Miðvikudagur 28.12.2016 - 22:09 - FB ummæli ()

Orð sérfræðinga um lokun neyðarbrautarinnar

Sú alvarlega staða kom upp í dag að ekki var hægt að lenda sjúkraflugvél í Reykjavík þar sem búið er að loka svokallaðri neyðarbraut.

Í dag birti Þorkell Ásgeir Jóhannsson flugstjóri hjá Mýflugi, sem sér um sjúkraflugið, svohljóðandi færslu á facebook:

„Þar kom að því. Nú hefur það gerst að ekki var hægt að koma alvarlega veikum einstaklingi til Reykjavíkur í sjúkraflugi, þar sem við hefðum þá þurft að nota flugbraut 24 (neyðarbrautina) vegna mikils SV-hvassviðris. Aðrar flugbrautir bæði í Reykjavík og Keflavík voru ófærar vegna þessa veðurs.

Það fólk sem ber ábyrgð á þessari skerðingu Reykjavíkurflugvallar lætur sig ekkert muna um að storka örlögum annarra.

Við flugum þessum sjúklingi til Akureyrar þar sem hann fær vonandi fullnægjandi umönnun en þó er ljóst að hann hefði þurft að komast til LSH í Reykjavík. Útkallið var í fyrsta forgangi.“

Í samtali við Alltumflug.is segir Þorkell: „Við sóttum einn sjúkling hérna á Austurlandi og áttum að fara með hann suður í fyrsta forgangi en það var bara ekki hægt – Núna er komið að því að þetta er orðið að veruleika sem er margbúið að vara við en það er enginn sem hlustar“.

Viðtalið er hægt að lesa hér:

http://alltumflug.is/flugfrettir/10511/Sj%C3%BAkraflugv%C3%A9l_gat_ekki_flogi%C3%B0_til_Reykjav%C3%ADkur_%C3%AD_kv%C3%B6ld_me%C3%B0_alvarlegan_veikan_sj%C3%BAkling

Þá birti Flugmálafélag Íslands (FMÍ) eftirfarandi færslu á facebook í dag:

„Sú alvarlega staða er nú komin upp að Reykjavíkurflugvöllur hefur verið með öllu ófær vegna vinda og lokun Neyðarbrautarinnar.

Nú skiptir miklu máli að bregðast hratt við. Að opna Neyðarbrautina á ný kostar ríkissjóð ekkert og getur Alþingi tekið ákvörðun um það þegar í stað. Flugmálafélagið hvetur nýtt þing til þess að bregðast við tafarlaust áður en það verður um seinan og án þess að það hafi þá kostað mannslíf.“

Hér að neðan er tilkynning FMÍ til fjölmiðla nú í kvöld:

Sjúkraflug liggur niðri af mannavöldum
Sú alvarlega staða er nú komin upp að Reykjavíkurflugvöllur hefur verið með öllu ófær frá því snemma í morgun. Engin sjúkraflugvél gat lent á vellinum þar sem búið er að loka þeirri flugbraut sem nýtist í stormi úr suðvestri og er í daglegu tali nefnd Neyðarbrautin. Brautin er þó enn á sínum stað og í góðu ástandi. Aðeins stjórnmálamenn standa í vegi fyrir lendingum á brautinni.

Stjórn Flugmálafélag Íslands man ekki eftir jafn alvarlegri stöðu í flugsamgöngum innanlands og komið hefur fram í dag. Ljóst er að varnaðarorð flugstjóra og sérfræðinga í flugmálum áttu við full rök að styðjast og að stjórnmálamenn hafa gert alvarleg mistök með því að loka Neyðarbrautinni.

Nú skiptir miklu máli að bregðast hratt við. Að opna Neyðarbrautina á ný kostar ríkissjóð ekkert og getur Alþingi tekið ákvörðun um það þegar í stað. Flugmálafélagið hvetur nýtt þing til þess að bregðast við tafarlaust áður en það verður um seinan og án þess að það hafi þá kostað mannslíf.

Samþykkt af stjórn Flugmálafélags Íslands þann 28. Desember 2016.

http://us10.campaign-archive1.com/?u=c211f22f14eee7469dfb57aed&id=6a31fa44a8

Flokkar: Flugvöllur

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur