Mánudagur 21.09.2015 - 11:19 - FB ummæli ()

Aukafundur borgarstjórnar á morgun

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks óskuðu eftir því á laugardaginn að haldinn yrði aukafundur í borgarstjórn á morgun þriðjudag vegna klúðurs meirihlutans í borginni. Var það samþykkt og verður fundurinn haldinn á morgun kl. 17:00.

Á fundinum verða lagðar fram tvær samhljóða tillögur þar sem meirihlutinn virðist ekki geta samþykkt tillögu okkar í minnihlutanum væntanlega vegna greinargerðarinnar sem fylgir henni.

Dagskráin er svohljóðandi:

1. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina um að draga til baka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september 2015 um undirbúning og útfærslu á sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum.

2. Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata um að draga tilbaka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september 2015 um undirbúning og útfærslu á sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum.

Greinargerð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina með tillögunni:

Tillaga þessi er lögð fram til að lágmarka þann skaða sem samþykkt meirihluta borgarstjórnar hefur haft í för með sér fyrir orðspor og viðskipti Íslands við önnur lönd. Þann 15. september 2015 ákvað meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir, eins og það er orðað í samþykkt borgarstjórnar.

Utanríkisráðuneytinu, sendiskrifstofum Íslands erlendis og Íslandsstofu hefur af þessu tilefni borist verulegur fjöldi fyrirspurna um afstöðu stjórnvalda til samþykktar borgarstjórnar. Þá hafa ferðaþjónustuaðilar lýst yfir áhyggjum sínum vegna málsins og þegar hefur orðið vart við afpantanir ferða.

Sveitarstjórnir eru eins og önnur stjórnvöld bundin af lögum. Í því felst að Reykjavíkurborg verður að haga stjórnsýslu sinni í samræmi lög og að ákvarðanir hennar mega ekki fara í bága við þau, þ. á m. lög um opinber innkaup, þar sem óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum.

Samþykki Reykjavíkurborg að breyta innkaupastefnu sinni með bindandi hætti þannig að ísraelskir birgjar skuli sniðgengnir, samræmist það hvorki íslenskum lögum né ákvæðum í alþjóðlegum skuldbindingum alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup, sem Ísland er aðili að og Reykjavíkurborg og önnur sveitafélög eru bundin af.

Utanríkisráðuneytið áréttar að ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur er ekki í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og er heldur ekki til marks um tengsl Íslands og Ísraels.

Samþykkt meirihluta borgarstjórnar var því vanhugsuð og hefur þegar haft í för með sér afleiðingar til skaða fyrir íslenska þjóð.

Greinargerð Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata með tillögunni:

Áður en teknar verða ákvarðanir um næstu skref skal leita frekari ráðgjafar Kaupmannahafnar og annarra höfuðborga Norðurlanda. Jafnframt skal hafa samráð við utanríkisráðuneytið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur