Föstudagur 10.02.2017 - 23:19 - FB ummæli ()

Alþjóða flugmálastofnunin staðfestir að forsendur útreiknings á nothæfisstuðli voru rangar

Rúmum þremur mánuðum eftir niðurstöðu Samgöngustofu um áhættumatsskýrslu Isavia gerði öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) alvarlegar athugasemdir við útreikning nothæfisstuðulsins. Hér að neðan er annars vegar rakin niðurstaða Samgöngustofu frá 1. júní 2015 og hins vegar athugasemdir ÖFÍA frá 9. september 2015.

Nú liggur fyrir að forsendur á útreikningi nothæfisstuðulsins voru rangar eins og ÖFÍA hélt fram sem því miður var ekki hlustað á.

Í nýjasta Fréttabréfi Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) segir: „Eftir ítarlega athugun komst ÖFÍA að þeirri niðurstöðu, að útreiknaður nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar skv. ICAO staðli án brautar 06/24 í skýrslu Eflu væri rangur. Alvarlegasta villan er sú að bremsuskilyrðum á flugbrautum voru ekki tekin með í reikninginn.“ Þar sem engin viðbrögð hafi borist við bréfinu, dags. 9. september 2015, hafi verið ákveðið að fá álit Alþjóða flugmálastofnunarinnar ICAO. „Erindi var sent sem fulltrúi IFALPA bar undir ICAO Secretariat. Svar barst ÖFÍA þar sem túlkun ÖFÍA á grein 3.1.3 í Annex 14 var staðfest, þ.e. að taka skuli bremsuskilyrði og önnur veðurfarsleg atriði með í reikninginn þegar nothæfisstuðull er reiknaður. Ennfremur tók ICAO undir túlkun ÖFÍA á SARPS hugmyndafræðinni, að leitast ætti við að ná nothæfisstuðli flugvallar eins háum og unnt væri, nema landfræðilegar takmarkanir væru til staðar. Það blasir því við að skýrsluhöfundar hafa mistúlkað grein 3.1.3 í Annex 14 og lokun brautarinnar var að endingu réttlætt með gallaðri verkfræðiskýrslu.“

Sjá bls 9-10 í Fréttabréfinu:

http://www.fia.is/images/stories/frettabref/2017/1701_web.pdf

Niðurstaða Samgöngustofu 1. júní 2015

Í niðurstöðu Samgöngustofu frá 1. júní 2015 um áhættumatsskýrslu Isavia vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar 06/24 kemur m.a. fram að áhættumatið nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfið í landinu í heild sinni, neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga. Þá nái það ekki til fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur. Bendir Samgöngustofa á að gera þurfi sérstakt áhættumat ef ákveðið verði að loka flugbrautinni. Tekur Samgöngustofa það sérstaklega fram að hún rýndi hvorki né tók afstöðu til skýrslu Eflu um nothæfistíma, en meirihluti borgarstjórnar hefur ítrekað vísar til þeirrar skýrslu máli sínu til stuðnings við það að taka brautina af skipulagi. Samgöngustofa taldi hins vegar að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul, en áhættumat Isavia er unnið með hliðsjón af þeirri skýrslu, sýndi að nothæfisstuðulinn færi ekki undir 95%. Gerði öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) alvarlegar athugasemdir við það og hefur talið útreikninginn á nothæfisstuðlinum rangan í skýrslunni.

Athugasemdir öryggisnefndar Félags íslenska atvinnuflugmanna 9. september 2015
Rúmum þremur mánuðum eftir niðurstöðu Samgöngustofu eða með bréfi 9. september 2015 til innanríkisráðuneytis gerði Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna athugasemdir um að í skýrslu Eflu um nothæfisstuðul sé hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en í þeim sé að finna nánari skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla tæki ekki til greina sem leiddi til þess að skýrslan innihéldi alvarlegar villur.

Í bréfinu kemur fram að öryggisnefndin telur skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt sé að áhættumatsskýrsla Isavia byggist á henni við ákvörðunartöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar. Í bréfinu er m.a. bent á að borið hafi að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni, skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur. Þá gerir Öryggisnefndin athugasemdir við að áhættumatsskýrslan taki ekki mið af sjúkraflugi.

Lýkur Öryggisnefndin bréfi sínu á því að gera alvarlegar athugasemdir við framvindu málsins og bendir á að það sé grundvallaratriði að úrvinnsla sem varði flugöryggismál sé unnin með lögmætum og óvéfengjanlegum hætti. Afrit af bréfi Öryggisnefndarinnar var sent Samgöngustofu, Isavia og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Flokkar: Flugvöllur

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur