Miðvikudagur 30.09.2015 - 07:29 - FB ummæli ()

Hótel í fluglínu neyðarbrautar

Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi var viðtal við Jóhann Halldórsson forsvarsmann S8 ehf. sem sagðist vera að fara byggja hótel í Vatnsmýrinni. Umrætt hótel verður í fluglínu svokallaðrar neyðarbrautar.

http://www.ruv.is/frett/byggja-staersta-hotel-landsins

Forsaga málsins er sú að 2. apríl 2008 gerði Framkvæmda- og eignasvið borgarinnar samning við S10 ehf. um kaup S10 ehf. á byggingarrétti á lóð við Njarðargötu. Borgarráð staðfesti ekki samninginn með vísan til þess að ótímabært væri að úthluta byggingarrétti á lóðinni þar sem óvissa væri uppi um framtíðarskipulag svæðisins og framtíðarnotkun þess og lóðarinnar.

Í kjölfarið höfðaði S8 ehf., sem var í eigu sama aðila og S10 ehf., mál á hendur Reykjavíkurborg til að láta reyna á afgreiðslu borgarráðs í málinu. Þeim málaferlum lauk með dómsátt sem var gerð milli aðila hinn 8. desember 2008. Samkvæmt dómsáttinni er gert ráð fyrir að félaginu verði „……..úthlutað og seldur byggingarréttur á aðliggjandi svæði þegar endurskoðun gildandi deiliskipulags samhliða vinnu við framtíðarskipulag allrar Vatnsmýrarinnar liggur fyrir eða fyrr, ef ljóst verður hvort fyrirliggjandi hugmyndir stefnanda um uppbyggingu samræmist heildarendurskoðun svæðisins.“ Þá kemur fram í dómsáttinni að forgangsrétturinn að úthlutun lóðarinnar skuli gilda í fimm ár frá dagsetningu dómsáttarinnar. Borgarráð hafði í tvígang framlengt dómsáttina vegna tafa á skipulagsvinnunni.

Í sumar óskaði skrifstofa eigna- og atvinnuþróunar eftir heimild borgarráðs til að ganga til samninga við S8 ehf. um lóð, sem merkt er H á Hlíðarendasvæði í stað lóðarinnar, sem dómsáttin nær til, „svo ná megi markmiðum þeim sem sett eru fram í rammaskipulagi fyrir svæði Háskóla Íslands og Vísindagarða.“

Á fundi borgarráðs 13. ágúst sl. var lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. ágúst 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta S8 ehf. umræddri lóð þ.e. 6.594 fermetra lóð við Hlíðarenda merkt H.

Var það samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina Guðfinnu Jóh. Guðmundsdóttur og borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks Halldóri Halldórssyni. Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Áslaug Friðriksdóttir sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Ég og Halldór Halldórsson lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Þar sem umrædd lóð er í fluglínu flugbrautar 06/24 er tillagan ekki samþykkt af borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina og borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks Halldóri Halldórssyni.“

Hér má finna frétt á DV frá árinu 2010 um félagið S8 ehf.

http://www.dv.is/frettir/2010/12/8/hus-islenskrar-erfdagreiningar-i-eigu-tortolafelags/

Flokkar: Flugvöllur

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur