Sunnudagur 03.01.2016 - 20:57 - FB ummæli ()

Óupplýsta fólkið

Jæja þá hefur Halldór Auðar Svansson Pírati opinberað að hann skiptir ekki um skoðun þó svo skoðun hans byggir á ófullnægjandi upplýsingum. Ef einhver tekur ákvörðun eða gerir samning sem byggir á röngum forsendum, ófullnægjandi gögnum, þá á slíkt að standa, alveg sama hvað. Mannslíf eru bara aukaatriði, óþarfa tilfinningaklám, eins og sumir hafa látið frá sér fara.  Hvað þá að stundaðir séu vandaðir stjórnsýsluhættir og lögum og reglum sé fylgt. Það er bara óþarfa vesen.

Eins og allir vita, sem hafa sett sig inn á málefni svokallaðrar neyðarbrautar, var ákvörðun tekin að taka hana af skipulagi, áður en fullvissa lá fyrir að það væri möguleiki án þess að  stefna flugöryggi í hættu. Áhættumat hafði ekki verið gert og enn hefur ekki verið gert áhættumat vegna lokunar hennar.

Viðhorf Píratans minnir mig svolítið á Martein Mosdal……það er bara til ein borgarskoðun alveg sama hversu vitlaus hún er og það er gunguháttur að skipta um skoðun og viðurkenna mistök sín.

Þetta er ekki spurning um góða og vonda fólkið heldur fólkið sem vill taka upplýsta ákvörðun.

Í leiðarljósi fyrir ný samþykkta upplýsingastefnu borgarinnar segir: „Vönduð meðferð og miðlun upplýsinga eru afar mikilvægir þættir í starfsemi opinberra aðila. Ákvarðanir þurfa að byggjast á bestu fáanlegu upplýsingum og almenningur og aðrir hagsmunaaðilar þurfa að vera vel upplýstir um ákvarðanir og forsendur þeirra.“

Fullnægjandi gögn lágu ekki fyrir þegar ákveðið var að taka neyðarbrautina af skipulagi og liggja enn ekki fyrir. Það eru ekki nema örfáir dagar síðan neyðarbrautin sannaði síðast gildi sitt en Píratanum er sama um slíkt. Hann skiptir nefnilega ekki um skoðun. Hann vill frekar gera lítið úr þeim sem hafa haft þann manndóm í sér að skipta um skoðun þegar þeim var ljóst að réttar upplýsingar lágu aldrei fyrir. Mikið er nú gott að innanríkisráðherra stýrir þessu máli af ábyrgð og ætlar sér ekki að loka brautinni án fullvissu um að slíkt komi ekki niður á flugöryggi en ekki formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.

Píratinn sem er formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs ætti frekar í samantekt sinni að upplýsa af hverju hann virðir ekki 70.000 undirskriftir eða af hverju Píratar vilja stunda vonda stjórnsýslu þegar þeir eru í meirihluta borgarstjórnar og hvort það sé bara stefna þeirra að segjast virða lýðræðið þegar þeir eru í stjórnarandstöðu. Píratar hafa aldeilis haft tækifæri í 1 og 1/2 ár í meirihluta borgarstjórnar að sýna það og sanna að þeir vilja stunda öðruvísi pólitík, það hafa þeir enn ekki gert.

Hér er linkur á umfjöllun Eyjunnar um grein Halldórs Auðar Svanssonar:

http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/01/03/halldor-audar-meirihlutinn-er-vonda-folkid-fyrir-ad-verja-hagsmuni-borgarinnar/

 

 

Flokkar: Flugvöllur · Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur