Þriðjudagur 11.08.2015 - 12:50 - FB ummæli ()

Félagslegum leiguíbúðum fækkar í Reykjavík

Reykjavíkurborg hefur staðið sig mjög illa í að fjölga félagslegum leiguíbúðum frá árinu 2009 og hefur þeim fækkað síðustu 5 árin eins og fram kemur í tilkynningum Félagsbústaða til Kauphallarinnar. Húsnæði í eigu Félagsbústaða skiptist í þrjá flokka, þ.e. almennar félagslegar leiguíbúðir, þjónustuíbúðir fyrir aldraða og þjónustukjarnar fyrir fatlað fólk.

Í fréttatilkynningu Félagsbústaða til Kauphallarinnar vegna ársins 2010 kemur fram að Félagsbústaðir áttu þá samtals 1844 félagslegar almennar leiguíbúðir.

Í fréttatilkynningu Félagsbústaða til Kauphallarinnar vegna ársins 2014 kemur fram að Félagsbústaðir áttu í árslok 2014 samtals 1817 félagslega almenna leiguíbúð.

Almennum félagslegum leiguíbúðum hefur því fækkað um samtals 27 íbúðir á þessum árum.

Undir lok síðasta kjörtímabils eða í desember 2013 var samþykkt í borgarstjórn að kaupa 30 félagslegar leiguíbúðir á árinu 2014. Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar keypti félagið 25 íbúðir og seldi 5 íbúðir á árinu 2014.

Skyldur sveitarfélaga

Á sveitarfélögum hvílir sú skylda að tryggja framboð á húsnæði til handa þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Félagsbústaðir sem eru í eigu Reykjavíkurborgar eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík.

Eins og fram kemur á heimasíðu Félagsbústaða er markmið félagsins að auka framboð á félagslegu leiguhúsnæði í borginni til þess að mæta húsnæðisþörf þeirra sem ekki geta staðið undir greiðslubyrði lána vegna íbúðakaupa og eiga ekki kost á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Í svari velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn velferðarráðherra sumarið 2014 um stöðu biðlista hjá Reykjavíkurborg eftir félagslegu leiguhúsnæði kom fram að um 840 umsækjendur væru á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum, þar af um 550 umsækjendur í brýnni þörf.

Þetta eru afleiðingar þess að Reykjavíkurborg hefur vanrækt að fjölga félagslegum leiguíbúðum frá árinu 2009. Eitt af kosningaloforðum Samfylkingarinnar var að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 500 (það eru reyndar bara tæp 3 ár eftir af kjörtímabilinu) en það er akkúrat sá fjöldi sem vanrækt var að fjölga leiguíbúðunum um á árunum 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014 en stefna borgarinnar var alltaf sú að fjölga þeim um 100 á ári. Á síðasta kjörtímabili var íbúðunum hins vegar fækkað og í árslok 2014 voru þær færri en þær voru á árinu 2009.

Í árslok 2019, þ.e. rúmu 1 og ½ ári eftir að þessu kjörtímabili lýkur, á staðan sem sagt að verða eins og hún átti að vera í árslok 2014 þ.e. ef staðið verður við loforðið að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 100 á ári og bæta þannig upp aðgerðarleysið frá 2010.

Fjármögnun 500 félagslegra leiguíbúða

Að sjálfsögðu fögnum við í Framsókn og flugvallarvinum að félagslegum leiguíbúðum sé fjölgað og styðjum að þeim verði fjölgað um 500 næstu 5 árin en helst myndum við vilja að það gerðist hraðar því að sumarið 2014 voru 550 umsækjendur í brýnni þörf eftir slíkum íbúðum. Hins vegar gátum við ekki stutt leikritið sem sett var fram af hálfu meirihlutans í borginni hvernig fjármögnun á að vera háttað en samkvæmt tillögunni á ríkið að leggja fram 20% af kostnaðinum við kaupin, Reykjavíkurborg 10% og restin tekin að láni. Ríkið hefur ekki samþykkt slíkt. Gerðum við athugasemdir við það og hefur fjármálaskrifstofa borgarinnar tekið undir þá athugasemd að borgin geti ekki ákveðið fjármögnun á kaupum á 500 íbúðum með þeim hætti sem gert var. Það er auðvitað algjörlega óábyrgt að setja fram tillögu sem meirihlutinn veit að miðað við þau lög sem eru í gildi að slík fjármögnun gengur ekki upp. Það á kannski eftir að breytast en staðreyndin er sú að meirihlutinn vissi það þegar hann lagði fram tillöguna að hún gengi ekki upp.

Hér að neðan er að finna bókanir Framsóknar og flugvallarvina annars vegar á fundi borgarstjórnar 2. desember 2014 þar sem lögð var fram tillaga um heimild Félagsbústaða til að fjölga leiguíbúðum um 500 næstu fimm árin og hins vegar bókun á fundi borgarstjórnar 12. maí 2015 vegna ábendinga Fjármálaskrifstofu borgarinnar.

Bókun 2. desember 2014:

„Við fögnum því að Reykjavíkurborg sé búin að gera tillögu um uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis og styðjum við hana sem slíka, en vegna aðferðafræðinnar sem fram kemur í greinargerð getum við ekki samþykkt tillöguna eins og hún er og sitjum því hjá við afgreiðslu hennar, með eftirfarandi rökstuðningi: Ótækt er að Reykjavíkurborg byggi tillögu sína um kaup á 500 félagslegum leiguíbúðum næstu 5 árin á þeirri forsendu að Reykjavíkurborg leggi til 10% eigið fé í kaupin og ríkið leggi til 20% eigið fé í kaupin, í samræmi við hugmyndir um framtíðarskipan húsnæðismála. Verður að gera þær kröfur til stjórnvalds að það fari eftir gildandi lögum og reglum í verkefnum og áætlanagerð sinni, eins og lög, faglegt verklag og 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir. Getur Reykjavíkurborg ekki ákveðið hvernig fjárlög verða næstu 5 árin og byggt stefnu sína á því. Því er stefna miðuð við framangreint ómöguleg í framkvæmd fyrr en til koma aðgerðir ríkisvaldsins við að uppfylla tillögu þessa. Við gerum þær kröfur að við áætlanagerð og tillögur sé farið að gildandi lögum og reglum við yfirlýsingar og stefnumörkun Reykjavíkurborgar. Ljóst er að þarfagreining velferðarsviðs, sem tillagan byggist á, á ekki við rök að styðjast og vísum við til bókunar í borgarráði frá 13. nóvember 2014 undir lið 14.“

Bókun 12. maí 2015:

„Við fjárhagsáætlanagerð er mikilvægt að borgarstjórn samþykki ekki tillögur sem byggjast aðeins á hugmyndum, en ekki þegar samþykktum lögum frá Alþingi. Í skýrslu Fjármálaskrifstofu er í ábendingum á bls 50 tekið fram að forsendur fjármögnunar á 500 félagslegum leiguíbúðum gerðu ráð fyrir stofnfjárframlögum frá ríkinu en engar ákvarðanir hafa verið kynntar frá velferðarráðuneytinu og því óvissa um fjármögnunarfyrirkomulag og áform þar að lútandi. Þessi ábending er í samræmi við málflutning og bókun Framsóknar og flugvallarvina um málið á borgarstjórnarfundi 2. desember 2014 að óttækt væri að borgarstjórn myndi samþykkja tillögu byggða á hugmyndum sem ekki hefðu verið lagðar fram eða samþykktar á Alþingi.“

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur