Þriðjudagur 10.05.2016 - 09:41 - FB ummæli ()

Taprekstur borgarinnar

Það er staðreynd að rekstur borgarinnar gengur illa undir stjórn Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar, og áætlanir ganga ekki upp. Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2015 liggur fyrir og sýnir verri niðurstöðu en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar, þ.e. A- og B-hluta, var 167% undir áætlun. Mikið tap er á aðalsjóði eða sem nemur 18,3 milljörðum króna þrátt fyrir að útsvar sé í hámarki og tekjur hafa aukist.

Borgarbúar hafa ríka ástæðu til að hafa áhyggjur. Rekstur borgarsjóðs er ekki sjálfbær. Hann stendur ekki undir sér. Í fyrra sagði borgarstjóri að þetta væri tekjuvandi, núna eru það lífeyrisskuldbindingar. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta er rekstrarvandi. Það er ekki alltaf hægt að skýla sér á bak við að áætlanir standist ekki og því sé tap. Grunnrekstur borgarinnar er ekki sjálfbær, óháð gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga.

Tekjur duga ekki fyrir útgjöldum
Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var neikvæð um 5 milljarða, en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 7,4 milljarða. Afkoma samstæðunnar er 16 milljörðum verri í ár heldur en hún var árið 2014. Ef horft er framhjá matsbreytingum fjárfestingareigna var afkoma samstæðunnar neikvæð um 9 milljarða. Matsbreyting fjárfestingaeigna Félagsbústaða nam um 4 milljörðum, sem rekja má til hækkunar á gangvirði fasteigna félagsins.

Tekjur borgarinnar duga ekki fyrir útgjöldum þó svo að útsvar sé í hámarki og skatttekjur hafi verið hærri en áætlað var. Handbært fé samstæðunnar nam 16,2 milljörðum í árslok og var 1,4 milljörðum lægra en áætlun gerði ráð fyrir. Handbært fé A-hluta lækkaði um 2,4 milljarða á árinu. Skuldir hækkuðu um 14 milljarða. Skuldir á hvern íbúa í Reykjavík voru 2,46 milljónir á árinu 2015. Skuldir á íbúa í Reykjanesbæ voru lítið eitt hærri eða 2,86 milljónir.

Veltufé frá rekstri A-hluta var 5,2 milljarðar eða 5,7% af tekjum A-hluta á árinu 2015. Fjármálaskrifstofa borgarinnar telur æskilegt að veltufé frá rekstri sé ekki undir 9% af tekjum og er veltufé frá rekstri ársins 2015 um 3 milljörðum frá þessu lágmarki.

Mikill taprekstur aðalsjóðs
Staða aðalsjóðs er mjög slæm en rekstrarniðustaða sjóðsins var neikvæð um 18,3 milljarða. Hlutverk aðalsjóðs er umsjón með hefðbundinni starfsemi borgarinnar og er starfsemin að mestu fjármögnum af skatttekjum. Það er mjög alvarleg staðreynd að aðalsjóður skuli vera rekinn með svo miklu tapi, sem sýnir að meirihlutinn ræður ekki við verkefnið, þrátt fyrir auknar skatttekjur, og bitnar það á grunnþjónustu borgarinnar. Biðlistar eru langir eftir félagslegu leiguhúsnæði, sérfræðiþjónustu skóla og stuðningsþjónustu. Tapið í aðalsjóði er bætt upp að hluta með hagnaði á eignasjóði sem nemur um 4,4 milljörðum sem hefur það í för með sér að viðhaldi á eignum borgarinnar er ekki sinnt sem skyldi. Borgin er búin að spara sér til tjóns í mörg ár. Ef viðhaldi væri sinnt væri hallinn enn meiri.

Það þarf að taka erfiðar ákvarðanir
Það er staðreynd að rekstur borgarinnar undir stjórn meirihlutans gengur illa. Tekjur duga ekki fyrir útgjöldum þrátt fyrir að skatttekjur hafi aukist. Áætlanir um sölu byggingarréttar gengu hvorki eftir 2015 né 2014. Minnihutinn, bæði Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur, hafa ítrekað lagt til að borgin fengi utanaðkomandi aðila sér til aðstoðar til að hagræða í rekstrinum og takast á við vandann og hefur nú rekstarráðgjafi verið ráðinn til verksins.

Það er ekki hægt að auka álögur á borgarbúa, það þarf að hagræða í rekstrinum. Það þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Það þarf að minnka kerfið sem hefur bólgnað út undanfarin ár. Útsvar er í hámarki og gjaldskrár hafa hækkað. Það þarf að forgangsraða fjármunum í þágu velferðarmála, skólamála og sinna viðhaldi. Það þarf að auka framboð á lóðum til sölu og því hefur minnihlutinn bent á að stækka þurfi byggðina í Úlfarsárdal. Starfsmönnum hefur fjölgað verulega undanfarin ár og er launakostnaður nú um 55% af kostnaðinum. Ef lækka á rekstrarkostnað þarf að fækka starfsfólki. Nú er lítið atvinnuleysi og ef einhvern tímann er tækifæri til að fækka starfsfólki er það nú. Það þarf að sameina ráð og skrifstofur, svo sem mannréttindaráð og stjórnkerfis- og lýðræðisráð, mannréttindaskrifstofu og velferðarsvið, og það þarf að sleppa verkefnum eins og þrengingu Grensásvegar.

 

(Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 7. maí 2016)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur