Þriðjudagur 14.02.2017 - 19:18 - FB ummæli ()

Það þarf að úthluta lóðum í Úlfarsárdal

Það er staðreynd að húsnæðisvandinn er mikill í borginni og lóðaskortur en borgin úthlutaði einungis sex fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum á fyrsta 31 mánuði kjörtímabilsins. Uppbygging gengur of hægt meðal annars vegna fárra lóðaúthlutana. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands fjölgaði íbúðum í Reykjavík einungis um 1644 íbúðir frá 2010 til ársloka 2016 en nauðsynlegt hefði verið að fjölga þeim um 700 á ári á þessu tímabili.

Framsókn og flugvallarvinir hafa ítrekað fjallað um lóðaskort í borginni og hvað nauðsynlegt er að skipuleggja meiri byggð í Úlfarsárdal og fjölga þar lóðum svo hægt sé að takast á við húsnæðisvandann. Á grundvelli tillögu Framsóknar og flugvallarvina sem samþykkt var haustið 2015 er verið að endurskoða skipulag Úlfarsárdals. Úlfarsárdalurinn er það svæði sem borgin getur úthlutað lóðum því flestar þær lóðir sem verið er að byggja á eða til stendur að byggja á eru í höndum fasteignafélaga á dýrustu stöðunum í borginni og hæpið að þar verði byggðar litlar og ódýrar íbúðir sem mikil þörf er á.  Það gengur of hægt að byggja til að mæta þeirri miklu eftirspurn sem er og slíkt leiðir af sér verðhækkanir. Ekki hjálpar til lítið lóðaframboð borgarinnar og staðsetning húsnæðisins en þétting byggðar leiðir af sér hærra verð þar sem verið er að byggja á dýrustu stöðum borgarinnar allt á kostnað unga fólksins sem hefur ekki ráð á því húsnæði sem er í boði.

Það er mikilvægt að stækka byggðina í Úlfarsárdal til að hverfið verði sjálfbært og þeir innviðir sem borgin hefur og er að fjárfesta í komi að sem mestum notum, til að hægt sé að uppfylla skuldbindingar borgarinnar gagnvart kaupendum lóða í hverfinu, til að uppfylla skuldbindingar borgarinnar við Knattspyrnufélagið Fram, til að koma til móts við væntingar íbúanna og til að auka lóðaframboð í borginni sem er af skornum skammti. Stækka þarf hverfið enn meira en endurskoðun deiliskipulagsins gerir ráð fyrir og því eru vonbrigði að fyrirhuguð breyting nái ekki einnig til svæðisins fyrir ofan Mímisbrunn eins og við í Framsókn og flugvallarvinum höfum ítrekað bent á.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 11. febrúar 2017)

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur