Nokkrar staðreyndir:
- Borgin úthlutaði einungis fimm fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum á fyrsta 31 mánuðinum sem Dagur hefur verið borgarstjóri þ.e. frá júní 2014 til ársloka 2016, þar af var ein þeirra boðin út á almennum markaði, þ.e. Tryggvagata 13, tvær til eldri borgara, ein til Búseta og ein til Félagsbústaða til að byggja sex íbúða sambýli. Auk þessara fimm lóða er þessi úthlutun á mörkunum að falla þar undir, þ.e. á Mýrargötu 27-31 og Seljavegi 1A og 1B var úthlutað fyrir samtals 8 íbúðir, þ.e. 4 sérbýli og eitt fjölbýli með 4 íbúðum, samtengt.
- Á 6 ára tímabili eða frá árslokum 2010 til ársloka 2016 voru einungis byggðar 1644 íbúðir í Reykjavík, hluti þeirra er þó ekki fullgerður, en samkvæmt upplýsingum úr landskrá Þjóðskrár Íslands skiptast þær þannig: 6 íbúðir 2011, 96 íbúðir 2012, 251 íbúð 2013, 394 íbúðir 2014, 262 íbúðir 2015 og 635 íbúðir 2016.
- Í Kópavogi var á sama tímabili, þ.e. frá árslokum 2010 til ársloka 2016 byggðar 1292 íbúðir samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá.
- Á árinu 2016 náðist þó einungis að fullgera 399 íbúðir í Reykjavík svo enn er eitthvað af framangreindum íbúðum enn ekki fullgerðar en eru a.m.k. komnar á fokheldisstig.
- Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa er áætlað að á þessu ári verði um 600 íbúðir fullgerðar í Reykjavík. Eðli málsins samkvæmt er því enn verið að klára bygginguna á einhverjum þessara íbúða sem eru inni í ofangreindum tölum.
- Á einu ári eða frá árslokum 2015 til ársloka 2016 fjölgaði umsækjendum á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum hjá Félagsbústöðum um 23,5%.
- Í árslok 2016 voru 893 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum, þar af voru 643 metnir í mikilli þörf.
- Í árslok 2015 voru 723 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum, þar af voru 535 metnir í mikilli þörf.
- Þá voru í árslok 2016 samtals 161 umsækjandi á biðlista eftir sértækum búsetuúrræðum og 172 umsækjendur á biðlista eftir þjónustuíbúðum aldraðra.
- Í árslok 2016 voru færðar 91 eign úr eignasjóði Reykjavíkurborgar yfir til Félagsbústaða. Eingöngu er um bókhaldstilfærslu að ræða enda eru íbúar á vegum velferðarsviðs borgarinnar búsettir í eignunum. Raunveruleg fölgun á eignum Félagsbústað árið 2016 voru 33 eignir sem keyptar voru á almennum markaði eða byggðar af Félagsbústöðum, þ.e. 27 almennar félagslegar leiguíbúðir og sex sértæk búsetuúrræði.
- Af þessari 91 eign sem var færð á milli A og B, þ.e. úr eignasjóðnum yfir til Félagsbústaða, færðust 19 undir sértæk búsetuúrræði og 72 undir þjónustuíbúðir aldraðra.
- Á árinu 2016 fjölgaði almennum félagslegum leiguíbúðum um 27 íbúðir, þ.e. 26 voru keyptar á almennum markaði og ein af Búseta. Borgin byggði enga slíka íbúð. Á árinu 2012 fjölgaði þeim um fjórar, á árinu 2013 um 10, á árinu 2014 um 17 og árinu 2015 um 84 en rúmlega helmingur þeirra var keyptur af Íbúðalánasjóði á gamlársdag 2015.
- Á árunum 2012 og 2013 varð engin fjölgun á sértækum búsetuúrræðum en á árinu 2014 fjölgaði þeim um þrjú. Engin fjölgun varð á árinu 2015. Á árinu 2016 fjölgaði þeim um 25, þ.e. annars vegar keyptu Félagsbústaðir eina eign á almennum markaði og byggði íbúðakjarna fyrir fimm einstaklinga og hins vegar bættust við 19 eignir frá eignasjóði Reykjavíkurborgar vegna eignatilfærslunnar sem getið er um hér að framan.
- Á árinu 2012 fjölgaði þjónustuíbúðum aldraðra um tvær. Engin fjölgun varð á árunum 2013-2015. Á árinu 2016 fjölgaði þeim um 72 vegna eignatilfærslunnar sem getið er um hér að framan frá eignasjóði Reykjavíkurborgar.
- Hér er svo frétt um hvað gerðist hjá öldruðum við eignatilfærsluna úr eignasjóði Reykjavíkurborgar yfir til Félagsbústaða: http://www.dv.is/frettir/2017/3/17/vid-erum-gleymd/