Fimmtudagur 16.04.2015 - 22:35 - FB ummæli ()

Reykjavíkurflugvöllur- vilji ríkisstjórnarinnar

Fyrir síðustu kosningar sögðu fulltrúar meirihlutans í borginni að Reykjavíkurflugvöllur væri ekki kosningamál því það væri ekki verið að fara gera eitt eða neitt við flugvöllinn á þessu kjörtímabili! Hið rétta er að í lok síðasta kjörtímabils voru teknar ákvarðanir sem eiga að koma til framkvæmda á þessu kjörtímabili sem varða flugvöllinn. Í lok síðasta kjörtímabils var nefnilega samþykkt að taka flugbraut 06/24 eða svokallaða neyðarbraut af skipulagi. Þá var samþykkt nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík sem gerir ráð fyrir að flugvöllurinn fari.

Tæpum tveimur mánuðum fyrir borgarstjórnarkosningarnar eða 1. apríl 2014 samþykkti Samfylkingin, Vinstri græn og Besti flokkurinn að taka svokallaða neyðarbraut út af skipulagi og hafa því á þessu kjörtímabili borið það fyrir sig, vegna uppbyggingarinnar á Hlíðarenda, að svokölluð neyðarbraut er ekki lengur á skipulagi. Þannig voru svör borgarinnar við þeim athugasemdum sem bárust vegna breytinga á deiliskipulagi Hlíðarenda, sem samþykkt var af Samfylkingu, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og Pírötum, í borgarstjórn 2. desember 2014, að neyðarbrautin væri ekki lengur á skipulagi.

Eins og í svo mörgum öðrum málum þessa meirihluta í borginni er byrjað á öfugum enda, sbr. t.d. ferðaþjónustu fatlaðra og nú Reykjavíkurhúsin en þar á að úthluta lóðum og auglýsa eftir samstarfsaðilum áður en ákvörðun er tekin um útfærslu verkefnisins. Það er látið eins og neyðarbrautin sé ekki til og framkvæmdir hafnar áður en áhættumat vegna lokunar flugbrautarinnar liggur fyrir. Veðurskilyrði hafa verið þannig í vetur að flestir sjá að slík lokun gæti haft skelfilegar afleiðingar í för með sér.

Fyrir liggur að meirihlutinn í borginni hefur ákveðið að loka eigi svokallaðri neyðarbraut. Það er vilji meirihlutans, þ.e. Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Minnihlutinn í borginni getur ekki breytt þeirri ákvörðun meirihlutans en minnihlutinn getur, eins og hann hefur ítrekað gert í vetur, fjallað um málið og bent á afleit vinnubrögð og ábyrgð meirihlutans en fyrir liggur að það breytir engu því meirihlutinn ræður í borginni. Málið er því í höndum ríkisstjórnarinnar. Það er ríkisstjórnin sem getur bjargað svokallaðri neyðarbraut og Reykjavíkurflugvelli.

Flokkar: Flugvöllur

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur