Laugardagur 03.09.2016 - 16:17 - FB ummæli ()

Oftúlkaður Hæstaréttardómur?

Í dómsmálinu um lokun neyðarbrautarinnar var ekki gerð krafa um það að ríkið myndi standa við samkomulagið um söluna á landinu í Skerjafirði sem fulltrúar Samfylkingarinnar gerðu f.h. Reykjavíkurborgar og ríkisins 1. mars 2013, þ.e. Dagur B. Eggertsson og Katrín Júlíusdóttir, þó svo vikið sé að samkomulaginu í dómnum þegar fjallað er um valdmörk innanríkisráðherra.

Dómsmálið snérist um samning Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Jóns Gnarr frá 25. október 2013 um lokun neyðarbrautarinnar en ekki um að það að ríkið ætti að standa við samkomulagið um söluna frá 1. mars 2013.  Með dómnum er ríkið því ekki dæmt til að afsala landinu í Skerjafirði til Reykjavíkurborgar.

Í dómi Hæstaréttar er hins vegar vikið að áformaðri sölu landsins í Skerjafirði og gerð samkomulagsins frá 1. mars 2013 milli Samfylkingarfólksins og bent á að efni til hafi falist í þessu samkomulagi skuldbinding um að aðilar myndu á síðari stigum gera kaupsamning og afsal. Tekur Hæstiréttur það fram að áformuð sala heyri ekki undir innanríkisráðuneytið en hafi verið heimiluð af Alþingi í fjárlögum 2013. Eins og kunnugt er var heimildin ekki veitt í síðari fjárlögum en hingað til hefur verið talið að heimildir í fjárlögum gilda bara eitt ár í senn. Er það m.a. staðfest í viðtali sem birtist á visir.is við embættismann í fjármálaráðuneytinu í nóvember 2013.

http://www.visir.is/heimildarakvaedi-um-solu-flugvallarsvaedis-gleymdist/article/2013131129763

Samkomulagið ekki kaupsamningur í skilningi fasteignakaupalaga

Í 7. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup (hér eftir nefnd fasteignakaupalögin) er fjallað um þau formsatriði sem samningur þarf að uppfylla til að teljast kaupsamningur. Í 8. gr. fasteignakaupalaga er fjallað um það þegar skuldbindingargildi kaupsamnings er bundið fyrirvara um atvik sem ekki hefur gengið eftir þá skuli kaupsamningur falla niður að liðnum tveimur mánuðum frá því að hann komst á.

Hæstiréttur tekur það skýrt fram að þetta samkomulag frá 1. mars 2013 sé ekki kaupsamningur um fasteign samkvæmt 7. gr. fasteignakaupalaga og þ.a.l. séu þær skyldur sem aðilar gengust undir með samkomulaginu ekki fallnar niður samkvæmt 8. gr. fasteignakaupalaga. Það þýðir að ef þetta væri kaupsamningur (en kaupsamningur telst kominn á með samþykki kauptilboðs) sem hefði verið bundinn ótímabundnum fyrirvara hefði hann fallið sjálfkrafa niður eftir tvo mánuði.

Vangaveltur um það hvað Hæstaréttur er að segja

Af Hæstiréttardómnum er hvorki hægt að ráða hvort ríkið sé enn bundið af samkomulaginu um söluna á landinu í Skerjafirði né hvort það sé fallið niður enda snérist dómsmálið ekki um þetta samkomulag. Það má þó ráða af dómnum að þar sem samkomulagið frá 1. mars 2013 sem Dagur B. Eggertsson og Katrín Júlíusdóttir gerðu uppfyllir ekki þau skilyrði fasteignakaupalaga að teljast kaupsamningur geta ótímabundnir fyrirvarar í annars konar samningum en þeim sem teljast kaupsamningar í skilning laganna ekki fallið niður á grundvelli fasteignakaupalaga.

Til að fá úr því skorið hvort samkomulagið væri enn í gildi þannig að ríkið yrði dæmt til að afsala landinu í Skerjafirði til Reykjavíkurborgar eða eftir atvikum greiða skaðabætur eða hvort það hefði fallið niður þar sem heimildin var ekki endurnýjuð í fjárlögum eða vegna þess að fyrirvarar í samkomulaginu hefðu ekki gengið eftir hefði þurft að láta á málið reyna fyrir dómstólum.

Flokkar: Flugvöllur

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur