Miðvikudagur 15.03.2017 - 16:56 - FB ummæli ()

Lóðaskortsstefna meirihluta borgarstjórnar bitnar á ungu fólki

Lóðaskortsstefna meirihluta borgarstjórnar með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar hefur stóraukið húsnæðisvandann í borginni. Frá upphafi kjörtímabilsins í júní 2014 til síðustu áramóta eða á 31 mánuði úthlutaði borgin einungis fimm fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum, þar af var ein þeirra boðin út á almennum markaði, þ.e. Tryggvagata 13, tvær til eldri borgara, ein til Búseta og ein til Félagsbústaða til að byggja sex íbúða sambýli. Staðan nú er einfaldlega sú að unga fólkið hefur ekki ráð á húsnæði í Reykjavík. Skortur er á leiguíbúðum, leiguverð hátt og möguleikar ungs fólks litlir að koma sér upp þaki yfir höfuðið í höfðuðborginni. Það vantar litlar, ódýrar íbúðir fyrir ákveðinn hóp, t.d. ungt fólk sem á ekki eigið fé, kemst ekki í gegnum greiðslumat og leigir langt umfram greiðslugetu

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 gengur út á þéttingu byggðar á lóðum sem eru aðallega í höndum fasteignafélaga. Þrátt fyrir stefnu borgarinnar um þéttingu byggðar er varla hægt að segja að borgin hafi verið með til sölu lóðir á þéttingarreitum í borginni frá 2010. Þær lóðir sem verið er að byggja á eða til stendur að byggja á eru flestar í höndum fasteignafélaga og banka á dýrustu stöðunum í borginni og hæpið að þar verði byggðar litlar og ódýrar íbúðir en mikil þörf er á slíkum íbúðum. Það gengur of hægt að byggja til að mæta þeirri miklu eftirspurn sem er og slíkt leiðir af sér verðhækkanir. Ekki hjálpar til lítið lóðaframboð borgarinnar og staðsetning húsnæðisins en þétting byggðar leiðir af sér hærra verð þar sem verið er að byggja á dýrustu stöðum borgarinnar allt á kostnað unga fólksins sem hefur ekki ráð á því húsnæði sem er í boði eða á að vera í boði á næstu misserum.

Borgarstjóri hefur verið duglegur að þylja upp hvað fasteignafélögin ætla að fara byggja en hann hefur ekki staðið sig í því að úthluta lóðum enda á borgin fáar lausar lóðir á þeim stöðum sem til stendur að byggja á. Nú vantar um 5000 íbúðir í Reykjavík en samkvæmt áætlunum borgarstjóra ætla fasteignafélögin að byggja þann fjölda á næstu árum. Það verður auðvitað á þeim hraða sem þjónar þeirra hagsmunum sem best. Það munu því líða mörg ár í viðbót þar til sú þörf sem nú þegar er til staðar verður uppfyllt. Hvað þá þörf næstu ára.

Við í Framsókn og flugvallarvinum höfum frá upphafi kjörtímabilsins ítrekað bent á að Úlfarsárdalurinn sé það svæði þar sem borgin getur úthlutað lóðum. Nú er verið að vinna að endurskoðun deiliskipulags Úlfarsársdals á grundvelli tillögu Framsóknar og flugvallarvina frá því í ágúst 2015. Það verður því í loks í lok kjörtímabilsins hægt að fara úthluta fjölbýlishúsalóðum í Úlfarsárdalnum sem hefði átt að vera möguleiki strax í upphafi kjörtímabilsins ef Dagur og félagar hans í meirihlutanum hefðu virkilega haft áhuga á að leggja allt að mörkum til að leysa húsnæðisvandann.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. febrúar 2017

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur