Miðvikudagur 06.01.2016 - 14:42 - FB ummæli ()

Í andstöðu við eigin upplýsingastefnu

Á borgarstjórnarfundi í gær kom skýrlega fram að borgarstjóri telur sig vita betur en Samgöngustofa, flugumferðarstjórar og flugstjórar. Á fundinum bar hann annars vegar fyrir sig niðurstöður úr skýrslu Eflu um nothæfistíma að það hefði verið hægt að lenda á öðrum brautum en neyðarbrautinni þó svo að Samgöngustofa hafi sagt að hún hafi hvorki rýnt umrædda skýrslu né tæki afstöðu til hennar því hugtakið væri ekki til og hins vegar hæddist hann að ákvörðun hafi verið tekin um að lenda á brautinni á nýársnótt. Þá liggur fyrir að fjárhagslegir hagsmunir skipta Píratana mestu máli en ekki flugöryggi.

Meirihluti borgarstjórnar, þ.e. Samfylkingin, Píratar, Vinstri græn og Björt framtíð, samþykkti á borgarstjórnarfundi í gær að auglýsa að nýju deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar um að taka svokallaða neyðarbraut af skipulagi þrátt fyrir að enn hefur ekki verið sýnt fram á það með fullnægjandi gögnum að hægt sé að loka flugbrautinni þannig að það komi ekki niður á flugöryggi.

Ekki eru nema örfáir dagar síðan neyðarbrautin sannaði síðast gildi sitt en þrátt fyrir það og þrátt fyrir að fullnægjandi gögn liggja ekki fyrir svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun veður meirihlutinn áfram með bundið fyrir augun. Mál þetta varðar almannaheill og flugöryggi og því verða vinnubrögðin að vera faglega fullnægjandi við meðferð málsins.

Vinnubrögð meirihlutans í borginni eru hins vegar í hrópandi andstöðu við vandaða stjórnsýsluhætti og nýsamþykkta upplýsingastefnu borgarinnar en þar segir: „Ákvarðanir þurfa að byggjast á bestu fáanlegum upplýsingum“. Sýna vinnubrögð meirihlutans að það er eitt að samþykkja upplýsingastefnuna og annað að framfylgja henni. Orð og athafnir fara ekki saman.

Nauðsynleg gögn liggja ekki fyrir til að taka upplýsta ákvörðun en í niðurstöðu Samgöngustofu kemur fram að áhættumat Isavia nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfi landsins í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna, áhrifa á sjúkraflutninga né fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur og þurfi að gera sérstakt áhættumat um framkvæmd breytingarinnar komi til þess að ákveðið verði að loka flugbrautinni. Er því bæði órökrétt og óábyrgt að taka flugbraut út af skipulagi, gera ráð fyrir byggingum sem teppa aðflug að flugbrautinni og ætla að loka henni áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir.

Þar sem enn liggur ekki fyrir fullvissa um það að hægt sé að loka brautinni án þess að það komi niður á flugöryggi er þar með ekki hægt að taka upplýsta ákvörðun um að taka neyðarbrautina af skipulagi. Ber því að þakka innanríkisráðherra en ekki meirihluta borgarstjórnar að framfylgja upplýsingastefnu borgarinnar.

http://www.hringbraut.is/frettir/borgarstjori-bidjist-afsokunar#.Vo0cFqIhYRm.facebook

 

 

Flokkar: Flugvöllur · Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur