MMR kannaði hug Íslendinga til þess að loka flugbraut 06/24 (oft nefnd neyðarbraut) á Reykjavíkurflugvelli. Niðurstöður könnunarinnar voru þær að 78% Íslendinga eru andvíg því að brautinni verði lokað. Sé aðeins horft á íbúa höfuðborgarsvæðisins vilja 74% ekki að brautinni verði lokað. Sé aðeins horft á Reykjavík þá eru 68% íbúa andvíg lokun brautarinnar. Könnunin var unnin af MMR dagana 16. – 21. apríl 2015 og spurt var: „Ert þú fylgjandi eða andvíg(ur) því að flugbraut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, oft nefnd neyðarbraut, verði lokað?“ Úrtakið voru Íslendingar á aldrinum 18 ára og eldri. Svarfjöldi: 1.001 einstaklingur.
Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn og tillögu á fundi stjórnkerfis- og lýðræðisráðs í dag en ráðið er stundum kallað “Pírataráðið”:
Fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina:
Niðurstaða könnunar MMR sýnir að meirihluti þeirra sem tók þátt vill ekki láta loka brautinni. Því óska Framsókn og flugvallarvinir eftir upplýsingum um það hvort og þá með hvaða hætti stjórnkerfis- og lýðræðisráð ætlar að bregðast við þessari könnun.
Tillaga Framsóknar og flugvallarvina:
Í ljósi niðurstöðu könnunar MMR er lagt til að stjórnkerfis- og lýðræðisráð samþykki að óska eftir því að borgarstjórn fari í almenna atkvæðagreiðslu meðal íbúa Reykjavíkur, skv. 107. gr., sbr. 108. gr. sveitastjórnarlaga nr. 138/2011, um það hvort loka eigi flugbraut 06/24.