrifum áfengis“ en í sýknudóminum var á hinn bóginn tekið til þess að „[á]fengismagn í blóði ákærða fór ekki verulega fram úr því lágmarki, sem um ræðir“ – þ.e. 0,50 prómill. Miðað við síðara fordæmið er einnig líklegt að dómstólar horfi til þess hversu (ó)varlega ekið var. Hvort tveggja hefur stoð í tilvitnuðu neyðarréttarákvæði þar sem rætt er um að fórna minni hagsmunum fyrir miklu meiri – en ölvunarakstur er vitaskuld hættulegt athæfi og akstur undir verulegum áfengisáhrifum er vitaskuld hættulegri en minniháttar ölvunarakstur. Að öðru leyti vil ég ekki spá fyrir um niðurstöðu dóms Hæstaréttar – en segi:

Gleðilega páska.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð:

Sunnudagur 28.3.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Karlar og konur

Unfanfarin ár hef ég leyft mér að kalla sjálfan mig feminista – nokkuð sem ég er sífellt sannfærðari um í ljósi þeirrar skilgreiningar að sá sé feministi sem viðurkennir að jafnrétti sé ekki náð og vilji gera eitthvað í því. Ekki er ég viss um að konurnar í mínu lífi viðurkenni það allar – en síðan ég var í laganámi fyrir 15-20 árum hef ég viljað gera eitthvað og gert eitthvað í því að laga ójafnrétti í garð kvenna, í raun og að lögum. Auk þess hef ég numið í starfi og námi hver munurinn – kostur og gallar, styrkleikar og veikleikar – séu á kynjunum í leik og starfi. Í námi mínu í mannauðsstjórnun hef ég t.a.m. lært og í stjórnunarstörfum mínum reynt að konur eru oft betri vinnukraftur; ekki bara betri en þær sjálfar telja eða þjóðfélagið viðurkennir heldur beinlínis betri en karlar sem að öðru leyti eru jafngildir.

Nýverið gerði ég félögum mínum smávægilegan greiða. Þar var karl í forsvari – eins og alloft er raunin enn þann dag í dag – en tvær konur höfðu milligöngu eins og líka er enn staðan. Ég fór ekki fram á neinar þakkir fyrir viðvik mitt – sem var einfalt, skemmtilegt, á mínu sérfræðisviði, fljótunnið og auðvelt fyrir mig að verða við; það raskaði í engu áætlunum mínum eða gerðum.

Mér fannst hins vegar athyglisvert að innan fárra klukkustunda frá því að verkið var unnið og innan fárra mínútna frá því að verkið bar árangur þökkuðu báðar konurnar, sem höfðu sem sagt milligöngu, mér persónulega fyrir hjálpina. Ég hef hins vegar enn ekkert heyrt frá karlinum sem var lykilmaður í að þiggja þessa smávægilegu aðstoð – og njóta afraksturs hennar.

Þarf að laga þetta?

Ég spyr því – f.h. sonar míns og annarra karla:

Eigum við ekki – karlar – að laga þetta, saman og sjálfir?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.3.2010 - 23:02 - FB ummæli ()

Fasbók og vefurinn framar Veðurstofunni

Ég frétti af eldgosinu við Eyjafjallajökul í nótt um kl. 00:50 á sjónvarpsskjá Ríkisútvarpsins rétt áður en ég ætlaði að slökkva. Það sýnir mér að almannavarnarhlutverk RÚV er ekki hjóm eitt eins og stundum er talið. Áhugavert er þó að fara yfir hvernig fréttastreymi var af gosinu. Það, sem virðist standa upp úr, er að hið formlega viðvörunarkerfi kom af fjöllum; fréttir bárust hins vegar undan Eyjafjöllum eftir öðrum og óformlegri leiðum, t.d. frá sjónarvottum eða lögreglu til hinna ýmsu miðla. Fyrstu klukkustundirnar stóð aðeins þetta með smáu letri á vef Veðurstofu Íslands:

Ath Eldgos er hafið norðanvert í Fimmvörðuhálsi

með lítin gulan þríhyrning fyrir framan en þessi litla viðvörun virðist hafa birst töluvert eftir að fasbók og vefmiðlar voru komnir með fréttina.

Fasbók öflugust – mbl.is fyrst með fréttina

Sjálfur held ég að fasbók hafi verið lykilatriði við  skjóta útbreiðslu fréttanna, svo og önnur svipuð net – á borð við Twitter, sem ég fylgdist lauslega með í fyrsta skipti í nótt. Strax og ég sá fréttina á sjónvarpsskjánum – og áður en ég fékk hana staðfesta annars staðar – setti ég inn fasbókarfærslu um kl. 00:50 á ensku um að hugsanlega væri hafið gos í Eyjafjallajökli.

Hvað eiginlega fjölmiðla varðar kom FréttaGáttin – Allar fréttir á einum stað – í góðar þarfir við að sjá fréttastreymið án þess að þurfa sífellt að skipta á milli vefsíðna eða endurhlaða síðum. Um 15 mínútum áður en ég sá fréttastrimil yfir sjónvarpsskjáinn birtist fréttin fyrst hjá mbl.is kl. 00:35 með fyrirsögninni:

Gos talið hafið í Eyjafjallajökli

Fréttastrimill á sjónvarpsskjánum sem birtist milli 00:45 og 00:50 vísaði á útvarpsfréttir. Í kjölfarið fylgdi dv.is kl. 00:52 með fullyrðingu um að eldgos væri hafið þar. Önnur frétt mbl.is birtist kl. 00:53 og pressan.is birti frétt um gosið kl. 00:58. Útvarpsfréttir RÚV fylgdu svo ekki fyrr en rétt eftir kl. 1. Ég fór ekki að fylgjast með Bylgjunni fyrr en seinna en frétti líka af umfjöllun á Útvarpi Sögu. Svo var það ekki fyrr en töluvert eftir kl. 2 að ég held að fréttir á ensku, skandinavísku og þýsku fóru að berast á RÚV. Kannski þurfum við að koma upp fjölmenningarlegri viðbraðgsáætlun.

Fréttaröðin á vefmiðlum samkvæmt Fréttagáttinni

Svona var fréttaröðin (í öfugri röð) frá fyrstu frétt á mbl.is kl. 00:35 og til kl. 6 í morgun:

05:58 Eyjafjallajökull uaktywnil sie i nastapila erupcja
05:55 Aukafréttatími á Stöð 2 í hádeginu á morgun
05:42 Komast í morgunmjaltir
05:41 Gosið ekki í ís
05:36 Bændur geta sinnt búfénaði í birtingu
05:35 Gosstrókarnir náðu hundrað metra hæð
05:14 Flugvöllum lokað
05:13 Keflavíkurflugvelli lokað
05:13 Sextán kvikustrókar
05:12 Hefði ekki geta verið á betri stað
04:48 Menn hafa helst áhyggjur af búfénaði sínum
04:42 Hafa áhyggjur af skepnunum
04:38 Gossprungan einn kílómetri að lengd
04:32 Gossprungan um 1 km að lengd
04:30 Sprungan norðarlega í Fimmvörðuhálsi – myndskeið
04:26 Máttlítið eldgos en sækir á
04:17 400 manns skráð sig á Hvolsvelli
04:14 Lágir gosstrókar koma úr sprungunni
04:04 Gosmökkurinn sést úr geimnum
04:00 Treystir sér ekki til að yfirgefa heimili sitt
03:54 Fólk rólegt í fjöldahjálparstöðinni í Hvolsskóla
03:40 Rýmingu lokið á forgangssvæðum
03:33 Litlar líkur taldar á flóði
03:31 Gos hafið í Eyjafjallajökli
03:28 Keflavíkurflugvelli lokað vegna eldgossins í Eyjafjallajökli
03:28 Gríðarlegan gosmökk leggur frá gosstöðvunum
03:23 Flugstjórnarsvæði lokað í 120 mílna radíus
03:22 Dómsmálaráðherra í stjórnstöð
03:20 Mökkurinn sést utan úr geimnum
03:13 Flugbann yfir eldstöðvunum
03:09 Hætta á að sprungan nái að jöklinum
03:03 Hugsanlega flutt burtu í þyrlu
03:01 Girðingar opnaðar fyrir dýrum: „Þau eiga að geta bjargað sér“
03:01 Ofsahræðsla greip um sig í félagsheimili
03:00 Gosið stöðvar ekki Kartöfluball í Þykkvabæ
02:59 Þrjár hjálparmiðstöðvar opnaðar
02:57 Ekki mikill gosmökkur
02:55 Talið að gosið sé nánast á Fimmvörðuhálsinum sjálfum
02:50 Ummerki gossins sjást núna langar leiðir
02:47 Veginum lokað frá Selfossi að Vík
02:41 Fær ösku í augun í Fljótshlíðinni
02:41 Fólk safnast saman í grunnskólanum á Hvolsvelli
02:40 Flugvélum snúið við vegna gossins
02:39 Íbúar taka gosinu með ró segir sýslumaður
02:37 Information on eruption
02:36 Eldgosið færist í aukana
02:34 Flugvélum snúið vegna gossins
02:32 Dómsmálaráðherra upplýstur um gang mála
02:28 Fleiri þyrlur í loftið
02:25 Bjarminn hefur aukist
02:18 Vegum lokað og hjálparstöðvar opnaðar
02:17 Eldgos hafið í Eyjafjallajökli. Rýmingaráætlun Almannavarna verið virkjuð. Talsvert öskufall
02:12 Rýming gengur vel
02:10 Fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins opnaðar
02:09 Gos hafið í Eyjafjallajökli. Fólk í nágrenninu flutt á brott
02:07 Maður veit ekkert hvernig þetta fer
02:06 Vegum lokað vegna gossins
02:05 Öskufall úr Eyjafjallajökli ógnar fiskeldi
02:04 Bjarmi á himni sést frá Búrfelli
02:01 Ekki enn vitað um beina hættu
02:00 Fólki safnað saman undir Eyjafjallajökli
01:59 Gosið er austan við megineldstöðina
01:57 Vegum lokað frá Hvolsvelli
01:53 Gosið virðist byrja rólega
01:50 Gunnar vann gull
01:49 Gosið árið 1821: Búfénaður drapst og jarðir spilltust
01:46 Staðsetning gæti þýtt að ekki verði neitt ofanflóð
01:45 Víðtæk rýming vegna eldgossins
01:42 Er gosið á Fimmvörðuhálsi?
01:37 Þyrla á leið að gosinu
01:32 Bóndi við Eyjafjallajökul: „Það verður ekkert sofið í nótt“
01:32 Búið að opna fjöldahjálparstöðvar
01:22 Gosið sést frá Vestmannaeyjum
01:18 Sjá eldglæringar frá eldgosinu
01:16 Elgos í Eyjafallajökli og verið að rýma hættusvæði í Fljótshlíð
01:14 Öskufall er hafið í Fljótshlíð
01:10 Eldgos hafið í Eyjafjallajökli
01:04 Eldgos hafið í Eyjafjallajökli
01:02 Eldurinn sést úr Fljótshlíð
00:58 Eldgos hafið í Eyjafjallajökli: Öskufall greinist en ekkert kemur fram á mælum Veðurstofunnar
00:53 Öskufall byrjað í byggð
00:52 Eldgos er hafið í Eyjafjallajökli
00:35 Gos talið hafið í Eyjafjallajökli

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.3.2010 - 23:00 - FB ummæli ()

Tökum gerendur úr umferð

Þegar ég var kominn langleiðina með að ljúka laganámi við Háskóla Íslands fyrir um fimmtán árum kom gestakennari frá Bandaríkjum Norður-Ameríku sem kenndi valnámskeið við lagadeildina sem mig minnir að hafi heitið feminískar lagakenningar. Ég sat að vísu ekki námskeiðið en hafði nokkra hugmynd um inntak þess – þ.e. feminískur sjónarhóll á hefðbundnar greinar á borð við refsirétt og sakamálaréttarfar. Þar var t.d. fjallað um galla á löggjöf og réttarframkvæmd miðað við lakari stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Hrokafullir laganemar – einkum karlkyns – gerðu grín að þessu og kölluðu þetta lesbískar lagakenningar.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Löggjöf um nálgunarbann er skýrari og virkari, spornað er við súludansi, vændiskaup eru nú refsiverð, meðvitund og reglur um mansal stórum betri og refsingar og skaðabætur fyrir kynferðisbrot heldur hærri svo dæmi séu tekin. Í þessum brotaflokkum, sem feminíska sjónarhornið var tekið á, eru konur yfirleitt þolendur og karlar oft gerendur. Sú staða – að kynin standa ójafnt að vígi að þessu leyti – og áratuga meðvitund og barátta fyrir réttarbótum til handa konum kann að hafa flýtt fyrir langþráðum réttarbótum á þessu sviði.


Gerandi tekinn úr umferð – stundum

Eitt af því sem hefur breyst er meðvitund um að í heimilisofbeldi – þar sem gerandi er oftar karlmaður – sé réttara að taka gerandann út af heimilinu en (kvenkyns) þolanda.

En hvað með önnur brot – þar sem börn og ungmenni eru bæði gerendur og þolendur? Ég er að tala um einelti. Ekki er augljós þjóðfélagslegur munur á stöðu þolenda almennt og dæmigerðra gerenda svo ég viti. Ég vona að það geri ekki að verkum að bíða þurfi ár eða áratugi eftir umbótum í anda þess sem lagast hefur varðandi raunverulega réttarstöðu kvenna. Nú velkist vonandi enginn í vafa um að rétt sé að taka ofbeldis(karl)mann út af heimili vegna heimilisofbeldis frekar en að reka (kvenkyns) þolanda og eftir atvikum börn að heiman.

Nýverið heyrði ég enn eina sorgarsöguna um afleiðingar eineltis. Ég fer ekki út í smáatriði; flestir þekkja úr nærsamfélaginu eða fjölmiðlum hræðileg dæmi. Stofnanir samfélagsins eru oft furðu seinar að taka við sér og ennþá virðist sumum finnast eðlilegt að þolandinn og aðstandendur hans þurfi að sanna eineltið og afleiðingar þess. Jafnvel eru dæmi um að sami gerandi ráðist á nýja og nýja þolendur. Hvenær skyldi koma að því að gerandinn verði fjarlægður – a.m.k. tímabundið meðan staðan er metin og ástandið bætt – frekar en að þolandinn sé hrakinn í felur, flutning eða það sem er verra. Afleiðingar eineltis eru oft varanlegar og oft óafturkræfar.

Ekki gera ekki neitt!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur