Föstudagur 04.03.2016 - 14:19 - FB ummæli ()

Markviss vinna ríkisstjórnarinnar hefur skapað góðan grunn

Það er hvergi betra í heiminum að vera kona á vinnumarkaði en á Íslandi, kaupmáttur launa hefur aukist, atvinnuleysi er lágt og gæti farið niður í 1% í sumar. Færri og færri glíma við íþyngjandi húsnæðiskostnað og þeim hefur fækkað verulega sem mælast undir lágtekjumörkum um leið og jöfnuður eykst. Skuldastaða íslenska þjóðarbúsins við útlönd er gjörbreytt eftir að nauðasamningar náðust við kröfuhafa. Skuldir lækkuðu um rúmlega 7.000 milljarða milli ársfjórðunga og hefur staðan ekki verið jafngóð síðan fyrir aldamót. Þrátt fyrir þetta er kvartað og kveinað, allt sé skelfilegt á Íslandi.

Vegna skipulagðrar og markvissrar vinnu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar höfum við náð þessum árangri. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sagði að það væri ekki hægt að gera meira fyrir heimilin í landinu og gafst upp á verkefninu. Það skýtur því skökku við að reynt er að gera lítið úr lækkun húsnæðisskulda heimilanna, hvað þá að segja hana ósanngjarna, þ.e. að ósanngjarnt væri að þau heimili sem voru með verðtryggð húsnæðislán fengju leiðréttingu. Þá höfðu fáir trú á orðum Sigmundar Davíðs að hægt væri að sækja fé til kröfuhafanna sem nú er orðið að veruleika.

Framtíðarmöguleikar Íslands eru gífurlega góðir vegna vinnu ríkisstjórnarinnar. Núna erum við loksins komin með góðan grunn til að byggja á og gera enn betur.

Á sama tíma er  fjárhagsstaða borgarinnar mjög slæm. Ég get ekki til þess hugsað ef sami meirihluti og nú er í borgarstjórn Reykjavíkur, þ.e. Samfylkingin, Píratar, Vinstri græn og Björt framtíð, hefði stýrt fjármálum ríkisins í þessu kjörtímabili. Óhætt er að fullyrða að ef svo hefði verið væri hækkun framlaga til heilbrigðismála og til öryrkja og aldraðra aðeins fjarlæg draumsýn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur