Í fréttum undanfarið hefur komið fram að fjöldinn allur er af lausum leikskólaplássum í Reykjavík sem ekki er verið að nýta. Ástæðan er fjárskortur.
http://kvennabladid.is/2015/08/23/leikskolamal-i-reykjavik/
http://stundin.is/frett/launahaekkanir-standa-i-vegi-fyrir-fjolgun-leiksko/
Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014 lofuðu Vinstri græn gjaldfrjálsum leikskólum og sem liður í því loforði voru leikskólagjöld lækkuð smá í ársbyrjun 2015. Á móti standa auð pláss í leikskólum borgarinnar.
Leikskólagjöld skiptast í námsgjald og fæðisgjald. Hér má sjá mánaðargjöld fyrir árið 2014 og 2015 fyrir 8 klst., annars vegar í flokki 1, þ.e. giftir foreldrar, sambúðarfólk og annað foreldri í námi og hins vegar í flokki 2, þ.e. einstæðir foreldrar, báðir foreldrar í námi, annað eða báðir foreldrar öryrkjar, starfsmenn leikskóla RVK.
Ár | Flokkur | Dvalarstundir | Námsgjald | Fæðisgjald | Samtals |
2014 | 1 | 8 klst | 18.080 | 7.800 | 25.880 |
2014 | 2 | 8 klst | 7.520 | 7.800 | 15.320 |
Ár | Flokkur | Dvalarstundir | Námsgjald | Fæðisgjald | Samtals |
2015 | 1 | 8 klst | 16.960 | 8.060 | 25.020 |
2014 | 2 | 8 klst | 7.040 | 8.060 | 15.100 |
Framsókn og flugvallarvinir óskuðu eftir upplýsingum um málið og fengu svohljóðandi svar við fyrirspurn sinni varðandi leikskólavist barna fædd í mars 2014:
„Í flestum hverfum borgarinnar eru laus leikskólapláss. 3. september 2015 voru laus pláss um 60 þegar búið var að taka tillit til eldri barna á biðlista. 78 börn, fædd í mars 2014, eru nú á biðlista. Börn fædd í mars 2014 sem búa í Reykjavík eru samtals 132. Ekki er til fjármagn til að taka inn á leikskóla börn sem fædd eru í mars 2014 en kostnaður við að taka 60 börn sem fædd eru í mars 2014 inn yrði því um 42 mkr. á ársgrundvelli, en 55 milljónir ef börnin væru 78. Leikskólapláss fyrir yngstu börnin kostar 2,2 mkr. nettó á ári en leikskólapláss fyrir meðalbarnið kostar 1,5 mkr. á ári nettó. Mismunur er 700.000 kr. á ári. Leikskólagjöld eru u.þ.b. 12% af raunkostnaði við leikskólavist. Breytilegur kostnaður er 40% af kostnaði við leikskólavist eða 28 prósentustigum hærri en leikskólagjöld.“
Á fundi borgarráðs 1. október sl. lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi tillögu:
“Mikillar óánægju gætir hjá foreldrum ungra barna fæddum í mars 2014, sem bíða eftir leikskólaplássi hjá Reykjavíkurborg. Samkvæmt svari frá SFS við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina, kemur fram að 60 laus pláss væru á leikskólum Reykjavíkur en að ekki sé til fjármagn til að taka inn þennan hóp leikskólabarna á þessu ári, en kostnaðurinn við að taka 60 börn sem fædd eru í mars 2014 yrði um 42 m.kr. á ársgrundvelli en 55 milljónir ef öll börnin 78 sem fædd eru í mars 2014 og eru á biðlista. Í ljósi þess að kr. 100.000.000.- voru settar inn í fjárhagsáætlun síðasta árs (2015) til að lækka námsgjöld í grunnskólum til að uppfylla kosningaloforð eins samstarfsflokksins í meirihlutanum, þá leggjum við fram þá tillögu að fyrir fjárhagsáætlun næsta árs (2016) verði ekki settir meiri peningar til að lækka leikskólagjöldin (námskostnað), heldur verði sömu fjárhæð ráðstafað til að koma til móts við fleiri börn og nýta plássin sem til staðar eru á leikskólum borgarinnar. Nauðsynlegt er að nýta öll leikskólapláss sem eru laus hverju sinni.“